Add parallel Print Page Options

87 Kóraíta-sálmur. Ljóð.

Drottinn grundvallaði borg sína á heilögum fjöllum, hann elskar hlið Síonar framar öllum bústöðum Jakobs.

Dýrlega er talað um þig, þú borg Guðs. [Sela]

Ég nefni Egyptaland og Babýlon vegna játenda minna þar, hér er Filistea og Týrus, ásamt Blálandi, einn er fæddur hér, annar þar.

En Síon kallast móðirin, hver þeirra er fæddur í henni, og hann, Hinn hæsti, verndar hana.

Drottinn telur saman í þjóðaskránum, einn er fæddur hér, annar þar. [Sela]

Og menn syngja eins og þeir er stíga dans: "Allar uppsprettur mínar eru í þér."

88 Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta.

Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga, um nætur hrópa ég frammi fyrir þér.

Lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra að hrópi mínu,

því að sál mín er mett orðin af böli, og líf mitt nálægist Hel.

Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar, ég er sem magnþrota maður.

Mér er fenginn bústaður með framliðnum, eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni, er þú minnist eigi framar, því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.

Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima, í myrkrið niðri í djúpinu.

Reiði þín hvílir á mér, og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela]

Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína, gjört mig að andstyggð í augum þeirra. Ég er byrgður inni og kemst ekki út,

10 augu mín eru döpruð af eymd. Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern, breiði út hendurnar í móti þér.

11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna, eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela]

12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?

13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?

14 En ég hrópa til þín, Drottinn, og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig.

15 Hví útskúfar þú, Drottinn, sálu minni, hylur auglit þitt fyrir mér?

16 Ég er hrjáður og aðþrengdur frá æsku, ég ber skelfingar þínar og er ráðþrota.

17 Reiðiblossar þínir ganga yfir mig, ógnir þínar eyða mér.

18 Þær umkringja mig eins og vötn allan liðlangan daginn, lykja um mig allar saman.

19 Þú hefir fjarlægt frá mér ástvini og félaga og gjört myrkrið að kunningja mínum.

13 Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði.

Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu, og þeir sem veita mótstöðu munu fá dóm sinn.

Sá sem vinnur góð verk þarf ekki að óttast valdsmennina, heldur sá sem vinnur vond verk. En viljir þú eigi þurfa að óttast yfirvöldin, þá gjör það sem gott er, og muntu fá lofstír af þeim.

Því að þau eru þjónn Guðs þér til góðs. En ef þú gjörir það sem illt er, þá skaltu óttast. Yfirvöldin bera ekki sverðið ófyrirsynju, þau eru Guðs þjónn, hegnari til refsingar þeim er aðhefst hið illa.

Þess vegna er nauðsynlegt að hlýðnast, ekki einungis vegna hegningarinnar, heldur og vegna samviskunnar.

Einmitt þess vegna gjaldið þér og skatta, því að valdsmennirnir eru Guðs þjónar, sem annast þetta.

Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt, sem skattur ber, þeim toll, sem tollur ber, þeim ótta, sem ótti ber, þeim virðing, sem virðing ber.

Skuldið ekki neinum neitt, nema það eitt að elska hver annan, því að sá, sem elskar náunga sinn, hefur uppfyllt lögmálið.

Boðorðin: "Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast," og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: "Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig."

10 Kærleikurinn gjörir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn fylling lögmálsins.

11 Gjörið þetta því heldur sem þér þekkið tímann, að yður er mál að rísa af svefni, því að nú er oss hjálpræðið nær en þá er vér tókum trú.

12 Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins.

13 Framgöngum sómasamlega eins og á degi, ekki í ofáti né ofdrykkju, ekki í saurlífi né svalli, ekki í þrætu né öfund.

14 Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi, og alið ekki önn fyrir holdinu, svo að það verði til að æsa girndir.