Añadir traducción en paralelo Imprimir Opciones de la página

35 Drottinn talaði við Móse á Móabsheiðum við Jórdan, gegnt Jeríkó, og sagði:

"Bjóð þú Ísraelsmönnum, að þeir fái levítunum borgir til íbúðar af óðalseignum sínum, og til beitar skuluð þér fá þeim landið kringum borgirnar.

Og borgirnar skulu vera þeim til íbúðar, og beitilandið, er undir þær liggur, skal vera fyrir gripi þeirra, fénað þeirra og allar aðrar skepnur þeirra.

Og beitilandið hjá borgunum, er þér fáið levítunum, skal vera þúsund álnir út frá borgarveggnum hringinn í kring.

Og fyrir utan borgina skuluð þér mæla austurhliðina tvö þúsund álnir, suðurhliðina tvö þúsund álnir, vesturhliðina tvö þúsund álnir og norðurhliðina tvö þúsund álnir, en borgin sjálf sé í miðju. Þetta beitiland í kringum borgirnar skulu þeir fá.

Og að því er kemur til borganna, er þér eigið að fá levítunum, þá skuluð þér láta af hendi griðastaðina sex, til þess að þangað megi flýja menn, er víg hafa unnið, en auk þeirra skuluð þér fá þeim fjörutíu og tvær borgir.

Borgirnar, er þér fáið levítunum, skulu vera fjörutíu og átta borgir alls, ásamt með beitilandi því, er undir þær liggur.

Og að því er kemur til borganna, er þér eigið að láta af óðali Ísraelsmanna, þá skuluð þér láta mannmörgu ættkvíslirnar leggja til fleiri, en hinar fámennu færri. Hver einn skal fá levítunum af borgum sínum í réttu hlutfalli við erfðahlut þann, er hann hefir fengið."

Drottinn talaði við Móse og sagði:

10 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér eruð komnir yfir um Jórdan inn í Kanaanland,

11 þá veljið yður haganlegar borgir. Skulu það vera yður griðastaðir, að þangað megi flýja vegendur, þeir er óviljandi hafa orðið manni að bana.

12 Borgirnar skulu vera yður hæli fyrir hefnanda, svo að vegandinn týni eigi lífi áður en hann hefir komið fyrir dóm safnaðarins.

13 En griðastaðirnir, sem þér látið af hendi, skulu vera sex.

14 Skuluð þér láta þrjár borgir hinumegin Jórdanar og þrjár borgir í Kanaanlandi. Griðastaðir skulu þær vera.

15 Skulu þessar sex borgir vera griðastaðir bæði fyrir Ísraelsmenn og dvalarmenn og hjábýlinga meðal yðar, svo að þangað megi flýja hver sá, er orðið hefir manni að bana óviljandi.

16 Hafi hann lostið hann með járntóli, svo að hann beið bana af, þá er hann manndrápari, og manndrápara skal vissulega af lífi taka.

17 Hafi hann lostið hann með stein í hendi, er getur orðið manni að bana, svo að hann beið bana af, þá er hann manndrápari; manndrápara skal vissulega af lífi taka.

18 Eða hafi hann lostið hann með trétól í hendi, er getur orðið manni að bana, svo að hann beið bana af, þá er hann manndrápari; manndrápara skal vissulega af lífi taka.

19 Hefndarmaðurinn skal drepa vegandann, hann skal drepa hann, ef hann hittir hann.

20 Og hrindi hann honum af hatri eða kasti í hann af ásetningi, svo að hann bíður bana af,

21 eða ljósti hann af fjandskap með hendinni, svo að hann bíður bana af, þá skal sá, er laust hann, vissulega líflátinn verða; hann er manndrápari. Hefndarmaðurinn skal drepa vegandann, þegar hann hittir hann.

22 En hafi hann hrundið honum óvart, en eigi af fjandskap, eða kastað í hann einhverju verkfæri, þó eigi af ásettu ráði,

23 eða hann kastar til hans steini, sem getur orðið manni að bana, án þess að sjá hann, svo að hann bíður bana af, og var þó ekki óvinur hans og ætlaði ekki að gjöra honum mein,

24 þá dæmi söfnuðurinn milli vegandans og hefndarmannsins eftir lögum þessum.

25 Og söfnuðurinn skal forða veganda undan hefndarmanninum og söfnuðurinn skal láta flytja hann aftur í griðastað þann, er hann hafði flúið í, og skal hann dvelja þar uns æðsti presturinn deyr, sem smurður hefur verið með heilagri olíu.

26 En ef vegandi fer út fyrir landamerki griðastaðar þess, er hann hefir í flúið,

27 og hefndarmaður hittir hann fyrir utan landamerki griðastaðar hans, og hefndarmaður vegur veganda, þá er hann eigi blóðsekur.

28 Því að vegandi skal dvelja í griðastað sínum uns æðsti prestur deyr, en eftir dauða æðsta prests má hann hverfa aftur til óðalslands síns.

29 Þetta skulu vera lög hjá yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar.

30 Nú drepur einhver mann, og skal þá manndráparann af lífi taka eftir framburði votta. Þó má ekki kveða upp dauðadóm yfir manni eftir framburði eins vitnis.

31 Og eigi skuluð þér taka bætur fyrir líf manndrápara, sem er dauðasekur, heldur skal hann af lífi tekinn verða.

32 Eigi skuluð þér heldur leyfa manni að leysa sig með fébótum undan því að flýja í griðastað sinn, heldur megi hverfa aftur og búa í landinu áður en prestur deyr.

33 Og þér skuluð eigi vanhelga landið, sem þér eruð í, því að blóðið vanhelgar landið, og landið fær eigi friðþæging fyrir það blóð, sem úthellt er í því, nema með blóði þess, sem úthellti því.

34 Og þú skalt ekki saurga landið, sem þér búið í, með því að ég bý í því. Ég, Drottinn, bý meðal Ísraelsmanna."

36 Ætthöfðingjarnir af kynkvísl Gíleaðs sona, Makírssonar, Manassesonar, af kynkvíslum Jósefs sona, gengu fram og töluðu fyrir augliti Móse og fyrir augliti höfuðsmannanna, ætthöfðingja Ísraelsmanna,

og sögðu: "Drottinn hefir boðið þér, herra, að fá Ísraelsmönnum landið til eignar með hlutkesti. Þér var og, herra, boðið af Drottni að fá eignarhluta Selofhaðs bróður vors dætrum hans í hendur.

Giftist þær nú einhverjum af sonum annarra ættkvísla Ísraelsmanna, þá tekst erfð þeirra af erfð feðra vorra og bætist við erfð þess ættleggs, er þær giftast í, og tekst þannig af erfðahluta vorum.

Og þegar fagnaðarár Ísraelsmanna kemur, þá verður erfð þeirra bætt við erfð þess ættleggs, er þær giftast í, og erfð þeirra tekst af erfð ættleggs feðra vorra."

Þá gaf Móse Ísraelsmönnum svofelld fyrirmæli að boði Drottins: "Ættleggur Jósefs sona hefir rétt að mæla!

Þetta eru fyrirmæli Drottins um dætur Selofhaðs: Þær mega giftast hverjum sem þær vilja; aðeins skulu þær giftast einhverjum úr föðurætt sinni,

svo að erfð Ísraelsmanna gangi eigi frá einum ættlegg til annars, heldur skulu allir Ísraelsmenn halda fast í erfð föðurættar sinnar.

Sérhver dóttir af ættkvíslum Ísraelsmanna, er erfð hlýtur, skal giftast í föðurætt sína, svo að hver Ísraelsmanna erfi föðurleifð sína

og erfð gangi eigi frá einum ættlegg til annars, heldur skulu allir ættleggir Ísraelsmanna halda fast í erfð sína."

10 Dætur Selofhaðs gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið Móse,

11 og giftust þær Mahla, Tirsa, Hogla, Milka og Nóa, dætur Selofhaðs, sonum föðurbræðra sinna.

12 Giftust þær mönnum af kynkvísl sona Manasse Jósefssonar, og varð erfð þeirra kyrr í ættlegg föðurættar þeirra.

10 Hann tók sig upp þaðan og hélt til byggða Júdeu og yfir um Jórdan. Fjöldi fólks safnast enn til hans, og hann kenndi þeim, eins og hann var vanur.

Farísear komu og spurðu hann, hvort maður mætti skilja við konu sína. Þeir vildu freista hans.

Hann svaraði þeim: "Hvað hefur Móse boðið yður?"

Þeir sögðu: "Móse leyfði að ,rita skilnaðarbréf og skilja við hana."`

Jesús mælti þá til þeirra: "Vegna harðúðar hjartna yðar ritaði hann yður þetta boðorð,

en frá upphafi sköpunar ,gjörði Guð þau karl og konu.

Fyrir því skal maður yfirgefa föður sinn og móður og bindast konu sinni,

og þau tvö skulu verða einn maður.` Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður.

Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja."

10 Þegar lærisveinarnir voru komnir inn, spurðu þeir hann aftur um þetta.

11 En hann sagði við þá: "Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri, drýgir hór gegn henni.

12 Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum, drýgir hún hór."

13 Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá.

14 Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.

15 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma."

16 Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.

17 Þegar hann var að leggja af stað, kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: "Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"

18 Jesús sagði við hann: "Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.

19 Þú kannt boðorðin: ,Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður."`

20 Hinn svaraði honum: "Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku."

21 Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: "Eins er þér vant. Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér."

22 En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur, enda átti hann miklar eignir.

23 Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: "Hve torvelt verður þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki."

24 Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú, en hann sagði aftur við þá: "Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki.

25 Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."

26 En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: "Hver getur þá orðið hólpinn?"

27 Jesús horfði á þá og sagði: "Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en fyrir Guði. Guð megnar allt."

28 Þá sagði Pétur við hann: "Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér."

29 Jesús sagði: "Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, móður eða föður, börn eða akra vegna mín og fagnaðarerindisins,

30 án þess að hann fái hundraðfalt aftur, nú á þessum tíma heimili, bræður og systur, mæður, börn og akra, jafnframt ofsóknum, og í hinum komandi heimi eilíft líf.

31 En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir."

Read full chapter