Add parallel Print Page Options

95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.

Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.

Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.

Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.

Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.

Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,

því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!

Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,

þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.

10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."

11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."

97 Drottinn er konungur orðinn! jörðin fagni, eyjafjöldinn gleðjist.

Ský og sorti eru umhverfis hann, réttlæti og réttvísi eru grundvöllur hásætis hans,

eldur fer fyrir honum og bálast umhverfis spor hans.

Leiftur hans lýsa um jarðríki, jörðin sér það og nötrar.

Björgin bráðna sem vax fyrir Drottni, fyrir Drottni gjörvallrar jarðarinnar.

Himnarnir kunngjöra réttlæti hans, og allar þjóðir sjá dýrð hans.

Allir skurðgoðadýrkendur verða til skammar, þeir er stæra sig af falsguðunum. Allir guðir falla fram fyrir honum.

Síon heyrir það og gleðst, Júdadætur fagna sakir dóma þinna, Drottinn.

Því að þú, Drottinn, ert Hinn hæsti yfir gjörvallri jörðunni, þú ert hátt hafinn yfir alla guði.

10 Drottinn elskar þá er hata hið illa, hann verndar sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra.

11 Ljós rennur upp réttlátum og gleði hjartahreinum.

12 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni, vegsamið hans heilaga nafn.

98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.

Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.

Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.

Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.

Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,

með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.

Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.

Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman

fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.

99 Drottinn er konungur orðinn! Þjóðirnar skjálfi. Hann situr uppi yfir kerúbunum, jörðin nötri.

Drottinn er mikill á Síon og hátt upp hafinn yfir alla lýði.

Þeir skulu lofa nafn þitt, hið mikla og óttalega. Heilagur er hann!

Þú ert voldugur konungur, sem elskar réttinn, þú hefir staðfest réttvísina, rétt og réttlæti hefir þú framið í Jakob.

Tignið Drottin, Guð vorn, og fallið fram fyrir fótskör hans. Heilagur er hann!

Móse og Aron eru meðal presta hans, Samúel meðal þeirra er ákalla nafn hans, þeir ákalla Drottin og hann bænheyrir þá.

Hann talar til þeirra í skýstólpanum, því að þeir gæta vitnisburða hans og laganna, er hann gaf þeim.

Drottinn, Guð vor, þú bænheyrir þá, þú reynist þeim fyrirgefandi Guð og sýknar þá af gjörðum þeirra.

Tignið Drottin Guð vorn, og fallið fram fyrir hans heilaga fjalli, því að heilagur er Drottinn, Guð vor.