Add parallel Print Page Options

25 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Seg Ísraelsmönnum að þeir færi mér gjafir. Af hverjum þeim manni skuluð þér gjöf taka mér til handa, sem gefur hana af fúsum huga.

Og þessar eru gjafir þær, sem þér skuluð af þeim taka: gull, silfur og eir;

blár purpuri, rauður purpuri, skarlat, baðmull og geitahár;

rauðlituð hrútskinn, höfrungaskinn og akasíuviður;

olía til ljósastikunnar, kryddjurtir til ilmsmyrsla og ilmreykelsis;

sjóamsteinar og steinar til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn.

Og þeir skulu gjöra mér helgidóm, að ég búi mitt á meðal þeirra.

Þér skuluð gjöra hann í öllum greinum eftir þeirri fyrirmynd af tjaldbúðinni og eftir þeirri fyrirmynd af öllum áhöldum hennar, sem ég mun sýna þér.

10 Þeir skulu gjöra örk af akasíuviði. Hún skal vera hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur alin á breidd og hálf önnur alin á hæð.

11 Hana skaltu leggja skíru gulli, innan og utan skaltu gullleggja hana, og umhverfis á henni skaltu gjöra brún af gulli.

12 Þú skalt steypa til arkarinnar fjóra hringa af gulli og festa þá við fjóra fætur hennar, sína tvo hringana hvorumegin.

13 Þú skalt gjöra stengur af akasíuviði og gullleggja þær.

14 Síðan skalt þú smeygja stöngunum í hringana á hliðum arkarinnar, svo að bera megi örkina á þeim.

15 Skulu stengurnar vera kyrrar í hringum arkarinnar, eigi má taka þær þaðan.

16 Og þú skalt leggja niður í örkina sáttmálið, er ég mun fá þér í hendur.

17 Þú skalt og gjöra lok af skíru gulli. Skal það vera hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd.

18 Og þú skalt gjöra tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði skalt þú gjöra þá á hvorum tveggja loksendanum.

19 Og lát annan kerúbinn vera á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum. Þú skalt gjöra kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess.

20 En kerúbarnir skulu breiða út vængina uppi yfir, svo að þeir hylji lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra snúa hvort í mót öðru; að lokinu skulu andlit kerúbanna snúa.

21 Þú skalt setja lokið ofan yfir örkina, og niður í örkina skalt þú leggja sáttmálið, sem ég mun fá þér.

22 Og þar vil ég eiga samfundi við þig og birta þér ofan af arkarlokinu millum beggja kerúbanna, sem standa á sáttmálsörkinni, allt það, er ég býð þér að flytja Ísraelsmönnum.

23 Þú skalt og gjöra borð af akasíuviði, tvær álnir á lengd, alin á breidd og hálfa aðra alin á hæð.

24 Þú skalt leggja það skíru gulli og gjöra umhverfis á því brún af gulli.

25 Umhverfis það skalt þú gjöra lista þverhandar breiðan og búa til brún af gulli umhverfis á listanum.

26 Þá skalt þú gjöra til borðsins fjóra hringa af gulli og setja hringana í fjögur hornin, sem eru á fjórum fótum borðsins.

27 Skulu hringarnir vera fast upp við listann, svo að í þá verði smeygt stöngum til þess að bera borðið.

28 Stengurnar skalt þú gjöra af akasíuviði og gullleggja þær. Á þeim skal borðið bera.

29 Og þú skalt gjöra föt þau, sem borðinu tilheyra, skálar og bolla, og ker þau, sem til dreypifórnar eru höfð. Af skíru gulli skalt þú gjöra þau.

30 En á borðið skalt þú ætíð leggja skoðunarbrauð frammi fyrir mér.

31 Enn fremur skalt þú ljósastiku gjöra af skíru gulli. Með drifnu smíði skal ljósastikan gjör, stétt hennar og leggur. Blómbikarar hennar, knappar hennar og blóm, skulu vera samfastir henni.

32 Og sex álmur skulu liggja út frá hliðum hennar, þrjár álmur ljósastikunnar út frá annarri hlið hennar og þrjár álmur ljósastikunnar út frá hinni hlið hennar.

33 Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á fyrstu álmunni, knappur og blóm. Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á næstu álmunni, knappur og blóm. Svo skal vera á öllum sex álmunum, sem út ganga frá ljósastikunni.

34 Og á sjálfri ljósastikunni skulu vera fjórir bikarar í lögun sem möndlublóm, knappar hennar og blóm:

35 einn knappur undir tveim neðstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og annar knappur undir tveim næstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og enn knappur undir tveim efstu álmunum, samfastur ljósastikunni, svo undir sex álmunum, er út ganga frá ljósastikunni.

36 Knapparnir og álmurnar skulu vera samfastar henni. Allt skal það gjört með drifnu smíði af skíru gulli.

37 Þú skalt gjöra lampa hennar sjö og skalt svo upp setja lampana, að þeir beri birtu yfir svæðið fyrir framan hana.

38 Ljósasöx og skarpönnur, sem ljósastikunni fylgja, skulu vera af skíru gulli.

39 Af einni talentu skíragulls skal hana gjöra með öllum þessum áhöldum.

40 Og sjá svo til, að þú gjörir þessa hluti eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu.

26 Tjaldbúðina skalt þú gjöra af tíu dúkum úr tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati. Skalt þú búa til kerúba á þeim með listvefnaði.

Hver dúkur skal vera tuttugu og átta álna langur og fjögra álna breiður; allir skulu dúkarnir vera jafnir að máli.

Fimm dúkarnir skulu tengjast saman hver við annan, og eins skal tengja saman hina fimm dúkana sín í milli.

Og þú skalt búa til lykkjur af bláum purpura á jaðri ysta dúksins í samfellunni, og eins skalt þú gjöra á jaðri ysta dúksins í hinni samfellunni.

Skalt þú búa til fimmtíu lykkjur á öðrum dúknum, og eins skalt þú gjöra fimmtíu lykkjur á jaðri þess dúksins, sem er í hinni samfellunni, svo að lykkjurnar standist á hver við aðra.

Og þú skalt gjöra fimmtíu króka af gulli og tengja saman dúkana hvern við annan með krókunum, svo að tjaldbúðin verði ein heild.

Þú skalt og gjöra dúka af geitahári til að tjalda með yfir búðina, ellefu að tölu.

Hver dúkur skal vera þrjátíu álna langur og fjögra álna breiður; allir ellefu dúkarnir skulu vera jafnir að máli.

Og þú skalt tengja saman fimm dúka sér og sex dúka sér, en sjötta dúkinn skalt þú brjóta upp á sig á framanverðu tjaldinu.

10 Og þú skalt búa til fimmtíu lykkjur á jaðri ysta dúksins í annarri samfellunni og eins fimmtíu lykkjur á dúkjaðri hinnar samfellunnar.

11 Og þú skalt gjöra fimmtíu eirkróka og krækja krókunum í lykkjurnar, og tengja svo saman tjaldið, að ein heild verði.

12 En afgangurinn, sem yfir hefir af tjalddúkunum, hálfi dúkurinn, sem er umfram, skal hanga niður af tjaldbúðinni baka til.

13 En sú eina alin beggja vegna, sem yfir hefir af tjalddúkunum á lengdina, skal hanga niður af hliðum tjaldbúðarinnar báðumegin til þess að byrgja hana.

14 Þú skalt enn gjöra þak yfir tjaldið af rauðlituðum hrútskinnum og enn eitt þak þar utan yfir af höfrungaskinnum.

15 Og þú skalt gjöra þiljuborðin í tjaldbúðina af akasíuviði, og standi þau upp og ofan.

16 Hvert borð skal vera tíu álnir á lengd og hálf önnur alin á breidd.

17 Á hverju borði skulu vera tveir tappar, báðir sameinaðir. Svo skalt þú gjöra á öllum borðum tjaldbúðarinnar.

18 Og þannig skalt þú gjöra borðin í tjaldbúðina: Tuttugu borð í suðurhliðina,

19 og skalt þú búa til fjörutíu undirstöður af silfri undir tuttugu borðin, tvær undirstöður undir hvert borð, sína fyrir hvorn tappa.

20 Og eins í hina hlið tjaldbúðarinnar, norðurhliðina: tuttugu borð

21 og fjörutíu undirstöður af silfri, tvær undirstöður undir hvert borð.

22 Í afturgafl búðarinnar, gegnt vestri, skalt þú gjöra sex borð.

23 Og tvö borð skalt þú gjöra í búðarhornin á afturgaflinum.

24 Og þau skulu vera tvöföld að neðan og sömuleiðis halda fullu máli upp úr allt til hins fyrsta hrings. Þannig skal þeim háttað vera hvorum tveggja, á báðum hornum skulu þau vera.

25 Borðin skulu vera átta og með undirstöðum af silfri, sextán undirstöðum, tveim undirstöðum undir hverju borði.

26 Því næst skalt þú gjöra slár af akasíuviði, fimm á borðin í annarri hlið búðarinnar

27 og fimm slár á borðin í hinni hlið búðarinnar og fimm slár á borðin í afturgafli búðarinnar, gegnt vestri.

28 Miðsláin skal vera á miðjum borðunum og liggja alla leið, frá einum enda til annars.

29 Og borðin skalt þú gullleggja, en hringana á þeim, sem slárnar ganga í, skalt þú gjöra af gulli. Þú skalt og gullleggja slárnar.

30 Og þú skalt reisa tjaldbúðina eins og hún á að vera og þér var sýnt á fjallinu.

31 Þú skalt og gjöra fortjald af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. Skal það til búið með listvefnaði og kerúbar á.

32 Og þú skalt festa það á fjóra stólpa af akasíuviði, gulli lagða, með nöglum í af gulli, á fjórum undirstöðum af silfri.

33 En þú skalt hengja fortjaldið undir krókana og flytja sáttmálsörkina þangað, inn fyrir fortjaldið, og skal fortjaldið skilja milli hins heilaga og hins allrahelgasta hjá yður.

34 Þú skalt setja lokið yfir sáttmálsörkina í hinu allrahelgasta.

35 En borðið skalt þú setja fyrir utan fortjaldið og ljósastikuna gagnvart borðinu við suðurhliðvegg búðarinnar, en lát borðið vera við norðurhliðvegginn.

36 Þú skalt og gjöra dúkbreiðu fyrir dyr tjaldsins af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, og glitofna.

37 Og fyrir dúkbreiðuna skalt þú gjöra stólpa af akasíuviði og gullleggja þá. Naglarnir í þeim skulu vera af gulli, og þú skalt steypa fimm undirstöður af eiri undir þá.

17 Jesús hélt nú upp til Jerúsalem, og á leiðinni tók hann þá tólf afsíðis og sagði við þá:

18 "Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða

19 og framselja hann heiðingjum, að þeir hæði hann, húðstrýki og krossfesti. En á þriðja degi mun hann upp rísa."

20 Þá kom til hans móðir þeirra Sebedeussona með sonum sínum, laut honum og vildi biðja hann bónar.

21 Hann spyr hana: "Hvað viltu?" Hún segir: "Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri."

22 Jesús svarar: "Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég á að drekka?" Þeir segja við hann: "Það getum við."

23 Hann segir við þá: "Kaleik minn munuð þið drekka. En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið af föður mínum."

24 Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við bræðurna tvo.

25 En Jesús kallaði þá til sín og mælti: "Þér vitið, að þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu.

26 En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.

27 Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar,

28 eins og Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga."

29 Þegar þeir fóru frá Jeríkó, fylgdi honum mikill mannfjöldi.

30 Tveir menn blindir sátu þar við veginn. Þegar þeir heyrðu, að þar færi Jesús, hrópuðu þeir: "Herra, miskunna þú okkur, sonur Davíðs!"

31 Fólkið hastaði á þá, að þeir þegðu, en þeir hrópuðu því meir: "Herra, miskunna þú okkur, sonur Davíðs!"

32 Jesús nam staðar, kallaði á þá og sagði: "Hvað viljið þið að ég gjöri fyrir ykkur?"

33 Þeir mæltu: "Herra, lát augu okkar opnast."

34 Jesús kenndi í brjósti um þá og snart augu þeirra. Jafnskjótt fengu þeir sjónina og fylgdu honum.

Read full chapter