Add parallel Print Page Options

22 Þá kallaði Jósúa Rúbeníta, Gaðíta og hálfa kynkvísl Manasse fyrir sig

og sagði við þá: "Þér hafið haldið allt það, sem Móse, þjónn Drottins, bauð yður. Þér hafið og hlýtt röddu minni í öllu því, er ég hefi fyrir yður lagt.

Þennan langa tíma allt fram á þennan dag hafið þér fylgi veitt bræðrum yðar og varðveitt hlýðni við boðorð Drottins, Guðs yðar.

En nú hefir Drottinn, Guð yðar, veitt bræðrum yðar hvíld, eins og hann hafði heitið þeim. Snúið því nú á leið og farið til tjalda yðar, til eignarlands yðar, þess er Móse, þjónn Drottins, gaf yður hinumegin Jórdanar.

Gætið þess einungis, að þér haldið vel boðorð það og lögmál, er Móse, þjónn Drottins, fyrir yður lagði: að þér elskið Drottin Guð yðar, gangið ávallt á vegum hans, geymið boð hans, haldið yður fast við hann og þjónið honum af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar."

Síðan blessaði Jósúa þá og lét þá burt fara, og þeir héldu til tjalda sinna.

Hálfri ættkvísl Manasse hafði Móse gefið land í Basan, en hinum helmingnum hafði Jósúa gefið land með bræðrum þeirra vestanmegin Jórdanar. Og þegar Jósúa lét þá burt fara til tjalda sinna, blessaði hann þá enn fremur

og sagði við þá: "Hverfið nú aftur til tjalda yðar með mikil auðæfi, mjög mikinn fénað, með silfur og gull, eir og járn, og með mjög mikið af klæðnaði; miðlið bræðrum yðar nokkru af því, er þér hafið tekið að herfangi af óvinum yðar."

Þá sneru þeir Rúbens synir, Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse aftur og skildu við Ísraelsmenn í Síló, sem er í Kanaanlandi og héldu til Gíleaðlands, eignarlands síns, þar sem þeir höfðu fest byggð eftir boði Drottins, er Móse flutti.

10 Er Rúbens synir og Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse komu til héraðsins við Jórdan, sem er í Kanaanlandi, reistu þeir þar altari við Jórdan, og var það mikið til að sjá.

11 Ísraelsmenn fengu þá svolátandi fregn: "Sjá, Rúbens synir og Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse hafa reist altari við landamæri Kanaanlands, í héruðunum við Jórdan, þeim megin er Ísraelsmenn eiga land."

12 Og er Ísraelsmenn spurðu það, þá safnaðist allur lýður Ísraelsmanna saman í Síló til þess að fara í móti þeim til hernaðar.

13 Þá sendu Ísraelsmenn Pínehas, son Eleasars prests, til Rúbens sona og Gaðs sona og hálfrar ættkvíslar Manasse til Gíleaðlands,

14 og með honum tíu höfuðsmenn, einn höfuðsmann af ætt hverri af öllum kynkvíslum Ísraels. Var hver þeirra höfðingi yfir ættum feðra sinna meðal þúsunda Ísraels.

15 Og er þeir komu til Rúbens sona og Gaðs sona og hálfrar ættkvíslar Manasse til Gíleaðlands, þá mæltu þeir við þá á þessa leið:

16 "Svo segir allur söfnuður Drottins: Hvílík er sú ótrúmennska, sem þér hafið sýnt gegn Guði Ísraels, að þér í dag hafið snúið yður burt frá Drottni, er þér hafið reist yður altari, að þér í dag hafið gjört uppreisn gegn Drottni!

17 Er oss ekki nógur glæpur sá, að vér tilbáðum Peór, og höfum vér ekki hreinsað oss af þeim glæp fram á þennan dag, enda kom plágan yfir söfnuð Drottins vegna hans. Og þér snúið yður í dag burt frá Drottni!

18 Mun þá svo fara: Þér gjörið í dag uppreisn gegn Drottni, og á morgun mun hann úthella reiði sinni yfir allan söfnuð Ísraels.

19 Ef land það er óhreint, er þér hafið hlotið til eignar, þá komið yfir í eignarland Drottins, þar sem búð Drottins hefir aðsetur, og setjist að meðal vor. En gjörið ekki uppreisn gegn Drottni og gjörið ekki uppreisn gegn oss með því að reisa yður altari annað en altari Drottins Guðs vors.

20 Kom ekki reiði Guðs yfir allan söfnuð Ísraels, þá er Akan Seraksson fór sviksamlega með hið bannfærða? Hann dó ekki einn fyrir glæp sinn."

21 Þá svöruðu þeir Rúbens synir og Gaðs synir og hálf ættkvísl Manasse og sögðu við höfðingja Ísraels þúsunda:

22 "Drottinn, hinn máttki Guð, Drottinn, hinn máttki Guð, hann veit það, og Ísrael skal vita það: Ef það er gjört í uppreisnar eða sviksemi skyni við Drottin, þá hjálpi hann oss eigi í dag!

23 Vér höfum ekki reist oss altari til þess að snúa oss burt frá Drottni. Ef það er gjört til þess að færa þar brennifórn og matfórn, eða til þess að fórna þar heillafórnum, þá hefni Drottinn þess!

24 Heldur höfum vér gjört það af hræðslu við, hvernig fara kynni, með því að vér hugsuðum: Síðar kynnu synir yðar að segja við sonu vora: ,Hvað kemur Drottinn, Ísraels Guð, yður við?

25 Drottinn hefir sett Jórdan sem landamerki milli vor og yðar Rúbens sona og Gaðs sona. Þér eigið enga hlutdeild í Drottni!` Kynnu þá synir yðar að koma sonum vorum til þess að hætta að óttast Drottin.

26 Fyrir því sögðum vér: Vér skulum reisa oss altari, ekki til brennifórna og ekki til sláturfórna,

27 heldur skal það vera til vitnis fyrir oss og fyrir yður, og fyrir niðja vora eftir oss, að vér viljum gegna þjónustu Drottins fyrir augliti hans með brennifórnum vorum, sláturfórnum og heillafórnum, og að synir yðar geti ekki á síðan sagt við sonu vora: ,Þér eigið enga hlutdeild í Drottni!`

28 Og vér hugsuðum: Ef þeir síðar mæla svo til vor eða niðja vorra, þá munum vér segja: Lítið á lögunina á því Drottins altari, sem feður vorir hafa gjört, ekki til brennifórna eða sláturfórna, heldur átti það að vera til vitnis fyrir oss og yður.

29 Því fer fjarri, að vér vildum gjöra uppreisn gegn Drottni og snúa oss burt frá Drottni í dag með því að reisa altari til brennifórna, matfórna og sláturfórna, annað en altari Drottins Guðs vors, það er stendur fyrir framan búð hans."

30 Þegar Pínehas prestur og höfuðsmenn safnaðarins, höfðingjar Ísraels þúsunda, sem með honum voru, heyrðu andsvör þau, er Rúbens synir og Gaðs synir og Manasse synir veittu, þá létu þeir sér það vel líka.

31 Og Pínehas, sonur Eleasars prests, sagði við Rúbens sonu og Gaðs sonu og Manasse sonu: "Í dag höfum vér sannreynt, að Drottinn er á meðal vor, þar sem þér hafið ekki sýnt ótrúmennsku gegn Drottni í þessu. Nú hafið þér frelsað Ísraelsmenn undan hendi Drottins."

32 Síðan sneri Pínehas, sonur Eleasars prests, og höfuðsmennirnir heim aftur frá Rúbens sonum og Gaðs sonum í Gíleaðlandi til Kanaanlands til Ísraelsmanna og færðu þeim þessi svör.

33 Létu Ísraelsmenn sér það vel líka, og þeir lofuðu Guð og hugðu ekki framar á að fara herför á móti þeim til þess að eyða land það, er Rúbens synir og Gaðs synir bjuggu í.

34 Og Rúbens synir og Gaðs synir nefndu altarið Vitni, því að það er vitni þess milli vor, að Drottinn er hinn sanni Guð.

23 Löngum tíma eftir þetta, þá er Drottinn hafði veitt Ísrael frið fyrir öllum óvinum þeirra hringinn í kring, og Jósúa var orðinn gamall og hniginn að aldri,

þá kallaði Jósúa saman allan Ísrael, öldunga hans og höfðingja, dómendur hans og tilsjónarmenn og sagði við þá: "Ég gjörist nú gamall og aldurhniginn.

Þér hafið sjálfir séð allt það, sem Drottinn Guð yðar, hefir gjört öllum þessum þjóðum yðar vegna, því að Drottinn Guð yðar hefir sjálfur barist fyrir yður.

Sjáið, með hlutkesti hefi ég úthlutað yður til handa löndum þessara þjóða, sem enn eru eftir, ættkvíslum yðar til eignar, og löndum þjóðanna, sem ég hefi eytt, allt frá Jórdan til hafsins mikla gegnt sólar setri.

Og Drottinn Guð yðar mun sjálfur reka þá burt frá yður og stökkva þeim undan yður, og þér munuð fá land þeirra til eignar, eins og Drottinn Guð yðar hefir heitið yður.

Reynist nú mjög staðfastir í því að halda og gjöra allt það, sem ritað er í lögmálsbók Móse, án þess að víkja frá því til hægri né vinstri,

svo að þér blandist eigi við þessar þjóðir, sem enn eru eftir hjá yður. Nefnið eigi guði þeirra á nafn, sverjið eigi við þá, þjónið þeim eigi og fallið eigi fram fyrir þeim,

heldur haldið yður fast við Drottin Guð yðar, eins og þér hafið gjört fram á þennan dag.

Fyrir því stökkti Drottinn undan yður miklum og voldugum þjóðum, og enginn hefir getað staðist fyrir yður fram á þennan dag.

10 Einn yðar elti þúsund, því að Drottinn Guð yðar barðist sjálfur fyrir yður, eins og hann hefir heitið yður.

11 Gætið þess því vandlega _ líf yðar liggur við _ að elska Drottin Guð yðar.

12 Því ef þér gjörist fráhverfir og samlagið yður leifum þjóða þessara, sem enn eru eftir hjá yður, mægist við þær og blandist við þær, og þær við yður,

13 þá vitið fyrir víst, að Drottinn Guð yðar mun eigi halda áfram að stökkva þessum þjóðum burt undan yður, heldur munu þær verða yður snara og fótakefli, svipa á síður yðar og þyrnar í augum yðar, uns þér eruð afmáðir úr þessu góða landi, sem Drottinn Guð yðar hefir gefið yður.

14 Sjá, ég geng nú veg allrar veraldar, en þér skuluð vita af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er Drottinn Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst, ekkert af þeim hefir brugðist.

15 En eins og öll þau fyrirheit, sem Drottinn Guð yðar hefir gefið yður, hafa rætst á yður, eins mun Drottinn láta allar hótanir sínar rætast á yður, uns hann hefir gjöreytt yður úr þessu góða landi, sem Drottinn Guð yðar hefir gefið yður.

16 Ef þér rjúfið sáttmála Drottins Guðs yðar, þann er hann fyrir yður lagði, og farið og þjónið öðrum guðum og fallið fram fyrir þeim, þá mun reiði Drottins upptendrast í gegn yður, og þér munuð fljótt hverfa úr landinu góða, sem hann hefir gefið yður."

24 Jósúa stefndi saman öllum ættkvíslum Ísraels í Síkem og kallaði fyrir sig öldunga Ísraels og höfðingja hans, dómendur hans og tilsjónarmenn, og þeir gengu fram fyrir auglit Guðs.

Þá mælti Jósúa við allan lýðinn: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Forfeður yðar bjuggu í fyrndinni fyrir handan Efrat, þeir Tara, faðir Abrahams og Nahors, og dýrkuðu aðra guði.

Þá tók ég Abraham forföður yðar handan yfir Fljótið og lét hann fara fram og aftur um allt Kanaanland, og ég margfaldaði kyn hans og gaf honum Ísak.

Og Ísak gaf ég þá Jakob og Esaú. Og Esaú gaf ég Seírfjöll, að hann skyldi taka þau til eignar, en Jakob og synir hans fóru suður til Egyptalands.

Síðan sendi ég Móse og Aron og laust Egyptaland með undrum þeim, er ég framdi þar. Síðar leiddi ég yður út þaðan.

Ég leiddi feður yðar út af Egyptalandi, og þér komuð að Sefhafinu. En Egyptar veittu feðrum yðar eftirför með vögnum og riddurum til hafsins.

Þá hrópuðu þeir til Drottins, og ég setti myrkur milli yðar og Egypta, og lét hafið falla yfir þá, svo að það huldi þá. Og þér sáuð með eigin augum, hvernig ég fór með Egypta. Eftir það dvölduð þér langa hríð í eyðimörkinni.

Síðan leiddi ég yður inn í land Amoríta, sem bjuggu hinumegin Jórdanar, og þeir börðust við yður, en ég gaf þá í hendur yður, og þér tókuð land þeirra til eignar, og ég eyddi þeim fyrir yður.

Þá reis upp Balak Sippórsson, konungur í Móab, og barðist við Ísrael. Sendi hann þá og lét kalla Bíleam Beórsson til þess að bölva yður.

10 En ég vildi ekki heyra Bíleam, og hann blessaði yður þvert á móti. Frelsaði ég yður þannig úr höndum hans.

11 Þá fóruð þér yfir Jórdan og komuð til Jeríkó. Og Jeríkóbúar börðust við yður, þeir Amorítar, Peresítar, Kanaanítar, Hetítar, Girgasítar, Hevítar og Jebúsítar, en ég gaf þá í yðar hendur.

12 Þá sendi ég skelfingu á undan yður, og stökkti Amorítakonungunum tveimur burt undan yður, en hvorki kom sverð þitt né bogi þinn þessu til leiðar.

13 Ég gaf yður land, sem þér ekkert höfðuð fyrir haft, og borgir, sem þér höfðuð ekki reist, en tókuð yður samt bólfestu í þeim, og víngarða og olíutré, sem þér hafið ekki gróðursett, en njótið nú ávaxta þeirra.

14 Óttist því Drottin og þjónið honum einlæglega og dyggilega, og kastið burt guðum þeim, er feður yðar þjónuðu fyrir handan Fljótið og í Egyptalandi, og þjónið Drottni.

15 En líki yður ekki að þjóna Drottni, kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna, hvort heldur guðum þeim, er feður yðar þjónuðu, þeir er bjuggu fyrir handan Fljótið, eða guðum Amoríta, hverra land þér nú byggið. En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni."

16 Þá svaraði lýðurinn og sagði: "Fjarri sé það oss að yfirgefa Drottin og þjóna öðrum guðum.

17 Því að Drottinn er vor Guð, hann sem leitt hefir oss og feður vora af Egyptalandi, úr þrælahúsinu, og gjört hefir þessi miklu undur að oss ásjáandi og varðveitt oss á allri þeirri leið, sem vér höfum nú farið, og meðal allra þeirra þjóða, þar sem vér höfum lagt um leið vora.

18 Og Drottinn stökkti burt undan oss öllum þjóðunum og Amorítum, íbúum landsins. Vér viljum einnig þjóna Drottni, því að hann er vor Guð!"

19 Jósúa sagði þá við lýðinn: "Þér getið ekki þjónað Drottni, því að hann er heilagur Guð. Vandlátur Guð er hann. Hann mun ekki umbera misgjörðir yðar og syndir.

20 Ef þér yfirgefið Drottin og þjónið útlendum guðum, þá mun hann snúast gegn yður og láta illt yfir yður koma og tortíma yður, í stað þess að hann áður hefir gjört vel til yðar."

21 Þá sagði lýðurinn við Jósúa: "Nei, því að Drottni viljum vér þjóna."

22 Þá sagði Jósúa við lýðinn: "Þér eruð vottar að því gegn sjálfum yður, að þér hafið kosið að þjóna Drottni." Þeir sögðu: "Vér erum það."

23 Jósúa sagði: "Kastið nú burt útlendu guðunum, sem hjá yður eru, og hneigið hjörtu yðar til Drottins, Ísraels Guðs."

24 Lýðurinn sagði við Jósúa: "Drottni Guði vorum viljum vér þjóna og hlýða hans röddu."

25 Á þeim degi gjörði Jósúa sáttmála við lýðinn og setti honum lög og rétt þar í Síkem.

26 Og Jósúa ritaði þessi orð í lögmálsbók Guðs, tók því næst stein mikinn og reisti hann þar upp undir eikinni, sem stóð í helgidómi Drottins.

27 Og Jósúa sagði við allan lýðinn: "Sjá, steinn þessi skal vera vitni gegn oss, því að hann hefir heyrt öll orðin, sem Drottinn hefir við oss talað, og hann skal vera vitni gegn yður, til þess að þér afneitið ekki Guði yðar."

28 Síðan lét Jósúa fólkið fara, hvern til síns óðals.

29 Eftir þessa atburði andaðist Jósúa Núnsson, þjónn Drottins, hundrað og tíu ára gamall,

30 og var hann grafinn í eignarlandi sínu, hjá Timnat Sera, sem liggur á Efraímfjöllum, fyrir norðan Gaasfjall.

31 Ísrael þjónaði Drottni meðan Jósúa var á lífi og öldungar þeir, er lifðu Jósúa og þekktu öll þau verk, er Drottinn hafði gjört fyrir Ísrael.

32 Bein Jósefs, sem Ísraelsmenn höfðu haft með sér sunnan af Egyptalandi, grófu þeir í Síkem, í landspildu þeirri, sem Jakob hafði keypt af sonum Hemors, föður Síkems, fyrir hundrað kesíta, og varð hún eign Jósefs sona.

Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu, en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus bróðir hans í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene,

í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni.

Og hann fór um alla Jórdanbyggð og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,

eins og ritað er í bók Jesaja spámanns: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.

Öll gil skulu fyllast, öll fell og hálsar lægjast. Krókar skulu verða beinir og óvegir sléttar götur.

Og allir menn munu sjá hjálpræði Guðs.

Við mannfjöldann, sem fór út til að skírast af honum, sagði hann: "Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði?

Berið þá ávexti samboðna iðruninni, og farið ekki að segja með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.` Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum.

Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað."

10 Mannfjöldinn spurði hann: "Hvað eigum vér þá að gjöra?"

11 En hann svaraði þeim: "Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á, og eins gjöri sá er matföng hefur."

12 Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: "Meistari, hvað eigum vér að gjöra?"

13 En hann sagði við þá: "Heimtið ekki meira en fyrir yður er lagt."

14 Hermenn spurðu hann einnig: "En hvað eigum vér að gjöra?" Hann sagði við þá: "Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið yður nægja mála yðar."

15 Nú var eftirvænting vakin hjá lýðnum, og allir voru að hugsa með sjálfum sér, hvort Jóhannes kynni að vera Kristur.

16 En Jóhannes svaraði öllum og sagði: "Ég skíri yður með vatni, en sá kemur, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.

17 Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gjörhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi."

18 Með mörgu öðru áminnti hann og flutti lýðnum fagnaðarboðin.

19 Hann vítti Heródes fjórðungsstjóra vegna Heródíasar, konu bróður hans, og fyrir allt hið illa, sem hann hafði gjört.

20 Þá bætti Heródes einnig því ofan á allt annað, að hann varpaði Jóhannesi í fangelsi.

21 Er allur lýðurinn lét skírast, var Jesús einnig skírður. Þá bar svo við, er hann gjörði bæn sína, að himinninn opnaðist,

22 og heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni: "Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun."

23 En Jesús var um þrítugt, er hann hóf starf sitt. Var hann, eftir því sem haldið var, sonur Jósefs, sonar Elí,

24 sonar Mattats, sonar Leví, sonar Melkí, sonar Jannaí, sonar Jósefs,

25 sonar Mattatíass, sonar Amoss, sonar Naúms, sonar Eslí, sonar Naggaí,

26 sonar Maats, sonar Mattatíass, sonar Semeíns, sonar Jóseks, sonar Jóda,

27 sonar Jóhanans, sonar Hresa, sonar Serúbabels, sonar Sealtíels, sonar Nerí,

28 sonar Melkí, sonar Addí, sonar Kósams, sonar Elmadams, sonar Ers,

29 sonar Jesú, sonar Elíesers, sonar Jóríms, sonar Mattats, sonar Leví,

30 sonar Símeons, sonar Júda, sonar Jósefs, sonar Jónams, sonar Eljakíms,

31 sonar Melea, sonar Menna, sonar Mattata, sonar Natans, sonar Davíðs,

32 sonar Ísaí, sonar Óbeðs, sonar Bóasar, sonar Salmons, sonar Naksons,

33 sonar Ammínadabs, sonar Admíns, sonar Arní, sonar Esroms, sonar Peres, sonar Júda,

34 sonar Jakobs, sonar Ísaks, sonar Abrahams, sonar Tara, sonar Nakórs,

35 sonar Serúgs, sonar Reú, sonar Pelegs, sonar Ebers, sonar Sela,

36 sonar Kenans, sonar Arpaksads, sonar Sems, sonar Nóa, sonar Lameks,

37 sonar Metúsala, sonar Enoks, sonar Jareds, sonar Mahalalels, sonar Kenans,

38 sonar Enoss, sonar Sets, sonar Adams, sonar Guðs.