Add parallel Print Page Options

24 En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið.

Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni,

og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú.

Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum.

Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: "Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra?

Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu.

Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi."

Og þær minntust orða hans,

sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum.

10 Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar, sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu.

11 En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki.

12 Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar, skyggndist inn og sá þar líkklæðin ein. Fór hann heim síðan og undraðist það, sem við hafði borið.

13 Tveir þeirra fóru þann sama dag til þorps nokkurs, sem er um sextíu skeiðrúm frá Jerúsalem og heitir Emmaus.

14 Þeir ræddu sín á milli um allt þetta, sem gjörst hafði.

15 Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim.

16 En augu þeirra voru svo haldin, að þeir þekktu hann ekki.

17 Og hann sagði við þá: "Hvað er það, sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?" Þeir námu staðar, daprir í bragði,

18 og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við hann: "Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem, sem veist ekki, hvað þar hefur gjörst þessa dagana."

19 Hann spurði: "Hvað þá?" Þeir svöruðu: "Þetta um Jesú frá Nasaret, sem var spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og öllum lýð,

20 hvernig æðstu prestar og höfðingjar vorir framseldu hann til dauðadóms og krossfestu hann.

21 Vér vonuðum, að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael. En nú er þriðji dagur síðan þetta bar við.

22 Þá hafa og konur nokkrar úr vorum hóp gjört oss forviða. Þær fóru árla til grafarinnar,

23 en fundu ekki líkama hans og komu og sögðust enda hafa séð engla í sýn, er sögðu hann lifa.

24 Nokkrir þeirra, sem með oss voru, fóru til grafarinnar og fundu allt eins og konurnar höfðu sagt, en hann sáu þeir ekki."

25 Þá sagði hann við þá: "Ó, þér heimskir og tregir í hjarta til þess að trúa öllu því, sem spámennirnir hafa talað!

26 Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?"

27 Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum.

28 Þeir nálguðust nú þorpið, sem þeir ætluðu til, en hann lét sem hann vildi halda lengra.

29 Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: "Vertu hjá oss, því að kvölda tekur og degi hallar." Og hann fór inn til að vera hjá þeim.

30 Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim.

31 Þá opnuðust augu þeirra, og þeir þekktu hann, en hann hvarf þeim sjónum.

32 Og þeir sögðu hvor við annan: "Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?"

33 Þeir stóðu samstundis upp og fóru aftur til Jerúsalem. Þar fundu þeir þá ellefu og þá, er með þeim voru, saman komna,

34 og sögðu þeir: "Sannarlega er Drottinn upp risinn og hefur birst Símoni."

35 Hinir sögðu þá frá því, sem við hafði borið á veginum, og hvernig þeir höfðu þekkt hann, þegar hann braut brauðið.

36 Nú voru þeir að tala um þetta, og þá stendur hann sjálfur meðal þeirra og segir við þá: "Friður sé með yður!"

37 En þeir skelfdust og urðu hræddir og hugðust sjá anda.

38 Hann sagði við þá: "Hví eruð þér óttaslegnir og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta yðar?

39 Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur. Þreifið á mér, og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þér sjáið að ég hef."

40 Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og fætur.

41 Enn gátu þeir ekki trúað fyrir fögnuði og voru furðu lostnir. Þá sagði hann við þá: "Hafið þér hér nokkuð til matar?"

42 Þeir fengu honum stykki af steiktum fiski,

43 og hann tók það og neytti þess frammi fyrir þeim.

44 Og hann sagði við þá: "Þessi er merking orða minna, sem ég talaði við yður, meðan ég var enn meðal yðar, að rætast ætti allt það, sem um mig er ritað í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum."

45 Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar.

46 Og hann sagði við þá: "Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi,

47 og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem.

48 Þér eruð vottar þessa.

49 Sjá, ég sendi fyrirheit föður míns yfir yður, en verið þér kyrrir í borginni, uns þér íklæðist krafti frá hæðum."

50 Síðan fór hann með þá út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þá.

51 En það varð, meðan hann var að blessa þá, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins.

52 En þeir féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði.

20 Þá lét Pílatus taka Jesú og húðstrýkja hann.

Hermennirnir fléttuðu kórónu úr þyrnum og settu á höfuð honum og lögðu yfir hann purpurakápu.

Þeir gengu hver af öðrum fyrir hann og sögðu: "Sæll þú, konungur Gyðinga," og slógu hann í andlitið.

Pílatus gekk aftur út fyrir og sagði við þá: "Nú leiði ég hann út til yðar, svo að þér skiljið, að ég finn enga sök hjá honum."

Jesús kom þá út fyrir með þyrnikórónuna og í purpurakápunni. Pílatus segir við þá: "Sjáið manninn!"

Þegar æðstu prestarnir og verðirnir sáu hann, æptu þeir: "Krossfestu, krossfestu!" Pílatus sagði við þá: "Takið þér hann og krossfestið. Ég finn enga sök hjá honum."

Gyðingar svöruðu: "Vér höfum lögmál, og samkvæmt lögmálinu á hann að deyja, því hann hefur gjört sjálfan sig að Guðs syni."

Þegar Pílatus heyrði þessi orð, varð hann enn hræddari.

Hann fór aftur inn í höllina og segir við Jesú: "Hvaðan ertu?" En Jesús veitti honum ekkert svar.

10 Pílatus segir þá við hann: "Viltu ekki tala við mig? Veistu ekki, að ég hef vald til að láta þig lausan, og ég hef vald til að krossfesta þig?"

11 Jesús svaraði: "Þú hefðir ekkert vald yfir mér, ef þér væri ekki gefið það að ofan. Fyrir því ber sá þyngri sök, sem hefur selt mig þér í hendur."

12 Eftir þetta reyndi Pílatus enn að láta hann lausan. En Gyðingar æptu: "Ef þú lætur hann lausan, ert þú ekki vinur keisarans. Hver sem gjörir sjálfan sig að konungi, rís á móti keisaranum."

13 Þegar Pílatus heyrði þessi orð, leiddi hann Jesú út og settist í dómstólinn á stað þeim, sem nefnist Steinhlað, á hebresku Gabbata.

14 Þá var aðfangadagur páska, um hádegi. Hann sagði við Gyðinga: "Sjáið þar konung yðar!"

15 Þá æptu þeir: "Burt með hann! Burt með hann! Krossfestu hann!" Pílatus segir við þá: "Á ég að krossfesta konung yðar?" Æðstu prestarnir svöruðu: "Vér höfum engan konung nema keisarann."

16 Þá seldi hann þeim hann í hendur, að hann yrði krossfestur. Þeir tóku þá við Jesú.

17 Og hann bar kross sinn og fór út til staðar, sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata.

18 Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra sinn til hvorrar handar; Jesús í miðið.

19 Pílatus hafði ritað yfirskrift og sett hana á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA.

20 Margir Gyðingar lásu þessa yfirskrift, því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni, og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku.

21 Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: "Skrifaðu ekki ,konungur Gyðinga`, heldur að hann hafi sagt: ,Ég er konungur Gyðinga`."

22 Pílatus svaraði: "Það sem ég hef skrifað, það hef ég skrifað."

23 Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú, tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti, og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn, en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr.

24 Þeir sögðu því hver við annan: "Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um, hver skuli fá hann." Svo rættist ritningin: Þeir skiptu með sér klæðum mínum og köstuðu hlut um kyrtil minn. Þetta gjörðu hermennirnir.

25 En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena.

26 Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: "Kona, nú er hann sonur þinn."

27 Síðan sagði hann við lærisveininn: "Nú er hún móðir þín." Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.

28 Jesús vissi, að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann, til þess að ritningin rættist: "Mig þyrstir."

29 Þar stóð ker fullt af ediki. Þeir settu njarðarvött fylltan ediki á ísópslegg og báru að munni honum.

30 Þegar Jesús hafði fengið edikið, sagði hann: "Það er fullkomnað." Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.

31 Nú var aðfangadagur, og til þess að líkin væru ekki á krossunum hvíldardaginn, báðu Gyðingar Pílatus að láta brjóta fótleggi þeirra og taka líkin ofan, enda var mikil helgi þess hvíldardags.

32 Hermenn komu því og brutu fótleggi þeirra, sem með honum voru krossfestir, fyrst annars, svo hins.

33 Þegar þeir komu að Jesú og sáu, að hann var þegar dáinn, brutu þeir ekki fótleggi hans.

34 En einn af hermönnunum stakk spjóti sínu í síðu hans, og rann jafnskjótt út blóð og vatn.

35 Sá er séð hefur, vitnar þetta, svo að þér trúið líka og vitnisburður hans er sannur. Og hann veit, að hann segir satt.

36 Þetta varð til þess, að ritningin rættist: "Ekkert bein hans skal brotið."

37 Og enn segir önnur ritning: "Þeir munu horfa til hans, sem þeir stungu."

38 Jósef frá Arímaþeu, sem var lærisveinn Jesú, en á laun af ótta við Gyðinga, bað síðan Pílatus að mega taka ofan líkama Jesú. Pílatus leyfði það. Hann kom þá og tók ofan líkama hans.

39 Þar kom líka Nikódemus, er fyrrum hafði komið til hans um nótt, og hafði með sér blöndu af myrru og alóe, nær hundrað pundum.

40 Þeir tóku nú líkama Jesú og sveipuðu hann línblæjum með ilmjurtunum, eins og Gyðingar búa lík til greftrunar.

41 En á staðnum, þar sem hann var krossfestur, var grasgarður og í garðinum ný gröf, sem enginn hafði enn verið lagður í.

42 Þar lögðu þeir Jesú, því það var aðfangadagur Gyðinga, og gröfin var nærri.

21 Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma, að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni.

Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins, sem Jesús elskaði, og segir við þá: "Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann."

Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn, og þeir komu til grafarinnar.

Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni.

Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn.

Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar

og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað.

Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn, sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði.

Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum.

10 Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín.

11 En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina

12 og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta.

13 Þeir segja við hana: "Kona, hví grætur þú?" Hún svaraði: "Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann."

14 Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki, að það var Jesús.

15 Jesús segir við hana: "Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?" Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: "Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann."

16 Jesús segir við hana: "María!" Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: "Rabbúní!" (Rabbúní þýðir meistari.)

17 Jesús segir við hana: "Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: ,Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar."`

18 María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: "Ég hef séð Drottin." Og hún flutti þeim það, sem hann hafði sagt henni.

19 Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: "Friður sé með yður!"

20 Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir, er þeir sáu Drottin.

21 Þá sagði Jesús aftur við þá: "Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður."

22 Og er hann hafði sagt þetta, andaði hann á þá og sagði: "Meðtakið heilagan anda.

23 Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar, eru þær fyrirgefnar. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar, er þeim synjað."

24 En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim, þegar Jesús kom.

25 Hinir lærisveinarnir sögðu honum: "Vér höfum séð Drottin." En hann svaraði: "Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa."

26 Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: "Friður sé með yður!"

27 Síðan segir hann við Tómas: "Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar, og kom með hönd þína og legg í síðu mína, og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður."

28 Tómas svaraði: "Drottinn minn og Guð minn!"

29 Jesús segir við hann: "Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó."

30 Jesús gjörði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna, sem eigi eru skráð á þessa bók.

31 En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.