Add parallel Print Page Options

14 En til mín komu nokkrir af öldungum Ísraels og settust niður frammi fyrir mér.

Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, þessir menn hafa skipað skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og sett ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig. Ætti ég þá að láta þá ganga til frétta við mig?

Fyrir því tala þú til þeirra og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Hver sá af Ísraelsmönnum, sem skipar skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og setur ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig og fer þó til spámanns, honum skal ég, Drottinn, sjálfur svör gefa, þrátt fyrir hans mörgu skurðgoð,

til þess að taka um hjartað í Ísraelsmönnum, er gjörst hafa mér ókunnugir fyrir öll skurðgoð sín.

Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Snúið við og snúið yður frá skurðgoðum yðar og snúið augliti yðar burt frá öllum svívirðingum yðar.

Því að sérhver sá af Ísraelsmönnum og af útlendingum þeim, er dveljast meðal Ísraelsmanna, er gjörist mér fráhverfur og skipar skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og setur ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig og fer þó til spámanns til þess að láta hann spyrja mig fyrir sig, honum skal ég, Drottinn, sjálfur svör gefa.

Ég vil snúa augliti mínu gegn slíkum manni og gjöra hann að tákni og orðtaki og uppræta hann úr þjóð minni, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.

En láti spámaðurinn tæla sig og flytji hann spámæli, þá hefi ég, Drottinn, tælt þann spámann, og ég mun rétta út hönd mína móti honum og afmá hann úr þjóð minni Ísrael.

10 Og þeir skulu báðir bera sekt sína: Þeir skulu vera jafnsekir hvor um sig, sá er til frétta gengur og spámaðurinn,

11 til þess að Ísraelsmenn villist ekki framar frá mér og saurgi sig ekki framar á alls konar glæpum, heldur skulu þeir vera mín þjóð, og ég skal vera þeirra Guð _ segir Drottinn Guð."

12 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

13 "Mannsson, ef land syndgar móti mér, með því að bregða trúnaði, og ég rétti út hönd mína gegn því og brýt sundur staf brauðsins fyrir því og sendi hungur í það og eyði þar mönnum og fénaði,

14 og þótt í því væru þessir þrír menn: Nói, Daníel og Job, þá mundu þeir þó aðeins fá bjargað sjálfum sér fyrir ráðvendni sína _ segir Drottinn Guð.

15 Ef ég léti óargadýr fara yfir landið og þau eyddu það að mönnum, svo að það yrði auðn, sem enginn færi um vegna dýranna,

16 og þessir þrír menn væru í því, _ svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, skyldu þeir hvorki fá bjargað sonum né dætrum. Þeir mundu aðeins fá bjargað sjálfum sér, en landið skyldi verða auðn.

17 Eða ef ég léti sverð geisa yfir þetta land og segði: Sverðið skal fara yfir landið! og eyddi í því mönnum og skepnum,

18 og þessir þrír menn væru í því, _ svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, hvorki mundu þeir fá bjargað sonum né dætrum, heldur mundu þeir aðeins fá bjargað sjálfum sér.

19 Eða ef ég sendi drepsótt inn í þetta land og jysi yfir það blóðugri heift minni, til þess að eyða í því mönnum og skepnum,

20 og Nói, Daníel og Job væru í því, _ svo sannarlega sem Drottinn Guð lifir, skyldu þeir hvorki fá bjargað syni né dóttur. Þeir mundu aðeins fá bjargað sjálfum sér fyrir ráðvendni sína.

21 Þó segir Drottinn Guð svo: Jafnvel þótt ég sendi fjóra mína vondu refsidóma, sverð, hungur, óargadýr og drepsótt, yfir Jerúsalem til þess að eyða í henni mönnum og skepnum,

22 þá skal þó hópur eftir verða, sem af kemst, þeir er fara út með sonu og dætur. Þeir munu koma út til yðar, og þér munuð sjá breytni þeirra og gjörðir þeirra og huggast yfir ógæfu þeirri, er ég hefi látið koma yfir Jerúsalem, yfir öllu því, er ég hefi látið koma yfir hana.

23 Og þeir munu hugga yður, er þér sjáið breytni þeirra og gjörðir þeirra, og þér munuð sjá, að ég hefi ekkert gjört án orsaka af öllu því, er ég hefi í henni gjört _ segir Drottinn Guð."

15 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, hvað hefir vínviðurinn fram yfir allan annan við, teinungurinn, sem er á meðal skógartrjánna?

Verður af honum tekinn efniviður til smíða, eða fæst úr honum snagi, til þess að hengja á alls konar verkfæri?

Nei, hann er hafður til eldsneytis. Þegar eldurinn hefir brennt báða enda hans, og sé miðjan sviðnuð, hvert gagn er þá að honum til efniviðar?

Meðan hann enn er heill, verður ekkert úr honum smíðað, því síður að nú verði nokkuð úr honum gjört, þegar eldurinn hefir brennt hann og hann er sviðnaður.

Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Eins og vínviðinn meðal skógartrjánna, sem ég hefi ætlað til eldsneytis, svo vil ég fara með Jerúsalembúa.

Ég skal snúa augliti mínu gegn þeim: Þeir hafa komist úr eldinum, og eldurinn skal eyða þeim, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég sný augliti mínu gegn þeim.

Og ég gjöri landið að auðn, af því að þeir hafa brugðið trúnaði við mig _ segir Drottinn Guð."

Bræður mínir, farið ekki í manngreinarálit, þér sem trúið á dýrðardrottin vorn Jesú Krist.

Nú kemur maður inn í samkundu yðar með gullhring á hendi og í skartlegum klæðum, og jafnframt kemur inn fátækur maður í óhreinum fötum,

ef öll athygli yðar beinist að þeim, sem skartklæðin ber, og þér segið: "Settu þig hérna í gott sæti!" en segið við fátæka manninn: "Stattu þarna, eða settu þig á gólfið við fótskör mína!"

hafið þér þá ekki mismunað mönnum og orðið dómarar með vondum hugsunum?

Heyrið, bræður mínir elskaðir! Hefur Guð ekki útvalið þá, sem fátækir eru í augum heimsins, til þess að þeir verði auðugir í trú og erfingjar þess ríkis, er hann hefur heitið þeim, sem elska hann?

En þér hafið óvirt hinn fátæka. Eru það þó ekki hinir ríku, sem undiroka yður og draga yður fyrir dómstóla?

Eru það ekki þeir, sem lastmæla hinu góða nafni, sem nefnt var yfir yður?

Ef þér uppfyllið hið konunglega boðorð Ritningarinnar: "Þú skalt elska náunga þinn sem sjálfan þig", þá gjörið þér vel.

En ef þér farið í manngreinarálit, þá drýgið þér synd og lögmálið sannar upp á yður að þér séuð brotamenn.

10 Þótt einhver héldi allt lögmálið, en hrasaði í einu atriði, þá er hann orðinn sekur við öll boðorð þess.

11 Því sá sem sagði: "Þú skalt ekki hórdóm drýgja", hann sagði líka: "Þú skalt ekki morð fremja." En þó að þú drýgir ekki hór, en fremur morð, þá ertu búinn að brjóta lögmálið.

12 Talið því og breytið eins og þeir, er dæmast eiga eftir lögmáli frelsisins.

13 Því að dómurinn verður miskunnarlaus þeim, sem ekki auðsýndi miskunn, en miskunnsemin gengur sigri hrósandi að dómi.

14 Hvað stoðar það, bræður mínir, þótt einhver segist hafa trú, en hefur eigi verk? Mun trúin geta frelsað hann?

15 Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi

16 og einhver yðar segði við þau: "Farið í friði, vermið yður og mettið!" en þér gefið þeim ekki það, sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það?

17 Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin.

18 En nú segir einhver: "Einn hefur trú, annar verk." Sýn mér þá trú þína án verkanna, og ég skal sýna þér trúna af verkum mínum.

19 Þú trúir, að Guð sé einn. Þú gjörir vel. En illu andarnir trúa því líka og skelfast.

20 Fávísi maður! Vilt þú láta þér skiljast, að trúin er ónýt án verkanna?

21 Réttlættist ekki Abraham faðir vor af verkum, er hann lagði son sinn Ísak á altarið?

22 Þú sérð, að trúin var samtaka verkum hans og að trúin fullkomnaðist með verkunum.

23 Og ritningin rættist, sem segir: "Abraham trúði Guði, og það var honum til réttlætis reiknað," og hann var kallaður Guðs vinur.

24 Þér sjáið, að maðurinn réttlætist af verkum og ekki af trú einni saman.

25 Svo var og um skækjuna Rahab. Réttlættist hún ekki af verkum, er hún tók við sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið?

26 Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka.