Add parallel Print Page Options

17 Spádómur um Damaskus. Sjá, Damaskus skal verða afmáð og ekki vera borg framar, hún skal verða að rústum.

Borgir Aróer skulu verða yfirgefnar, hjörðum skulu þær verða til beitar, þar skulu þær liggja og enginn styggja þær.

Varnarvirki Efraíms líður undir lok og konungdómurinn hverfur frá Damaskus. Fyrir leifum Sýrlands skal fara eins og fyrir vegsemd Ísraelsmanna _ segir Drottinn allsherjar.

Á þeim degi mun vegsemd Jakobs verða lítilfengleg og fitan á holdi hans rýrna.

Þá mun fara líkt og þegar kornskurðarmaður safnar kornstöngum og armleggur hans afsníður öxin, og eins og þegar öx eru tínd í Refaím-dal.

Eftirtíningur skal eftir verða af þeim, eins og þegar olíuviður er skekinn, tvö eða þrjú ber efst í laufinu, fjögur eða fimm á greinum aldintrésins _ segir Drottinn, Ísraels Guð.

Á þeim degi mun maðurinn mæna til skapara síns og augu hans líta til Hins heilaga í Ísrael.

Eigi mun hann þá mæna á ölturun, handaverk sín, né líta til þess, er fingur hans hafa gjört, hvorki til aséranna né sólsúlnanna.

Á þeim degi munu hinar víggirtu borgir hans verða sem yfirgefnir staðir Amoríta og Hevíta, er þeir fyrirlétu, þá er þeir hrukku undan Ísraelsmönnum, og landið skal verða að auðn,

10 því að þú hefir gleymt Guði hjálpræðis þíns og eigi minnst þess hellubjargsins, sem er hæli þitt. Vegna þess að þú plantar yndislega garða og setur þar niður útlenda gróðurkvistu,

11 ræktar garð þinn á daginn og lætur á morgnana útsæði þitt blómgast, skal uppskeran bregðast á degi hins banvæna sárs og hinna ólæknandi kvala.

12 Heyr gný margra þjóða _ þær gnýja sem gnýr hafsins. Heyr dyn þjóðflokkanna _ þeir dynja eins og dynur mikilla vatnsfalla.

13 Þjóðflokkarnir dynja eins og dynur margra vatnsfalla. En Drottinn hastar á þá, og þá flýja þeir langt burt. Þeir tvístrast eins og sáðir á hólum fyrir vindi, eins og rykmökkur fyrir stormi.

14 Að kveldi er þar skelfing, áður en morgnar eru þeir allir á burt. Þetta er hlutskipti þeirra, er oss ræna, og örlög þeirra, er frá oss rupla.

18 Vei landi vængjaþytsins, hinumegin Blálands fljóta,

er gjörir út sendimenn yfir hafið og í reyrbátum yfir vötnin. Farið, þér hröðu sendiboðar, til hinna hávöxnu og gljáandi þjóðar, til lýðsins, sem hræðilegur var þegar frá upphafi vega sinna, til hinnar afar sterku þjóðar, sem allt treður undir fótum sér, um hverrar land fljótin renna:

Allir þér, sem heimskringluna byggið og á jörðu búið, skuluð sjá, þegar merkið er reist á fjöllunum, og hlusta, þegar blásið er í lúðurinn.

Því að svo hefir Drottinn sagt við mig: Ég vil halda kyrru fyrir og horfa á frá bústað mínum, meðan loftið er glóandi í sólskininu, meðan döggin er mikil í breiskjuhita kornskurðartímans.

Áður en uppskeran kemur, þegar blómgunin er á enda og blómið verður að fullvöxnu vínberi, heggur hann vínviðargreinarnar af með sniðlinum, og frjóangana stýfir hann, sníður þá af.

Allir saman skulu þeir gefnir verða ránfuglum fjallanna og dýrum jarðarinnar. Ránfuglarnir skulu sitja á þeim sumarlangt og öll dýr jarðarinnar halda sig þar þegar vetrar.

Á þeim tíma skulu gjafir verða færðar Drottni allsherjar frá hinum hávaxna og gljáandi lýð, frá lýðnum, sem hræðilegur var þegar frá upphafi vega sinna, frá hinni afar sterku þjóð, sem allt treður undir fótum sér, um hverrar land fljótin renna, _ til þess staðar, þar sem nafn Drottins hersveitanna er, til Síonfjalls.

19 Spádómur um Egyptaland. Sjá, Drottinn ekur á léttfæru skýi og kemur til Egyptalands. Þá skjálfa goð Egyptalands fyrir honum og hjörtu Egypta bráðna í brjóstum þeirra.

Ég æsi Egypta í gegn Egyptum, svo að bróðir skal berjast við bróður, vinur við vin, borg við borg og ríki við ríki.

Hyggindi Egypta munu þá verða örþrota, og ráðagjörðir þeirra ónýti ég. Þeir munu leita frétta hjá goðum sínum, hjá galdramönnum, þjónustuöndum og spásagnaröndum.

Ég vil selja Egypta harðráðum drottnara á vald, og grimmur konungur skal ríkja yfir þeim _ segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar.

Vötnin í sjónum munu þverra og fljótið grynnast og þorna upp.

Árkvíslarnar munu fúlna, fljót Egyptalands þverra og þorna, reyr og sef visna.

Engjarnar fram með Níl, á sjálfum Nílarbökkunum, og öll sáðlönd við Níl þorna upp, eyðast og hverfa.

Þá munu fiskimennirnir andvarpa og allir þeir sýta, sem öngli renna í Níl, og þeir, sem leggja net í vötn, munu örvilnast.

Þeir, sem vinna hörinn, munu standa ráðþrota, kembingarkonurnar og vefararnir blikna.

10 Stoðir landsins skulu brotnar verða sundur, allir þeir, sem vinna fyrir kaup, verða hugdaprir.

11 Höfðingjarnir í Sóan eru tómir heimskingjar, ráðspekin hjá hinum vitrustu ráðgjöfum Faraós orðin að flónsku. Hvernig dirfist þér að segja við Faraó: "Ég er sonur vitringanna og kominn af fornkonungunum"?

12 Hvar eru nú vitringar þínir? Þeir ættu nú að segja þér, og mega vita, hverja fyrirætlan Drottinn allsherjar hefir með Egyptaland.

13 Höfðingjarnir í Sóan standa eins og afglapar, höfðingjarnir í Nóf eru á tálar dregnir. Þeir sem eru hyrningarsteinar ættkvísla Egyptalands, hafa leitt það á glapstigu.

14 Drottinn hefir byrlað þeim sundlunaranda, svo að þeir valda því, að Egyptaland er á reiki í öllum fyrirtækjum sínum, eins og drukkinn maður reikar innan um spýju sína.

15 Ekkert heppnast Egyptalandi, hvorki það sem höfuð eða hali, pálmakvistur eða sefstrá taka sér fyrir að gjöra.

16 Á þeim degi munu Egyptar verða sem konur, þeir munu skelfast og hræðast reidda hönd Drottins allsherjar, er hann reiðir gegn þeim.

17 Þá skal Egyptalandi standa ótti af Júdalandi. Í hvert sinn sem á það er minnst við þá munu þeir skelfast, vegna ráðs þess, er Drottinn allsherjar hefir ráðið gegn þeim.

18 Á þeim degi munu fimm borgir í Egyptalandi mæla á kanverska tungu og sverja hlýðni Drottni allsherjar. Skal ein þeirra kallast Bær réttvísinnar.

19 Á þeim degi mun vera altari handa Drottni í miðju Egyptalandi og merkissteinn handa Drottni við landamærin.

20 Það skal vera til merkis og vitnisburðar um Drottin allsherjar í Egyptalandi. Þegar þeir hrópa til Drottins undan kúgurunum, mun hann senda þeim fulltingjara og forvígismann, er frelsar þá.

21 Drottinn mun kunnur verða Egyptalandi, og Egyptar munu þekkja Drottin á þeim degi. Þeir munu dýrka hann með sláturfórnum og matfórnum og vinna Drottni heit og efna þau.

22 Og Drottinn mun slá Egyptaland, slá og græða, og þeir munu snúa sér til Drottins, og hann mun bænheyra þá og græða þá.

23 Á þeim degi skal vera brautarvegur frá Egyptalandi til Assýríu, og Assýringar skulu koma til Egyptalands og Egyptar til Assýríu, og Egyptar munu tilbiðja ásamt Assýringum.

24 Á þeim degi munu þessir þrír taka saman, Ísrael, Egyptaland og Assýría, og vera blessun á jörðinni miðri.

25 Drottinn allsherjar blessar þá og segir: Blessuð sé þjóð mín Egyptar, verkið handa minna Assýría og arfleifð mín Ísrael!

17 Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji Drottins.

18 Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum,

19 og ávarpið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum. Syngið og leikið fyrir Drottin í hjörtum yðar,

20 og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.

21 Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists:

22 Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn.

23 Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns.

24 En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu.

25 Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana,

26 til þess að helga hana og hreinsa í laug vatnsins með orði.

27 Hann vildi leiða hana fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt þess háttar. Heilög skyldi hún og lýtalaus.

28 Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig.

29 Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast, eins og Kristur kirkjuna,

30 því vér erum limir á líkama hans.

31 "Þess vegna skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína, og munu þau tvö verða einn maður."

32 Þetta er mikill leyndardómur. Ég hef í huga Krist og kirkjuna.

33 En sem sagt, þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum.

Read full chapter