Add parallel Print Page Options

61 Andi Drottins er yfir mér, af því að Drottinn hefir smurt mig. Hann hefir sent mig til að flytja nauðstöddum gleðilegan boðskap og til að græða þá, sem hafa sundurmarið hjarta, til að boða herteknum frelsi og fjötruðum lausn,

til að boða náðarár Drottins og hefndardag Guðs vors, til að hugga alla hrellda,

til að láta hinum hrelldu í Síon í té, _ gefa þeim höfuðdjásn í stað ösku, fagnaðarolíu í stað hryggðar, skartklæði í stað hugarvíls. Þeir munu kallaðir verða réttlætis-eikur, plantan Drottins honum til vegsemdar.

Þeir munu byggja upp hinar fornu rústir, reisa að nýju tóttir fyrri tíða, koma upp aftur eyddum borgum, sem legið hafa við velli í marga mannsaldra.

Útlendingar munu standa yfir hjörðum yðar og halda þeim til haga, og aðkomnir menn vera akurmenn og víngarðsmenn hjá yður,

en sjálfir munuð þér kallaðir verða prestar Drottins og nefndir verða þjónar Guðs vors. Þér munuð njóta fjárafla þjóðanna og stæra yður af auðlegð þeirra.

Read full chapter