Add parallel Print Page Options

23 Þá talaði Jesús til mannfjöldans og lærisveina sinna:

"Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear.

Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.

Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar, en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri.

Öll sín verk gjöra þeir til að sýnast fyrir mönnum, þeir breikka minnisborða sína og stækka skúfana.

Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum,

láta heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum.

En þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður.

Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum.

10 Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur.

11 Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar.

12 Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.

13 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast. [

14 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér etið upp heimili ekkna og flytjið langar bænir að yfirskini. Þér munuð fá því þyngri dóm.]

15 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér farið um láð og lög til að snúa einum til yðar trúar, og þegar það tekst, gjörið þér hann hálfu verra vítisbarn en þér sjálfir eruð.

16 Vei yður, blindir leiðtogar! Þér segið: ,Ef einhver sver við musterið, þá er það ógilt, en sverji menn við gullið í musterinu, þá er það gildur eiður.`

17 Blindu heimskingjar, hvort er meira gullið eða musterið, sem helgar gullið?

18 Þér segið: ,Ef einhver sver við altarið, þá er það ógilt, en sverji menn við fórnina, sem á því er, þá er það gildur eiður.`

19 Blindu menn, hvort er meira fórnin eða altarið, sem helgar fórnina?

20 Sá sem sver við altarið, sver við það og allt, sem á því er.

21 Sá sem sver við musterið, sver við það og við þann, sem í því býr.

22 Og sá sem sver við himininn, sver við hásæti Guðs og við þann, sem í því situr.

23 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.

24 Blindu leiðtogar, þér síið mýfluguna, en svelgið úlfaldann!

25 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hreinsið bikarinn og diskinn utan, en innan eru þeir fullir yfirgangs og óhófs.

26 Blindi farísei, hreinsaðu fyrst bikarinn innan, að hann verði líka hreinn að utan.

27 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra.

28 Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.

29 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hlaðið upp grafir spámannanna og skreytið leiði hinna réttlátu

30 og segið: Ef vér hefðum lifað á dögum feðra vorra, hefðum vér ekki átt hlut með þeim í lífláti spámannanna.

31 Þannig vitnið þér sjálfir um yður, að þér eruð synir þeirra, sem myrtu spámennina.

32 Nú skuluð þér fylla mæli feðra yðar.

33 Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm?

34 Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg.

35 Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar, sem þér drápuð milli musterisins og altarisins.

36 Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta koma yfir þessa kynslóð.

37 Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.

38 Hús yðar verður í eyði látið.

39 Ég segi yður: Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: ,Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins."`

24 Jesús gekk út úr helgidóminum og hélt brott. Þá komu lærisveinar hans og vildu sýna honum byggingar helgidómsins.

Hann sagði við þá: "Þér sjáið allt þetta? Sannlega segi ég yður, hér mun ekki eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."

Þá er hann sat á Olíufjallinu, gengu lærisveinarnir til hans og spurðu hann einslega: "Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?"

Jesús svaraði þeim: "Varist að láta nokkurn leiða yður í villu.

Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Ég er Kristur!` og marga munu þeir leiða í villu.

Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess, að skelfast ekki. Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn.

Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum.

Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.

Þá munu menn framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.

10 Margir munu þá falla frá og framselja hver annan og hata.

11 Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu.

12 Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna.

13 En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.

14 Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.

15 Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað," _ lesandinn athugi það _

16 "þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.

17 Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt.

18 Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína.

19 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum.

20 Biðjið, að flótti yðar verði ekki um vetur eða á hvíldardegi.

21 Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.

22 Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.

23 Ef einhver segir þá við yður: ,Hér er Kristur` eða ,þar`, þá trúið því ekki.

24 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra stór tákn og undur til að leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef orðið gæti.

25 Sjá, ég hef sagt yður það fyrir.

26 Ef þeir segja við yður: ,Sjá, hann er í óbyggðum,` þá farið ekki þangað. Ef þeir segja: ,Sjá, hann er í leynum,` þá trúið því ekki.

27 Eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs, svo mun verða koma Mannssonarins.

28 Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er.

29 En þegar eftir þrenging þessara daga mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast.

30 Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.

31 Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri, og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli.

32 Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd.

33 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum.

34 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.

35 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.

36 En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.

37 Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins.

38 Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina.

39 Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.

40 Þá verða tveir á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.

41 Tvær munu mala á kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin.

42 Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.

43 Það skiljið þér, að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi.

44 Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.

45 Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma?

46 Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur.

47 Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.

48 En ef illur þjónn segir í hjarta sínu: ,Húsbónda mínum dvelst,`

49 og hann tekur að berja samþjóna sína og eta og drekka með svöllurum,

50 þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, sem hann væntir ekki, á þeirri stundu, sem hann veit ekki,

51 höggva hann og láta hann fá hlut með hræsnurum. Þar verður grátur og gnístran tanna.