Add parallel Print Page Options

Heyrið þetta, þér prestar! Takið eftir, þér Ísraelsmenn! Hlýð þú á, konungs hús! Þér áttuð að framfylgja réttlæti, en eruð orðnir snara fyrir Mispa og útþanið net á Tabor.

Þeir grófu djúpa gröf fráhvarfsins, en ég mun refsa þeim öllum.

Ég þekki Efraím, og Ísrael getur ekki dulist fyrir mér. Já, nú hefir þú drýgt hór, Efraím, Ísrael saurgað sig.

Verk þeirra leyfa þeim eigi að snúa aftur til Guðs þeirra, því að hórdómsandi býr í þeim, og Drottin þekkja þeir ekki.

En Ísraels tign mun vitna í gegn þeim, og Ísrael og Efraím munu steypast vegna misgjörðar þeirra. Júda mun og steypast með þeim.

Þegar þeir þá koma með sauði sína og naut til þess að leita Drottins, þá munu þeir ekki finna hann, hann hefir sagt sig lausan við þá.

Drottni hafa þeir verið ótrúir, því að þeir hafa getið óskilgetin börn. Nú skal tunglkoman eyða þeim og ekrum þeirra.

Þeytið lúðurinn í Gíbeu og básúnuna í Rama! Æpið heróp í Betaven! Óvinirnir á hælum þér, Benjamín!

Efraím skal verða að auðn á degi hirtingarinnar. Ísraels ættkvíslum boða ég áreiðanlega hluti.

10 Höfðingjar Júda eru líkir þeim, sem færa landamerki úr stað; yfir þá vil ég úthella reiði minni eins og vatni.

11 Í Efraím er rétturinn ofríki borinn og fótum troðinn, því að honum þóknaðist að elta fánýt goð.

12 Því varð ég sem mölur Efraím og sem nagandi ormur Júda húsi.

13 Er Efraím sá sjúkdóm sinn og Júda mein sitt, þá leitaði Efraím til Assýríu og sendi til stórkonungsins. En hann megnar ekki að lækna yður né að græða mein yðar,

14 því að ég mun verða eins og dýrið óarga fyrir Efraím og eins og ungt ljón Júda húsi. Ég, ég mun sundurrífa og fara burt, bera burt bráðina, án þess að nokkur bjargi.

15 Ég mun fara burt og hverfa aftur á minn stað, uns þeir kannast við afbrot sín og leita míns auglitis. Þegar að þeim þrengir, munu þeir snúa sér til mín.

"Komið, vér skulum hverfa aftur til Drottins, því að hann hefir sundur rifið og mun lækna oss, hann hefir lostið og mun binda um sár vor.

Hann mun lífga oss eftir tvo daga og reisa oss upp á þriðja degi, til þess að vér lifum fyrir hans augliti.

Vér viljum og þekkja, kosta kapps um að þekkja Drottin _ hann mun eins áreiðanlega koma eins og morgunroðinn rennur upp _ svo að hann komi yfir oss eins og regnskúr, eins og vorregn, sem vökvar jörðina."

Hvað skal ég við þig gjöra, Efraím, hvað skal ég við þig gjöra, Júda, þar sem elska yðar er eins hvikul og morgunský, eins og döggin, sem snemma hverfur?

Fyrir því verð ég að vega að þeim fyrir munn spámannanna, bana þeim með orði munns míns, og fyrir því verður dómur minn að birtast eins óbrigðult og dagsljósið rennur upp.

Því að á miskunnsemi hefi ég þóknun, en ekki á sláturfórn, og á guðsþekking fremur en á brennifórnum.

Þeir hafa rofið sáttmálann að manna hætti, þar hafa þeir verið mér ótrúir.

Gíleað er glæpamanna borg, full af blóðferlum,

og prestaflokkurinn er eins og ræningjar, sem veita mönnum fyrirsát. Þeir myrða á veginum til Síkem, já, svívirðing hafa þeir framið.

10 Í Ísraelsríki hefi ég séð hryllilega hluti, þar hefir Efraím drýgt hór, Ísrael saurgað sig.

11 Einnig þér, Júda, hefir hann búið uppskeru. Þegar ég sný við högum þjóðar minnar,

jafnskjótt og ég ætla að lækna Ísrael, koma misgjörðir Efraíms í ljós og illverk Samaríu, því að þeir fremja svik og þjófar brjótast inn í húsin og ræningjasveitir ræna úti fyrir.

Og þeir hugsa ekki um það, að ég man eftir allri illsku þeirra. Nú umkringja gjörðir þeirra þá, eru komnar fyrir auglit mitt.

Þeir gamna konunginum með illsku sinni og höfðingjunum með lygum sínum.

Þeir eru allir hórkarlar, þeir eru eins og glóandi ofn, sem bakarinn aðeins hættir að kynda frá því hann hefir hnoðað deigið, uns það er gagnsýrt.

Á hátíðardegi konungs vors drekka höfðingjarnir sig sjúka í víni, menn leggja lag sitt við gárunga.

Því að innan eru þeir eins og ofn, hjarta þeirra brennur í þeim. Alla nóttina sefur reiði þeirra, á morgnana brennur hún eins og logandi eldur.

Allir eru þeir glóandi eins og ofn, svo að þeir fyrirkoma yfirmönnum sínum. Allir konungar þeirra eru fallnir, enginn ákallar mig á meðal þeirra.

Efraím hefir blandað sér saman við þjóðirnar, Efraím er orðinn eins og kaka, sem ekki hefir verið snúið.

Útlendir menn hafa eytt krafti hans, án þess að hann viti af því, já, hærur eru sprottnar í höfði honum, án þess að hann hafi veitt því eftirtekt.

10 Þrátt fyrir það, þótt vegsemd Ísraels hafi vitnað í gegn þeim, þá hafa þeir ekki snúið sér til Drottins, Guðs síns, og hafa ekki leitað hans, þrátt fyrir allt þetta.

11 En Efraím er orðinn eins og einföld, óskynsöm dúfa: Þeir kalla á Egypta, fara á fund Assýringa.

12 Þegar þeir fara þangað, breiði ég net mitt yfir þá, steypi þeim niður eins og fugli í loftinu, tyfta þá, eins og söfnuði þeirra hefir boðað verið.

13 Vei þeim, að þeir reika langt í burt frá mér! Eyðing yfir þá, að þeir hafa brugðið trúnaði við mig! Ég hefi leyst þá, og þeir hafa talað lygar gegn mér,

14 og hrópuðu ekki til mín af hjarta, heldur kveinuðu í rekkjum sínum. Vegna korns og vínberjalagar ristu þeir á sig skinnsprettur, mér fráhverfir.

15 Og þó er það ég, sem hefi frætt þá, sem hefi gjört armleggi þeirra styrka. En gagnvart mér hafa þeir illt í hyggju.

16 Þeir snúa sér, en ekki í hæðirnar. Þeir eru eins og svikull bogi. Höfðingjar þeirra munu falla fyrir sverði vegna ósvífni tungu sinnar. Fyrir það munu menn hæða þá á Egyptalandi.

Set lúðurinn á munn þér! Eins og örn kemur hann yfir hús Drottins. Því að þeir hafa rofið sáttmála minn og vikið frá lögmáli mínu.

Þeir hrópa til mín: "Guð minn! Vér Ísraelsmenn þekkjum þig!"

Ísrael hefir hafnað blessuninni, fyrir því skulu óvinirnir elta hann.

Þeir hafa tekið sér konunga að mér fornspurðum, hafa valið sér höfðingja án minnar vitundar. Af silfri sínu og gulli hafa þeir gjört sér goðalíkneski, aðeins til þess að þeir tortímdust.

Andstyggilegur er kálfur þinn, Samaría. Reiði mín er upptendruð gegn þeim. _ Hversu langt mun þangað til þeir verða hreinir? _

Því að úr Ísrael er hann, hagleiksmaður hefir smíðað hann, en guð er hann ekki. Nei, kálfur Samaríu skal klofinn í spón.

Þeir sá vindi, og storm skulu þeir uppskera, útsæði sem ekkert strá sprettur upp af og ekkert korn fæst úr, og ef nokkuð fengist úr því, mundu útlendingar gleypa það.

Ísrael mun gleyptur verða, hann er nú þegar meðal þjóðanna eins og ker, sem enginn skeytir um.

Því að þeir hafa farið á fund Assýringa eins og villiasni, sem tekur sig út úr. Efraím falar ástir.

10 En þótt þeir fali ástir meðal þjóðanna, þá mun ég nú saman safna þeim, til þess að þeir hætti bráðlega að smyrja konunga og höfðingja.

11 Já, Efraím hefir reist mörg ölturu, ölturun urðu honum til syndar.

12 Þótt ég riti honum lögmálssetningar þúsundum saman, þá eru þær álitnar sem orð útlendings.

13 Þeir fórna sláturfórnum, kjöti og eta það, Drottinn hefir enga velþóknun á þeim. Nú mun hann minnast misgjörðar þeirra og vitja synda þeirra. Þeir skulu hverfa aftur til Egyptalands.

14 Ísrael gleymdi skapara sínum og reisti sér hallir, og Júda byggði margar víggirtar borgir, en ég vil skjóta eldi í borgir hans, og eldurinn skal eyða skrauthýsum hans.

Engli safnaðarins í Efesus skalt þú rita: Þetta segir sá sem heldur á stjörnunum sjö í hægri hendi sér, sá sem gengur á milli gullstikanna sjö:

Ég þekki verkin þín og erfiðið og þolgæði þitt og veit, að eigi getur þú sætt þig við vonda menn. Þú hefur reynt þá, sem segja sjálfa sig vera postula, en eru það ekki, og þú hefur komist að því, að þeir eru lygarar.

Þú ert þolgóður og byrðar hefur þú borið fyrir sakir nafns míns og ekki þreytst.

En það hef ég á móti þér, að þú hefur afrækt þinn fyrri kærleika.

Minnst þú því, úr hvaða hæð þú hefur hrapað, og gjör iðrun og breyttu eins og fyrrum. Að öðrum kosti kem ég til þín og færi ljósastiku þína úr stað, ef þú gjörir ekki iðrun.

En það mátt þú eiga, að þú hatar verk Nikólaítanna, sem ég sjálfur hata.

Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar, honum mun ég gefa að eta af lífsins tré, sem er í Paradís Guðs.

Og engli safnaðarins í Smýrnu skalt þú rita: Þetta segir sá fyrsti og síðasti, sá sem dó og varð aftur lifandi:

Ég þekki þrengingu þína og fátækt _ en þú ert samt auðugur. Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim, sem segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur samkunda Satans.

10 Kvíð þú ekki því, sem þú átt að líða. Sjá, djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi, til þess að yðar verði freistað, og þér munuð þrenging hafa í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.

11 Hver sem eyra hefur, hann heyri, hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun sá annar dauði ekki granda.

12 Og engli safnaðarins í Pergamos skalt þú rita: Þetta segir sá sem hefur sverðið tvíeggjaða og bitra:

13 Ég veit hvar þú býrð, þar sem hásæti Satans er. Þú heldur stöðugt við nafn mitt og afneitar ekki trúnni á mig, jafnvel ekki á dögum Antípasar, míns trúa vottar, sem deyddur var hjá yður, þar sem Satan býr.

14 En þó hef ég nokkuð á móti þér. Þú hefur hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Bíleams, þess er kenndi Balak að tæla Ísraelsmenn, svo að þeir neyttu kjöts, sem helgað var skurðgoðum, og drýgðu hór.

15 Þannig hefur þú líka hjá þér menn, sem halda fast við kenningu Nikólaíta.

16 Gjör því iðrun! Að öðrum kosti kem ég skjótt til þín og mun berjast við þá með sverði munns míns.

17 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun ég gefa af hinu hulda "manna", og ég mun gefa honum hvítan stein, og á steininn ritað nýtt nafn, sem enginn þekkir nema sá, er við tekur.

18 Og engli safnaðarins í Þýatíru skalt þú rita: Þetta segir sonur Guðs, sem augun hefur eins og eldsloga og fætur hans eru líkir glómálmi:

19 Ég þekki verkin þín og kærleikann, trúna, þjónustuna og þolgæði þitt og veit, að verk þín hin síðari eru meiri en hin fyrri.

20 En það hef ég á móti þér, að þú líður Jessabel, konuna, sem segir sjálfa sig vera spákonu og kennir þjónum mínum og afvegaleiðir þá til að drýgja hór og eta kjöt helgað skurðgoðum.

21 Ég hef gefið henni frest til þess að hún gjöri iðrun, en hún vill ekki gjöra iðrun og láta af hórdómi sínum.

22 Nú mun ég varpa henni á sjúkrabeð og þeim í mikla þrengingu, sem hórast með henni, ef þeir gjöra ekki iðrun og láta af verkum hennar.

23 Og börn hennar mun ég deyða og allir söfnuðirnir skulu vita, að ég er sá, sem rannsakar nýrun og hjörtun, og ég mun gjalda yður, hverjum og einum, eftir verkum yðar.

24 En yður segi ég, hinum sem eruð í Þýatíru, öllum þeim sem hafa ekki kenningu þessa, þar sem þeir hafa ekki kannað djúp Satans, sem þeir svo kalla: Aðra byrði legg ég eigi á yður,

25 nema það að þér haldið því, sem þér hafið, þangað til ég kem.

26 Þeim er sigrar og varðveitir allt til enda verk mín mun ég gefa vald yfir heiðingjunum.

27 Og hann mun stjórna þeim með járnsprota, eins og leirker eru moluð. Það vald hef ég fengið frá föður mínum.

28 Og ég mun gefa honum morgunstjörnuna.

29 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.