Add parallel Print Page Options

12 Þú, Drottinn, ert réttlátari en svo, að ég megi þrátta við þig! Þó verð ég að deila á þig: Hví lánast athæfi hinna óguðlegu, hví eru allir þeir óhultir, er sviksamlega breyta?

Þú gróðursetur þá, og þeir festa rætur, dafna og bera ávöxt. Þeir hafa þig ávallt á vörunum, en hjarta þeirra er langt frá þér.

En þú, Drottinn, þekkir mig, sér mig, og þú hefir reynt hugarþel mitt til þín. Skil þá úr, eins og sauði til slátrunar, og helgaðu þá drápsdeginum.

Hversu lengi á landið að syrgja og jurtir vallarins alls staðar að skrælna? Sakir illsku þeirra, er í því búa, farast skepnur og fuglar, þar eð þeir segja: "Hann sér eigi afdrif vor."

Ef þú mæðist af því að hlaupa með fótgangandi mönnum, hvernig ætlar þú þá að þreyta kapphlaup við hesta? Og ef þú ert aðeins öruggur í friðuðu landi, hvernig ætlar þú þá að fara að í kjarrinu á Jórdanbökkum?

Jafnvel bræður þínir og skyldulið föður þíns _ einnig þeir eru þér ótrúir, einnig þeir hafa kallað fullum rómi á eftir þér. Treystu þeim ekki, þótt þeir tali vinsamlega til þín.

Yfirgefið hefi ég hús mitt, hafnað eign minni. Ég hefi gefið það, sem sál minni var kærast, óvinum hennar á vald.

Eign mín varð mér eins og ljón í skógi, hún öskraði í móti mér, fyrir því hata ég hana.

Er eign mín orðin mér eins og marglitur ránfugl? Ránfuglar sækja að henni öllumegin. Komið, safnið saman öllum dýrum merkurinnar, komið með þau til að eta.

10 Margir hirðar hafa eytt víngarð minn, fótum troðið óðal mitt, hafa gjört hið unaðslega óðal mitt að eyðilegri heiði.

11 Menn hafa gjört það að auðn, í eyði drúpir það fyrir mér, allt landið er í eyði lagt, af því að enginn leggur það á hjarta.

12 Eyðandi ræningjar hafa steypt sér yfir allar skóglausar hæðir í eyðimörkinni. Sverð Drottins eyðir landið af enda og á, enginn er óhultur.

13 Þeir sáðu hveiti, en uppskáru þyrna, þeir þreyttu sig, en varð ekki gagn að. Verðið því til skammar fyrir afrakstur yðar vegna hinnar brennandi reiði Drottins.

14 Svo segir Drottinn: Allir hinir vondu nágrannar mínir, þeir er áreitt hafa eignina, er ég gaf lýð mínum Ísrael, sjá, ég slít þá upp úr landi þeirra, og Júda hús vil ég upp slíta, svo að það sé eigi meðal þeirra.

15 En eftir að ég hefi slitið þá upp, mun ég aftur miskunna mig yfir þá og flytja þá heim aftur, hvern til síns óðals og hvern til síns lands.

16 Og ef þeir þá læra siðu þjóðar minnar og sverja við mitt nafn: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir!" eins og þeir hafa kennt þjóð minni að sverja við Baal, _ þá skulu þeir þrífast meðal þjóðar minnar.

17 En ef einhver þjóð vill ekki heyra, þá slít ég þá þjóð upp og tortími henni _ segir Drottinn.

13 Svo mælti Drottinn við mig: Far og kaup þér línbelti og legg það um lendar þér, en lát það ekki koma í vatn.

Og ég keypti beltið eftir orði Drottins og lagði um lendar mér.

Og orð Drottins kom til mín annað sinn, svohljóðandi:

Tak beltið, sem þú keyptir og um lendar þínar er, og legg af stað og far austur að Efrat og fel það þar í bergskoru.

Og ég fór og fal það hjá Efrat, eins og Drottinn hafði boðið mér.

En er alllangur tími var um liðinn, sagði Drottinn við mig: Legg af stað og far austur að Efrat og tak þar beltið, sem ég bauð þér að fela þar.

Og ég fór austur að Efrat, gróf og tók beltið á þeim stað, sem ég hafði falið það. En sjá, beltið var orðið skemmt, til einskis nýtt framar.

Og orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi:

Svo segir Drottinn: Þannig vil ég skemma hroka Júda og hroka Jerúsalem, þann hinn mikla.

10 Þessir vondu menn, sem ekki vilja hlýða orðum mínum, sem fara eftir þverúð hjarta síns og elta aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim _ þeir skulu verða eins og þetta belti, sem til einskis er nýtt framar.

11 Því að eins og beltið fellir sig að lendum manns, eins hafði ég látið allt Ísraels hús og allt Júda hús fella sig að mér _ segir Drottinn _ til þess að það skyldi vera minn lýður og mér til frægðar, lofstírs og prýði, en þeir hlýddu ekki.

12 Mæl til þeirra þetta orð: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: "Sérhver krukka verður fyllt víni." En segi þeir þá við þig: "Vitum vér þá ekki, að sérhver krukka verður fyllt víni?"

13 þá seg við þá: "Svo segir Drottinn: Sjá, ég fylli alla íbúa þessa lands og konungana, sem sitja í hásæti Davíðs, og prestana og spámennina og alla Jerúsalembúa, svo að þeir verði drukknir,

14 og mola þá sundur hvern við annan, feður og sonu alla saman _ segir Drottinn. Ég tortími þeim hlífðarlaust, án nokkurrar vægðar og miskunnar."

15 Heyrið og takið eftir! Verið ekki dramblátir, því að Drottinn hefir talað!

16 Gefið Drottni, Guði yðar, dýrðina, áður en dimmir, áður en fætur yðar steyta á rökkurfjöllum. Þér væntið ljóss, en hann mun breyta því í niðdimmu og gjöra það að svartamyrkri.

17 En ef þér hlýðið því ekki, þá mun ég í leyni gráta vegna hrokans og sífellt tárast, já augu mín munu fljóta í tárum, af því að hjörð Drottins verður flutt burt hertekin.

18 Seg við konung og við konungsmóður: "Setjist lágt, því að fallin er af höfðum yðar dýrlega kórónan!

19 Borgir Suðurlandsins eru lokaðar, og enginn opnar, Júdalýður hefur verið burt fluttur allur saman, burt fluttur með tölu."

20 Hef upp augu þín og sjá, þeir koma að norðan! Hvar er hjörðin, sem þér var fengin, þínir ágætu sauðir?

21 Hvað munt þú segja, þegar þeir setja þá menn höfðingja yfir þig, sem þú hefir sjálf kennt að vera á móti þér? Munu ekki hviður að þér koma, eins og að jóðsjúkri konu,

22 er þú segir í hjarta þínu: ,Hví ber mér slíkt að höndum?` Sakir þinnar miklu misgjörðar er klæðafaldi þínum upp flett, hælar þínir með valdi berir gjörðir.

23 Getur blámaður breytt hörundslit sínum eða pardusdýrið flekkjum sínum? Ef svo væri munduð þér og megna að breyta vel, þér sem vanist hafið að gjöra illt.

24 Ég vil tvístra þeim eins og hálmleggjum, sem berast fyrir eyðimerkurvindi.

25 Þetta er hlutur þinn, afmældur skammtur þinn frá minni hendi _ segir Drottinn _ af því að þú hefir gleymt mér og treystir á lygi.

26 Fyrir því kippi ég og klæðafaldi þínum upp að framan, svo að blygðan þín verði ber.

27 Hórdóm þinn og losta-hví, hið svívirðilega fúllífi þitt _ á fórnarhæðunum úti á víðavangi hefi ég séð viðurstyggðir þínar. Vei þér, Jerúsalem, þú munt ekki hrein verða _ hve langt mun enn þangað til?

14 Orð Drottins, sem kom til Jeremía út af þurrkunum.

Júda drúpir, og þeir, sem sitja í borgarhliðum landsins, örmagnast, þeir sitja harmandi á jörðinni, og harmakvein Jerúsalem stígur upp.

Tignarmenni þeirra senda undirmenn sína eftir vatni, þeir koma að vatnsþrónum, en finna ekkert vatn, þeir snúa aftur með tóm ílátin, þeir eru sneyptir og blygðast sín og hylja höfuð sín.

Vegna akurlendisins, sem er agndofa af skelfingu, af því að ekkert regn fellur í landinu, eru akurmennirnir sneypulegir og hylja höfuð sín.

Já, jafnvel hindin í haganum ber og yfirgefur kálfinn, því að gróður er enginn,

og villiasnarnir standa á skóglausu hæðunum og taka öndina á lofti, eins og sjakalarnir. Augu þeirra daprast, því að hvergi er gras.

Þegar misgjörðir vorar vitna í gegn oss, Drottinn, þá lát til þín taka vegna nafns þíns, því að fráhvarfssyndir vorar eru margar, gegn þér höfum vér syndgað.

Ó Ísraels von, hjálpari hans á neyðartíma, hví ert þú sem útlendingur í landinu og sem ferðamaður, er tjaldar til einnar nætur?

Hví ert þú eins og skelkaður maður, eins og hetja, sem ekki megnar að hjálpa? Og þó ert þú mitt á meðal vor, Drottinn, og vér erum nefndir eftir nafni þínu. Yfirgef oss eigi!

10 Svo segir Drottinn um þennan lýð: Þannig var þeim ljúft að reika um, þeir öftruðu ekki fótum sínum, en Drottinn hafði enga þóknun á þeim. Nú minnist hann misgjörðar þeirra og vitjar synda þeirra.

11 Og Drottinn sagði við mig: "Þú skalt eigi biðja þessum lýð góðs.

12 Þegar þeir fasta, þá hlýði ég eigi á grátbeiðni þeirra, og þegar þeir bera fram brennifórn og matfórn, þá hefi ég eigi þóknun á þeim, heldur vil ég gjöreyða þeim með sverði, hungri og drepsótt."

13 Þá sagði ég: "Æ, herra Drottinn, sjá, spámennirnir segja við þá: Þér munuð ekki sjá sverð, og hungri munuð þér ekki verða fyrir, heldur mun ég láta yður hljóta stöðuga heill á þessum stað!"

14 En Drottinn sagði við mig: "Spámennirnir boða lygar í mínu nafni. Ég hefi ekki sent þá og ég hefi ekki skipað þeim og ég hefi ekki við þá talað, þeir boða yður lognar sýnir, fánýtar spár og tál, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp.

15 Fyrir því segir Drottinn svo: Spámennirnir, sem spá í mínu nafni og segja, þótt ég hafi ekki sent þá: Hvorki mun sverð né hungur ganga yfir þetta land! _ fyrir sverði og hungri skulu þeir farast, þessir spámenn.

16 En lýðurinn, sem þeir boða spár sínar, skal liggja dauður á Jerúsalem-strætum af hungri og fyrir sverði, og enginn jarða þá, _ þeir sjálfir, konur þeirra, synir þeirra og dætur þeirra _ og ég vil úthella vonsku þeirra yfir þá."

17 Þú skalt tala til þeirra þessi orð: Augu mín skulu fljóta í tárum nótt og dag, og tárin eigi stöðvast, því að mærin, dóttir þjóðar minnar, hefir orðið fyrir ógurlegu áfalli, hefir særð verið al-ólæknandi sári.

18 Gangi ég út á völlinn, þá liggja þar þeir, er fallið hafa fyrir sverði, og gangi ég inn í borgina, þá sé ég þar menn dána úr hungri. Já, spámenn og prestar fara um landið og bera ekki kennsl á það.

19 Hefir þú þá hafnað Júda algjörlega, eða ert þú orðinn leiður á Síon? Hví hefir þú lostið oss svo, að vér verðum eigi læknaðir? Menn vænta hamingju, en ekkert gott kemur, vænta lækningartíma, og sjá, skelfing!

20 Vér þekkjum, Drottinn, yfirsjón vora, misgjörð feðra vorra, að vér höfum syndgað gegn þér.

21 Fyrirlít eigi, vegna nafns þíns, _ óvirð eigi hásæti dýrðar þinnar, minnstu sáttmála þíns við oss og rjúf hann eigi.

22 Eru nokkrir regngjafar meðal hinna fánýtu guða heiðingjanna, eða úthellir himinninn skúrum sjálfkrafa? Ert það ekki þú, Drottinn, Guð vor, svo að vér verðum að vona á þig? Því að þú hefir gjört allt þetta.

Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú til að flytja fyrirheitið um lífið í Kristi Jesú, heilsar

Tímóteusi, elskuðum syni sínum. Náð, miskunn og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, Drottni vorum.

Þakkir gjöri ég Guði, sem ég þjóna, eins og forfeður mínir, með hreinni samvisku, því að án afláts, nótt og dag, minnist ég þín í bænum mínum.

Ég þrái að sjá þig, minnugur tára þinna, til þess að ég fyllist gleði

er ég rifja upp fyrir mér hina hræsnislausu trú þína. Sú trú bjó fyrst í henni Lóis ömmu þinni og í henni Evnike móður þinni, og ég er sannfærður um, að hún býr líka í þér.

Fyrir þá sök minni ég þig á að glæða hjá þér þá náðargjöf, sem Guð gaf þér við yfirlagningu handa minna.

Því að ekki gaf Guð oss anda hugleysis, heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.

Fyrirverð þig því ekki fyrir vitnisburðinn um Drottin vorn, né fyrir mig, bandingja hans, heldur skalt þú með mér illt þola vegna fagnaðarerindisins, svo sem Guð gefur máttinn til.

Hann hefur frelsað oss og kallað heilagri köllun, ekki eftir verkum vorum, heldur eftir eigin ákvörðun og náð, sem oss var gefin fyrir Krist Jesú frá eilífum tímum,

10 en hefur nú birst við komu frelsara vors Krists Jesú. Hann afmáði dauðann, en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu.

11 Og til að boða það er ég settur prédikari, postuli og kennari.

12 Fyrir þá sök líð ég og þetta. En eigi fyrirverð ég mig, því að ég veit á hvern ég trúi. Og ég er sannfærður um, að hann er þess megnugur að varðveita það, sem mér er trúað fyrir, þar til dagurinn kemur.

13 Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú.

14 Varðveittu hið góða, sem þér er trúað fyrir, með hjálp heilags anda, sem í oss býr.

15 Þú veist þetta, að allir Asíumenn sneru við mér bakinu. Í þeirra flokki eru þeir Fýgelus og Hermogenes.

16 Drottinn veiti miskunn heimili Ónesífórusar, því að oft hressti hann mig og fyrirvarð sig ekki fyrir fjötur minn,

17 heldur lét sér annt um að leita mín, þegar hann kom til Rómar og fann mig.

18 Gefi Drottinn honum miskunn að finna hjá Drottni Guði á þeim degi! Og þú þekkir manna best, hve mikla þjónustu hann innti af hendi í Efesus.