Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Chronological

Read the Bible in the chronological order in which its stories and events occurred.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Síðara bréf Páls til Kori 10-13

10 Nú áminni ég sjálfur, Páll, yður með hógværð og mildi Krists, ég, sem í návist yðar á að vera auðmjúkur, en fjarverandi djarfmáll við yður.

Ég bið yður þess, að láta mig ekki þurfa að vera djarfmálan, þegar ég kem, og beita þeim myndugleika, sem ég ætla mér að beita gagnvart nokkrum, er álíta, að vér látum stjórnast af mannlegum hvötum.

Þótt vér lifum jarðnesku lífi, þá berjumst vér ekki á jarðneskan hátt, _

því að vopnin, sem vér berjumst með, eru ekki jarðnesk, heldur máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi.

Vér brjótum niður hugsmíðar og allt, sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði, og hertökum hverja hugsun til hlýðni við Krist.

Og vér erum þess albúnir að refsa sérhverri óhlýðni, þegar hlýðni yðar er fullkomin orðin.

Þér horfið á hið ytra. Ef einhver treystir því, að hann sé Krists, þá hyggi hann betur að og sjái, að eins og hann er Krists, þannig erum vér það einnig.

Jafnvel þótt ég vildi hrósa mér í frekara lagi af valdi voru, sem Drottinn hefur gefið til að uppbyggja, en ekki til að niðurbrjóta yður, þá yrði ég mér ekki til skammar.

Ekki má líta svo út sem ég vilji hræða yður með bréfunum.

10 "Bréfin," segja menn, "eru þung og ströng, en sjálfur er hann lítill fyrir mann að sjá og enginn tekur mark á ræðu hans."

11 Sá, sem slíkt segir, festi það í huga sér, að eins og vér fjarstaddir tölum til yðar í bréfunum, þannig munum vér koma fram, þegar vér erum hjá yður.

12 Ekki dirfumst vér að telja oss til þeirra eða bera oss saman við suma af þeim, er mæla með sjálfum sér. Þeir mæla sig við sjálfa sig og bera sig saman við sjálfa sig og eru óskynsamir.

13 En vér viljum ekki hrósa oss án viðmiðunar, heldur samkvæmt þeirri mælistiku, sem Guð hefur úthlutað oss: Að ná alla leið til yðar.

14 Því að vér teygjum oss ekki of langt fram, ella hefðum vér ekki komist til yðar. En vér vorum fyrstir til yðar með fagnaðarerindið um Krist.

15 Vér höfum vora viðmiðun og stærum oss ekki af erfiði annarra. Vér höfum þá von, að eftir því sem trú yðar vex, verðum vér miklir á meðal yðar, já, stórmiklir samkvæmt mælistiku vorri.

16 Þá getum vér boðað fagnaðarerindið í löndum handan við yður án þess að nota annarra mælistikur eða stæra oss af því, sem þegar er gjört.

17 En "sá sem hrósar sér, hann hrósi sér í Drottni."

18 Því að fullgildur er ekki sá, er mælir með sjálfum sér, heldur sá, er Drottinn mælir með.

11 Ó að þér vilduð umbera dálitla fávisku hjá mér! Jú, vissulega umberið þér mig.

Ég vakti yfir yður með afbrýði Guðs, því að ég hef fastnað yður einum manni, Kristi, og vil leiða fram fyrir hann hreina mey.

En ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist.

Því að ef einhver kemur og prédikar annan Jesú en vér höfum prédikað, eða þér fáið annan anda en þér hafið fengið, eða annað fagnaðarerindi en þér hafið tekið á móti, þá umberið þér það mætavel.

Ég álít mig þó ekki í neinu standa hinum stórmiklu postulum að baki.

Þótt mig bresti mælsku, brestur mig samt ekki þekkingu og vér höfum á allan hátt birt yður hana í öllum greinum.

Eða drýgði ég synd, er ég lítillækkaði sjálfan mig til þess að þér mættuð upphafnir verða og boðaði yður ókeypis fagnaðarerindi Guðs?

Aðra söfnuði rúði ég og tók mála af þeim til þess að geta þjónað yður, og er ég var hjá yður og leið þröng, varð ég þó ekki neinum til byrði,

því að úr skorti mínum bættu bræðurnir, er komu frá Makedóníu. Og í öllu varaðist ég að verða yður til þyngsla og mun varast.

10 Svo sannarlega sem sannleiki Krists er í mér, skal þessi hrósun um mig ekki verða þögguð niður í héruðum Akkeu.

11 Hvers vegna? Er það af því að ég elska yður ekki? Nei, Guð veit að ég gjöri það.

12 En það, sem ég gjöri, mun ég og gjöra til þess að svipta þá tækifærinu, sem færis leita til þess að vera jafnokar vorir í því, sem þeir stæra sig af.

13 Því að slíkir menn eru falspostular, svikulir verkamenn, er taka á sig mynd postula Krists.

14 Og ekki er það undur, því að Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd.

15 Það er því ekki mikið, þótt þjónar hans taki á sig mynd réttlætisþjóna. Afdrif þeirra munu verða samkvæmt verkum þeirra.

16 Enn segi ég: Ekki álíti neinn mig fávísan. En þó svo væri, þá takið samt við mér sem fávísum, til þess að ég geti líka hrósað mér dálítið.

17 Það sem ég tala nú, þegar ég tek upp á að hrósa mér, tala ég ekki að hætti Drottins, heldur eins og í heimsku.

18 Með því að margir hrósa sér af sínum mannlegu afrekum, vil ég einnig hrósa mér svo,

19 því að fúslega umberið þér hina fávísu, svo vitrir sem þér eruð.

20 Þér umberið það, þótt einhver hneppi yður í ánauð, þótt einhver eti yður upp, þótt einhver hremmi yður, þótt einhver lítilsvirði yður, þótt einhver slái yður í andlitið.

21 Ég segi það mér til minnkunar, að í þessu höfum vér sýnt oss veika. En þar sem aðrir láta drýgindalega, _ ég tala fávíslega _, þar gjöri ég það líka.

22 Eru þeir Hebrear? Ég líka. Eru þeir Ísraelítar? Ég líka. Eru þeir Abrahams niðjar? Ég líka.

23 Eru þeir þjónar Krists? _ Nú tala ég eins og vitfirringur! _ Ég fremur. Meira hef ég unnið, oftar verið í fangelsi, fleiri högg þolað og oft dauðans hættu.

24 Af Gyðingum hef ég fimm sinnum fengið höggin þrjátíu og níu,

25 þrisvar verið húðstrýktur, einu sinni verið grýttur, þrisvar beðið skipbrot, verið sólarhring í sjó.

26 Ég hef verið á sífelldum ferðalögum, komist í hann krappan í ám, lent í háska af völdum ræningja, í háska af völdum samlanda og af völdum heiðingja, í háska í borgum og í óbyggðum, á sjó og meðal falsbræðra.

27 Ég hef stritað og erfiðað, átt margar svefnlausar nætur, verið hungraður og þyrstur og iðulega fastað, og ég hef verið kaldur og klæðlaus.

28 Og ofan á allt annað bætist það, sem mæðir á mér hvern dag, áhyggjan fyrir öllum söfnuðunum.

29 Hver er sjúkur, án þess að ég sé sjúkur? Hver hrasar, án þess að ég líði?

30 Ef ég á að hrósa mér, vil ég hrósa mér af veikleika mínum.

31 Guð og faðir Drottins Jesú, hann sem blessaður er að eilífu, veit að ég lýg ekki.

32 Í Damaskus setti landshöfðingi Areta konungs vörð um borgina til þess að handtaka mig.

33 En gegnum glugga var ég látinn síga út fyrir múrinn í körfu og slapp þannig úr höndum hans.

12 Hrósa mér verð ég, þótt gagnlegt sé það ekki. En ég mun nú snúa mér að vitrunum og opinberunum Drottins.

Mér er kunnugt um mann, hann tilheyrir Kristi, sem fyrir fjórtán árum, _ hvort það var í líkamanum eða utan líkamans, veit ég ekki, Guð veit það _, var hrifinn burt allt til þriðja himins.

Og mér er kunnugt um þennan mann, _ hvort það var í líkamanum eða án líkamans, veit ég ekki, Guð veit það _,

að hann var hrifinn upp í Paradís og heyrði ósegjanleg orð, sem engum manni er leyft að mæla.

Af slíku vil ég hrósa mér, en af sjálfum mér vil ég ekki hrósa mér, nema þá af veikleika mínum.

Þótt ég vildi hrósa mér, væri ég ekki frávita, því að ég mundi segja sannleika. En ég veigra mér við því, til þess að enginn skuli ætla mig meiri en hann sér mig eða heyrir.

Og til þess að ég skuli ekki hrokast upp af hinum miklu opinberunum, er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig, til þess að ég skuli ekki hrokast upp.

Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér.

Og hann hefur svarað mér: "Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika." Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.

10 Þess vegna uni ég mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists. Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.

11 Ég hef gjörst frávita. Þér hafið neytt mig til þess. Ég átti heimtingu á að hljóta meðmæli af yður. Því að í engu stóð ég hinum stórmiklu postulum að baki, enda þótt ég sé ekki neitt.

12 Postulatákn voru gjörð á meðal yðar af mikilli þrautseigju, tákn, undur og kraftaverk.

13 Í hverju voruð þér settir lægra en hinir söfnuðirnir, nema ef vera skyldi í því, að ég sjálfur hef ekki verið yður til byrði? Fyrirgefið mér þennan órétt.

14 Þetta er nú í þriðja sinn, að ég er ferðbúinn að koma til yðar, og ætla ég ekki að verða yður til byrði. Ég sækist ekki eftir eigum yðar, heldur yður sjálfum. Því að ekki eiga börnin að safna fé handa foreldrunum, heldur foreldrarnir handa börnunum.

15 Ég er fús til að verja því, sem ég á, já, leggja sjálfan mig í sölurnar fyrir yður. Ef ég elska yður heitar, verð ég þá elskaður minna?

16 En látum svo vera, að ég hafi ekki verið yður til byrði, en hafi verið slægur og veitt yður með brögðum.

17 Hef ég notað nokkurn þeirra, sem ég hef sent til yðar, til þess að hafa eitthvað af yður?

18 Ég bað Títus að fara og sendi bróðurinn með honum. Hefur þá Títus haft eitthvað af yður? Komum við ekki fram í einum og sama anda? Fetuðum við ekki í sömu fótsporin?

19 Fyrir löngu eruð þér farnir að halda, að vér séum að verja oss gagnvart yður. Nei, vér tölum fyrir augliti Guðs, eins og þeir, sem tilheyra Kristi. Allt er það yður til uppbyggingar, mínir elskuðu.

20 Ég er hræddur um, að mér muni þykja þér öðruvísi en ég óska, er ég kem, og að yður muni þykja ég öðruvísi en þér óskið og á meðal yðar kunni að vera deilur, öfund, reiði, eigingirni, bakmælgi, rógburður, hroki og óeirðir.

21 Ég er hræddur um, að Guð minn muni auðmýkja mig hjá yður, þegar ég kem aftur, og að ég muni hryggjast yfir mörgum þeirra, sem áður hafa syndgað og ekki hafa snúið sér frá saurlífi, frillulífi og ólifnaði, sem þeir hafa drýgt.

13 Þetta er nú í þriðja sinn, sem ég kem til yðar. Því "aðeins skal framburður gildur vera, að tveir eða þrír beri."

Það sem ég sagði yður við aðra komu mína, það segi ég yður nú aftur fjarstaddur, bæði þeim, sem hafa brotlegir orðið, og öðrum: Næsta sinn, sem ég kem, mun ég ekki hlífa neinum,

enda krefjist þér sönnunar þess, að Kristur tali í mér. Hann er ekki veikur gagnvart yður, heldur máttugur á meðal yðar.

Hann var krossfestur í veikleika, en hann lifir fyrir Guðs kraft. Og einnig vér erum veikir í honum, en munum þó lifa með honum fyrir Guðs kraft, sem hann sýnir yður.

Reynið yður sjálfa, hvort þér eruð í trúnni, prófið yður sjálfa. Gjörið þér yður ekki grein fyrir, að Jesús Kristur er í yður? Það skyldi vera, að þér stæðust ekki prófið.

En ég vona, að þér komist að raun um, að vér höfum staðist prófið.

Vér biðjum til Guðs, að þér gjörið ekki neitt illt, ekki til þess að það sýni ágæti vort, heldur til þess að þér gjörið hið góða. Vér gætum eins sýnst óhæfir.

Því að ekki megnum vér neitt gegn sannleikanum, heldur fyrir sannleikann.

Vér gleðjumst, þegar vér erum veikir, en þér eruð styrkir. Það, sem vér biðjum um, er að þér verðið fullkomnir.

10 Þess vegna rita ég þetta fjarverandi, til þess að ég þurfi ekki, þegar ég er kominn, að beita hörku, samkvæmt því valdi, sem Drottinn hefur gefið mér. Það er til uppbyggingar, en ekki til niðurbrots.

11 Að öðru leyti, bræður, verið glaðir. Verið fullkomnir, áminnið hver annan, verið samhuga, verið friðsamir. Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með yður.

12 Heilsið hver öðrum með heilögum kossi. Allir heilagir biðja að heilsa yður.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society