Add parallel Print Page Options

Eftir dauða Sáls, þá er Davíð var heim kominn og hafði unnið sigur á Amalekítum og hann hafði verið tvo daga um kyrrt í Siklag,

þá kom skyndilega þriðja daginn maður úr herbúðum Sáls. Var hann í rifnum klæðum og hafði ausið mold yfir höfuð sér. Og er hann kom til Davíðs, féll hann til jarðar og laut honum.

Og Davíð sagði við hann: "Hvaðan kemur þú?" Hann svaraði honum: "Ég komst undan úr herbúðum Ísraels."

Davíð sagði við hann: "Hvernig hefir gengið? Seg mér það." Hann svaraði: "Liðið er flúið úr orustunni, og margir úr liðinu eru líka fallnir og dauðir. Líka eru þeir Sál og Jónatan sonur hans dauðir."

Þá sagði Davíð við manninn, sem flutti honum tíðindin: "Hvernig veistu það, að þeir Sál og Jónatan sonur hans eru dauðir?"

Þá svaraði maðurinn, sem flutti honum tíðindin: "Alveg af tilviljun kom ég upp á Gilbóafjall. Þar hitti ég Sál. Studdist hann við spjót sitt, en vagnar og riddarar voru á hælum honum.

Hann sneri sér þá við, og er hann sá mig, kallaði hann á mig, og ég svaraði: ,Hér er ég.`

Og hann sagði við mig: ,Hver ert þú?` Ég svaraði: ,Ég er Amalekíti.`

Þá sagði hann við mig: ,Kom þú hingað til mín og deyð þú mig, því að mig sundlar, og þó er ég enn með fullu fjöri.`

10 Þá gekk ég til hans og vann á honum, því að ég vissi að hann gat ekki lifað eftir ófarir sínar. Tók ég kórónuna af höfði honum og hringinn af armlegg hans og færi ég þér nú, herra minn!"

11 Þá þreif Davíð í klæði sín og reif þau sundur. Svo gjörðu og allir menn, þeir er með honum voru.

12 Og þeir syrgðu og grétu og föstuðu til kvelds sakir Sáls og Jónatans sonar hans og sakir lýðs Drottins og húss Ísraels, af því að þeir voru fallnir fyrir sverði.

13 Þá sagði Davíð við manninn, sem flutti honum tíðindin: "Hvaðan ert þú?" Hann svaraði: "Ég er sonur hjábýlings nokkurs, sem er Amalekíti."

14 Þá sagði Davíð við hann: "Hvernig dirfðist þú að hefja hönd til þess að drepa Drottins smurða?"

15 Og Davíð kallaði á einn af sveinunum og mælti: "Kom þú hingað og drep hann." Og hann hjó hann banahögg.

16 En Davíð mælti til hans: "Blóð þitt komi yfir höfuð þér! því að þú hefir sjálfur kveðið upp dóm yfir þér, er þú sagðir: ,Ég hefi deytt Drottins smurða."`

17 Davíð orti þetta sorgarkvæði eftir þá Sál og Jónatan son hans,

18 og hann bauð að kenna Júda sonum Kvæðið um bogann. Sjá, það er ritað í Bók hinna réttlátu:

19 Prýðin þín, Ísrael, liggur vegin á fjöllum þínum. En að hetjurnar skuli vera fallnar!

20 Segið ekki frá því í Gat, kunngjörið það eigi á Askalon-strætum, svo að dætur Filista fagni eigi og dætur óumskorinna hlakki eigi.

21 Þér Gilbóafjöll, eigi drjúpi dögg né regn á yður, þér svikalönd, því að þar var snarað burt skildi kappanna, skildi Sáls, sem eigi verður framar olíu smurður.

22 Frá blóði hinna vegnu, frá feiti kappanna hörfaði bogi Jónatans ekki aftur, og eigi hvarf sverð Sáls heim við svo búið.

23 Sál og Jónatan, ástúðugir og ljúfir í lífinu, skildu eigi heldur í dauðanum. Þeir voru örnum léttfærari, ljónum sterkari.

24 Ísraels dætur, grátið Sál! Hann skrýddi yður skarlati yndislega, hann festi gullskart á klæðnað yðar.

25 En að hetjurnar skyldu falla í bardaganum og Jónatan liggja veginn á hæðum þínum!

26 Sárt trega ég þig, bróðir minn Jónatan, mjög varstu mér hugljúfur! Ást þín var mér undursamlegri en ástir kvenna.

27 En að hetjurnar skuli vera fallnar og hervopnin glötuð!

Eftir þetta spurði Davíð Drottin á þessa leið: "Á ég að fara til einhverrar af borgunum í Júda?" Drottinn svaraði honum: "Já." Þá sagði Davíð: "Hvert á ég að fara?" Hann svaraði: "Til Hebron."

Þá fór Davíð þangað, og með honum báðar konur hans, þær Akínóam frá Jesreel og Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel.

Davíð lét og mennina, sem hjá honum voru, fara, hvern með sína fjölskyldu, og þeir settust að í borgunum kringum Hebron.

Þá komu Júdamenn til Hebron og smurðu Davíð til konungs yfir Júda hús. Nú var Davíð sagt svo frá: "Íbúarnir í Jabes Gíleað hafa jarðað Sál."

Þá gjörði Davíð menn á fund íbúanna í Jabes í Gíleað og lét segja við þá: "Verið blessaðir af Drottni fyrir það, að þér hafið sýnt þetta kærleiksverk á herra yðar Sál, að jarða hann.

Drottinn sýni yður nú kærleika og trúfesti. En ég vil og yður góðu launa, sakir þess að þér gjörðuð þetta.

Og verið nú hughraustir og látið á sjá, að þér séuð vaskir menn. Því að Sál, herra yðar, er dauður, enda hefir Júda hús smurt mig til konungs yfir sig."

Abner Nersson, hershöfðingi Sáls, tók Ísbóset, son Sáls, og fór með hann yfir til Mahanaím

og gjörði hann að konungi yfir Gíleað, Asserítum, Jesreel, Efraím, Benjamín og yfir öllum Ísrael.

10 Ísbóset, sonur Sáls, var fertugur, þá er hann varð konungur yfir Ísrael, og hann ríkti í tvö ár. Júda hús eitt fylgdi Davíð.

11 Og tíminn, sem Davíð var konungur í Hebron, yfir Júda húsi, var sjö ár og sex mánuðir.

12 Abner Nersson fór með þjóna Ísbósets, sonar Sáls, frá Mahanaím til Gíbeon.

13 Jóab Serújuson fór og með þjóna Davíðs frá Hebron, og varð fundur þeirra við Gíbeontjörn, og settust þeir sínum megin hvorir við tjörnina.

14 Þá sagði Abner við Jóab: "Standi upp sveinar hvorra tveggja og leiki nokkuð til skemmtunar oss." Jóab kvað að svo skyldi vera.

15 Þá stóðu þeir upp og gengu fram eftir tölu: tólf fyrir Benjamíns ættkvísl, fyrir Ísbóset, son Sáls, og tólf af þjónum Davíðs.

16 Þeir þrifu hver í annars koll og lögðu sverði hver í annars síðu, svo að þeir féllu hver með öðrum. Var sá staður kallaður Branda-akur, og er hann hjá Gíbeon.

17 Tókst þá mjög hörð orusta á þeim degi, og fór Abner og Ísraelsmenn halloka fyrir mönnum Davíðs.

18 Þar voru þrír synir Serúju, þeir Jóab, Abísaí og Asahel, en Asahel var frár á fæti sem skógargeitin í haganum.

19 Og Asahel rann eftir Abner og veik hvorki til hægri né vinstri, heldur elti hann einan.

20 Þá sneri Abner sér við og mælti: "Ert það þú, Asahel?" Hann kvað svo vera.

21 Þá sagði Abner við hann: "Vík þú annaðhvort til hægri eða vinstri, og ráðst þú á einhvern af sveinunum og tak hertygi hans." En Asahel vildi ekki láta af að elta hann.

22 Þá mælti Abner aftur við Asahel: "Lát af að elta mig! Hví skyldi ég leggja þig að velli? Hvernig gæti ég þá litið upp á Jóab bróður þinn?"

23 En hann vildi ekki af láta. Þá lagði Abner spjótinu aftur fyrir sig í kvið honum, svo að út gekk um bakið, og féll hann dauður niður þar sem hann stóð. En allir þeir, er komu þangað sem Asahel hafði fallið niður dauður, námu staðar.

24 Jóab og Abísaí eltu Abner, og er sól gekk undir, voru þeir komnir til Gíbeat Amma, sem liggur fyrir austan Gía, á leiðinni til Gíbeonóbyggða.

25 Þá söfnuðust Benjamínítar saman til liðs við Abner og urðu einn flokkur, og námu þeir staðar efst uppi á hæð einni.

26 Þá kallaði Abner til Jóabs og mælti: "Á þá sverðið sífellt að eyða? Veistu eigi, að beisk munu verða endalokin? Hversu lengi ætlar þú að draga að segja liðinu að láta af að elta bræður sína?"

27 Jóab svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, hefðir þú ekki talað, þá hefði liðið ekki látið af að elta bræður sína fyrr en á morgun."

28 Síðan þeytti Jóab lúðurinn, og nam þá allt liðið staðar og lét af að elta Ísrael og hætti að berjast.

29 En Abner og menn hans fóru yfir Jórdandalinn alla þá nótt, fóru því næst yfir Jórdan og gengu öll þrengslin og komust til Mahanaím.

30 Er Jóab hafði látið af að elta Abner, þá safnaði hann saman öllu liðinu, og vantaði þá aðeins nítján manns af mönnum Davíðs og Asahel,

31 en menn Davíðs höfðu lagt að velli þrjú hundruð og sextíu manns af Benjamínítum, af mönnum Abners.

32 En Asahel tóku þeir og jörðuðu hann hjá föður hans í Betlehem. Því næst hélt Jóab og menn hans áfram ferðinni alla nóttina og komu til Hebron í dögun.

Þegar ófriðurinn milli Sáls húss og Davíðs húss tók að gjörast langvinnur, þá efldist Davíðs hús meir og meir, en Sáls húsi hnignaði meir og meir.

Davíð fæddust synir í Hebron: Frumgetinn sonur hans var Amnon, með Akínóam frá Jesreel.

Annar sonur hans var Kíleab, með Abígail, er átt hafði Nabal í Karmel, hinn þriðji Absalon, sonur Maöku, dóttur Talmaí, konungs í Gesúr,

hinn fjórði Adónía, sonur Haggítar, hinn fimmti Sefatja, sonur Abítalar,

og hinn sjötti Jitream, með Eglu, konu Davíðs. Þessir fæddust Davíð í Hebron.

Meðan ófriðurinn stóð milli Sáls húss og Davíðs húss, var Abner öflugur fylgismaður Sáls húss.

Sál hafði átt hjákonu, er Rispa hét og var Ajasdóttir. Og Ísbóset, sonur Sáls, sagði við Abner: "Hví hefir þú gengið í eina sæng með hjákonu föður míns?"

Abner reiddist mjög orðum Ísbósets og mælti: "Er ég sá hundshaus, að ég haldi með Júda? Enn í dag auðsýni ég elsku húsi Sáls, föður þíns, vandamönnum hans og vinum, og ég hefi ekki framselt þig í hendur Davíðs, og þó ásakar þú mig í dag um konumál.

Guð gjöri mér það, er hann vill, nú og síðar: Eins og Drottinn hefir svarið Davíð, svo skal ég við hann gjöra:

10 flytja konungdóminn frá húsi Sáls og reisa hásæti Davíðs yfir Ísrael og Júda, frá Dan til Beerseba."

11 Hinn gat ekki svarað Abner einu orði af hræðslu við hann.

12 Þá gjörði Abner sendimenn á fund Davíðs í Hebron með þessa orðsending: "Hvers er landið?" Og: "Gjör þú sáttmála við mig, þá mun ég veita þér fulltingi til að snúa öllum Ísrael til fylgis við þig."

13 Davíð svaraði: "Gott og vel, ég vil gjöra sáttmála við þig. En eins krefst ég af þér: Þú skalt ekki líta ásjónu mína fyrr en þú færir mér Míkal, dóttur Sáls, þá er þú kemur til þess að líta ásjónu mína."

14 Og Davíð gjörði sendimenn á fund Ísbósets, sonar Sáls, með þá orðsending: "Fá mér konu mína Míkal, er ég festi mér fyrir hundrað filistayfirhúðir."

15 Þá sendi Ísbóset og lét taka hana frá manni hennar, Paltíel Laíssyni.

16 Og maður hennar fylgdi henni með miklum gráti til Bahúrím. Þá sagði Abner við hann: "Farðu nú heim aftur!" Fór hann þá aftur heim.

17 Abner hafði átt tal við öldunga Ísraels og sagt: "Þér hafið þegar fyrir löngu æskt þess, að Davíð yrði konungur yðar.

18 Látið nú af því verða, því að Drottinn hefir sagt við Davíð: ,Fyrir hönd Davíðs, þjóns míns, mun ég frelsa lýð minn Ísrael af hendi Filista og af hendi allra óvina þeirra."`

19 Abner kom og að máli við Benjamíníta. Því næst hélt Abner á fund Davíðs í Hebron til þess að segja honum frá, hversu Ísrael og allt Benjamíns hús vildi allt vera láta.

20 En er Abner kom til Davíðs í Hebron og með honum tveir tigir manna, þá gjörði Davíð Abner veislu og mönnunum, sem með honum voru.

21 Þá sagði Abner við Davíð: "Ég vil taka mig til og fara og safna öllum Ísrael utan um herra minn, konunginn, til þess að þeir gjöri sáttmála við þig, og þú verðir konungur yfir öllum þeim, sem þín sála girnist." Síðan lét Davíð Abner burt fara í friði.

22 Rétt í þessu komu menn Davíðs og Jóab heim úr ránsferð, og fluttu þeir með sér mikið herfang. En Abner var þá ekki hjá Davíð í Hebron, því að hann hafði látið hann í burt fara í friði.

23 Þegar Jóab nú kom og allur herinn, sem með honum var, færðu menn Jóab þessi tíðindi: "Abner Nersson kom hingað á konungs fund, og hann lét hann fara aftur burt í friði."

24 Þá gekk Jóab fyrir konung og mælti: "Hvað hefir þú gjört? Abner hefir komið hingað til þín! Hví lést þú hann frjálsan í brott fara?

25 Veistu ekki, að Abner Nersson hefir komið til þess að fleka þig og til þess að verða vísari um hátterni þitt og fá vitneskju um allt, sem þú hefir fyrir stafni?"

26 Og er Jóab var genginn út frá Davíð, þá sendi hann menn eftir Abner, og þeir komu með hann aftur frá Sírabrunni. Davíð vissi ekki af þessu.

27 En er Abner var aftur kominn til Hebron, veik Jóab honum á eintal afsíðis í borgarhliðinu og lagði hann þar í kviðinn, svo að hann beið bana af _ til hefnda fyrir víg Asahels bróður síns.

28 En er Davíð síðar frétti það, sagði hann: "Saklaus er ég og mitt ríki fyrir Drottni að eilífu af blóði Abners Nerssonar!

29 Komi það yfir höfuð Jóabs og yfir alla ætt hans! Aldrei verði í ætt Jóabs þeirra vant, er rennsli hafa og líkþráir eru, sem ganga við hækju, falla fyrir sverði eða vantar brauð!"

30 En Jóab og Abísaí bróðir hans myrtu Abner, af því að hann hafði drepið Asahel bróður þeirra hjá Gíbeon í bardaga.

31 Og Davíð sagði við Jóab og allt fólkið, sem hjá honum var: "Rífið klæði yðar og gyrðist hærusekk og gangið kveinandi fyrir Abner!" En Davíð konungur gekk á eftir líkbörunum.

32 Og þeir jörðuðu Abner í Hebron, og hóf þá konungur grát við gröf Abners, og allur lýðurinn grét líka.

33 Og konungur orti þessi sorgarljóð eftir Abner: Varð þá Abner að deyja dauða guðleysingjans?

34 Hendur þínar voru ekki bundnar, og fætur þínir voru ekki fjötraðir. Þú ert fallinn, eins og menn falla fyrir níðingum. Þá grét allur lýðurinn enn meira yfir honum.

35 Allur lýðurinn kom og vildi fá Davíð til að neyta matar meðan enn var dagur, en Davíð sór og mælti: "Guð láti mig gjalda þess nú og síðar, ef ég smakka brauð eða nokkuð annað fyrir sólarlag."

36 Allur lýðurinn tók eftir því og líkaði þeim það vel. Reyndar líkaði öllum lýðnum vel allt það, sem konungurinn gjörði.

37 Og allt fólkið og allur Ísrael sannfærðist um það á þeim degi, að konungur væri ekki valdur að vígi Abners Nerssonar.

38 Konungur mælti og við menn sína: "Vitið þér ekki, að höfðingi og mikill maður er í dag fallinn í Ísrael?

39 En ég má mín enn lítils, þótt ég sé smurður til konungs, og þessir menn, Serújusynir, eru mér yfirsterkari. Drottinn gjaldi þeim, sem níðingsverkið hefir unnið, svo sem hann á skilið fyrir níðingsverk sitt!"