Add parallel Print Page Options

39 Um þær mundir sendi Meródak Baladan Baladansson, konungur í Babýlon, bréf og gjafir til Hiskía, því að hann hafði frétt, að hann hefði verið sjúkur, en væri nú aftur heill orðinn.

Hiskía fagnaði komu þeirra og sýndi þeim féhirslu sína, silfrið og gullið, ilmjurtirnar og hina dýru olíu og allt vopnabúr sitt og allt, sem til var í fjársjóðum hans. Var enginn sá hlutur í höll Hiskía eða nokkurs staðar í ríki hans, að eigi sýndi hann þeim.

Þá kom Jesaja spámaður til Hiskía konungs og sagði við hann: "Hvert var erindi þessara manna, og hvaðan eru þeir til þín komnir?" Hiskía svaraði: "Af fjarlægu landi eru þeir til mín komnir, frá Babýlon."

Þá sagði hann: "Hvað sáu þeir í höll þinni?" Hiskía svaraði: "Allt, sem í höll minni er, hafa þeir séð. Enginn er sá hlutur í fjársjóðum mínum, að eigi hafi ég sýnt þeim."

Þá sagði Jesaja við Hiskía: "Heyr þú orð Drottins allsherjar.

Sjá, þeir dagar munu koma, að allt, sem er í höll þinni, og það, sem feður þínir hafa saman dregið allt til þessa dags, mun flutt verða til Babýlon. Ekkert skal eftir verða _ segir Drottinn.

Og nokkrir af sonum þínum, sem af þér munu koma og þú munt geta, munu teknir verða og gjörðir að hirðsveinum í höll konungsins í Babýlon."

En Hiskía sagði við Jesaja: "Gott er það orð Drottins, er þú hefir talað." Því að hann hugsaði: "Farsæld og friður helst þó meðan ég lifi."

40 Huggið, huggið lýð minn! segir Guð yðar.

Hughreystið Jerúsalem og boðið henni, að áþján hennar sé á enda, að sekt hennar sé goldin, að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins fyrir allar syndir sínar!

Heyr, kallað er: "Greiðið götu Drottins í eyðimörkinni, ryðjið Guði vorum veg í óbyggðinni!

Sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólarnir skulu verða að jafnsléttu og hamrarnir að dalagrundum!

Dýrð Drottins mun birtast, og allt hold mun sjá það, því að munnur Drottins hefir talað það!"

Heyr, einhver segir: "Kalla þú!" Og ég svara: "Hvað skal ég kalla?" "Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins.

Grasið visnar, blómin fölna, þegar Drottinn andar á þau. Sannlega, mennirnir eru gras.

Grasið visnar, blómin fölna, en orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega."

Stíg upp á hátt fjall, þú Síon fagnaðarboði! Hef upp raust þína kröftuglega, þú Jerúsalem fagnaðarboði! Hef upp raustina, óttast eigi, seg borgunum í Júda: "Sjá, Guð yðar kemur!"

10 Sjá, hinn alvaldi Drottinn kemur sem hetja, og armleggur hans aflar honum yfirráða. Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum.

11 Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar.

12 Hver hefir mælt vötnin í lófa sínum og stikað himininn með spönn sinni, innilukt duft jarðarinnar í mælikeri og vegið fjöllin á reislu og hálsana á metaskálum?

13 Hver hefir leiðbeint anda Drottins, hver hefir verið ráðgjafi hans og frætt hann?

14 Hvern hefir hann sótt að ráðum, þann er gæfi honum skilning og kenndi honum leið réttvísinnar, uppfræddi hann í þekkingu og vísaði honum veg viskunnar?

15 Sjá, þjóðirnar eru sem dropi í vatnskjólu og metnar sem ryk á vogarskálum. Sjá, eylöndunum lyftir hann upp eins og duftkorni.

16 Og Líbanon-skógur hrekkur ekki til eldsneytis og dýrin í honum ekki til brennifórnar.

17 Allar þjóðir eru sem ekkert fyrir honum, þær eru minna en ekki neitt og hégómi í hans augum.

18 Við hvern viljið þér þá samlíkja Guði, og hvað viljið þér taka til jafns við hann?

19 Líkneskið steypir smiðurinn, og gullsmiðurinn býr það slegnu gulli og setur á silfurfestar,

20 en sá, sem eigi á fyrir slíkri fórnargjöf, velur sér þann við, er ekki fúni, og leitar að góðum smið, er reist geti svo líkneski, að ekki haggist!

21 Vitið þér ekkert? Heyrið þér ekki? Hefir yður eigi verið kunngjört það frá upphafi? Hafið þér engan skilning hlotið frá grundvöllun jarðar?

22 Það er hann, sem situr hátt yfir jarðarkringlunni, og þeir, sem á henni búa, eru sem engisprettur. Það er hann, sem þenur út himininn eins og þunna voð og slær honum sundur eins og tjaldi til þess að búa í.

23 Það er hann, sem lætur höfðingjana verða að engu og gjörir drottna jarðarinnar að hégóma.

24 Varla eru þeir gróðursettir, varla niðursánir, varla hefir stofn þeirra náð að festa rætur í jörðinni fyrr en hann andar á þá, og þá skrælna þeir upp og stormbylurinn feykir þeim burt eins og hálmleggjum.

25 Við hvern viljið þér samlíkja mér, að ég sé honum jafn? segir Hinn heilagi.

26 Hefjið upp augu yðar til hæða og litist um: Hver hefir skapað stjörnurnar? Hann, sem leiðir út her þeirra með tölu og kallar þær allar með nafni. Sökum mikilleiks kraftar hans og af því að hann er voldugur að afli verður einskis þeirra vant.

27 Hví segir þú þá svo, Jakobsætt, og hví mælir þú þá svo, Ísrael: "Hagur minn er hulinn fyrir Drottni, og réttur minn er genginn úr höndum Guði mínum?"

28 Veistu þá ekki? Hefir þú ekki heyrt? Drottinn er eilífur Guð, er skapað hefir endimörk jarðarinnar. Hann þreytist ekki, hann lýist ekki, speki hans er órannsakanleg.

29 Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa.

30 Ungir menn þreytast og lýjast, og æskumenn hníga,

31 en þeir, sem vona á Drottin, fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir. Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.

Þér sem eigið þræla, veitið þeim það sem rétt er og sanngjarnt og vitið, að einnig þér eigið Drottin á himni.

Verið staðfastir í bæninni. Vakið og biðjið með þakkargjörð.

Biðjið jafnframt fyrir oss, að Guð opni oss dyr fyrir orðið og vér getum boðað leyndardóm Krists. Hans vegna er ég nú bundinn.

Biðjið, að ég megi birta hann eins og mér ber að tala.

Umgangist viturlega þá, sem fyrir utan eru, og notið hverja stundina.

Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.

Týkíkus, minn elskaði bróðir og trúi aðstoðarmaður og samverkamaður í þjónustu Drottins, mun láta yður vita allt um mína hagi.

Ég sendi hann til yðar gagngjört til þess að þér fáið að vita, hvernig oss líður, og til þess að hann uppörvi yður.

Með honum fer Onesímus, minn trúi og elskaði bróðir, sem er einn úr yðar hópi. Þeir munu láta yður vita allt, sem hér gjörist.

10 Aristarkus, sambandingi minn, biður að heilsa yður. Svo og Markús, frændi Barnabasar, sem þér hafið fengið orð um. Ef hann kemur til yðar, þá takið vel á móti honum.

11 Ennfremur biður Jesús, að viðurnefni Jústus, að heilsa yður. Þeir eru nú sem stendur einu umskornu samverkamenn mínir fyrir Guðs ríki, og hafa þeir verið mér til huggunar.

12 Einnig biður Epafras að heilsa yður, sem er einn úr yðar hópi. Hann er þjónn Krists Jesú og berst jafnan fyrir yður í bænum sínum, til þess að þér megið standa stöðugir, fullkomnir og fullvissir í öllu því, sem er vilji Guðs.

13 Þann vitnisburð gef ég honum, að hann leggur mikið á sig fyrir yður og þá sem eru í Laódíkeu og í Híerapólis.

14 Þá biður hann Lúkas að heilsa yður, læknirinn elskaði, og Demas.

15 Berið kveðju bræðrunum í Laódíkeu. Einnig Nýmfu og söfnuðinum sem kemur saman í húsi hennar.

16 Og þegar búið er að lesa þetta bréf upp hjá yður, þá látið líka lesa það í söfnuði Laódíkeumanna. Lesið þér og bréfið frá Laódíkeu.

17 Segið Arkippusi: "Gættu embættisins, sem þú hefur tekið að þér í Drottni, og ræktu það vel."