Add parallel Print Page Options

126 Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.

Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: "Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá."

Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir.

Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.

Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.

Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.

127 Ef Drottinn byggir ekki húsið, erfiða smiðirnir til ónýtis. Ef Drottinn verndar eigi borgina, vakir vörðurinn til ónýtis.

Það er til ónýtis fyrir yður, þér sem snemma rísið og gangið seint til hvíldar og etið brauð, sem aflað er með striti: Svo gefur hann ástvinum sínum í svefni!

Sjá, synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun.

Eins og örvar í hendi kappans, svo eru synir getnir í æsku.

Sæll er sá maður, er fyllt hefir örvamæli sinn með þeim, þeir verða eigi til skammar, er þeir tala við óvini sína í borgarhliðinu.

128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.

Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.

Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.

Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.

Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,

og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!

19 Hvað segi ég þá? Að kjöt fórnað skurðgoðum sé nokkuð? Eða skurðgoð sé nokkuð?

20 Nei, heldur að það sem heiðingjarnir blóta, það blóta þeir illum öndum, en ekki Guði. En ég vil ekki, að þér hafið samfélag við illa anda.

21 Ekki getið þér drukkið bikar Drottins og bikar illra anda. Ekki getið þér tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda.

22 Eða eigum vér að reita Drottin til reiði? Munum vér vera máttugri en hann?

23 Allt er leyfilegt, en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt, en ekki byggir allt upp.

24 Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra.

25 Allt það, sem selt er á kjöttorginu, getið þér etið án nokkurra eftirgrennslana vegna samviskunnar.

26 Því að jörðin er Drottins og allt, sem á henni er.

27 Ef einhver hinna vantrúuðu býður yður og ef þér viljið fara, þá etið af öllu því, sem fyrir yður er borið, án eftirgrennslana vegna samviskunnar.

28 En ef einhver segir við yður: "Þetta er fórnarkjöt!" þá etið ekki, vegna þess, er gjörði viðvart, og vegna samviskunnar.

29 Samviskunnar, segi ég, ekki eigin samvisku, heldur samvisku hins. En hvers vegna skyldi frelsi mitt eiga að dæmast af samvisku annars?

30 Ef ég neyti fæðunnar með þakklæti, hvers vegna skyldi ég sæta lasti fyrir það, sem ég þakka fyrir?

31 Hvort sem þér því etið eða drekkið eða hvað sem þér gjörið, þá gjörið það allt Guði til dýrðar.

32 Verið hvorki Gyðingum né Grikkjum né kirkju Guðs til ásteytingar.

33 Ég fyrir mitt leyti reyni í öllu að þóknast öllum og hygg ekki að eigin hag, heldur hag hinna mörgu, til þess að þeir verði hólpnir.

Read full chapter