Add parallel Print Page Options

37 Hver er sá er talaði, og það varð, án þess að Drottinn hafi boðið það?

38 Fram gengur ekki af munni hins Hæsta bæði hamingja og óhamingja?

39 Hví andvarpar maðurinn alla ævi? Hver andvarpi yfir eigin syndum!

40 Rannsökum breytni vora og prófum og snúum oss til Drottins.

41 Fórnum hjarta voru og höndum til Guðs í himninum.

42 Vér höfum syndgað og verið óhlýðnir, þú hefir ekki fyrirgefið,

43 þú hefir hulið þig í reiði og ofsótt oss, myrt vægðarlaust,

44 þú hefir hulið þig í skýi, svo að engin bæn kemst í gegn.

45 Þú gjörðir oss að afhraki og viðbjóð mitt á meðal þjóðanna.

46 Yfir oss glenntu upp ginið allir óvinir vorir.

47 Geigur og gildra urðu hlutskipti vort, eyðing og tortíming.

48 Táralækir streyma af augum mér út af tortíming þjóðar minnar.

49 Hvíldarlaust fljóta augu mín í tárum, án þess að hlé verði á,

50 uns niður lítur og á horfir Drottinn af himnum.

51 Auga mitt veldur sál minni kvöl, vegna allra dætra borgar minnar.

52 Með ákefð eltu mig, eins og fugl, þeir er voru óvinir mínir án saka.

53 Þeir gjörðu því nær út af við mig í gryfju og köstuðu steinum á mig.

54 Vatn flóði yfir höfuð mitt, ég hugsaði: "Ég er frá."

55 Ég hrópaði á nafn þitt, Drottinn, úr hyldýpi gryfjunnar.

56 Þú heyrðir hróp mitt: "Byrg ekki eyra þitt, kom mér til fróunar, kom mér til hjálpar."

57 Þú varst nálægur, þá er ég hrópaði til þín, sagðir: "Óttastu ekki!"

58 Þú varðir, Drottinn, mál mitt, leystir líf mitt.

59 Þú hefir, Drottinn, séð undirokun mína, rétt þú hluta minn!

60 Þú hefir séð alla hefnigirni þeirra, allt ráðabrugg þeirra gegn mér,

61 þú hefir heyrt smánanir þeirra, Drottinn, allt ráðabrugg þeirra í gegn mér,

62 skraf mótstöðumanna minna og hinar stöðugu ráðagjörðir þeirra gegn mér.

63 Lít þú á, hvort sem þeir sitja eða standa, þá er ég háðkvæði þeirra.

64 Þú munt endurgjalda þeim, Drottinn, eins og þeir hafa til unnið.

65 Þú munt leggja hulu yfir hjarta þeirra, bölvan þín komi yfir þá.

66 Þú munt ofsækja þá í reiði og afmá þá undan himni Drottins.

Æ, hversu blakkt er gullið orðið, umbreyttur málmurinn dýri, æ, hversu var helgum steinum fleygt út á öllum strætamótum.

Síon-búar hinir dýrmætu, jafnvægir skíragulli, hversu voru þeir metnir jafnt og leirker, jafnt og smíð úr pottara höndum.

Jafnvel sjakalarnir bjóða júgrið og gefa hvolpum sínum að sjúga, en dóttir þjóðar minnar er orðin harðbrjósta, eins og strútsfuglarnir í eyðimörkinni.

Tunga brjóstmylkingsins loddi við góminn af þorsta, börnin báðu um brauð, en enginn miðlaði þeim neinu.

Þeir sem vanir hafa verið að eta krásir, örmagnast nú á strætunum, þeir sem bornir voru á purpura, faðma nú mykjuhauga.

Því að misgjörð dóttur þjóðar minnar var meiri en synd Sódómu, sem umturnað var svo að segja á augabragði, án þess að manna hendur kæmu þar nærri.

Höfðingjar hennar voru hreinni en mjöll, hvítari en mjólk, líkami þeirra rauðari en kórallar, ásýnd þeirra eins og safír.

Útlit þeirra er orðið blakkara en sót, þeir þekkjast ekki á strætunum. Skinnið á þeim er skorpið að beinum, það er þornað eins og tré.

Sælli voru þeir er féllu fyrir sverði heldur en þeir er féllu fyrir hungri, þeir er hnigu hungurmorða, af því að enginn var akurgróðinn.

10 Viðkvæmar konur suðu með eigin höndum börnin sín, þau voru þeim til næringar, þá er dóttir þjóðar minnar var eydd.

11 Drottinn tæmdi heift sína, úthellti sinni brennandi reiði og kveikti eld í Síon, er eyddi henni til grunna.

12 Konungar jarðarinnar hefðu ekki trúað því, né neinn af íbúum jarðríkis, að fjendur og óvinir mundu inn fara um hlið Jerúsalem.

13 Vegna synda spámanna hennar, misgjörða presta hennar, er úthelltu inni í henni blóði réttlátra,

14 reika þeir eins og blindir menn um strætin, ataðir blóði, svo að eigi mættu menn snerta klæði þeirra.

15 "Víkið úr vegi! Óhreinn maður!" kölluðu menn á undan þeim, "víkið úr vegi, víkið úr vegi, snertið hann eigi!" Þegar þeir skjögruðu, sögðu menn meðal heiðingjanna: "Þeir skulu eigi dveljast hér lengur."

16 Reiðitillit Drottins hefir tvístrað þeim, hann lítur eigi framar við þeim. Hann virti prestana að vettugi og miskunnaði sig ekki yfir gamalmennin.

17 Hversu lengi störðu augu vor sig þreytt eftir hjálp sem ekki kom. Af sjónarhól vorum mændum vér eftir þjóð sem ekki hjálpar.

18 Menn röktu slóðir vorar, svo að vér gátum ekki gengið á götum vorum. Endalok vor nálguðust, dagar vorir fullnuðust, já, endalok vor komu.

19 Ofsækjendur vorir voru léttfærari en ernirnir í loftinu, þeir eltu oss yfir fjöllin, sátu um oss í eyðimörkinni.

20 Andi nasa vorra, Drottins smurði, varð fanginn í gryfjum þeirra _ hann sem vér sögðum um: "Í skjóli hans skulum vér lifa meðal þjóðanna!"

21 Fagna þú og ver glöð, dóttirin Edóm, þú sem býr í Ús-landi: Til þín mun og bikarinn koma, þú munt verða drukkin og bera blygðan þína!

22 Sekt þín er á enda, dóttirin Síon, hann mun eigi framar gjöra þig landræka. Hann vitjar misgjörðar þinnar, dóttirin Edóm, dregur skýluna af syndum þínum.

Minnstu þess, Drottinn, hvað yfir oss hefir gengið, lít þú á og sjá háðung vora.

Arfleifð vor er komin í hendur annarra, hús vor í hendur útlendinga.

Vér erum orðnir munaðarleysingjar, föðurlausir, mæður vorar orðnar sem ekkjur.

Vatnið sem vér drekkum, verðum vér að kaupa, viðinn fáum vér aðeins gegn borgun.

Ofsækjendur vorir sitja á hálsi vorum, þótt vér séum þreyttir, fáum vér enga hvíld.

Til Egyptalands réttum vér út höndina, til Assýríu, til þess að seðjast af mat.

Feður vorir syndguðu, þeir eru eigi framar til, og vér berum misgjörð þeirra.

Þrælar drottna yfir oss, enginn hrífur oss úr höndum þeirra.

Með lífsháska sækjum vér matbjörg vora í eyðimörkinni, þar sem sverðið vofir yfir oss.

10 Hörund vort er orðið svart eins og ofn af hungurbruna.

11 Konur hafa þeir svívirt í Síon, meyjar í Júda-borgum.

12 Höfðingja hengdu þeir, öldungnum sýndu þeir enga virðingu.

13 Æskumennirnir urðu að þræla við kvörnina, og sveinarnir duttu undir viðarbyrðunum.

14 Öldungarnir eru horfnir úr borgarhliðunum, æskumennirnir frá strengleikum.

15 Fögnuður hjarta vors er þrotinn, gleðidans vor snúinn í sorg.

16 Kórónan er fallin af höfði voru, vei oss, því að vér höfum syndgað.

17 Af því er hjarta vort sjúkt orðið, vegna þess eru augu vor döpur,

18 vegna Síonarfjalls, sem er í eyði og refir nú hlaupa um.

19 Þú, Drottinn, ríkir að eilífu, þitt hásæti stendur frá kyni til kyns.

20 Hví vilt þú gleyma oss eilíflega, yfirgefa oss um langan aldur?

21 Snú þú oss til þín, Drottinn, þá snúum vér við, lát þú daga vora aftur verða eins og forðum!