Add parallel Print Page Options

11 Og andinn hóf mig upp og flutti mig að austurhliði musteris Drottins, sem horfir mót austri. Þar stóðu fyrir dyrum hliðsins tuttugu og fimm menn, og á meðal þeirra sá ég Jaasanja Assúrsson og Pelatja Benajason, foringja lýðsins.

Þá sagði hann við mig: "Mannsson, það eru þessir menn, sem hafa illt í huga og ráða mönnum óheilt í þessari borg.

Þeir segja: ,Hafa ekki húsin nýlega verið endurreist? Borgin er potturinn, en vér erum kjötið.`

Spá þú þess vegna móti þeim, spá þú, mannsson!"

Þá kom andi Drottins yfir mig og sagði við mig: "Seg þú: Svo segir Drottinn: Svo segið þér, Ísraelsmenn, og ég þekki hugrenningar yðar.

Marga menn yðar hafið þér drepið í þessari borg og þér hafið fyllt stræti hennar vegnum mönnum.

Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Þeir menn, sem þér hafið lagt að velli í borginni, þeir eru kjötið og borgin er potturinn. En þér munuð fluttir verða burt úr henni.

Við sverðið eruð þér hræddir, og sverðið skal ég láta yfir yður koma, segir Drottinn Guð.

Og ég skal færa yður burt úr borginni og selja yður útlendum mönnum í hendur og framkvæma dóma meðal yðar.

10 Fyrir sverði skuluð þér falla, í Ísraelslandi skal ég dæma yður, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn.

11 Borgin skal ekki verða yður að potti og þér skuluð ekki verða kjöt í henni, í Ísraelslandi skal ég dæma yður.

12 Þá skuluð þér viðurkenna, að ég er Drottinn. En mínum boðorðum hafið þér ekki hlýtt og mína setninga hafið þér ekki haldið, heldur hafið þér breytt eftir setningum heiðnu þjóðanna, sem umhverfis yður eru."

13 Meðan ég spáði þannig, féll Pelatja Benajason dauður niður. Þá féll ég fram á ásjónu mína, kallaði upp hárri röddu og sagði: "Æ, Drottinn Guð, ætlar þú að gjöreyða öllum eftirleifum Ísraels?"

14 Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

15 "Mannsson, um bræður þína, bræður þína, þá menn, er með þér voru herleiddir, og gjörvallan Ísraels lýð, segja Jerúsalembúar: ,Þeir eru langt í burtu frá Drottni, oss er landið gefið til eignar!`

16 Fyrir því skalt þú segja: Svo segir Drottinn Guð: Já, ég hefi rekið þá langt burt til heiðinna þjóða og dreift þeim út um löndin, og ég varð þeim skamma hríð að helgidómi í löndum þeim, sem þeir eru komnir til.

17 Fyrir því skalt þú segja: Svo segir Drottinn Guð: Ég vil safna yður saman frá þjóðunum og stefna yður saman frá löndunum, þangað sem yður var dreift, og gefa yður Ísraelsland.

18 Þangað munu þeir komast og útrýma þaðan öllum viðurstyggðum þess og öllum svívirðingum þess.

19 Og ég mun gefa þeim nýtt hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama þeirra og gefa þeim hjarta af holdi,

20 til þess að þeir hlýði boðorðum mínum og varðveiti setninga mína og breyti eftir þeim. Og þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð.

21 En þessir _ hjarta þeirra eltir viðurstyggðir þeirra og andstyggðir. Ég skal láta athæfi þeirra koma þeim í koll, segir Drottinn Guð."

22 Nú hófu kerúbarnir vængi sína og hjólin færðust til samtímis þeim, en dýrð Ísraels Guðs var uppi yfir þeim.

23 Og dýrð Drottins hóf sig upp frá borginni og staðnæmdist á fjallinu, sem er fyrir austan borgina.

24 Og andinn hóf mig upp og flutti mig í sýninni, fyrir Guðs anda, til hinna herleiddu í Kaldealandi. Og sýnin, sem ég hafði séð, leið upp frá mér.

25 Því næst flutti ég hinum herleiddu öll orð Drottins, þau er hann hafði birt mér.

12 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, þú býr á meðal þverúðugs lýðs, meðal manna, sem hafa augu til að sjá með, en sjá þó ekki, eyru til að heyra með, en heyra þó ekki, því að þverúðugur lýður eru þeir.

En þú, mannsson, haf til ferðatæki þín og legg af stað um hádag í augsýn þeirra, og þú skalt fara burt þaðan, sem þú nú býr, á annan stað, að þeim ásjáandi, ef vera mætti að augu þeirra lykjust upp, því að þeir eru þverúðugur lýður.

Þú skalt færa út föng þín svo sem önnur ferðatæki um hádag í augsýn þeirra, en sjálfur skalt þú út fara að kveldi að þeim ásjáandi, eins og þegar útlegðarmenn fara burt.

Brjót þú gat á vegginn í augsýn þeirra og gakk þar út um.

Þú skalt bera föng þín á öxlinni í augsýn þeirra, þú skalt fara út í myrkri og hylja ásjónu þína og ekki sjá landið. Því að ég gjöri þig að tákni fyrir Ísraels lýð."

Ég gjörði sem mér var boðið: Ég færði föng mín út svo sem önnur ferðatæki um hádag, og að kveldi braut ég með hendinni gat á vegginn. Ég fór út í myrkri og bar þau á öxlinni í augsýn þeirra.

En morguninn eftir kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

"Þú mannsson, hafa þeir ekki sagt við þig, Ísraelsmenn, hinn þverúðugi lýður: ,Hvað ertu að gjöra?`

10 Seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Þetta guðmæli á við höfðingjann í Jerúsalem og alla Ísraelsmenn, þá sem eru meðal yðar.

11 Seg: Ég er yður tákn. Eins og ég hefi gjört, svo mun með þá farið verða: Þeir munu fara í útlegð, herleiddir verða.

12 Og höfðinginn, sem meðal þeirra er, mun taka föng sín á öxl sér og fara út í myrkri. Hann mun brjóta gat á vegginn til þess að fara þar út um, hann mun hylja ásjónu sína, til þess að hann sjái ekki landið.

13 Og ég mun kasta yfir hann neti mínu, og hann mun veiddur verða í veiðarfæri mín, og ég mun flytja hann til Babýlon, til Kaldealands. Það land skal hann ekki sjá, og þó mun hann þar deyja.

14 Og öllu því, sem umhverfis hann er, fulltingjurum hans og gjörvöllum herflokkum hans, mun ég tvístra í allar áttir og vera á hælum þeim með brugðið sverð.

15 Og þá skulu þeir kannast við, að ég er Drottinn, er ég dreifi þeim meðal heiðnu þjóðanna og tvístra þeim út um löndin.

16 Og ég læt aðeins fáeina menn af þeim komast undan sverðinu, hungrinu og drepsóttinni, til þess að þeir segi frá öllum svívirðingum sínum meðal þjóðanna, sem þeir koma til, og þeir skulu kannast við, að ég er Drottinn."

17 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

18 "Mannsson, et brauð þitt með hræðslu og drekk vatn þitt með skjálfta og angist

19 og seg við landslýðinn: Svo segir Drottinn Guð um þá, sem búa í Jerúsalem í Ísraelslandi! Þeir munu eta brauð sitt með angist og drekka vatn sitt með skelfingu, til þess að land hennar leggist í auðn og verði svipt gæðum sínum, sakir glæps þess, er allir íbúar þess í frammi hafa.

20 Byggðar borgir skulu í eyði leggjast og landið verða að öræfum, og þá skuluð þér kannast við, að ég er Drottinn."

21 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

22 "Mannsson, hvaða orðtak er þetta, sem þér hafið í Ísraelslandi, er þér segið: ,Tíminn dregst, og allar vitranir reynast marklausar`?

23 Seg því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Ég mun gjöra enda á þessu orðtaki, og menn munu eigi framar nota það í Ísrael. Seg þeim þar í móti: ,Tíminn er nálægur og allar vitranir rætast.`

24 Því að hér eftir skal engin hégómasýn eða hræsnispádómur stað hafa meðal Ísraelsmanna,

25 því að ég, Drottinn, mun tala það orð, er ég vil tala, og það mun koma fram. Það mun ekki dragast lengur, því að á yðar dögum, þverúðuga kynslóð, mun ég tala orð og framkvæma það" _ segir Drottinn Guð.

26 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

27 "Mannsson, sjá, Ísraelsmenn segja: ,Sýnin, sem hann sér, á sér langan aldur, og hann spáir langt fram í ókomnar tíðir.`

28 Seg því við þá: Svo segir Drottinn Guð: Á engu mínu orði mun framar frestur verða. Því orði, er ég tala, mun framgengt verða _ segir herrann Drottinn."