Add parallel Print Page Options

140 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Frelsa mig, Drottinn, frá illmennum, vernda mig fyrir ofríkismönnum,

þeim er hyggja á illt í hjarta sínu og vekja ófrið á degi hverjum.

Þeir gjöra tungur sínar hvassar sem höggormar, nöðrueitur er undir vörum þeirra. [Sela]

Varðveit mig, Drottinn, fyrir hendi óguðlegra, vernda mig fyrir ofríkismönnum, er hyggja á að bregða fæti fyrir mig.

Ofstopamenn hafa lagt gildrur í leyni fyrir mig og þanið út snörur eins og net, hjá vegarbrúninni hafa þeir lagt möskva fyrir mig. [Sela]

Ég sagði við Drottin: Þú ert Guð minn, ljá eyra, Drottinn, grátbeiðni minni.

Drottinn Guð, mín máttuga hjálp, þú hlífir höfði mínu á orustudeginum.

Uppfyll eigi, Drottinn, óskir hins óguðlega, lát vélar hans eigi heppnast. [Sela]

10 Þeir skulu eigi hefja höfuðið umhverfis mig, ranglæti vara þeirra skal hylja sjálfa þá.

11 Lát rigna á þá eldsglóðum, hrind þeim í gryfjur, svo að þeir fái eigi upp staðið.

12 Illmáll maður skal eigi fá staðist í landinu, ofríkismanninn skal ógæfan elta með sífelldum höggum.

13 Ég veit, að Drottinn flytur mál hrjáðra, rekur réttar snauðra.

14 Vissulega skulu hinir réttlátu lofa nafn þitt, hinir hreinskilnu búa fyrir augliti þínu.

141 Davíðssálmur. Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín, ljá eyra raust minni, er ég ákalla þig.

Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt, upplyfting handa minna sem kvöldfórn.

Set þú, Drottinn, vörð fyrir munn minn, gæslu fyrir dyr vara minna.

Lát eigi hjarta mitt hneigjast að neinu illu, að því að fremja óguðleg verk með illvirkjum, og lát mig eigi eta krásir þeirra.

Þótt réttlátur maður slái mig og trúaður hirti mig, mun ég ekki þiggja sæmd af illum mönnum. Bæn mín stendur gegn illsku þeirra.

Þegar höfðingjum þeirra verður hrundið niður af kletti, munu menn skilja, að orð mín voru sönn.

Eins og menn höggva við og kljúfa á jörðu, svo skal beinum þeirra tvístrað við gin Heljar.

Til þín, Drottinn, mæna augu mín, hjá þér leita ég hælis, sel þú eigi fram líf mitt.

Varðveit mig fyrir gildru þeirra, er sitja um mig, og fyrir snörum illvirkjanna.

10 Hinir óguðlegu falli í sitt eigið net, en ég sleppi heill á húfi.

142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.

Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.

Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.

Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.

Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.

Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.

Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.

Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.

14 Keppið eftir kærleikanum. Sækist eftir gáfum andans, en einkum eftir spádómsgáfu.

Því að sá, sem talar tungum, talar ekki við menn, heldur við Guð. Enginn skilur hann, í anda talar hann leyndardóma.

En spámaðurinn talar til manna, þeim til uppbyggingar, áminningar og huggunar.

Sá, sem talar tungum, byggir upp sjálfan sig, en spámaðurinn byggir upp söfnuðinn.

Ég vildi að þér töluðuð allir tungum, en þó enn meir, að þér hefðuð spádómsgáfu. Það er meira vert en að tala tungum, nema það sé útlagt, til þess að söfnuðurinn hljóti uppbygging.

Hvað mundi ég gagna yður, bræður, ef ég nú kæmi til yðar og talaði tungum, en flytti yður ekki opinberun eða þekkingu eða spádóm eða kenningu?

Jafnvel hinir dauðu hlutir, sem gefa hljóð frá sér, hvort heldur er pípa eða harpa, _ ef þær gefa ekki mismunandi hljóð frá sér, hvernig ætti þá að skiljast það, sem leikið er á pípuna eða hörpuna?

Gefi lúðurinn óskilmerkilegt hljóð, hver býr sig þá til bardaga?

Svo er og um yður: Ef þér mælið ekki með tungu yðar fram skilmerkileg orð, hvernig verður það þá skilið, sem talað er? Því að þér talið þá út í bláinn.

10 Hversu margar tegundir tungumála, sem kunna að vera til í heiminum, ekkert þeirra er þó málleysa.

11 Ef ég nú þekki ekki merkingu málsins, verð ég sem útlendingur fyrir þeim, sem talar, og hann útlendingur fyrir mér.

12 Eins er um yður. Fyrst þér sækist eftir gáfum andans, leitist þá við að vera auðugir að þeim, söfnuðinum til uppbyggingar.

13 Biðji því sá, er talar tungum, um að geta útlagt.

14 Því að ef ég biðst fyrir með tungum, þá biður andi minn, en skilningur minn ber engan ávöxt.

15 Hvernig er því þá farið? Ég vil biðja með anda, en ég vil einnig biðja með skilningi. Ég vil lofsyngja með anda, en ég vil einnig lofsyngja með skilningi.

16 Því ef þú vegsamar með anda, hvernig á þá sá, er skipar sess hins fáfróða, að segja amen við þakkargjörð þinni, þar sem hann veit ekki, hvað þú ert að segja?

17 Að vísu getur þakkargjörð þín verið fögur, en hinn uppbyggist ekki.

18 Ég þakka Guði, að ég tala tungum öllum yður fremur,

19 en á safnaðarsamkomu vil ég heldur tala fimm orð með skilningi mínum, til þess að ég geti frætt aðra, en tíu þúsund orð með tungum.

20 Bræður, verið ekki börn í dómgreind, heldur sem ungbörn í illskunni, en fullorðnir í dómgreind.

Read full chapter