Add parallel Print Page Options

24 Drottinn lét mig sjá: Tvær karfir fullar af fíkjum voru settar fyrir framan musteri Drottins, eftir að Nebúkadresar Babelkonungur hafði herleitt Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, og höfðingjana í Júda og trésmiðina og járnsmiðina burt frá Jerúsalem og flutt þá til Babýlon.

Í annarri körfinni voru mjög góðar fíkjur, líkar árfíkjum, en í hinni körfinni voru mjög vondar fíkjur, sem voru svo vondar, að þær voru óætar.

Þá sagði Drottinn við mig: Hvað sér þú, Jeremía? Og ég svaraði: Fíkjur! Góðu fíkjurnar eru mjög góðar, en þær vondu eru mjög vondar, já svo vondar, að þær eru óætar.

Þá kom orð Drottins til mín:

Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Eins og á þessar góðu fíkjur, svo lít ég á hina herleiddu úr Júda, sem ég hefi sent héðan til Kaldealands, þeim til heilla.

Ég beini augum mínum á þá þeim til heilla og flyt þá aftur inn í þetta land, svo að ég megi byggja þá upp og ekki rífa þá niður aftur og gróðursetja þá og ekki uppræta þá aftur.

Og ég gef þeim hjarta til að þekkja mig, að ég er Drottinn, og þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð, þegar þeir snúa sér til mín af öllu hjarta.

Og eins og vondu fíkjurnar, sem eru svo vondar, að þær eru óætar _ já, svo segir Drottinn _, þannig vil ég fara með Sedekía konung í Júda og höfðingja hans og leifarnar af Jerúsalem, þá sem eftir eru í þessu landi og þá sem setst hafa að í Egyptalandi.

Ég mun gjöra þá að grýlu, að andstyggð öllum konungsríkjum jarðar, að háðung, orðskvið, spotti og formæling á öllum þeim stöðum, þangað sem ég rek þá.

10 Og ég sendi sverð, hungur og drepsótt í móti þeim, þar til er þeir eru gjöreyddir úr landinu, sem ég gaf þeim og feðrum þeirra.

25 Orðið sem kom til Jeremía um alla Júdamenn á fjórða ríkisári Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda _ það var fyrsta ríkisár Nebúkadresars Babelkonungs _,

orðið, sem Jeremía spámaður talað til alls Júdalýðs og til allra Jerúsalembúa:

Frá þrettánda ríkisári Jósía Amónssonar, Júdakonungs, og fram á þennan dag, nú í tuttugu og þrjú ár, hefir orð Drottins komið til mín og ég hefi talað til yðar seint og snemma, en þér hafið ekki heyrt.

Og Drottinn hefir sent til yðar alla þjóna sína, spámennina, bæði seint og snemma, en þér hafið ekki heyrt, né heldur lagt við eyrun til þess að heyra.

Hann sagði: "Snúið yður, hver og einn frá sínum vonda vegi og frá yðar vondu verkum, þá skuluð þér búa kyrrir í landinu, sem Drottinn gaf yður og feðrum yðar, frá eilífð til eilífðar.

En eltið ekki aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim, og egnið mig ekki til reiði með handaverkum yðar, svo að ég láti yður ekkert böl að höndum bera."

En þér hlýdduð ekki á mig _ segir Drottinn _ heldur egnduð mig til reiði með handaverkum yðar, yður sjálfum til ills.

Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo: Af því að þér hlýdduð ekki orðum mínum,

þá vil ég láta sækja allar kynkvíslir norðursins _ segir Drottinn _ og Nebúkadresar Babelkonung, þjón minn, og láta þá brjótast inn yfir þetta land og inn á íbúa þess og inn á allar þessar þjóðir hér umhverfis, og ég vil helga þá banni og gjöra þá að skelfing og spotti og eilífri háðung,

10 og ég vil láta gjörsamlega hverfa meðal þeirra öll ánægju- og gleðihljóð, öll fagnaðarlæti brúðguma og brúðar, öll kvarnarhljóð og lampaljós.

11 Og allt þetta land skal verða að rúst, að auðn, og þessar þjóðir skulu þjóna Babelkonungi í sjötíu ár.

12 En þegar sjötíu ár eru liðin, mun ég refsa Babelkonungi og þessari þjóð _ segir Drottinn _ fyrir misgjörð þeirra, og gjöra land Kaldea að eilífri auðn.

13 Og ég mun láta fram koma á þessu landi öll þau hótunarorð, er ég hefi talað gegn því, allt það sem ritað er í þessari bók, það sem Jeremía hefir spáð um allar þjóðir.

14 Því að voldugar þjóðir og miklir konungar munu og gjöra þá að þrælum, og ég mun gjalda þeim eftir athæfi þeirra og eftir handaverkum þeirra.

15 Svo sagði Drottinn, Ísraels Guð, við mig: Tak við þessum bikar reiðivínsins af hendi mér og lát allar þjóðirnar drekka af honum, þær er ég sendi þig til,

16 svo að þær drekki og reiki og verði vitskertar af sverðinu, er ég sendi meðal þeirra.

17 Þá tók ég við bikarnum af hendi Drottins og lét allar þær þjóðir drekka, sem Drottinn hafði sent mig til:

18 Jerúsalem og borgirnar í Júda, konunga hennar og höfðingja, til að gjöra þá að rúst, að skelfing, að spotti og formæling, eins og nú er fram komið,

19 Faraó, Egyptalandskonung, og þjóna hans og höfðingja, alla þjóð hans og allan þjóðblending,

20 alla konunga í Ús-landi, alla konunga í Filistalandi, sem sé Askalon, Gasa, Ekron og leifarnar af Asdód,

21 Edóm og Móab og Ammóníta,

22 alla konunga í Týrus og alla konunga í Sídon og konungana á ströndunum, hinum megin hafsins,

23 Dedan og Tema og Bús og alla sem skera hár sitt við vangann,

24 alla konunga Arabíu og alla konunga þjóðblendinganna, sem búa í eyðimörkinni,

25 alla konungana í Simrí og alla konungana í Elam og alla konungana í Medíu,

26 alla konungana norður frá, hvort sem þeir búa nálægt hver öðrum eða langt hver frá öðrum, í stuttu máli öll konungsríki á jörðinni. En konungurinn í Sesak skal drekka á eftir þeim.

27 En þú skalt segja við þá: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Drekkið, til þess að þér verðið drukknir, spúið og dettið og standið ekki upp aftur, af sverðinu, sem ég sendi meðal yðar.

28 En færist þeir undan að taka við bikarnum af hendi þinni til þess að drekka, þá seg við þá: Svo segir Drottinn allsherjar: Drekka skuluð þér!

29 Því sjá, hjá borginni, sem nefnd er eftir nafni mínu, læt ég ógæfuna fyrst ríða yfir, _ og þér skylduð sleppa óhegndir? Þér skuluð ekki sleppa óhegndir, því að sverði býð ég út gegn öllum íbúum jarðarinnar _ segir Drottinn allsherjar.

30 Þú skalt kunngjöra þeim öll þessi orð og segja við þá: Af hæðum kveða við reiðarþrumur Drottins. Hann lætur rödd sína gjalla frá sínum heilaga bústað. Hann þrumar hátt út yfir haglendi sitt, raust hans gellur, eins og hróp þeirra, sem vínber troða.

31 Dynurinn berst öllum þeim sem á jörðu búa, út á enda jarðar, því að Drottinn þreytir deilu við þjóðirnar, hann gengur í dóm við allt hold. Hina óguðlegu ofurselur hann sverðinu! _ segir Drottinn.

32 Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ógæfa fer frá einni þjóð til annarrar, og ákafur stormur rís á útjaðri jarðar.

33 Þeir sem Drottinn hefir fellt, munu á þeim degi liggja dauðir frá einum enda jarðarinnar til annars. Þeir munu eigi verða harmaðir, eigi safnað saman og eigi jarðaðir, þeir skulu verða að áburði á akrinum.

34 Æpið, hirðar, og kveinið! Veltið yður í duftinu, þér leiðtogar hjarðarinnar! Því að yðar tími er kominn, að yður verði slátrað og yður tvístrað, og þér skuluð detta niður eins og verðmætt ker.

35 Þá er ekkert athvarf lengur fyrir hirðana og engin undankoma fyrir leiðtoga hjarðarinnar.

36 Heyr kvein hirðanna og óp leiðtoga hjarðarinnar, af því að Drottinn eyðir haglendi þeirra,

37 og hin friðsælu beitilönd eru gjöreydd orðin fyrir hinni brennandi reiði Drottins.

38 Hann hefir yfirgefið skógarrunn sinn, eins og ljónið, já, að auðn varð land þeirra fyrir hinu vígfreka sverði og fyrir hans brennandi reiði.

26 Í byrjun ríkisstjórnar Jójakíms Jósíasonar, konungs í Júda, kom þetta orð frá Drottni:

Svo segir Drottinn: Gakk í forgarð musteris Drottins, og tala til allra þeirra manna úr Júdaborgum, sem komnir eru til þess að falla fram í musteri Drottins, öll þau orð, sem ég hefi boðið þér að tala til þeirra. Þú skalt ekki draga neitt orð undan.

Ef til vill hlýða þeir og snúa sér, hver og einn frá sínum vonda vegi. Mun mig þá iðra þeirrar óhamingju, sem ég hygg að leiða yfir þá sakir illra verka þeirra.

Og þú skalt segja þeim: Svo segir Drottinn: Ef þér hlýðið mér ekki, svo að þér breytið eftir lögmáli mínu, sem ég hefi fyrir yður lagt,

svo að þér hlýðið orðum þjóna minna, spámannanna, er ég hefi sent til yðar æ að nýju óaflátanlega, _ en þér hafið ekki hlýtt þeim _,

þá vil ég fara með þetta hús eins og húsið í Síló, og gjöra þessa borg að formæling fyrir allar þjóðir jarðarinnar.

En er prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn heyrði Jeremía flytja þessi orð í musteri Drottins,

og Jeremía hafði lokið að tala allt það, sem Drottinn hafði boðið honum að tala til alls lýðsins, þá tóku prestarnir og spámennirnir og allur lýðurinn hann höndum og sögðu: "Þú skalt vissulega deyja!

Hví hefir þú spáð í nafni Drottins og sagt: Þetta hús skal verða eins og húsið í Síló, og þessi borg skal í eyði lögð og mannlaus verða!" Og allur lýðurinn safnaðist gegn Jeremía í musteri Drottins.

10 En er höfðingjarnir í Júda fréttu þetta, fóru þeir úr konungshöllinni upp til musteris Drottins og settust úti fyrir Hinu nýja hliði musterisins.

11 Og prestarnir og spámennirnir töluðu til höfðingjanna og alls lýðsins og sögðu: "Þessi maður er dauða sekur, því að hann hefir spáð gegn þessari borg, eins og þér hafið heyrt með eigin eyrum."

12 Jeremía mælti til allra höfðingjanna og alls lýðsins á þessa leið: "Drottinn hefir sent mig til þess að boða öll þessi orð, sem þér hafið heyrt, gegn þessu húsi og þessari borg.

13 Og bætið nú framferði yðar og athafnir og hlýðið raustu Drottins, Guðs yðar, svo að Drottin megi iðra þeirrar óhamingju, er hann hefir hótað yður.

14 En að því er til sjálfs mín kemur, þá er ég á yðar valdi. Gjörið við mig það, sem yður þykir gott og rétt.

15 En það skuluð þér vita, að ef þér deyðið mig, þá leiðið þér saklaust blóð yfir yður og yfir þessa borg og yfir íbúa hennar, því að Drottinn hefir sannlega sent mig til yðar til þess að flytja yður öll þessi orð."

16 Þá sögðu höfðingjarnir og allur lýðurinn við prestana og spámennina: "Þessi maður er ekki dauða sekur, því að hann hefir talað til vor í nafni Drottins, Guðs vors."

17 Þá gengu nokkrir af öldungum landsins fram og mæltu til alls mannsafnaðarins á þessa leið:

18 "Míka frá Móreset kom fram sem spámaður á dögum Hiskía konungs í Júda og mælti til alls Júdalýðs á þessa leið: ,Svo segir Drottinn allsherjar: Síon mun plægð verða sem akur og Jerúsalem mun verða að rústum og musterisfjallið að skógarhæðum.`

19 Hvort deyddi Hiskía Júdakonungur og allur Júdalýður hann? Óttaðist hann ekki Drottin og blíðkaði Drottin, svo að Drottin iðraði þeirrar óhamingju, er hann hafði hótað þeim? En vér erum rétt að því komnir að baka oss mikla óhamingju!"

20 Annar maður var og, sem spáði í nafni Drottins, Úría Semajason frá Kirjat-Jearím. Hann spáði og gegn þessari borg og þessu landi, alveg á sama hátt og Jeremía.

21 En er Jójakím konungur og allir kappar hans og allir höfðingjarnir spurðu orð hans, leitaðist konungur við að láta drepa hann. En er Úría frétti það, varð hann hræddur, flýði burt og fór til Egyptalands.

22 En Jójakím konungur gjörði menn til Egyptalands, Elnatan Akbórsson og menn með honum.

23 Og þeir sóttu Úría til Egyptalands og fóru með hann til Jójakíms konungs, og hann lét drepa hann með sverði og kasta líkinu á grafir múgamanna.

24 En Ahíkam Safansson verndaði Jeremía, svo að hann var eigi framseldur í hendur lýðsins til lífláts.

En tala þú það, sem sæmir hinni heilnæmu kenningu.

Aldraðir menn skulu vera bindindissamir, heiðvirðir, hóglátir, heilbrigðir í trúnni, kærleikanum og þolgæðinu.

Svo eiga og aldraðar konur að vera í háttalagi sínu eins og heilögum sæmir. Þær skulu ekki vera rógberar og ekki heldur í ánauð ofdrykkjunnar, heldur kenni þær gott frá sér,

til þess að þær laði hinar ungu til að elska menn sína og börn,

vera hóglátar, skírlífar, heimilisræknar, góðlátar og eiginmönnum sínum undirgefnar, til þess að orði Guðs verði ekki lastmælt.

Svo skalt þú og áminna hina yngri menn að vera hóglátir.

Sýn þig sjálfan í öllum greinum sem fyrirmynd í góðum verkum. Vertu grandvar í fræðslu þinni og heilhuga, svo hún verði

heilnæm og óaðfinnanleg og andstæðingurinn fyrirverði sig, þegar hann hefur ekkert illt um oss að segja.

Áminn þræla, að þeir séu undirgefnir húsbændum sínum og í öllu geðþekkir, ekki svörulir,

10 ekki hnuplsamir, heldur skulu þeir auðsýna hvers konar góða trúmennsku, til þess að þeir prýði kenningu Guðs frelsara vors í öllum greinum.

11 Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum.

12 Hún kennir oss að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum,

13 í eftirvæntingu vorrar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni.

14 Hann gaf sjálfan sig fyrir oss, til þess að hann leysti oss frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.

15 Tala þú þetta og áminn og vanda um með allri röggsemi. Lát engan lítilsvirða þig.