Add parallel Print Page Options

Til söngstjórans. Með strengjaleik á áttstrengjað hljóðfæri. Davíðssálmur.

Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.

Líkna mér, Drottinn, því að ég örmagnast, lækna mig, Drottinn, því að bein mín tærast.

Sál mín er óttaslegin, en þú, ó Drottinn _ hversu lengi?

Snú þú aftur, Drottinn, frelsa sálu mína, hjálpa mér sakir elsku þinnar.

Því að enginn minnist þín í dánarheimum, hver skyldi lofa þig hjá Helju?

Ég er þreyttur af andvörpum mínum, ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt.

Augu mín eru döpruð af harmi, orðin sljó sakir allra óvina minna.

Farið frá mér, allir illgjörðamenn, því að Drottinn hefir heyrt grátraust mína.

10 Drottinn hefir heyrt grátbeiðni mína, Drottinn tekur á móti bæn minni.

11 Allir óvinir mínir skulu verða til skammar og skelfast mjög, hraða sér sneyptir burt.

Til söngstjórans. Á gittít. Davíðssálmur.

Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina! Þú breiðir ljóma þinn yfir himininn.

Af munni barna og brjóstmylkinga hefir þú gjört þér vígi til varnar gegn óvinum þínum, til þess að þagga niður í hefndargirni óvinarins.

Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað,

hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?

Þú lést hann verða litlu minni en Guð, með sæmd og heiðri krýndir þú hann.

Þú lést hann ríkja yfir handaverkum þínum, allt lagðir þú að fótum hans:

sauðfénað allan og uxa, og auk þess dýr merkurinnar,

fugla loftsins og fiska hafsins, allt það er fer hafsins vegu.

10 Drottinn, Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!

Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur.

Ég vil lofa þig, Drottinn, af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum.

Ég vil gleðjast og kætast yfir þér, lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti.

Óvinir mínir hörfuðu undan, hrösuðu og fórust fyrir augliti þínu.

Já, þú hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt, setst í hásætið sem réttlátur dómari.

Þú hefir hastað á þjóðirnar, tortímt hinum óguðlegu, afmáð nafn þeirra um aldur og ævi.

Óvinirnir eru liðnir undir lok _ rústir að eilífu _ og borgirnar hefir þú brotið, minning þeirra er horfin.

En Drottinn ríkir að eilífu, hann hefir reist hásæti sitt til dóms.

Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.

10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum.

11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.

12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.

13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:

14 "Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,

15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."

16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.

17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela]

18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.

19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.

20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.

21 Skjót lýðunum skelk í bringu, Drottinn! Lát þá komast að raun um, að þeir eru dauðlegir menn. [Sela]

10 Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?

Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað.

Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist, og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur.

Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: "Hann hegnir eigi!" "Guð er ekki til" _ svo hugsar hann í öllu.

Fyrirtæki hans heppnast ætíð, dómar þínir fara hátt yfir höfði hans, alla fjandmenn sína kúgar hann.

Hann segir í hjarta sínu: "Ég verð eigi valtur á fótum, frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata."

Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi, undir tungu hans býr illska og ranglæti.

Hann situr í launsátri í þorpunum, í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa, augu hans skima eftir hinum bágstöddu.

Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni; hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða, hann nær honum í snöru sína, í net sitt.

10 Kraminn hnígur hann niður, hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans.

11 Hann segir í hjarta sínu: "Guð gleymir því, hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei."

12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð! Gleym eigi hinum voluðu.

13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: "Þú hegnir eigi"?

14 Þú gefur gaum að mæðu og böli til þess að taka það í hönd þína. Hinn bágstaddi felur þér það; þú ert hjálpari föðurlausra.

15 Brjót þú armlegg hins óguðlega, og er þú leitar að guðleysi hins vonda, finnur þú það eigi framar.

16 Drottinn er konungur um aldur og ævi, heiðingjum er útrýmt úr landi hans.

17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn, þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt.

18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum. Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.

14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.

Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.

16 Davíðs-miktam. Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis.

Ég segi við Drottin: "Þú ert Drottinn minn, ég á engin gæði nema þig."

Á hinum heilögu sem í landinu eru og hinum dýrlegu _ á þeim hefi ég alla mína velþóknun.

Miklar eru þjáningar þeirra, er kjörið hafa sér annan guð. Ég vil eigi dreypa þeirra blóðugu dreypifórnum og eigi taka nöfn þeirra mér á varir.

Drottinn er hlutskipti mitt og minn afmældi bikar; þú heldur uppi hlut mínum.

Mér féllu að erfðahlut indælir staðir, og arfleifð mín líkar mér vel.

Ég lofa Drottin, er mér hefir ráð gefið, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.

Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.

Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði,

10 því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.

11 Kunnan gjörir þú mér veg lífsins, gleðignótt er fyrir augliti þínu, yndi í hægri hendi þinni að eilífu.

19 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.

Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki.

Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra.

Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.

Hann er sem brúðguminn, er gengur út úr svefnhúsi sínu, hlakkar sem hetja til að renna skeið sitt.

Við takmörk himins rennur hann upp, og hringferð hans nær til enda himins, og ekkert dylst fyrir geislaglóð hans. _________

Lögmál Drottins er lýtalaust, hressir sálina, vitnisburður Drottins er áreiðanlegur, gjörir hinn fávísa vitran.

Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað. Boðorð Drottins eru skír, hýrga augun.

10 Ótti Drottins er hreinn, varir að eilífu. Ákvæði Drottins eru sannleikur, eru öll réttlát.

11 Þau eru dýrmætari heldur en gull, já, gnóttir af skíru gulli, og sætari en hunang, já, hunangsseimur.

12 Þjónn þinn varðveitir þau kostgæfilega, að halda þau hefir mikil laun í för með sér.

13 En hver verður var við yfirsjónirnar? Sýkna mig af leyndum brotum!

14 Og varðveit þjón þinn fyrir ofstopamönnum, lát þá eigi drottna yfir mér. Þá verð ég lýtalaus og sýknaður af miklu afbroti.

15 Ó að orðin af munni mínum yrðu þér þóknanleg og hugsanir hjarta míns kæmu fram fyrir auglit þitt, þú Drottinn, hellubjarg mitt og frelsari!

21 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!

Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði, um það sem varir hans báðu, neitaðir þú honum eigi. [Sela]

Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum, setur gullna kórónu á höfuð honum.

Um líf bað hann þig, það veittir þú honum, fjöld lífdaga um aldur og ævi.

Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp, vegsemd og heiður veittir þú honum.

Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu, þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu.

Því að konungurinn treystir Drottni, og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi.

Hönd þín nær til allra óvina þinna, hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna.

10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn, er þú lítur á þá. Drottinn tortímir þeim í reiði sinni, og eldurinn eyðir þeim.

11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni og afkvæmi þeirra úr mannheimi,

12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér, búið fánýtar vélar.

13 Því að þú rekur þá á flótta, miðar á andlit þeirra með boga þínum.

14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu! Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!