Add parallel Print Page Options

51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,

þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.

Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,

því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.

Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.

Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.

Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!

Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.

10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.

11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.

12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.

13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.

14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda,

15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.

16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.

17 Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!

18 Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum _ annars mundi ég láta þær í té _ og að brennifórnum er þér ekkert yndi.

19 Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.

20 Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar, reis múra Jerúsalem!

21 Þá munt þú hafa þóknun á réttum fórnum, á brennifórn og alfórn, þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.

52 Til söngstjórans. Maskíl eftir Davíð,

þá er Dóeg Edómíti kom og sagði Sál frá og mælti til hans: Davíð er kominn í hús Ahímeleks.

Hví stærir þú þig af vonskunni, harðstjóri? Miskunn Guðs varir alla daga!

Tunga þín býr yfir skaðræði, eins og beittur rakhnífur, þú svikaforkur!

Þú elskar illt meir en gott, lygi fremur en sannsögli. [Sela]

Þú elskar hvert skaðræðisorð, þú fláráða tunga!

Því mun og Guð brjóta þig niður fyrir fullt og allt, hrífa þig burt og draga þig út úr tjaldi þínu og uppræta þig úr landi lifenda. [Sela]

Hinir réttlátu munu sjá það og óttast, og þeir munu hlæja að honum:

"Þetta er maðurinn, sem ekki gjörði Guð að vernd sinni, heldur treysti á hin miklu auðæfi sín og þrjóskaðist í illsku sinni."

10 En ég er sem grænt olíutré í húsi Guðs, treysti á Guðs náð um aldur og ævi.

11 Ég vil vegsama þig að eilífu, því að þú hefir því til vegar komið, kunngjöra fyrir augum þinna trúuðu, að nafn þitt sé gott.

53 Til söngstjórans. Með makalatlagi. Davíðs-maskíl.

Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Enginn Guð er til!" Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Guð lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er, ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Guð?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, þar sem ekkert er að óttast, því að Guð tvístrar beinum þeirra, er setja herbúðir móti þér. Þú lætur þá verða til skammar, því að Guð hefir hafnað þeim.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Guð snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna, Ísrael gleðjast.

Fyrir því hefur þú, maður, sem dæmir, hver sem þú ert, enga afsökun. Um leið og þú dæmir annan, dæmir þú sjálfan þig, því að þú, sem dæmir, fremur hið sama.

Vér vitum, að dómur Guðs er sannarlega yfir þeim er slíkt fremja.

En hugsar þú það, maður, þú sem dæmir þá er slíkt fremja og gjörir sjálfur hið sama, að þú fáir umflúið dóm Guðs?

Eða lítilsvirðir þú ríkdóm gæsku hans og umburðarlyndis og langlyndis? Veist þú ekki, að gæska Guðs vill leiða þig til iðrunar?

Með harðúð þinni og iðrunarlausa hjarta safnar þú sjálfum þér reiði á reiðidegi, er réttlátur dómur Guðs verður opinber.

Hann mun gjalda sérhverjum eftir verkum hans:

Þeim eilíft líf, sem með staðfestu í góðu verki leita vegsemdar, heiðurs og ódauðleika,

en þeim reiði og óvild, sem leiðast af eigingirni og óhlýðnast sannleikanum, en hlýðnast ranglætinu.

Þrenging og angist kemur yfir sérhverja mannssál, er illt fremur, yfir Gyðinginn fyrst, en einnig hinn gríska.

10 En vegsemd, heiður og frið hlýtur sérhver sá er gjörir hið góða, Gyðingurinn fyrst, en einnig hinn gríski.

11 Því að Guð fer ekki í manngreinarálit.

12 Allir þeir, sem syndgað hafa án lögmáls, munu og án lögmáls tortímast, og allir þeir, sem syndgað hafa undir lögmáli, munu dæmast af lögmáli.

13 Og ekki eru heyrendur lögmálsins réttlátir fyrir Guði, heldur munu gjörendur lögmálsins réttlættir verða.

14 Þegar heiðingjar, sem hafa ekki lögmál, gjöra að eðlisboði það sem lögmálið býður, þá eru þeir, þótt þeir hafi ekki neitt lögmál, sjálfum sér lögmál.

15 Þeir sýna, að krafa lögmálsins er rituð í hjörtum þeirra, með því að samviska þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra, sem ýmist ásaka þá eða afsaka.

16 Það verður á þeim degi, er Guð, samkvæmt fagnaðarerindi mínu, er ég fékk fyrir Jesú Krist, dæmir hið dulda hjá mönnunum.

17 En nú ert þú Gyðingur að nafni og styðst við lögmál og ert hreykinn af Guði.

18 Þú þekkir vilja hans og kannt að meta rétt það, sem máli skiptir, þar eð lögmálið fræðir þig.

19 Þú treystir sjálfum þér til að vera leiðtogi blindra, ljós þeirra sem eru í myrkri,

20 kennari fávísra, fræðari óvita, þar sem þú hefur þekkinguna og sannleikann skýrum stöfum í lögmálinu.

21 Þú sem þannig fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Prédikar þú, að ekki skuli stela, og stelur þó?

22 Segir þú, að ekki skuli drýgja hór, og drýgir þó hór? Hefur þú andstyggð á skurðgoðum og rænir þó helgidóma?

23 Hrósar þú þér af lögmáli, og óvirðir þó Guð með því að brjóta lögmálið?

24 Svo er sem ritað er: "Nafn Guðs verður yðar vegna fyrir lasti meðal heiðingjanna."

25 Umskurn er gagnleg ef þú heldur lögmálið, en ef þú brýtur lögmálið, er umskurn þín orðin að engu.

26 Ef því óumskorinn maður fer eftir kröfum lögmálsins, mun hann þá ekki metinn sem umskorinn væri?

27 Og mun þá ekki sá, sem er óumskorinn og heldur lögmálið, dæma þig, sem þrátt fyrir bókstaf og umskurn brýtur lögmálið?

28 Ekki er sá Gyðingur, sem er það hið ytra, og ekki það umskurn, sem er það hið ytra á holdinu.

29 En sá er Gyðingur, sem er það hið innra, og umskurnin er umskurn hjartans í anda, en ekki í bókstaf. Lofstír hans er ekki af mönnum, heldur frá Guði.