Añadir traducción en paralelo Imprimir Opciones de la página

25 Amasía tók ríki, þá er hann var tuttugu og fimm ára gamall, og tuttugu og níu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jóaddan og var frá Jerúsalem.

Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, þó eigi með óskiptu hjarta.

En er hann var orðinn fastur í sessi, lét hann drepa þá menn sína, er drepið höfðu konunginn föður hans.

En börn þeirra lét hann ekki af lífi taka, heldur fór eftir því, sem ritað er í lögmálinu, í Mósebók, þar sem Drottinn mælir svo fyrir: "Feður skulu ekki láta lífið ásamt börnunum, og börn skulu ekki láta lífið ásamt feðrunum, heldur skal hver láta lífið fyrir sína eigin synd."

Og Amasía stefndi Júdamönnum saman og skipaði þeim niður eftir ættum, eftir þúsundhöfðingjum og hundraðshöfðingjum úr öllum Júda og Benjamín. Síðan kannaði hann þá, tvítuga og þaðan af eldri, og komst að raun um, að þeir voru þrjú hundruð þúsund einvalaliðs, herfærir menn, er borið gátu spjót og skjöld.

Hann tók og á mála hundrað þúsund kappa af Ísrael fyrir hundrað talentur silfurs.

En guðsmaður nokkur kom til hans og mælti: "Þú konungur! Eigi skyldi Ísraelsher fara með þér, því að Drottinn er eigi með Ísrael, með neinum af Efraímsniðjum,

heldur skalt þú fara einn saman. Gakk þú öruggur til bardaga, annars kann Guð að láta þér veita miður fyrir óvinum þínum, því að það er á Guðs valdi að veita fulltingi og láta veita miður."

Amasía svaraði guðsmanninum: "Hvernig á þá að fara með þessar hundrað talentur, er ég hefi gefið Ísraelshersveitinni?" Guðsmaðurinn svaraði: "Það er á valdi Drottins að gefa þér miklu meira en það."

10 Þá skildi Amasía frá hersveitina, er komin var til hans úr Efraím, til þess að þeir skyldu halda heimleiðis. Urðu þeir þá sárreiðir Júdamönnum og sneru heimleiðis ofsareiðir.

11 En Amasía herti upp hugann, fór með menn sína, hélt til Saltdals og vann sigur á Seírítum, tíu þúsundum manns.

12 En aðra tíu þúsund handtóku Júdamenn lifandi. Fóru þeir með þá fram á klettasnös og hrundu þeim ofan af klettasnösinni, svo að brotnaði í þeim hvert bein.

13 Þeir af hersveitinni, er Amasía hafði látið aftur hverfa, svo að þeir eigi máttu fara með honum til bardagans, þeir réðust inn í Júdaborgir, frá Samaríu til Bet Hóron, drápu þar þrjú þúsund manns og rændu miklu herfangi.

14 En er Amasía var kominn heim eftir sigurinn yfir Edómítum, þá hafði hann með sér guði Seíríta og setti þá upp hjá sér svo sem guði. Laut hann þeim og brenndi reykelsi þeim til handa.

15 Þá varð Drottinn reiður Amasía og hann sendi spámann til hans. Hann mælti til hans: "Hvers vegna leitar þú guða þjóðar þessarar, er eigi gátu frelsað þjóð sína úr hendi þinni?"

16 En er hann talaði til hans, þá mælti konungur við hann: "Höfum vér gjört þig að ráðgjafa konungs? Hættu, eða þú verður barinn." Þá hætti spámaðurinn og mælti: "Nú veit ég, að Guð hefir afráðið að tortíma þér, fyrst þú breyttir svo og vilt eigi hlýða á ráð mitt."

17 Síðan réð Amasía Júdakonungur ráðum sínum og gjörði menn á fund Jóasar Jóahassonar, Jehúsonar, Ísraelskonungs, með svolátandi orðsending: "Nú skulum við reyna með okkur."

18 Þá sendi Jóas Ísraelskonungur Amasía Júdakonungi þau andsvör: "Þistillinn á Líbanon gjörði sedrustrénu á Líbanon svolátandi orðsending: Gef þú syni mínum dóttur þína að konu. En villidýrin á Líbanon gengu yfir þistilinn og tróðu hann sundur.

19 Þú hugsar: Ég hefi unnið mikinn sigur á Edómítum og þú hefir fyllst ofmetnaði. Sit þú nú kyrr heima! Hví vilt þú egna ógæfuna sjálfum þér og Júda til falls?"

20 En Amasía gaf þessu engan gaum, því að svo var til stillt af Guði til þess að ofurselja þá fjandmönnunum, af því að þeir höfðu leitað Edómsguða.

21 Þá fór Jóas Ísraelskonungur af stað, og varð fundur þeirra, hans og Amasía Júdakonungs, í Bet Semes, er liggur undir Júda.

22 Beið Júda þar ósigur fyrir Ísrael, og flýðu þeir hver til síns heima.

23 En Jóas Ísraelskonungur tók höndum Amasía Júdakonung, son Jóasar Jóahassonar, í Bet Semes, og fór með hann til Jerúsalem. Hann braut niður múra Jerúsalem, frá Efraímhliði allt að hornhliðinu, fjögur hundruð álnir.

24 Því næst tók hann allt gull og silfur og öll áhöld, er fundust í musteri Guðs hjá Óbeð Edóm, svo og fjársjóðu konungshallarinnar og gíslana, og sneri síðan aftur heim til Samaríu.

25 Amasía Jóasson Júdakonungur lifði fimmtán ár eftir dauða Jóasar Jóahassonar Ísraelskonungs.

26 En það sem meira er að segja um Amasía, er frá upphafi til enda ritað í bók Júda- og Ísraelskonunga.

27 Og upp frá því, er Amasía veik frá Drottni, gjörðu menn samsæri gegn honum í Jerúsalem. Flýði hann þá til Lakís, en þeir sendu á eftir honum til Lakís og létu drepa hann þar.

28 Fluttu þeir hann síðan á hestum, og var hann grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg.

26 Þá tók allur Júdalýður Ússía, þótt hann væri eigi nema sextán vetra gamall, og gjörði hann að konungi í stað Amasía föður hans.

Hann víggirti Elót og vann hana aftur undir Júda, eftir að konungurinn var lagstur til hvíldar hjá feðrum sínum.

Ússía var sextán vetra gamall, þá er hann varð konungur, og fimmtíu og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jekolja og var frá Jerúsalem.

Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Amasía faðir hans.

Hann leitaði Guðs kostgæfilega, meðan Sakaría var á lífi, er fræddi hann í guðsótta, og meðan hann leitaði Drottins, veitti Guð honum gengi.

Hann fór í hernað og herjaði á Filista, reif niður múrana í Gat og múrana í Jabne og múrana í Asdod, og reisti borgir í Asdodhéraði og Filistalandi.

Og Guð veitti honum gegn Filistum og Aröbum, þeim er bjuggu í Gúr Baal, og gegn Meúnítum.

Ammónítar færðu og Ússía skatt, og frægð hans barst allt til Egyptalands, því að hann varð mjög voldugur.

Og Ússía reisti turna í Jerúsalem, á hornhliðinu, á dalhliðinu og í króknum og víggirti þá.

10 Hann reisti og turna í eyðimörkinni, og lét höggva út fjölda af brunnum, því að hann átti stórar hjarðir, bæði á láglendinu og á sléttunni, svo og akurmenn og víngarðsmenn í fjöllunum og á Karmel, því að hann hafði mætur á landbúnaði.

11 Ússía hafði og her, er gegndi herþjónustu og fór í hernað í flokkum, allir þeir, er Jeíel ritari og Maaseja tilsjónarmaður höfðu kannað undir umsjón Hananja, eins af höfuðsmönnum konungs.

12 Ætthöfðingjarnir, kapparnir, voru alls tvö þúsund og sex hundruð að tölu.

13 En undir þeim stóð her, er í voru þrjú hundruð og sjö þúsund og fimm hundruð manns, er inntu herþjónustu af hendi af mestu hreysti, til þess að veita konungi gegn fjandmönnunum.

14 Fékk Ússía þeim, öllum hernum, skjöldu, spjót, hjálma, pansara, boga og slöngusteina.

15 Þá lét hann og gjöra í Jerúsalem vélar með miklum hagleik. Skyldu þær vera í turnunum og hornunum til að skjóta með örvum og stórum steinum. Og frægð hans barst til fjarlægra landa, því að honum hlotnaðist dásamlegt liðsinni, uns hann var voldugur orðinn.

16 En er hann var voldugur orðinn, varð hann drembilátur, og það svo, að hann aðhafðist óhæfu og braut á móti Drottni, Guði sínum, er hann gekk inn í musteri Drottins til þess að brenna reykelsi á reykelsisaltarinu.

17 Gekk þá Asarja prestur á eftir honum og með honum áttatíu duglegir prestar Drottins.

18 Þeir stóðu í móti Ússía konungi og sögðu við hann: "Það er eigi þitt, Ússía, að brenna reykelsi fyrir Drottni, heldur prestanna, niðja Arons, er vígðir eru til þess að færa reykelsisfórnir. Far þú út úr helgidóminum, því að þú ert brotlegur orðinn, og verður þér það eigi til sæmdar fyrir Drottni Guði."

19 En Ússía reiddist, þar sem hann hélt á reykelsiskerinu í hendinni til þess að færa reykelsisfórn, og er hann reiddist prestunum, braust líkþrá út á enni honum að prestunum ásjáandi í musteri Drottins, við reykelsisaltarið.

20 Og er Asarja höfuðprestur og allir prestarnir litu á hann, þá var hann líkþrár á enninu. Ráku þeir hann þá út þaðan, og sjálfur flýtti hann sér og í burt, því að Drottinn hafði lostið hann.

21 Þannig varð Ússía konungur líkþrár til dauðadags. Bjó hann kyrr í höll sinni sem líkþrár, því að hann var útilokaður frá musteri Drottins, en Jótam sonur hans veitti forstöðu konungshöllinni og dæmdi mál landsmanna.

22 En það, sem meira er að segja um Ússía, hefir Jesaja Amozson spámaður ritað frá upphafi til enda.

23 Og Ússía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og var grafinn hjá feðrum sínum á bersvæði hjá konungagröfunum, því að menn sögðu: "Hann er líkþrár!" Og Jótam sonur hans tók ríki eftir hann.

27 Jótam var tuttugu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jerúsa Sadóksdóttir.

Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Ússía faðir hans. Þó fór hann eigi inn í musteri Drottins. En lýðurinn aðhafðist enn óhæfu.

Hann reisti efra hliðið á musteri Drottins, og af Ófelmúr byggði hann mikið.

Þá reisti hann og borgir í Júdafjöllum, og í skógunum reisti hann hallir og turna.

Hann átti og í ófriði við konunga Ammóníta og vann sigur á þeim. Guldu Ammónítar honum það ár hundrað talentur silfurs, tíu þúsund kór hveitis og tíu þúsund kór byggs. Færðu Ammónítar honum þetta einnig annað og þriðja árið.

Varð Jótam þannig æ voldugri, því að hann gekk veg sinn fyrir augliti Drottins, Guðs síns.

Það sem meira er að segja um Jótam og um alla bardaga hans og fyrirtæki, það er ritað í bók Ísraels- og Júdakonunga.

Hann var tuttugu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem.

Og Jótam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og var grafinn í Davíðsborg. Og Akas sonur hans tók ríki eftir hann.

16  Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá.

Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.

Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.

Þetta hef ég talað til yðar, til þess að þér minnist þess, að ég sagði yður það, þegar stund þeirra kemur. Ég hef ekki sagt yður þetta frá öndverðu, af því ég var með yður.

En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: ,Hvert fer þú?`

En hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta.

En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar.

Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur, _

syndin er, að þeir trúðu ekki á mig,

10 réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur,

11 og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur.

12 Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú.

13 En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á.

14 Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður.

15 Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.

16 Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig."

17 Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: "Hvað er hann að segja við oss: 'Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig,' og: 'Ég fer til föðurins'?"

18 Þeir spurðu: "Hvað merkir þetta: ,Innan skamms`? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara."

19 Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: "Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig`?

20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð.

21 Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn.

22 Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður.

23 Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður.

24 Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn.

25 Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur, að ég tala ekki framar við yður í líkingum, heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum.

26 Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður,

27 því sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn.

28 Ég er út genginn frá föðurnum og kominn í heiminn. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins."

29 Lærisveinar hans sögðu: "Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking.

30 Nú vitum vér, að þú veist allt og þarft eigi, að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum vér, að þú sért út genginn frá Guði."

31 Jesús svaraði þeim: "Trúið þér nú?

32 Sjá, sú stund kemur og er komin, að þér tvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir. Þó er ég ekki einn, því faðirinn er með mér.

33 Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn."