Add parallel Print Page Options

Eigi skal myrkur vera í landi því, sem nú er í nauðum statt. Fyrrum lét hann vansæmd koma yfir Sebúlonsland og Naftalíland, en síðar meir mun hann varpa frægð yfir leiðina til hafsins, landið hinumegin Jórdanar og Galíleu heiðingjanna.

Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós.

Þú eykur stórum fögnuðinn, þú gjörir gleðina mikla. Menn gleðja sig fyrir þínu augliti, eins og þegar menn gleðjast á kornskurðartímanum, eins og menn leika af fögnuði þegar herfangi er skipt.

Því að hið þunga ok hennar, stafinn, sem reið að herðum hennar, brodd rekstrarmannsins, hefir þú í sundur brotið, eins og á degi Midíans.

Öll harkmikil hermannastígvél og allar blóðstokknar skikkjur skulu brenndar og verða eldsmatur.

Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.

Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka á hásæti Davíðs og í ríki hans. Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti héðan í frá og að eilífu. Vandlæting Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma.

Drottinn hefir sent orð gegn Jakob, og því lýstur niður í Ísrael.

Og öll þjóðin skal verða þess áskynja, bæði Efraím og Samaríubúar, sem af metnaði og stærilæti hjartans segja:

10 "Tigulsteinarnir eru hrundir, en vér skulum byggja upp aftur af höggnu grjóti, mórberjatrén eru felld, en vér skulum setja sedrustré í staðinn."

11 Þess vegna mun Drottinn efla mótstöðumenn Resíns á hendur þeim og vopna óvini þeirra,

12 Sýrlendinga að austan og Filista að vestan, og þeir skulu svelgja Ísrael með gapandi gini. Allt fyrir það linnti ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.

13 En þjóðin sneri sér ekki til hans, sem laust hana, og Drottins allsherjar leituðu þeir ekki.

14 Þess vegna mun Drottinn höggva höfuð og hala af Ísrael, pálmakvistinn og sefstráið á sama degi.

15 Öldungarnir og virðingamennirnir eru höfuðið, spámenn þeir, er kenna lygar, eru halinn.

16 Því að leiðtogar þessa fólks leiða það afleiðis, og þeir, sem láta leiða sig, tortímast.

17 Fyrir því hefir Drottinn enga gleði af æskumönnum þess og enga meðaumkun með munaðarleysingjum þess og ekkjum, því að allir eru þeir guðleysingjar og illvirkjar, og hver munnur mælir heimsku. Allt fyrir þetta linnti ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.

18 Því að hið óguðlega athæfi brennur eins og eldur, eyðir þyrnum og þistlum og kveikir í þykkum skógarrunnum, svo að þeir hvirflast upp í reykjarmökk.

19 Vegna reiði Drottins allsherjar stendur landið í björtu báli og fólkið verður sem eldsmatur; enginn þyrmir öðrum.

20 Menn rífa í sig til hægri handar og eru þó hungraðir. Þeir eta til vinstri handar og verða þó eigi saddir. Hver etur holdið af sínum eigin armlegg:

21 Manasse Efraím og Efraím Manasse, og báðir saman ráða þeir á Júda. Allt fyrir þetta linnir ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.

10 Vei þeim, sem veita ranga úrskurði og færa skaðsemdarákvæði í letur

til þess að halla rétti fátækra og ræna lögum hina nauðstöddu á meðal fólks míns, til þess að ekkjurnar verði þeim að herfangi og þeir fái féflett munaðarleysingjana.

Hvað ætlið þér að gjöra á degi hegningarinnar og þegar eyðingin kemur úr fjarska? Til hvers viljið þér þá flýja um ásjá? Og hvar viljið þér geyma auðæfi yðar?

Er nokkuð annað fyrir hendi en að falla á kné meðal hinna fjötruðu eða hníga meðal hinna vegnu? Allt fyrir þetta linnir ekki reiði hans, og hönd hans er enn þá útrétt.

Vei Assúr, vendinum reiði minnar! Heift mín er stafurinn í höndum þeirra.

Ég sendi hann móti guðlausri þjóð, ég býð honum að fara á móti lýðnum, sem ég er reiður, til þess að ræna og rupla og troða hann fótum sem saur á strætum.

En hann skilur það eigi svo, og hjarta hans hugsar eigi svo, heldur girnist hann að eyða og uppræta margar þjóðir.

Hann segir: "Eru ekki höfðingjar mínir allir saman konungar?

Fór ekki fyrir Kalne eins og fyrir Karkemis, fyrir Hamat eins og fyrir Arpad, fyrir Samaríu eins og fyrir Damaskus?

10 Eins og hönd mín náði til konungsríkja guðanna, og voru þó líkneskjur þeirra fleiri en Jerúsalem og Samaríu,

11 já, eins og ég hefi farið með Samaríu og guði hennar, svo mun ég fara með Jerúsalem og guðalíkneski hennar!"

12 En þegar Drottinn hefir lokið öllu starfi sínu á Síon-fjalli og í Jerúsalem, mun hann vitja ávaxtarins af ofmetnaðinum í hjarta Assýríukonungs og hins hrokafulla drembilætis augna hans,

13 því að hann hefir sagt: "Með styrk handar minnar hefi ég þessu til leiðar komið og með hyggindum mínum, því að ég er vitsmunamaður. Ég hefi fært úr stað landamerki þjóðanna, rænt fjárhlutum þeirra og sem alvaldur steypt af stóli drottnendum þeirra.

14 Hönd mín náði í fjárafla þjóðanna, sem fuglshreiður væri. Eins og menn safna eggjum, sem fuglinn er floginn af, svo hefi ég safnað saman öllum löndum, og hefir enginn blakað vængjum, lokið upp nefinu né tíst."

15 Hvort má öxin dramba í gegn þeim, sem heggur með henni, eða sögin miklast í gegn þeim, sem sagar með henni? Allt eins og sprotinn ætlaði að sveifla þeim, er reiðir hann, eða stafurinn færa á loft þann, sem ekki er af tré.

16 Fyrir því mun hinn alvaldi, Drottinn allsherjar, senda megrun í hetjulið hans, og undir dýrð hans mun eldur blossa upp sem brennandi bál.

17 Og ljós Ísraels mun verða að eldi og Hinn heilagi í Ísrael að loga, og sá logi skal á einum degi upp brenna og eyða þyrnum hans og þistlum

18 og afmá að fullu og öllu hina dýrlegu skóga hans og aldingarða. Hann skal verða eins og sjúklingur, sem veslast upp.

19 Og leifarnar af skógartrjám hans munu verða teljandi, og smásveinn mun geta skrifað þau upp.

20 Á þeim degi skulu leifarnar af Ísrael og þeir af Jakobs húsi, sem af komast, eigi framar reiða sig á þann sem sló þá, heldur munu þeir með trúfesti reiða sig á Drottin, Hinn heilaga í Ísrael.

21 Leifar munu aftur hverfa, leifarnar af Jakob, til hins máttuga Guðs.

22 Því að þótt fólksfjöldi þinn, Ísrael, væri sem sjávarsandur, skulu þó aðeins leifar af honum aftur hverfa. Eyðing er fastráðin, framveltandi flóð réttlætis.

23 Því að eyðingu, og hana fastráðna, mun hinn alvaldi, Drottinn allsherjar framkvæma á jörðinni miðri.

24 Svo segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar: Þú þjóð mín, sem býr á Síon, óttast þú eigi Assúr, er hann slær þig með sprota og reiðir að þér staf sinn, eins og Egyptar gjörðu.

25 Því að eftir skamma hríð er reiðin á enda, og þá beinist heift mín að eyðing þeirra.

26 Þá reiðir Drottinn allsherjar svipuna að þeim, eins og þegar hann laust Midíansmenn hjá Óreb-kletti. Stafur hans er útréttur yfir hafið, og hann færir hann á loft, eins og gegn Egyptum forðum.

27 Á þeim degi skal byrði sú, sem hann hefir á þig lagt, falla af herðum þér og ok hans af hálsi þínum, og okið skal brotna fyrir ofurfitu.

28 Óvinurinn heldur til Ajat, fer um Mígron og lætur eftir farangur sinn í Mikmas.

29 Þeir fara yfir skarðið, þeir hafa náttból í Geba. Rama skelfist, íbúar Gíbeu Sáls leggja á flótta.

30 Hljóða þú upp, Gallímdóttir! Hlustaðu á, Lejsa! Taktu undir, Anatót!

31 Madmena flýr, íbúar Gebím forða sér undan.

32 Þennan sama dag æir hann í Nób. Hann réttir út hönd sína móti fjalli Síonardóttur, móti hæð Jerúsalemborgar.

33 Sjá, hinn alvaldi, Drottinn allsherjar afsníður laufkrónuna voveiflega. Hin hávöxnu trén eru höggvin og hin gnæfandi hníga til jarðar.

34 Hann ryður skógarrunnana með öxi, og Líbanon fellur fyrir Hinum volduga.

Þess vegna er það, að ég, Páll, bandingi Krists Jesú vegna yðar, heiðinna manna, beygi kné mín.

Víst hafið þér heyrt um þá ráðstöfun Guðs náðar, sem hann fól mér hjá yður:

Að birta mér með opinberun leyndardóminn. Ég hef stuttlega skrifað um það áður.

Þegar þér lesið það, getið þér skynjað, hvað ég veit um leyndardóm Krists.

Hann var ekki birtur mannanna sonum fyrr á tímum. Nú hefur hann verið opinberaður heilögum postulum hans og spámönnum í andanum:

Heiðingjarnir eru í Kristi Jesú fyrir fagnaðarerindið orðnir erfingjar með oss, einn líkami með oss, og eiga hlut í sama fyrirheiti og vér.

Ég varð þjónn þessa fagnaðarerindis, af því að Guð gaf mér gjöf náðar sinnar með krafti máttar síns.

Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjunum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists

og að upplýsa alla um það, hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi. Hann hefur frá eilífð verið hulinn í Guði, sem allt hefur skapað.

10 Nú skyldi kirkjan látin kunngjöra tignunum og völdunum í himinhæðum, hve margháttuð speki Guðs er.

11 Þetta er Guðs eilífa fyrirætlun, sem hann hefur framkvæmt í Kristi Jesú, Drottni vorum.

12 Á honum byggist djörfung vor. Í trúnni á hann eigum vér öruggan aðgang að Guði.

13 Fyrir því bið ég, að þér látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum yðar vegna. Þær eru yður til vegsemdar.

14 Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum,

15 sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu.

16 Megi hann gefa yður af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með yður,

17 til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika.

18 Þá fáið þér ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann,

19 sem gnæfir yfir alla þekkingu, og náið að fyllast allri Guðs fyllingu.

20 En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum,

21 honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú um öll æviskeið, öld eftir öld. Amen.