Add parallel Print Page Options

23 Því að líkt er um himnaríki og konung, sem vildi láta þjóna sína gjöra skil.

24 Hann hóf reikningsskilin, og var færður til hans maður, er skuldaði tíu þúsund talentur.

25 Sá gat ekkert borgað, og bauð konungur þá, að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu, sem hann átti, til lúkningar skuldinni.

26 Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér allt.`

27 Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.

28 Þegar þjónn þessi kom út, hitti hann einn samþjón sinn, sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: ,Borga það, sem þú skuldar!`

29 Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér.`

30 En hann vildi ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi, uns hann hefði borgað skuldina.

31 Þegar samþjónar hans sáu, hvað orðið var, urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt, sem gjörst hafði.

32 Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: ,Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp, af því að þú baðst mig.

33 Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér?`

34 Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum, uns hann hefði goldið allt, sem hann skuldaði honum.

35 Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum."

Read full chapter