Add parallel Print Page Options

40 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, eftir að Nebúsaradan lífvarðarforingi hafði látið hann lausan í Rama, er hann hafði flutt hann bundinn fjötrum ásamt hinum herteknu frá Jerúsalem og Júda, er flytjast áttu til Babýlon.

Lífvarðarforinginn lét sækja Jeremía og sagði við hann: "Drottinn, Guð þinn, hótaði þessum stað þessari ógæfu

og lét hana fram koma, og Drottinn gjörði eins og hann hafði hótað, því að þér syndguðuð gegn Drottni og hlýdduð eigi hans raustu, og fyrir því hefir yður þetta að höndum borið.

Og sjá, nú leysi ég fjötrana af höndum þínum. Ef þér þóknast að koma með mér til Babýlon, þá kom þú og ég skal ala önn fyrir þér. En ef þér þóknast ekki að koma með mér til Babýlon, þá lát það ógjört. Sjá þú, allt landið liggur opið fyrir þér. Hvert sem þér líst gott og rétt að fara, þangað mátt þú fara.

En ef þér þóknast að vera um kyrrt, skalt þú fara til Gedalja Ahíkamssonar, Safanssonar, er Babelkonungur hefir skipað yfir Júdaborgir, og ver með honum meðal lýðsins, eða far hvert sem þér þóknast að fara." Og lífvarðarforinginn fékk honum uppeldi og gjafir og lét hann í brott fara.

Og Jeremía fór til Mispa til Gedalja Ahíkamssonar, og var með honum meðal lýðsins, þeirra er eftir voru í landinu.

Og er allir hershöfðingjarnir, sem enn voru úti, og menn þeirra, fréttu, að Babelkonungur hefði skipað Gedalja Ahíkamsson landstjóra og að hann hefði falið umsjá hans menn og konur og börn og þá af almúga landsins, er eigi voru herleiddir til Babýlon,

fóru þeir til Mispa á fund Gedalja, þeir Ísmael Netanjason, Jóhanan Kareason, Seraja Tanhúmetsson, synir Efaí frá Netófa, og Jesanja, sonur Maakatítans, og menn þeirra.

Vann Gedalja Ahíkamsson, Safanssonar, þeim eið og mönnum þeirra og sagði: "Óttist eigi að vera Kaldeum lýðskyldir. Verið kyrrir í landinu og þjónið Babelkonungi, og mun yður vel vegna.

10 Og sjá, ég verð kyrr í Mispa til þess að taka á móti þeim Kaldeum, er til vor kunna að koma, en safnið þér uppskeru af víni, ávöxtum og olíu og látið í ílát yðar og verið kyrrir í borgum yðar, er þér hafið tekið til eignar."

11 Sömuleiðis fréttu allir Júdamenn, sem voru í Móab og hjá Ammónítum og í Edóm og í öllum öðrum löndum, að Babelkonungur hefði skilið leifar eftir af Júda og að hann hefði sett Gedalja Ahíkamsson, Safanssonar, yfir þá.

12 Sneru þeir því aftur frá öllum þeim stöðum, þangað sem þeir höfðu hraktir verið, og komu til Júda, til Gedalja í Mispa, og þeir söfnuðu mjög mikilli uppskeru af víni og ávöxtum.

13 Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir, sem enn voru úti á landi, fóru til Mispa á fund Gedalja

14 og sögðu við hann: "Veist þú að Baalis Ammónítakonungur hefir sent Ísmael Netanjason til þess að ráða þér bana?" En Gedalja Ahíkamsson trúði þeim ekki.

15 Og Jóhanan Kareason sagði við Gedalja á laun í Mispa: "Leyf mér að fara og drepa Ísmael Netanjason, og enginn maður skal verða þess vís! Hví skal hann ráða þér bana og allir Júdamenn tvístrast, þeir er til þín hafa safnast, og leifar Júda verða að engu?"

16 En Gedalja Ahíkamsson sagði við Jóhanan Kareason: "Þú skalt ekki gjöra það, því að þú talar lygar um Ísmael."

41 En á sjöunda mánuði kom Ísmael Netanjason, Elísamasonar, af konungsættinni, og tíu menn með honum til Gedalja Ahíkamssonar í Mispa, og þeir mötuðust þar með honum í Mispa.

Og Ísmael Netanjason og tíu mennirnir, sem með honum voru, spruttu upp og myrtu Gedalja, er Babelkonungur hafði sett yfir landið,

svo og alla Júdamenn, er með honum voru í Mispa, og þá Kaldea, er þar voru.

En á öðrum degi frá því er Gedalja var myrtur og áður en nokkur varð þess vís,

komu menn frá Sikem, frá Síló og frá Samaríu, áttatíu manns, með skornu skeggi og rifnum klæðum og skinnsprettum á líkamanum. Höfðu þeir með sér matfórnir og reykelsi til þess að bera fram í musteri Drottins.

Gekk Ísmael Netanjason út í móti þeim frá Mispa, og var hann sígrátandi, er hann gekk. Og er hann mætti þeim, sagði hann við þá: "Komið inn til Gedalja Ahíkamssonar!"

En jafnskjótt og þeir voru komnir inn í borgina, brytjaði hann þá niður og kastaði þeim í gryfju.

En meðal þeirra voru tíu menn, sem sögðu við Ísmael: "Deyð oss eigi, því að vér eigum niðurgrafnar birgðir úti á akrinum, hveiti og bygg og olíu og hunang." Þá hætti hann við og drap þá ekki ásamt bræðrum þeirra.

En gryfjan, sem Ísmael kastaði í öllum líkum þeirra manna, er hann drap, var stóra gryfjan, sem Asa konungur hafði gjöra látið til varnar gegn Basa Ísraelskonungi. Hana fyllti Ísmael Netanjason vegnum mönnum.

10 Því næst flutti Ísmael allar leifar lýðsins, sem voru í Mispa, konungsdæturnar og allan lýðinn, sem eftir var í Mispa, sem Nebúsaradan lífvarðarforingi hafði sett Gedalja Ahíkamsson yfir _ þá flutti Ísmael Netanjason burt hertekna og hélt af stað til þess að fara yfir til Ammóníta.

11 En er Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir, sem með honum voru, fréttu öll þau illvirki, er Ísmael Netanjason hafði framið,

12 tóku þeir alla menn sína og lögðu af stað til þess að berjast við Ísmael Netanjason, og varð fundur þeirra við stóru tjörnina hjá Gíbeon.

13 En er allur lýðurinn, sem var með Ísmael, sá Jóhanan Kareason og alla hershöfðingjana, sem með honum voru, gladdist hann,

14 og allur lýðurinn, sem Ísmael hafði flutt hertekinn frá Mispa, sneri við og hvarf aftur og gekk í lið með Jóhanan Kareasyni.

15 En Ísmael Netanjason komst undan Jóhanan við áttunda mann og fór til Ammóníta.

16 Því næst tók Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir, sem með honum voru, allar leifar lýðsins, er Ísmael Netanjason hafði flutt herteknar frá Mispa, eftir að hann hafði drepið Gedalja Ahíkamsson, menn, konur og börn og geldinga, er hann hafði flutt aftur frá Gíbeon,

17 og þeir lögðu af stað og námu staðar í Gerút-Kimham, sem er hjá Betlehem, til þess að halda þaðan áfram ferðinni til Egyptalands,

18 til þess að komast undan Kaldeum, sem þeir óttuðust, af því að Ísmael Netanjason hafði drepið Gedalja Ahíkamsson, er Babelkonungur hafði sett yfir landið.

42 Þá komu allir hershöfðingjarnir og meðal þeirra Jóhanan Kareason og Asarja Hósajason og allur lýðurinn, bæði smáir og stórir,

og sögðu við Jeremía spámann: "Veit oss auðmjúka bæn vora og bið þú til Drottins, Guðs þíns, fyrir oss, fyrir öllum þessum leifum, sem vér erum, því að fáir erum vér eftir orðnir af mörgum, eins og þú sjálfur sér á oss.

Bið þú þess, að Drottinn, Guð þinn, gjöri oss kunnan þann veg, er vér eigum að fara, og það, sem vér eigum að gjöra."

En Jeremía spámaður sagði við þá: "Gott og vel! Ég skal biðja til Drottins, Guðs yðar, samkvæmt tilmælum yðar, og allt það, er Drottinn svarar yður, það skal ég segja yður. Engu skal ég leyna yður."

Og þeir sögðu við Jeremía: "Drottinn sé sannur og áreiðanlegur vottur gegn oss! Vér munum með öllu fara eftir þeim orðum, er Drottinn, Guð þinn, sendir þig með til vor,

hvort sem það verður gott eða illt. Skipun Drottins, Guðs vors, sem vér sendum þig til, viljum vér hlýða, til þess að oss megi vel vegna, er vér hlýðum skipun Drottins, Guðs vors."

Og að tíu dögum liðnum kom orð Drottins til Jeremía,

og hann kallaði Jóhanan Kareason og alla hershöfðingjana saman, sem með honum voru, og allan lýðinn, bæði smáa og stóra,

og sagði við þá: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð, er þér senduð mig til, að ég bæri fram fyrir hann auðmjúka bæn yðar:

10 Ef þér búið kyrrir í þessu landi, vil ég uppbyggja yður og ekki rífa niður, og ég vil gróðursetja yður og ekki uppræta, því að mig iðrar hins illa, er ég hefi gjört yður.

11 Óttist ekki Babelkonung, sem þér nú óttist, óttist hann ekki _ segir Drottinn _ því að ég er með yður til þess að hjálpa yður og til þess að frelsa yður undan hans valdi.

12 Og ég vil veita yður þá miskunn, að hann miskunni yður og láti yður snúa aftur heim í land yðar.

13 En ef þér segið: "Vér viljum eigi búa kyrrir í þessu landi!" og hlýðið eigi skipun Drottins, Guðs yðar,

14 en segið: "Nei, heldur viljum vér fara til Egyptalands, svo að vér þurfum ekki að sjá stríð, né heyra lúðurþyt, né hungra eftir brauði, og þar viljum vér setjast að!" _

15 þá heyrið nú þess vegna orð Drottins, þér leifar Júdamanna: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Ef þér eruð alvarlega að hugsa um að fara til Egyptalands og komist þangað, til þess að dveljast þar sem flóttamenn,

16 þá skal sverðið, sem þér nú óttist, ná yður þar, í Egyptalandi, og hungrið, sem þér nú hræðist, skal elta yður til Egyptalands, og þar skuluð þér deyja.

17 Og allir þeir menn, sem eru að hugsa um að fara til Egyptalands, til þess að dveljast þar sem flóttamenn, skulu deyja fyrir sverði og af hungri og drepsótt, og enginn þeirra skal sleppa við né komast undan ógæfu þeirri, er ég leiði yfir þá.

18 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Eins og reiði minni og heift var úthellt yfir Jerúsalembúa, svo skal og heift minni úthellt verða yfir yður, er þér farið til Egyptalands, og þér skuluð verða að formæling, að skelfing, að bölbænarformála og að háðung, og eigi framar sjá þennan stað.

19 Drottinn hefir svo til yðar talað, þér leifar Júdamanna: Farið eigi til Egyptalands! Vita skuluð þér, að nú hefi ég varað yður við.

20 Því að þér dróguð sjálfa yður á tálar, er þér senduð mig til Drottins, Guðs yðar, og sögðuð: "Bið til Drottins, Guðs vors, fyrir oss og seg oss nákvæmlega svo frá sem Drottinn, Guð vor, mælir, og vér skulum gjöra það!"

21 Nú hefi ég sagt yður frá því í dag, en þér hafið ekki hlýtt skipun Drottins, Guðs yðar, viðvíkjandi öllu því, er hann hefir sent mig með til yðar.

22 Og vita skuluð þér nú, að þér munuð deyja fyrir sverði, af hungri og drepsótt á þeim stað, þangað sem yður lystir að fara, til þess að dveljast þar sem flóttamenn.

Fyrirheitið um það að ganga inn til hvíldar hans stendur enn, vörumst því að nokkur yðar verði til þess að dragast aftur úr.

Fagnaðarerindið var oss boðað eigi síður en þeim. En orðið, sem þeir heyrðu, kom þeim eigi að haldi vegna þess, að þeir tóku ekki við því í trú.

En vér, sem trú höfum tekið, göngum inn til hvíldarinnar eins og hann hefur sagt: "Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar." Þó voru verk Guðs fullgjör frá grundvöllun heims.

Því að einhvers staðar er svo að orði kveðið um hinn sjöunda dag: "Og Guð hvíldist hinn sjöunda dag eftir öll verk sín."

Og aftur á þessum stað: "Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar."

Enn stendur því til boða, að nokkrir gangi inn til hvíldar Guðs. Þeir, sem fagnaðarerindið var fyrr boðað, gengu ekki inn sakir óhlýðni.

Því ákveður Guð aftur dag einn, er hann segir löngu síðar fyrir munn Davíðs: "Í dag." Eins og fyrr hefur sagt verið: "Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar."

Hefði Jósúa leitt þá til hvíldar, þá hefði Guð ekki síðar meir talað um annan dag.

Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs.

10 Því að sá, sem gengur inn til hvíldar hans, fær hvíld frá verkum sínum, eins og Guð hvíldist eftir sín verk.

11 Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar, til þess að enginn óhlýðnist eins og þeir og falli.

12 Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.

13 Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.

14 Er vér þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum vér halda fast við játninguna.

15 Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar.

16 Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.