Add parallel Print Page Options

22 Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður, vinsæld er betri en silfur og gull.

Ríkur og fátækur hittast, Drottinn skóp þá alla saman.

Vitur maður sér ógæfuna og felur sig, en einfeldningarnir halda áfram og fá að kenna á því.

Laun auðmýktar, ótta Drottins, eru auður, heiður og líf.

Þyrnar, snörur, eru á vegi hins undirförula, sá sem varðveitir líf sitt, kemur ekki nærri þeim.

Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda, og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.

Ríkur maður drottnar yfir fátækum, og lánþeginn verður þræll lánsalans.

Sá sem ranglæti sáir, uppsker óhamingju, og sproti heiftar hans verður að engu.

Sá sem er góðgjarn, verður blessaður, því að hann gefur hinum fátæka af brauði sínu.

10 Rek þú spottarann burt, þá fer deilan burt, og þá linnir þrætu og smán.

11 Drottinn elskar hjartahreinan, konungurinn er vinur þess, sem hefir yndisþokka á vörum sér.

12 Augu Drottins varðveita þekkinguna, en orðum svikarans kollvarpar hann.

13 Letinginn segir: "Ljón er úti fyrir, ég kynni að verða drepinn úti á götunni."

14 Djúp gröf er munnur léttúðarkvenna, sá sem verður fyrir reiði Drottins, fellur í hana.

15 Ef fíflska situr föst í hjarta sveinsins, þá mun vöndur agans koma henni burt þaðan.

16 Að kúga fátækan eykur efni hans, að gefa ríkum manni verður til þess eins að gjöra hann snauðan.

17 Hneig eyra þitt og heyr orð hinna vitru, og snú athygli þinni að kenning minni,

18 því að það er fagurt, ef þú geymir þau í brjósti þér, ef þau eru öll til taks á vörum þínum.

19 Til þess að traust þitt sé á Drottni, fræði ég þig í dag, já þig.

20 Vissulega skrifa ég kjarnyrði handa þér, með heilræðum og fræðslu,

21 til þess að ég kunngjöri þér sannleika, áreiðanleg orð, svo að þú flytjir þeim áreiðanleg orð, er senda þig.

22 Ræn eigi hinn lítilmótlega, af því að hann er lítilmótlegur, og knosa eigi hinn volaða í borgarhliðinu,

23 því að Drottinn mun flytja mál þeirra og ræna þá lífinu, er þá ræna.

24 Legg eigi lag þitt við reiðigjarnan mann og haf eigi umgengni við fauta,

25 til þess að þú venjist eigi á háttsemi hans og sækir snöru fyrir líf þitt.

26 Ver þú ekki meðal þeirra, er ganga til handsala, meðal þeirra, er ganga í ábyrgð fyrir skuldum,

27 því þegar þú ekkert hefir að borga með, viltu þá láta taka sængina undan þér?

28 Fær þú eigi úr stað hin fornu landamerki, þau er feður þínir hafa sett.

29 Sjáir þú mann vel færan í verki sínu, hann getur boðið konungum þjónustu sína, eigi mun hann bjóða sig ótignum mönnum.

23 Þegar þú situr til borðs með valdsherra, þá gæt þess vel, hvern þú hefir fyrir framan þig,

og set þér hníf á barka, ef þú ert matmaður.

Lát þig ekki langa í kræsingar hans, því að þær eru svikul fæða.

Streist þú ekki við að verða ríkur, hættu að verja viti þínu til þess.

Hvort skulu augu þín hvarfla til auðsins, sem er svo stopull? Því að sannlega gjörir hann sér vængi eins og örn, sem flýgur til himins.

Et eigi brauð hjá nískum manni og lát þig ekki langa í kræsingar hans,

því að hann er eins og maður, sem reiknar með sjálfum sér. "Et og drekk!" segir hann við þig, en hjarta hans er eigi með þér.

Bitanum, sem þú hefir etið, verður þú að æla upp aftur, og blíðmælum þínum hefir þú á glæ kastað.

Tala þú eigi fyrir eyrum heimskingjans, því að hann fyrirlítur hyggindi ræðu þinnar.

10 Fær þú eigi úr stað landamerki ekkjunnar og gakk þú eigi inn á akra munaðarleysingjanna,

11 því að lausnari þeirra er sterkur _ hann mun flytja mál þeirra gegn þér.

12 Snú þú hjarta þínu að umvöndun og eyrum þínum að vísdómsorðum.

13 Spara eigi aga við sveininn, því ekki deyr hann, þótt þú sláir hann með vendinum.

14 Þú slær hann að sönnu með vendinum, en þú frelsar líf hans frá Helju.

15 Son minn, þegar hjarta þitt verður viturt, þá gleðst ég líka í hjarta mínu,

16 og nýru mín fagna, er varir þínar mæla það sem rétt er.

17 Lát eigi hjarta þitt öfunda syndara, heldur ástunda guðsótta á degi hverjum,

18 því að vissulega er enn framtíð fyrir hendi, og von þín mun eigi að engu verða.

19 Heyr þú, son minn, og ver vitur og stýr hjarta þínu rétta leið.

20 Ver þú ekki með drykkjurútum, með þeim, sem hvoma í sig kjöt,

21 því að drykkjurútar og mathákar verða snauðir, og svefnmók klæðir í tötra.

22 Hlýð þú föður þínum, sem hefir getið þig, og fyrirlít ekki móður þína, þótt hún sé orðin gömul.

23 Kaup þú sannleika, og sel hann ekki, visku, aga og hyggindi.

24 Faðir réttláts manns fagnar, og sá sem gat vitran son, gleðst af honum.

25 Gleðjist faðir þinn og móðir þín og fagni hún, sem fæddi þig.

26 Son minn, gef mér hjarta þitt, og lát vegu mína vera þér geðfellda.

27 Því að skækja er djúp gröf og léttúðardrós þröngur pyttur.

28 Já, hún liggur í leyni eins og ræningi og fjölgar hinum ótrúu meðal mannanna.

29 Hver æjar? hver veinar? hver á í deilum? hver kvartar? hver fær sár að þarflausu? hver rauð augu?

30 Þeir sem sitja við vín fram á nætur, þeir sem koma saman til að bergja á krydduðum drykkjum.

31 Horf þú ekki á vínið, hve rautt það er, hversu það glóir í bikarnum og rennur ljúflega niður.

32 Að síðustu bítur það sem höggormur og spýtir eitri sem naðra.

33 Augu þín munu sjá kynlega hluti, og hjarta þitt mun mæla fláræði.

34 Og þú munt vera eins og sá, sem liggur úti í miðju hafi, já, eins og sá, er liggur efst uppi á siglutré.

35 "Þeir hafa slegið mig, ég kenndi ekkert til, þeir hafa barið mig, ég varð þess ekki var. Hvenær mun ég vakna? Ég vil meira vín!"

24 Öfunda ekki vonda menn og lát þig ekki langa til að vera með þeim,

því að hjarta þeirra býr yfir ofríkisverkum, og varir þeirra mæla ógæfu.

Fyrir speki verður hús reist, og fyrir hyggni verður það staðfast,

fyrir þekking fyllast forðabúrin alls konar dýrum og yndislegum fjármunum.

Vitur maður er betri en sterkur og fróður maður betri en aflmikill,

því að holl ráð skalt þú hafa, er þú heyr stríð, og þar sem margir ráðgjafar eru, fer allt vel.

Viskan er afglapanum ofviða, í borgarhliðinu lýkur hann ekki upp munni sínum.

Þann sem leggur stund á að gjöra illt, kalla menn varmenni.

Syndin er fíflslegt fyrirtæki, og spottarinn er mönnum andstyggð.

10 Látir þú hugfallast á neyðarinnar degi, þá er máttur þinn lítill.

11 Frelsaðu þá, sem leiddir eru fram til lífláts, og þyrm þeim, sem ganga skjögrandi að höggstokknum.

12 Segir þú: "Vér vissum það eigi," _ sá sem vegur hjörtun, hann verður sannarlega var við það, og sá sem vakir yfir sálu þinni, hann veit það og mun gjalda manninum eftir verkum hans.

13 Et þú hunang, son minn, því að það er gott, og hunangsseimur er gómi þínum sætur.

14 Nem á sama hátt speki fyrir sálu þína, finnir þú hana, er framtíð fyrir hendi, og von þín mun eigi að engu verða.

15 Sit eigi, þú hinn óguðlegi, um bústað hins réttláta og eyðilegg ekki heimkynni hans,

16 því að sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur aftur upp, en óguðlegir steypast í ógæfu.

17 Gleð þig eigi yfir falli óvinar þíns, og hjarta þitt fagni eigi yfir því að hann steypist,

18 svo að Drottinn sjái það ekki og honum mislíki, og hann snúi reiði sinni frá honum til þín.

19 Reiðst ekki vegna illgjörðamanna, öfunda eigi óguðlega,

20 því að vondur maður á enga framtíð fyrir höndum, á lampa óguðlegra slokknar.

21 Son minn, óttastu Drottin og konunginn, samlaga þig ekki óróaseggjum,

22 því að ógæfa þeirra ríður að þegar minnst varir, og ófarir beggja _ hver veit um þær?

23 Þessir orðskviðir eru líka eftir spekinga. Hlutdrægni í dómi er ljót.

24 Þeim sem segir við hinn seka: "Þú hefir rétt fyrir þér!" honum formæla menn, honum bölvar fólk.

25 En þeim sem hegna eins og ber, mun vel vegna, yfir þá kemur ríkuleg blessun.

26 Sá kyssir á varirnar, sem veitir rétt svör.

27 Annastu verk þitt utan húss og ljúk því á akrinum, síðan getur þú byggt hús þitt.

28 Vertu eigi vottur gegn náunga þínum að ástæðulausu, eða mundir þú vilja svíkja með vörum þínum?

29 Seg þú ekki: "Eins og hann gjörði mér, eins ætla ég honum að gjöra, ég ætla að endurgjalda manninum eftir verkum hans!"

30 Mér varð gengið fram hjá akri letingja nokkurs og fram hjá víngarði óviturs manns.

31 Og sjá, hann var allur vaxinn klungrum, hann var alþakinn netlum, og steingarðurinn umhverfis hann var hruninn.

32 En ég varð þess var, veitti því athygli, sá það og lét mér það að kenningu verða:

33 Sofa ögn enn, blunda ögn enn, leggja saman hendurnar ögn enn til að hvílast,

34 þá kemur fátæktin yfir þig eins og ræningi og skorturinn eins og vopnaður maður.

En svo viljum vér, bræður, skýra yður frá þeirri náð, sem Guð hefur sýnt söfnuðunum í Makedóníu.

Þrátt fyrir þær miklu þrengingar, sem þeir hafa orðið að reyna, hefur ríkdómur gleði þeirra og hin djúpa fátækt leitt í ljós gnægð örlætis hjá þeim.

Ég get vottað það, hversu þeir hafa gefið eftir megni, já, um megn fram. Af eigin hvötum

lögðu þeir fast að oss og báðu um að mega vera í félagi við oss um samskotin til hinna heilögu.

Og þeir gjörðu betur en vér höfðum vonað, þeir gáfu sjálfa sig, fyrst og fremst Drottni, og síðan oss, að vilja Guðs.

Það varð til þess, að vér báðum Títus, að hann skyldi og leiða til lykta hjá yður þessa líknarþjónustu, eins og hann hefur byrjað.

Þér eruð auðugir í öllu, í trú, í orði og þekkingu, í allri alúð og í elsku yðar sem vér höfum vakið. Þannig skuluð þér og vera auðugir í þessari líknarþjónustu.

Ég segi þetta ekki sem skipun, heldur bendi ég á áhuga annarra til þess að reyna, hvort kærleiki yðar er einnig einlægur.

Þér þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gjörðist fátækur yðar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þér auðguðust af fátækt hans.

10 Og ráð vil ég gefa í þessu máli, því að þetta er yður til gagns, yður sem í fyrra voruð á undan öðrum, ekki aðeins í verkinu, heldur og í viljanum.

11 En fullgjörið nú og verkið. Þér voruð fúsir að hefjast handa, fullgjörið það nú eftir því sem efnin leyfa.

12 Því að ef viljinn er góður, þá er hver þóknanlegur með það, sem hann á til, og ekki farið fram á það, sem hann á ekki til.

13 Ekki svo að skilja, að öðrum sé hlíft, en þrengt sé að yður, heldur er það til þess að jöfnuður verði. Nú sem stendur bætir gnægð yðar úr skorti hinna,

14 til þess að einnig gnægð hinna geti bætt úr skorti yðar og þannig verði jöfnuður,

15 eins og skrifað er: Sá, sem miklu safnaði, hafði ekki afgangs, og þann skorti ekki, sem litlu safnaði.

16 En þökk sé Guði, sem vakti í hjarta Títusar þessa sömu umhyggju fyrir yður.

17 Reyndar fékk hann áskorun frá mér, en áhugi hans var svo mikill, að hann fór til yðar af eigin hvötum.

18 En með honum sendum vér þann bróður, sem orð fer af í öllum söfnuðunum fyrir starf hans í þjónustu fagnaðarerindisins.

19 Og ekki það eitt, heldur er hann og af söfnuðunum kjörinn samferðamaður vor með líknargjöf þessa, sem vér höfum unnið að, Drottni til dýrðar og til að sýna fúsleika vorn.

20 Vér höfum gjört þessa ráðstöfun til þess að enginn geti lastað meðferð vora á hinni miklu gjöf, sem vér höfum gengist fyrir.

21 Því að vér ástundum það sem gott er, ekki aðeins fyrir Drottni, heldur og fyrir mönnum.

22 Með þeim sendum vér annan bróður vorn, sem vér oftsinnis og í mörgu höfum reynt kostgæfinn, en nú miklu fremur en ella vegna hans mikla trausts til yðar.

23 Títus er félagi minn og starfsbróðir hjá yður, og bræður vorir eru sendiboðar safnaðanna og Kristi til vegsemdar.

24 Sýnið því söfnuðunum merki elsku yðar, svo að það verði þeim ljóst, að það var ekki að ástæðulausu, að vér hrósuðum yður við þá.