Add parallel Print Page Options

39 Af bláa purpuranum, rauða purpuranum og skarlatinu gjörðu þeir glitklæði til embættisgjörðar í helgidóminum, og þeir gjörðu hin helgu klæði Arons, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

Hann bjó til hökulinn af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull.

Þeir beittu út gullið í þynnur, en hann skar þynnurnar í þræði til að vefa þá inn í bláa purpurann, rauða purpurann, skarlatið og baðmullina með forkunnarlegu hagvirki.

Þeir gjörðu axlarhlýra á hökulinn, og voru þeir festir við hann. Á báðum endum var hann festur við þá.

Og hökullindinn, sem á honum var til að gyrða hann að sér, var áfastur honum og með sömu gerð: af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

Og þeir greyptu sjóamsteina inn í umgjarðir af gulli og grófu á þá nöfn Ísraels sona með innsiglisgrefti.

Festi hann þá á axlarhlýra hökulsins, svo að þeir væru minnissteinar fyrir Ísraelsmenn, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

Þá bjó hann til brjóstskjöldinn, gjörðan með listasmíði og með sömu gerð og hökullinn, af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull.

Var hann ferhyrndur. Gjörðu þeir brjóstskjöldinn tvöfaldan. Var hann spannarlangur og spannarbreiður og tvöfaldur.

10 Og þeir settu hann fjórum steinaröðum: Eina röð af karneól, tópas og smaragði, var það fyrsta röðin;

11 önnur röðin: karbunkull, safír og jaspis;

12 þriðja röðin: hýasint, agat og ametýst;

13 og fjórða röðin: krýsólít, sjóam og onýx. Voru þeir greyptir í gullumgjarðir, hver á sínum stað.

14 Og steinarnir voru tólf, eftir nöfnum Ísraels sona, og með nöfnum þeirra. Voru þeir grafnir með innsiglisgrefti, og var sitt nafn á hverjum þeirra, eftir þeim tólf kynkvíslum.

15 Og þeir gjörðu festar til brjóstskjaldarins, snúnar eins og fléttur, af skíru gulli.

16 Þeir gjörðu og tvær umgjarðir af gulli og tvo gullhringa, og þessa tvo hringa festu þeir á tvö horn brjóstskjaldarins;

17 festu síðan báðar gullflétturnar í þessa tvo hringa á hornum brjóstskjaldarins.

18 En tvo enda beggja snúnu festanna festu þeir við umgjarðirnar tvær og festu þær við axlarhlýra hökulsins, á hann framanverðan.

19 Þá gjörðu þeir enn tvo hringa af gulli og festu þá í tvö horn brjóstskjaldarins, innanvert í þá brúnina, sem að höklinum vissi.

20 Og enn gjörðu þeir tvo hringa af gulli og festu þá á báða axlarhlýra hökulsins, neðan til á hann framanverðan, þar sem hann var tengdur saman, fyrir ofan hökullindann.

21 Og knýttu þeir brjóstskjöldinn með hringum hans við hökulhringana með snúru af bláum purpura, svo að hann lægi fyrir ofan hökullindann og brjóstskjöldurinn losnaði ekki við hökulinn, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

22 Síðan gjörði hann hökulmöttulinn. Var hann ofinn og allur af bláum purpura,

23 og var hálsmál möttulsins á honum miðjum, eins og á brynju, og hálsmálið faldað með borða, svo að ekki skyldi rifna út úr.

24 Á möttulfaldinum gjörðu þeir granatepli af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull.

25 Þeir gjörðu og bjöllur af skíru gulli og festu bjöllurnar millum granateplanna á möttulfaldinum allt í kring, á millum granateplanna,

26 svo að fyrst kom bjalla og granatepli, og þá aftur bjalla og granatepli, allt í kring á möttulfaldinum, til þjónustugjörðar, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

27 Þá gjörðu þeir kyrtlana handa Aroni og sonum hans af baðmull, og voru þeir ofnir.

28 Sömuleiðis vefjarhöttinn af baðmull og höfuðdúkana prýðilegu af baðmull og línbrækurnar af tvinnaðri baðmull,

29 og beltið af tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, glitofið, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

30 Síðan gjörðu þeir spöngina, hið helga ennishlað, af skíru gulli og letruðu á hana með innsiglisgrefti: "Helgaður Drottni."

31 Og þeir festu við hana snúru af bláum purpura til að festa hana á vefjarhöttinn ofanverðan, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

32 Þannig var nú lokið öllu verki við búð samfundatjaldsins, og gjörðu Ísraelsmenn allt, sem Drottinn hafði boðið Móse.

33 Síðan fluttu þeir búðina til Móse: tjaldið með öllum áhöldum þess, krókana, þiljuborðin, slárnar, stólpana og undirstöðurnar,

34 þakið úr rauðlituðu hrútskinnunum, þakið úr höfrungaskinnunum og fortjaldsdúkbreiðuna,

35 sáttmálsörkina, stengurnar og arkarlokið,

36 borðið með öllum þess áhöldum og skoðunarbrauðin,

37 gullljósastikuna með lömpum, lömpunum, er raða skyldi, öll áhöld hennar og olíu ljósastikunnar,

38 gullaltarið, smurningarolíuna, ilmreykelsið og dúkbreiðuna fyrir tjalddyrnar,

39 eiraltarið ásamt eirgrindinni, stengur þess og öll áhöld, kerið og stétt þess,

40 forgarðstjöldin, stólpa hans og undirstöður, dúkbreiðuna fyrir hlið forgarðsins, stög þau og hæla, sem þar til heyra, og öll þau áhöld, sem heyra til þjónustugjörð í búðinni, í samfundatjaldinu,

41 glitklæðin til embættisgjörðar í helgidóminum, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans.

42 Unnu Ísraelsmenn allt verkið, í alla staði svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

43 Og Móse leit yfir allt verkið og sjá, þeir höfðu unnið það, svo sem Drottinn hafði fyrir lagt, svo höfðu þeir gjört það. Og Móse blessaði þá.

40 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Á fyrsta degi hins fyrsta mánaðar skalt þú reisa búð samfundatjaldsins.

Þar skalt þú setja sáttmálsörkina og byrgja fyrir örkina með fortjaldinu.

Og þú skalt bera borðið þangað og raða því, sem á því skal vera. Síðan skalt þú bera þangað ljósastikuna og setja upp lampa hennar.

Og þú skalt setja hið gullna reykelsisaltari fyrir framan sáttmálsörkina og hengja dúkbreiðuna fyrir búðardyrnar.

Og þú skalt setja brennifórnaraltarið fyrir framan dyr samfundatjalds-búðarinnar.

Og kerið skalt þú setja milli samfundatjaldsins og altarisins og láta vatn í það.

Síðan skalt þú reisa forgarðinn umhverfis og hengja dúkbreiðu fyrir forgarðshliðið.

Þá skalt þú taka smurningarolíuna og smyrja búðina og allt, sem í henni er, og vígja hana með öllum áhöldum hennar, svo að hún sé heilög.

10 Og þú skalt smyrja brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, og þú skalt vígja altarið, og skal altarið þá vera háheilagt.

11 Og þú skalt smyrja kerið og stétt þess og vígja það.

12 Þá skalt þú leiða Aron og sonu hans að dyrum samfundatjaldsins og þvo þá úr vatni.

13 Og þú skalt færa Aron í hin helgu klæði, smyrja hann og vígja, að hann þjóni mér í prestsembætti.

14 Þú skalt og leiða fram sonu hans og færa þá í kyrtlana,

15 og þú skalt smyrja þá, eins og þú smurðir föður þeirra, að þeir þjóni mér í prestsembætti, og skal smurning þeirra veita þeim ævinlegan prestdóm frá kyni til kyns."

16 Og Móse gjörði svo. Eins og Drottinn hafði boðið honum, svo gjörði hann í alla staði.

17 Búðin var reist í fyrsta mánuði hins annars árs, fyrsta dag mánaðarins.

18 Reisti Móse búðina, lagði undirstöðurnar, sló upp þiljunum, setti í slárnar og reisti upp stólpana.

19 Og hann þandi tjaldvoðina yfir búðina og lagði tjaldþökin þar yfir, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

20 Hann tók sáttmálið og lagði það í örkina, setti stengurnar í örkina og lét arkarlokið yfir örkina.

21 Og hann flutti örkina inn í búðina, setti upp fortjaldsdúkbreiðuna og byrgði fyrir sáttmálsörkina, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

22 Hann setti borðið inn í samfundatjaldið, við norðurhlið búðarinnar, fyrir utan fortjaldið,

23 og hann raðaði á það brauðunum frammi fyrir Drottni, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

24 Hann setti upp ljósastikuna í samfundatjaldinu gegnt borðinu við suðurhlið búðarinnar.

25 Og hann setti upp lampana frammi fyrir Drottni, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

26 Hann setti upp gullaltarið inni í samfundatjaldinu fyrir framan fortjaldið,

27 og brenndi á því ilmreykelsi, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

28 Síðan hengdi hann dúkbreiðuna fyrir dyr búðarinnar,

29 setti brennifórnaraltarið við dyr samfundatjalds-búðarinnar og fórnaði á því brennifórn og matfórn, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

30 Hann setti kerið milli samfundatjaldsins og altarisins og lét vatn í það til þvottar,

31 og þvoðu þeir Móse, Aron og synir hans hendur sínar og fætur úr því.

32 Hvert sinn er þeir gengu inn í samfundatjaldið og nálguðust altarið, þvoðu þeir sér, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

33 Síðan reisti hann forgarðinn umhverfis búðina og altarið og hengdi dúkbreiðuna fyrir forgarðshliðið, og hafði Móse þá aflokið verkinu.

34 Þá huldi skýið samfundatjaldið, og dýrð Drottins fyllti búðina,

35 og mátti Móse ekki inn ganga í samfundatjaldið, því að skýið lá yfir því og dýrð Drottins fyllti búðina.

36 Hvert sinn er skýið hófst upp frá búðinni, lögðu Ísraelsmenn upp, alla þá stund er þeir voru á ferðinni.

37 En er skýið hófst ekki upp, lögðu Ísraelsmenn ekki af stað fyrr en þann dag er skýið hófst upp.

23 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.

24 Blindu leiðtogar, þér síið mýfluguna, en svelgið úlfaldann!

25 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hreinsið bikarinn og diskinn utan, en innan eru þeir fullir yfirgangs og óhófs.

26 Blindi farísei, hreinsaðu fyrst bikarinn innan, að hann verði líka hreinn að utan.

27 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra.

28 Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.

29 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hlaðið upp grafir spámannanna og skreytið leiði hinna réttlátu

30 og segið: Ef vér hefðum lifað á dögum feðra vorra, hefðum vér ekki átt hlut með þeim í lífláti spámannanna.

31 Þannig vitnið þér sjálfir um yður, að þér eruð synir þeirra, sem myrtu spámennina.

32 Nú skuluð þér fylla mæli feðra yðar.

33 Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm?

34 Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg.

35 Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar, sem þér drápuð milli musterisins og altarisins.

36 Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta koma yfir þessa kynslóð.

37 Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.

38 Hús yðar verður í eyði látið.

39 Ég segi yður: Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: ,Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins."`

Read full chapter