Añadir traducción en paralelo Imprimir Opciones de la página

Eftir andlát Jósúa spurðu Ísraelsmenn Drottin og sögðu: "Hver af oss skal fyrstur fara í móti Kanaanítum til þess að berjast við þá?"

Drottinn sagði: "Júda skal fara í móti þeim, sjá, ég gef landið í hendur honum."

Júda sagði við Símeon, bróður sinn: "Far þú með mér inn í minn hluta, svo að við báðir megum berjast við Kanaanítana. Þá skal ég líka fara með þér inn í þinn hluta." Fór þá Símeon með honum.

Og Júda fór, og Drottinn gaf Kanaaníta og Peresíta í hendur þeirra, og lögðu þeir þá að velli í Besek, _ tíu þúsundir manna.

Þeir fundu Adóní Besek í Besek og börðust við hann og unnu sigur á Kanaanítum og Peresítum.

En Adóní Besek flýði og veittu þeir honum eftirför, tóku hann höndum og hjuggu af honum þumalfingurna og stórutærnar.

Þá mælti Adóní Besek: "Sjötíu konungar, sem höggnir voru af þumalfingur og stórutær, urðu að tína upp mola undir borði mínu. Eins og ég hefi gjört, svo geldur Guð mér." Síðan fóru þeir með hann til Jerúsalem og þar dó hann.

Júda synir herjuðu á Jerúsalem og unnu hana, felldu íbúana með sverðseggjum og lögðu síðan eld í borgina.

Eftir það héldu Júda synir ofan þaðan til þess að berjast við Kanaaníta, þá er bjuggu á fjöllunum, í Suðurlandinu og á láglendinu.

10 Júda fór móti Kanaanítunum, sem bjuggu í Hebron, en Hebron hét áður Kirjat Arba. Og þeir unnu sigur á Sesaí, Ahíman og Talmaí.

11 Þaðan fóru þeir móti Debír-búum, en Debír hét áður Kirjat Sefer.

12 Kaleb sagði: "Hver sem leggur Kirjat Sefer undir sig og vinnur hana, honum skal ég gefa Aksa dóttur mína að konu."

13 Otníel Kenasson, bróðir Kalebs og honum yngri, vann þá borgina, og hann gaf honum Aksa dóttur sína að konu.

14 Þegar hún skyldi heim fara með bónda sínum, eggjaði hún hann þess, að hann skyldi beiðast lands nokkurs af föður hennar. Steig hún þá niður af asnanum. Kaleb spurði hana þá: "Hvað viltu?"

15 Hún svaraði honum: "Gef mér gjöf nokkra, af því að þú hefir gefið mig til Suðurlandsins. Gef mér því vatnsbrunna." Gaf hann henni þá brunna hið efra og brunna hið neðra.

16 Synir Kenítans, tengdaföður Móse, höfðu farið úr pálmaborginni með sonum Júda upp í Júdaeyðimörk, sem liggur fyrir sunnan Arad, og þeir fóru og settust að meðal lýðsins.

17 En Júda fór með Símeon bróður sínum, og þeir unnu sigur á Kanaanítunum, sem bjuggu í Sefat, og helguðu hana banni. Fyrir því var borgin nefnd Horma.

18 Júda vann Gasa og land það, er undir hana lá, og Askalon og land það, er undir hana lá, og Ekron og land það, er undir hana lá.

19 Og Drottinn var með Júda, svo að þeir náðu undir sig fjalllendinu, en þá, sem bjuggu á sléttlendinu, fengu þeir eigi rekið burt, því að þeir höfðu járnvagna.

20 Þeir gáfu Kaleb Hebron, eins og Móse hafði boðið, og þeir ráku þaðan þá Anaks sonu þrjá.

21 En Jebúsítana, sem bjuggu í Jerúsalem, gátu Benjamíns synir ekki rekið burt. Fyrir því hafa Jebúsítar búið í Jerúsalem ásamt Benjamíns sonum fram á þennan dag.

22 Ættmenn Jósefs fóru líka upp til Betel, og Drottinn var með þeim.

23 Og ættmenn Jósefs létu njósna í Betel, en borgin hét áður Lúz.

24 Þá sáu njósnarmennirnir mann koma út úr borginni og sögðu við hann: "Sýn oss, hvar komast má inn í borgina, og munum vér sýna þér miskunn."

25 Og hann sýndi þeim, hvar komast mætti inn í borgina, og þeir tóku borgina herskildi, en manninum og öllu fólki hans leyfðu þeir brottgöngu.

26 Maðurinn fór til lands Hetíta og reisti þar borg og nefndi hana Lúz. Heitir hún svo enn í dag.

27 Manasse rak eigi burt íbúana í Bet Sean og smáborgunum, er að lágu, í Taanak og smáborgunum, er að lágu, íbúana í Dór og smáborgunum, er að lágu, íbúana í Jibleam og smáborgunum, er að lágu, né íbúana í Megiddó og smáborgunum, er að lágu; og þannig fengu Kanaanítar haldið bústað í landi þessu.

28 En er Ísrael efldist, gjörði hann Kanaaníta sér vinnuskylda, en rak þá ekki algjörlega burt.

29 Efraím rak eigi burt Kanaanítana, sem bjuggu í Geser; þannig héldu Kanaanítar áfram að búa í Geser meðal þeirra.

30 Sebúlon rak eigi burt íbúana í Kitrón né íbúana í Nahalól; þannig héldu Kanaanítar áfram að búa meðal þeirra og urðu þeim vinnuskyldir.

31 Asser rak eigi burt íbúana í Akkó né íbúana í Sídon, eigi heldur í Ahlab, Aksíd, Helba, Afík og Rehób.

32 Fyrir því bjuggu Asserítar meðal Kanaaníta, er fyrir voru í landinu, því að þeir ráku þá eigi burt.

33 Naftalí rak eigi burt íbúana í Bet Semes né íbúana í Bet Anat; fyrir því bjó hann meðal Kanaaníta, er fyrir voru í landinu, en íbúarnir í Bet Semes og Bet Anat urðu þeim vinnuskyldir.

34 Amorítar þrengdu Dans sonum upp í fjöllin og liðu þeim ekki að koma niður á sléttlendið.

35 Þannig fengu Amorítar haldið bústað í Har Heres, í Ajalon og Saalbím, en með því að ætt Jósefs var þeim yfirsterkari, urðu þeir vinnuskyldir.

36 Landamæri Amoríta lágu frá Sporðdrekaskarði, frá klettinum og þar upp eftir.

Engill Drottins kom frá Gilgal til Bókím og mælti: "Ég leiddi yður út af Egyptalandi og færði yður í það land, sem ég sór feðrum yðar, og ég sagði: ,Ég mun aldrei rjúfa sáttmála minn við yður,

en þér megið ekki gjöra sáttmála við íbúa þessa lands, heldur skuluð þér rífa niður ölturu þeirra.` En þér hafið ekki hlýtt raustu minni. Hví hafið þér gjört þetta?

Fyrir því segi ég einnig: ,Ég mun ekki stökkva þeim burt undan yður, og þeir munu verða broddar í síðum yðar og guðir þeirra verða yður að tálsnöru."`

Er engill Drottins hafði mælt þessum orðum til allra Ísraelsmanna, þá hóf lýðurinn upp raust sína og grét.

Og þeir nefndu stað þennan Bókím, og færðu þar Drottni fórn.

Síðan lét Jósúa fólkið frá sér fara, og héldu þá Ísraelsmenn hver til síns óðals til þess að taka landið til eignar.

Og lýðurinn þjónaði Drottni meðan Jósúa var á lífi og meðan öldungar þeir, sem lifðu Jósúa, voru á lífi, þeir er séð höfðu öll hin miklu verk Drottins, er hann gjörði fyrir Ísrael.

Þá andaðist Jósúa Núnsson, þjónn Drottins, hundrað og tíu ára gamall.

Og hann var grafinn í eignarlandi sínu, hjá Timnat Heres á Efraímfjöllum, fyrir norðan Gaasfjall.

10 En er öll sú kynslóð hafði líka safnast til feðra sinna, reis upp önnur kynslóð eftir hana, er eigi þekkti Drottin né þau verk, er hann hafði gjört fyrir Ísrael.

11 Þá gjörðu Ísraelsmenn það, sem illt var í augum Drottins, og þjónuðu Baölum,

12 og yfirgáfu Drottin, Guð feðra sinna, er leitt hafði þá af Egyptalandi, og eltu aðra guði, af guðum þjóða þeirra, er bjuggu umhverfis þá, og féllu fram fyrir þeim og egndu Drottin til reiði.

13 Og þeir yfirgáfu Drottin og þjónuðu Baal og Astörtum.

14 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann gaf þá á vald ránsmönnum og þeir rændu þá, og hann seldi þá í hendur óvinum þeirra allt í kringum þá, svo að þeir fengu eigi framar staðist fyrir óvinum sínum.

15 Hvert sem þeir fóru, var hönd Drottins í móti þeim til óhamingju, eins og Drottinn hafði sagt og eins og Drottinn hafði svarið þeim. Komust þeir þá í miklar nauðir.

16 En Drottinn vakti upp dómara, og þeir frelsuðu þá úr höndum þeirra, er þá rændu.

17 En þeir hlýddu ekki heldur dómurum sínum, heldur tóku fram hjá með öðrum guðum og féllu fram fyrir þeim. Þeir viku brátt af vegi feðra sinna, sem hlýddu boðum Drottins; þeir breyttu ekki svo.

18 Þegar Drottinn vakti þeim upp dómara, þá var Drottinn með dómaranum og frelsaði þá úr höndum óvina þeirra á meðan dómarinn var á lífi, því að Drottinn kenndi í brjósti um þá, er þeir kveinuðu undan kúgurum sínum og kvölurum.

19 En er dómarinn andaðist, breyttu þeir að nýju verr en feður þeirra, með því að elta aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim. Þeir létu eigi af gjörðum sínum né þrjóskubreytni sinni.

20 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael og hann sagði: "Af því að þetta fólk hefir rofið sáttmála minn, þann er ég lagði fyrir feður þeirra, og ekki hlýtt minni raustu,

21 þá mun ég ekki heldur framar stökkva burt undan þeim nokkrum manni af þjóðum þeim, sem Jósúa skildi eftir, er hann andaðist.

22 Ég vil reyna Ísrael með þeim, hvort þeir varðveita veg Drottins og ganga hann, eins og feður þeirra gjörðu, eða ekki."

23 Þannig lét Drottinn þjóðir þessar vera kyrrar án þess að reka þær burt bráðlega, og hann gaf þær eigi í hendur Jósúa.

Þessar þjóðir lét Drottinn vera kyrrar til þess að reyna Ísrael með þeim, alla þá, er ekkert höfðu haft að segja af öllum bardögunum um Kanaan.

Þetta gjörði hann einungis til þess, að hinar komandi kynslóðir Ísraelsmanna mættu kynnast hernaði, sem eigi höfðu kynnst slíku áður.

Þessar eru þjóðirnar: Fimm höfðingjar Filistanna, allir Kanaanítar, Sídoningar og Hevítar, sem bjuggu á Líbanonfjöllum, frá fjallinu Baal Hermon allt þangað, er leið liggur til Hamat.

Voru þeir eftir til þess að reyna Ísrael með þeim, svo að augljóst yrði, hvort þeir vildu hlýða boðorðum Drottins, er hann hafði sett feðrum þeirra fyrir meðalgöngu Móse.

Þannig bjuggu Ísraelsmenn mitt á meðal Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta.

Gengu þeir að eiga dætur þeirra og giftu sonum þeirra dætur sínar, og þjónuðu guðum þeirra.

Ísraelsmenn gjörðu það, sem illt var í augum Drottins, og gleymdu Drottni, Guði sínum, og þjónuðu Baölum og asérum.

Upptendraðist þá reiði Drottins gegn Ísrael, svo að hann seldi þá í hendur Kúsan Rísjataím, konungi í Aram í Norður-Mesópótamíu, og Ísraelsmenn þjónuðu Kúsan Rísjataím í átta ár.

Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins, og Drottinn vakti Ísraelsmönnum upp hjálparmann, er hjálpaði þeim, Otníel Kenasson, bróður Kalebs og honum yngri.

10 Andi Drottins kom yfir hann, svo að hann rétti hluta Ísraels. Fór hann í hernað, og Drottinn gaf Kúsan Rísjataím, konung í Aram, í hendur honum, og hann varð Kúsan Rísjataím yfirsterkari.

11 Var síðan friður í landi í fjörutíu ár. Þá andaðist Otníel Kenasson.

12 Ísraelsmenn gjörðu enn af nýju það, sem illt var í augum Drottins. Þá efldi Drottinn Eglón, konung í Móab, móti Ísrael, af því að þeir gjörðu það, sem illt var í augum Drottins.

13 Hann safnaði að sér Ammónítum og Amalekítum, fór því næst og vann sigur á Ísrael, og þeir náðu pálmaborginni á sitt vald.

14 Ísraelsmenn þjónuðu Eglón, konungi í Móab, í átján ár.

15 Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins, og Drottinn vakti þeim upp hjálparmann, Ehúð, son Gera Benjamíníta, en hann var maður örvhentur. Ísraelsmenn sendu hann með skatt á fund Eglóns, konungs í Móab.

16 Ehúð hafði smíðað sér sax tvíeggjað, spannarlangt. Hann gyrti sig því undir klæðum á hægri hlið.

17 Og hann færði Eglón, konungi í Móab, skattinn, en Eglón var maður digur mjög.

18 Er hann hafði borið fram skattinn, lét hann mennina fara, er borið höfðu skattinn.

19 En sjálfur sneri hann aftur hjá skurðmyndunum í Gilgal. Ehúð sagði við konung: "Leyndarmál hefi ég að segja þér, konungur." Konungur sagði: "Þei!" og allir þeir gengu út, er kringum hann stóðu.

20 Þá gekk Ehúð til hans, þar sem hann sat aleinn í hinum svala þaksal sínum, og mælti: "Ég hefi erindi frá Guði við þig." Stóð konungur þá upp úr sæti sínu.

21 En Ehúð greip til vinstri hendinni og þreif sverðið á hægri hlið sér og lagði því í kvið honum.

22 Gekk blaðið á kaf og upp yfir hjöltu, svo að fal blaðið í ístrunni, því að eigi dró hann saxið úr kviði honum. Gekk hann þá út á þakið.

23 Síðan gekk Ehúð út í gegnum forsalinn og lukti dyrunum á þaksalnum á eftir sér og skaut loku fyrir.

24 En er hann var út genginn, komu þjónar konungs og sáu þeir að dyrnar á þaksalnum voru lokaðar og sögðu: "Hann hefir víst setst niður erinda sinna inni í svala herberginu."

25 Biðu þeir nú, þar til er þeim leiddist biðin. Og er hann enn ekki lauk upp dyrunum á þaksalnum, þá tóku þeir lykilinn og luku upp, og lá þá herra þeirra dauður á gólfinu.

26 Ehúð hafði komist undan meðan þeir hinkruðu við. Hann var kominn út að skurðmyndunum og komst undan til Seíra.

27 Og er hann var þangað kominn, lét hann þeyta lúður á Efraímfjöllum. Fóru Ísraelsmenn þá með honum ofan af fjöllunum, en hann var fyrir þeim.

28 Og hann sagði við þá: "Fylgið mér, því að Drottinn hefir gefið óvini yðar, Móabítana, í hendur yður." Fóru þeir þá ofan á eftir honum og náðu öllum vöðum á Jórdan yfir til Móab og létu engan komast þar yfir.

29 Og þá felldu þeir af Móabítum um tíu þúsundir manna, og voru það allt sterkir menn og hraustir. Enginn komst undan.

30 Þannig urðu Móabítar á þeim degi að beygja sig undir vald Ísraels. Var nú friður í landi um áttatíu ár.

31 Eftir Ehúð kom Samgar Anatsson. Hann felldi af Filistum sex hundruð manna með staf, er menn reka með naut. Þannig frelsaði hann einnig Ísrael.

En Jesús sneri aftur frá Jórdan, fullur af heilögum anda. Leiddi andinn hann um óbyggðina

fjörutíu daga, en djöfullinn freistaði hans. Ekki neytti hann neins þá daga, og er þeir voru liðnir, var hann hungraður.

En djöfullinn sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú steini þessum, að hann verði að brauði."

Og Jesús svaraði honum: "Ritað er: ,Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði."`

Þá fór hann með hann upp og sýndi honum á augabragði öll ríki veraldar.

Og djöfullinn sagði við hann: "Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess, því að mér er það í hendur fengið, og ég get gefið það hverjum sem ég vil.

Ef þú fellur fram og tilbiður mig, skal það allt verða þitt."

Jesús svaraði honum: "Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum."

Þá fór hann með hann til Jerúsalem, setti hann á brún musterisins og sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér hér ofan,

10 því að ritað er: Hann mun fela englum sínum að gæta þín

11 og: þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini."

12 Jesús svaraði honum: "Sagt hefur verið: ,Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns."`

13 Og er djöfullinn hafði lokið allri freistni, vék hann frá honum að sinni.

14 En Jesús sneri aftur til Galíleu í krafti andans, og fóru fregnir af honum um allt nágrennið.

15 Hann kenndi í samkundum þeirra, og lofuðu hann allir.

16 Hann kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa.

17 Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn, þar sem ritað er:

18 Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa

19 og kunngjöra náðarár Drottins.

20 Síðan lukti hann aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður, en augu allra í samkundunni hvíldu á honum.

21 Hann tók þá að tala til þeirra: "Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar."

22 Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð, sem fram gengu af munni hans, og sögðu: "Er hann ekki sonur Jósefs?"

23 En hann sagði við þá: "Eflaust munuð þér minna mig á orðtakið: ,Læknir, lækna sjálfan þig!` Vér höfum heyrt um allt, sem gjörst hefur í Kapernaum. Gjör nú hið sama hér í ættborg þinni."

24 Enn sagði hann: "Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu.

25 En satt segi ég yður, að margar voru ekkjur í Ísrael á dögum Elía, þegar himinninn var luktur í þrjú ár og sex mánuði, og mikið hungur í öllu landinu,

26 og þó var Elía til engrar þeirra sendur, heldur aðeins til ekkju í Sarepta í Sídonlandi.

27 Og margir voru líkþráir í Ísrael á dögum Elísa spámanns, og enginn þeirra var hreinsaður, heldur aðeins Naaman Sýrlendingur."

28 Allir í samkunduhúsinu fylltust reiði, er þeir heyrðu þetta,

29 spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess, sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan.

30 En hann gekk gegnum miðja mannþröngina og fór leiðar sinnar.

Read full chapter