Add parallel Print Page Options

Þá leiddi andinn Jesú út í óbyggðina, að hans yrði freistað af djöflinum.

Þar fastaði hann fjörutíu daga og fjörutíu nætur og var þá orðinn hungraður.

Þá kom freistarinn og sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú, að steinar þessir verði að brauðum."

Jesús svaraði: "Ritað er: ,Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni."`

Þá tekur djöfullinn hann með sér í borgina helgu, setur hann á brún musterisins

og segir við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér ofan, því að ritað er: Hann mun fela þig englum sínum, og þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini."

Jesús svaraði honum: "Aftur er ritað: ,Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns."`

Enn tekur djöfullinn hann með sér upp á ofurhátt fjall, sýnir honum öll ríki heims og dýrð þeirra

og segir: "Allt þetta mun ég gefa þér, ef þú fellur fram og tilbiður mig."

10 En Jesús sagði við hann: "Vík brott, Satan! Ritað er: ,Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum."`

11 Þá fór djöfullinn frá Jesú. Og englar komu og þjónuðu honum.

12 Þegar hann heyrði, að Jóhannes hefði verið tekinn höndum, hélt hann til Galíleu.

13 Hann fór frá Nasaret og settist að í Kapernaum við vatnið í byggðum Sebúlons og Naftalí.

14 Þannig rættist það, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns:

15 Sebúlonsland og Naftalíland við vatnið, landið handan Jórdanar, Galílea heiðingjanna.

16 Sú þjóð, sem í myrkri sat, sá mikið ljós. Þeim er sátu í skuggalandi dauðans, er ljós upp runnið.

17 Upp frá þessu tekur Jesús að prédika og segja: "Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd."

18 Hann gekk með Galíleuvatni og sá tvo bræður, Símon, sem kallaður var Pétur, og Andrés, bróður hans, vera að kasta neti í vatnið, en þeir voru fiskimenn.

19 Hann sagði við þá: "Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða."

20 Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum.

21 Hann gekk áfram þaðan og sá tvo aðra bræður, Jakob Sebedeusson og Jóhannes, bróður hans. Þeir voru í bátnum með Sebedeusi, föður sínum, að búa net sín. Jesús kallaði þá,

22 og þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum.

23 Hann fór nú um alla Galíleu, kenndi í samkundum þeirra, prédikaði fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi meðal lýðsins.

24 Orðstír hans barst um allt Sýrland, og menn færðu til hans alla, sem þjáðust af ýmsum sjúkdómum og kvölum, voru haldnir illum öndum, tunglsjúka menn og lama. Og hann læknaði þá.

25 Mikill mannfjöldi fylgdi honum úr Galíleu, Dekapólis, Jerúsalem, Júdeu og landinu handan Jórdanar.

En Jesús sneri aftur frá Jórdan, fullur af heilögum anda. Leiddi andinn hann um óbyggðina

fjörutíu daga, en djöfullinn freistaði hans. Ekki neytti hann neins þá daga, og er þeir voru liðnir, var hann hungraður.

En djöfullinn sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú steini þessum, að hann verði að brauði."

Og Jesús svaraði honum: "Ritað er: ,Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði."`

Þá fór hann með hann upp og sýndi honum á augabragði öll ríki veraldar.

Og djöfullinn sagði við hann: "Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess, því að mér er það í hendur fengið, og ég get gefið það hverjum sem ég vil.

Ef þú fellur fram og tilbiður mig, skal það allt verða þitt."

Jesús svaraði honum: "Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum."

Þá fór hann með hann til Jerúsalem, setti hann á brún musterisins og sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér hér ofan,

10 því að ritað er: Hann mun fela englum sínum að gæta þín

11 og: þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini."

12 Jesús svaraði honum: "Sagt hefur verið: ,Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns."`

13 Og er djöfullinn hafði lokið allri freistni, vék hann frá honum að sinni.

14 En Jesús sneri aftur til Galíleu í krafti andans, og fóru fregnir af honum um allt nágrennið.

15 Hann kenndi í samkundum þeirra, og lofuðu hann allir.

16 Hann kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa.

17 Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn, þar sem ritað er:

18 Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa

19 og kunngjöra náðarár Drottins.

20 Síðan lukti hann aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður, en augu allra í samkundunni hvíldu á honum.

21 Hann tók þá að tala til þeirra: "Í dag hefur rætst þessi ritning í áheyrn yðar."

22 Og allir lofuðu hann og undruðust þau hugnæmu orð, sem fram gengu af munni hans, og sögðu: "Er hann ekki sonur Jósefs?"

23 En hann sagði við þá: "Eflaust munuð þér minna mig á orðtakið: ,Læknir, lækna sjálfan þig!` Vér höfum heyrt um allt, sem gjörst hefur í Kapernaum. Gjör nú hið sama hér í ættborg þinni."

24 Enn sagði hann: "Sannlega segi ég yður, engum spámanni er vel tekið í landi sínu.

25 En satt segi ég yður, að margar voru ekkjur í Ísrael á dögum Elía, þegar himinninn var luktur í þrjú ár og sex mánuði, og mikið hungur í öllu landinu,

26 og þó var Elía til engrar þeirra sendur, heldur aðeins til ekkju í Sarepta í Sídonlandi.

27 Og margir voru líkþráir í Ísrael á dögum Elísa spámanns, og enginn þeirra var hreinsaður, heldur aðeins Naaman Sýrlendingur."

28 Allir í samkunduhúsinu fylltust reiði, er þeir heyrðu þetta,

29 spruttu upp, hröktu hann út úr borginni og fóru með hann fram á brún fjalls þess, sem borg þeirra var reist á, til þess að hrinda honum þar ofan.

30 En hann gekk gegnum miðja mannþröngina og fór leiðar sinnar.

31 Hann kom nú ofan til Kapernaum, borgar í Galíleu, og kenndi þeim á hvíldardegi.

32 Undruðust menn mjög kenningu hans, því að vald fylgdi orðum hans.

33 Í samkunduhúsinu var maður nokkur, er haldinn var óhreinum, illum anda. Hann æpti hárri röddu:

34 "Æ, hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs."

35 Jesús hastaði þá á hann og mælti: "Þegi þú, og far út af honum." En illi andinn slengdi honum fram fyrir þá og fór út af honum, en varð honum ekki að meini.

36 Felmtri sló á alla, og sögðu þeir hver við annan: "Hvaða orð er þetta? Með valdi og krafti skipar hann óhreinum öndum, og þeir fara."

37 Og orðstír hans barst út til allra staða þar í grennd.

38 Úr samkundunni fór hann í hús Símonar. En tengdamóðir Símonar var altekin sótthita, og báðu þeir hann að hjálpa henni.

39 Hann gekk að, laut yfir hana og hastaði á sótthitann, og fór hann úr henni. En hún reis jafnskjótt á fætur og gekk þeim fyrir beina.

40 Um sólsetur komu allir þeir, er höfðu á sínum vegum sjúklinga haldna ýmsum sjúkdómum, og færðu þá til hans. En hann lagði hendur yfir hvern þeirra og læknaði þá.

41 Þá fóru og illir andar út af mörgum og æptu: "Þú ert sonur Guðs." En hann hastaði á þá og bannaði þeim að tala, því að þeir vissu, að hann var Kristur.

42 Þegar dagur rann, gekk hann burt á óbyggðan stað, en mannfjöldinn leitaði hans. Þeir fundu hann og vildu aftra því, að hann færi frá þeim.

43 En hann sagði við þá: "Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur."

44 Og hann prédikaði í samkundunum í Júdeu.

Nú bar svo til, að hann stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð.

Þá sá hann tvo báta við vatnið, en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín.

Hann fór út í þann bátinn, er Símon átti, og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.

Þegar hann hafði lokið ræðu sinni, sagði hann við Símon: "Legg þú út á djúpið, og leggið net yðar til fiskjar."

Símon svaraði: "Meistari, vér höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið, en fyrst þú segir það, skal ég leggja netin."

Nú gjörðu þeir svo, og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska, en net þeirra tóku að rifna.

Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana, svo að nær voru sokknir.

Þegar Símon Pétur sá þetta, féll hann fyrir kné Jesú og sagði: "Far þú frá mér, herra, því að ég er syndugur maður."

En felmtur kom á hann og alla þá, sem með honum voru, vegna fiskaflans, er þeir höfðu fengið.

10 Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: "Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða."

11 Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.

12 Svo bar við, er hann var í einni borginni, að þar var maður altekinn líkþrá. Hann sá Jesú, féll fram á ásjónu sína og bað hann: "Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig."

13 Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: "Ég vil, verð þú hreinn!" Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin.

14 Og hann bauð honum að segja þetta engum. "En far þú," sagði hann, "sýn þig prestinum, og fórna fyrir hreinsun þína, eins og Móse bauð, þeim til vitnisburðar."

15 En fregnin um hann breiddist út því meir, og menn komu hópum saman til að hlýða á hann og læknast af meinum sínum.

16 En hann dró sig einatt í hlé til óbyggðra staða og var þar á bæn.

17 Dag nokkurn var hann að kenna. Þar sátu farísear og lögmálskennendur, komnir úr hverju þorpi í Galíleu og Júdeu og frá Jerúsalem, og kraftur Drottins var með honum til þess að lækna.

18 Komu þá menn með lama mann í rekkju og reyndu að bera hann inn og leggja hann fyrir framan Jesú.

19 En vegna mannfjöldans sáu þeir engin ráð til að komast inn með hann og fóru því upp á þak og létu hann síga í rekkjunni niður um helluþekjuna beint fram fyrir Jesú.

20 Og er hann sá trú þeirra, sagði hann: "Maður, syndir þínar eru þér fyrirgefnar."

21 Þá tóku fræðimennirnir og farísearnir að hugsa með sér: "Hver er sá, er fer með slíka guðlöstun? Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?"

22 En Jesús skynjaði gjörla hugsanir þeirra og sagði við þá: "Hvað hugsið þér í hjörtum yðar?

23 Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru þér fyrirgefnar,` eða segja: ,Statt upp og gakk`?

24 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu til að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér:" _ og nú talar hann við lama manninn _ "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín."

25 Jafnskjótt stóð hann upp frammi fyrir þeim, tók það, sem hann hafði legið á, fór heim til sín og lofaði Guð.

26 En allir voru furðu lostnir og lofuðu Guð. Og þeir urðu ótta slegnir og sögðu: "Óskiljanlegt er það, sem vér höfum séð í dag."

27 Eftir þetta fór hann út. Þá sá hann tollheimtumann, Leví að nafni, sitja hjá tollbúðinni og sagði við hann: "Fylg þú mér!"

28 Og hann stóð upp, yfirgaf allt og fylgdi honum.

29 Leví bjó honum veislu mikla í húsi sínu, og þar sat að borði með þeim mikill fjöldi tollheimtumanna og annarra.

30 En farísearnir og fræðimenn þeirra vönduðu um við lærisveina hans og sögðu: "Hvers vegna etið þér og drekkið með tollheimtumönnum og bersyndugum?"

31 Og Jesús svaraði þeim: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir sem sjúkir eru.

32 Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara til iðrunar."

33 En þeir sögðu við hann: "Lærisveinar Jóhannesar fasta oft og fara með bænir og eins lærisveinar farísea, en þínir eta og drekka."

34 Jesús sagði við þá: "Hvort getið þér ætlað brúðkaupsgestum að fasta, meðan brúðguminn er hjá þeim?

35 En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta á þeim dögum."

36 Hann sagði þeim einnig líkingu: "Enginn rífur bót af nýju fati og lætur á gamalt fat, því að bæði rífur hann þá nýja fatið og bótin af því hæfir ekki hinu gamla.

37 Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir nýja vínið belgina og fer niður, en belgirnir ónýtast.

38 Nýtt vín ber að láta á nýja belgi.

39 Og enginn, sem drukkið hefur gamalt vín, vill nýtt, því að hann segir: ,Hið gamla er gott."`

15 Jóhannes vitnar um hann og hrópar: "Þetta er sá sem ég átti við, þegar ég sagði: Sá sem kemur eftir mig, var á undan mér, enda fyrri en ég."

16 Af gnægð hans höfum vér allir þegið, náð á náð ofan.

17 Lögmálið var gefið fyrir Móse, en náðin og sannleikurinn kom fyrir Jesú Krist.

18 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann.

19 Þessi er vitnisburður Jóhannesar, þegar Gyðingar sendu til hans presta og levíta frá Jerúsalem að spyrja hann: "Hver ert þú?"

20 Hann svaraði ótvírætt og játaði: "Ekki er ég Kristur."

21 Þeir spurðu hann: "Hvað þá? Ertu Elía?" Hann svarar: "Ekki er ég hann." "Ertu spámaðurinn?" Hann kvað nei við.

22 Þá sögðu þeir við hann: "Hver ertu? Vér verðum að svara þeim, er sendu oss. Hvað segir þú um sjálfan þig?"

23 Hann sagði: "Ég er rödd hrópanda í eyðimörk: Gjörið beinan veg Drottins, eins og Jesaja spámaður segir."

24 Sendir voru menn af flokki farísea.

25 Þeir spurðu hann: "Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía né spámaðurinn?"

26 Jóhannes svaraði: "Ég skíri með vatni. Mitt á meðal yðar stendur sá, sem þér þekkið ekki,

27 hann, sem kemur eftir mig, og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa."

28 Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.

29 Daginn eftir sér hann Jesú koma til sín og segir: "Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.

30 Þar er sá er ég sagði um: ,Eftir mig kemur maður, sem var á undan mér, því hann er fyrri en ég.`

31 Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni, að hann opinberist Ísrael."

32 Og Jóhannes vitnaði: "Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum.

33 Sjálfur þekkti ég hann ekki, en sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ,Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.`

34 Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs."

35 Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans.

36 Hann sér Jesú á gangi og segir: "Sjá, Guðs lamb."

37 Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú.

38 Jesús sneri sér við, sá þá koma á eftir sér og sagði við þá: "Hvers leitið þið?" Þeir svara: "Rabbí (það þýðir meistari), hvar dvelst þú?"

39 Hann segir: "Komið og sjáið." Þeir komu og sáu, hvar hann dvaldist, og voru hjá honum þann dag. Þetta var síðdegis.

40 Annar þessara tveggja, sem heyrðu orð Jóhannesar og fóru á eftir Jesú, var Andrés, bróðir Símonar Péturs.

41 Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: "Við höfum fundið Messías!" (Messías þýðir Kristur, Hinn smurði.)

42 Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: "Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas" (Pétur, það þýðir klettur).

43 Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filippus og sagði við hann: "Fylg þú mér!"

44 Filippus var frá Betsaídu, sömu borg og Andrés og Pétur.

45 Filippus fann Natanael og sagði við hann: "Vér höfum fundið þann, sem Móse skrifar um í lögmálinu og spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs."

46 Natanael sagði: "Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?" Filippus svaraði: "Kom þú og sjá."

47 Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: "Hér er sannur Ísraelíti, sem engin svik eru í."

48 Natanael spyr: "Hvaðan þekkir þú mig?" Jesús svarar: "Ég sá þig undir fíkjutrénu, áður en Filippus kallaði á þig."

49 Þá segir Natanael: "Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels."

50 Jesús spyr hann: "Trúir þú, af því að ég sagði við þig: ,Ég sá þig undir fíkjutrénu`? Þú munt sjá það, sem þessu er meira."

51 Og hann segir við hann: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn."

Read full chapter