Add parallel Print Page Options

37 Hönd Drottins kom yfir mig, og hann flutti mig burt fyrir anda sinn og lét mig nema staðar í dalnum miðjum, en hann var fullur af beinum.

Og hann leiddi mig umhverfis þau á alla vegu, og sjá, það lá aragrúi af þeim þar í dalnum, og sjá, þau voru mjög skinin.

Og hann sagði við mig: "Mannsson, hvort munu bein þessi lifna við aftur?" Ég svaraði: "Drottinn Guð, þú veist það!"

Þá sagði hann við mig: "Tala þú af guðmóði yfir beinum þessum og seg við þau: Þér skinin bein, heyrið orð Drottins!

Svo segir Drottinn Guð við þessi bein: Sjá, ég læt lífsanda í yður koma, og þér skuluð lifna við.

Og ég set sinar á yður og læt hold utan um yður og dreg þar hörund yfir og læt lífsanda í yður, og þér skuluð lifna við, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn."

Þá talaði ég af guðmóði, eins og mér var boðið. Og er ég mælti af guðmóði, kom þytur og skrjáf heyrðist, og beinin færðust saman, hvert að öðru.

Og ég sá, hversu sinar komu á beinin og hold óx á og hörund dróst þar yfir, en enginn lífsandi var í þeim.

Þá sagði hann við mig: "Mæl þú í guðmóði til lífsandans, mæl þú í guðmóði, mannsson, og seg við lífsandann: Svo segir Drottinn Guð: Kom þú, lífsandi, úr áttunum fjórum og anda á þennan val, að þeir megi lifna við."

10 Ég talaði nú í guðmóði, eins og hann hafði skipað mér. Kom þá lífsandi í þá, svo að þeir lifnuðu við og risu á fætur. Var það afar mikill fjöldi.

11 Og hann sagði við mig: "Mannsson, þessi bein eru allir Ísraelsmenn. Sjá, þeir segja: ,Bein vor eru skinin, von vor þrotin, úti er um oss!`

12 Mæl því í guðmóði og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég vil opna grafir yðar, og láta yður rísa upp úr gröfum yðar, þjóð mín, og flytja yður inn í Ísraelsland,

13 til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn, þegar ég opna grafir yðar og læt yður rísa upp úr gröfum yðar, þjóð mín.

14 Og ég vil láta anda minn í yður, til þess að þér lifnið við aftur, og ég skal koma yður inn í yðar land, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn. Ég hefi talað það og mun framkvæma það, segir Drottinn."

15 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi: "Þú mannsson, tak þér staf og rita á hann:

16 ,Júda og Ísraelsmenn, sem eru í bandalagi við hann.` Tak því næst annan staf og rita á hann: ,Jósef, stafur Efraíms, og allir Ísraelsmenn, sem eru í bandalagi við hann.`

17 Teng þá síðan hvorn við annan í einn staf, svo að þeir verði að einum í hendi þinni.

18 Og er samlandar þínir tala til þín og segja: ,Vilt þú ekki segja oss, hvað þetta á að þýða?`

19 þá seg þeim: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég tek staf Jósefs, sem er í hendi Efraíms og þeirra ættkvísla Ísraels, sem eru í bandalagi við hann, og gjöri þá að staf Júda, svo að þeir verði einn stafur í hendi Júda.

20 Og stafirnir, sem þú skrifar á, skulu vera í hendi þinni fyrir augum þeirra.

21 Og mæl til þeirra: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég sæki Ísraelsmenn til þjóðanna, þangað sem þeir fóru, og saman safna þeim úr öllum áttum og leiði þá aftur inn í land þeirra.

22 Og ég vil gjöra þá að einni þjóð í landinu, á Ísraels fjöllum, og einn konungur skal vera konungur yfir þeim öllum, og þeir skulu eigi framar vera tvær þjóðir og eigi framar vera skiptir í tvö konungsríki.

23 Og þeir skulu eigi framar saurga sig á skurðgoðum sínum og viðurstyggðum, eða með öllum tryggðrofssyndum sínum, og ég vil frelsa þá frá öllum fráhvarfssyndum þeirra, sem þeir hafa drýgt, og hreinsa þá, og þeir skulu verða mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð.

24 Og þjónn minn Davíð skal vera konungur yfir þeim, og þeir skulu allir hafa einn hirði og lifa eftir setningum mínum og varðveita boðorð mín og breyta eftir þeim.

25 Og þeir skulu búa í landinu, sem ég gaf þjóni mínum Jakob og feður yðar bjuggu í. Í því skulu þeir og búa og börn þeirra og barnabörn til eilífðar, og þjónn minn Davíð skal vera höfðingi þeirra eilíflega.

26 Og ég mun gjöra við þá friðarsáttmála, það skal vera eilífur sáttmáli við þá, og ég mun láta þá búa að staðaldri í landinu og fjölga þeim og setja helgidóm minn meðal þeirra að eilífu.

27 Og bústaður minn skal vera hjá þeim, og ég skal vera þeirra Guð og þeir skulu vera mín þjóð.

28 Og þjóðirnar skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, sem helga Ísrael, þegar helgidómur minn verður meðal þeirra eilíflega."

38 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, snú þér gegn Góg í Magóglandi, höfðingja yfir Rós, Mesek og Túbal, spá gegn honum

og seg: Svo segir Drottinn Guð: Ég skal finna þig, Góg höfðingi yfir Rós, Mesek og Túbal,

og ég skal setja króka í kjálka þína og leiða þig út, ásamt öllu herliði þínu, hestum og riddurum, öllum með alvæpni, mikinn manngrúa, með skjöld og törgu, alla með sverð í höndum.

Persar, Blálendingar og Pútmenn eru í för með þeim, allir með törgu og hjálm,

Gómer og allir herflokkar hans, Tógarma-lýður, hin ysta norðurþjóð, og allir herflokkar hans _ margar þjóðir eru í för með þér.

Bú þig út og ver viðbúinn, þú og allar hersveitirnar, sem safnast hafa til þín, og ver þú yfirmaður þeirra.

Eftir langan tíma munt þú útboðsskipun hljóta. Á síðustu árunum munt þú koma inn í það land, sem aftur er unnið undan sverðinu, til þjóðar, sem safnað hefir verið saman frá mörgum þjóðum á Ísraels fjöll, sem stöðuglega hafa í eyði legið, já, frá þjóðunum var hún flutt, og nú búa allir öruggir.

Þá munt þú brjótast fram sem þrumuveður, koma sem óveðursský til þess að hylja landið, þú og allir herflokkar þínir og margar þjóðir með þér.

10 Svo segir Drottinn Guð: Á þeim degi munu illar hugsanir koma upp í hjarta þínu og þú munt hafa illar fyrirætlanir með höndum

11 og segja: ,Ég vil fara í móti bændabýlalandi, ráða á friðsama menn, sem búa óhultir, þeir búa allir múrveggjalausir og hafa hvorki slagbranda né hlið,`

12 til þess að fara með rán og rifs, til þess að leggja hönd þína á borgarrústir, sem aftur eru byggðar orðnar, og á þjóð, sem saman söfnuð er frá heiðingjunum, sem aflar sér búfjár og fjármuna, á menn, sem búa á nafla jarðarinnar.

13 Seba og Dedan og verslunarmenn frá Tarsis og kaupmenn hennar segja við þig: ,Kemur þú til þess að ræna? Hefir þú dregið saman liðsveitir þínar til þess að rupla, til þess að hafa á burt silfur og gull, flytja burt búfé og fjármuni, til þess að afla mikils herfangs?`

14 Fyrir því spá þú, mannsson, og seg við Góg: Svo segir Drottinn Guð: Munt þú ekki á þeim degi, er lýður minn Ísrael býr óhultur, leggja af stað

15 og koma frá stöðvum þínum, lengst úr norðri, þú og margar þjóðir með þér, allir ríðandi hestum, mikill liðsafnaður, fjölmennur her,

16 og fara í móti lýð mínum Ísrael eins og óveðursský til þess að hylja landið? Á hinum síðustu dögum mun ég leiða þig móti landi mínu, til þess að þjóðirnar læri að þekkja mig, þegar ég auglýsi heilagleik minn á þér, Góg, fyrir augum þeirra.

17 Svo segir Drottinn Guð: Ert þú sá, er ég talaði um í fyrri daga fyrir munn þjóna minna, spámanna Ísraels, er spáðu í þá daga árum saman, að ég mundi leiða þig móti þeim?

18 En þann dag, daginn sem Góg fer móti Ísraelslandi, _ segir Drottinn Guð _ mun reiðin blossa í nösum mér.

19 Í ákefð minni, í minni brennandi heift, tala ég það: Vissulega, á þeim degi skal mikill jarðskjálfti verða á Ísraelslandi.

20 Þá skulu fiskar sjávarins skjálfa fyrir mér og fuglar himinsins, dýr merkurinnar og öll skriðkvikindi, sem skríða á jörðinni, og allir menn, sem eru á jörðinni, og fjöllin skulu kollvarpast og hamrarnir hrynja og hver múrveggur til jarðar falla.

21 Og á öllum fjöllum mínum vil ég kalla á sverðin í móti honum _ segir Drottinn Guð. Eins sverð skal vera í móti öðrum.

22 Og ég vil ganga í dóm við hann með drepsótt og blóðsúthelling, með dynjandi steypiregni og haglsteinum. Eldi og brennisteini vil ég rigna láta yfir hann og yfir hersveitir hans og yfir margar þjóðir, sem með honum eru.

23 Og ég vil auglýsa mig dýrlegan og heilagan og gjöra mig kunnan í augsýn margra þjóða, til þess að þær viðurkenni, að ég er Drottinn.

39 Og þú, mannsson, spá þú gegn Góg og seg: Svo segir Drottinn Guð: Ég skal finna þig, Góg, höfðingi yfir Rós, Mesek og Túbal,

og snúa þér við og fara með þig og láta þig koma lengst úr norðri og leiða þig upp á Ísraels fjöll.

Og ég skal slá bogann úr vinstri hendi þinni og láta örvarnar detta úr hægri hendi þinni.

Á Ísraels fjöllum skalt þú falla, þú og allar hersveitir þínar og þær þjóðir, sem eru í för með þér. Alls konar ránfuglum og dýrum merkurinnar gef ég þig til fæðslu.

Úti á víðavangi skalt þú falla, því að ég hefi talað það, segir Drottinn Guð.

Og ég vil steypa eldi yfir Magóg og yfir þá, sem ugglausir búa í strandbyggðunum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.

En ég vil gjöra mitt heilaga nafn kunnugt meðal lýðs míns Ísraels og ekki framar láta vanhelga mitt heilaga nafn, til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er Drottinn, heilagur í Ísrael.

Sjá, það kemur fram og verður, _ segir Drottinn Guð. Það er dagurinn, sem ég hefi talað um.

Þá munu íbúar Ísraels borga út ganga og eld kveikja og kynda með vopnum, törgum og skjöldum, með bogum og örvum, kylfum og lensum. Í sjö ár skulu þeir elda þessu.

10 Þeir munu ekki sækja við í mörkina né höggva neitt í skógunum, heldur munu þeir kynda eld með vopnum. Og þeir munu fletta þá, sem þá flettu, og ræna þá, sem þá rændu _ segir Drottinn Guð.

11 En á þeim degi mun ég ákveða Góg samastað, legstað í Ísrael, Abarímdal, fyrir austan Dauðahafið. Menn munu girða fyrir Abarímdal. Þar munu þeir grafa Góg og allan liðmúg hans og nefna hann Gógsmúgadal.

12 Og Ísraelsmenn munu vera að jarða þá í sjö mánuði til þess að hreinsa landið.

13 Og allur landslýðurinn skal starfa að þeim grefti, og það skal verða þeim til frægðar þann dag, er ég gjöri mig dýrlegan _ segir Drottinn Guð.

14 Og þeir munu útvelja menn til þess stöðuga starfa að fara um landið og jarða þá, sem enn liggja eftir ofan jarðar, til þess að hreinsa landið. Að liðnum sjö mánuðum skulu þeir enn kanna það.

15 Og þegar þeir fara um landið og einhver sér mannsbein, þá skal hann hlaða þar vörðu hjá, uns graftarmennirnir hafa grafið þau í Gógsmúgadal.

16 Og þannig skulu þeir grafa þar allan liðmúg sinn og hreinsa þannig landið.

17 En þú, mannsson, svo segir Drottinn Guð: Seg þú við alls konar fugla og við öll dýr merkurinnar: Safnist saman og komið, þyrpist saman úr öllum áttum til fórnarveislu minnar, sem ég held yður, til mikillar fórnarveislu á Ísraels fjöllum, þar sem þér skuluð eta kjöt og drekka blóð.

18 Þér skuluð eta kjöt af köppum og drekka blóð úr þjóðhöfðingjum jarðarinnar: hrúta, lömb og hafra, uxa, _ allt saman alifé frá Basan.

19 Og þér skuluð eta feitt kjöt, uns þér eruð saddir orðnir, og þér skuluð drekka blóð, uns þér eruð drukknir orðnir, í fórnarveislu minni, sem ég held yður.

20 Og þér skuluð seðja yður við mitt borð á reiðskjótum og vagnhestum, á köppum og alls konar stríðsmönnum _ segir Drottinn Guð.

21 Ég vil auglýsa dýrð mína meðal þjóðanna, og allar þjóðir skulu sjá refsidóm minn, þann er ég hefi framkvæmt, og hönd mína, er ég hefi á þá lagt.

22 En Ísraelsmenn skulu viðurkenna, að ég, Drottinn, er Guð þeirra, upp frá þeim degi og framvegis.

23 Þjóðirnar skulu viðurkenna, að Ísraelsmenn urðu að fara úr landi eingöngu vegna misgjörðar sinnar, fyrir þá sök að þeir höfðu rofið trúnað við mig, svo að ég byrgði auglit mitt fyrir þeim og seldi þá í hendur óvina þeirra, og féllu þeir þá allir fyrir sverðseggjum.

24 Ég breytti við þá eins og þeir höfðu til unnið með saurugleik sínum og fráhvarfi, og byrgði auglit mitt fyrir þeim.

25 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Nú mun ég snúa við högum Jakobs og miskunna mig yfir allan Ísraelslýð og vera sómakær um mitt heilaga nafn.

26 Og þeir skulu gleyma vanvirðu sinni og allri þeirri ótryggð, er þeir hafa í frammi haft við mig, þegar þeir búa aftur óhultir í landi sínu og enginn skelfir þá.

27 Þegar ég leiði þá heim aftur frá þjóðunum og safna þeim saman úr löndum óvina þeirra, þá skal ég auglýsa heilagleik minn á þeim í augsýn margra þjóða.

28 Og þá skulu þeir viðurkenna, að ég, Drottinn, er Guð þeirra, með því að ég herleiddi þá til þjóðanna, en safna þeim nú saman inn í þeirra eigið land og læt engan þeirra framar verða þar eftir.

29 Og ég vil ekki framar byrgja auglit mitt fyrir þeim, með því að ég hefi úthellt anda mínum yfir Ísraelslýð, segir Drottinn Guð."