Add parallel Print Page Options

Nebúkadnesar konungur lét gjöra líkneski af gulli, sextíu álna á hæð og sex álna á breidd. Hann lét reisa það í Dúradal í Babel-héraði.

Og Nebúkadnesar konungur sendi út menn til þess að stefna saman jörlunum, landstjórunum, landshöfðingjunum, ráðherrunum, féhirðunum, dómurunum, lögmönnunum og öllum embættismönnum í skattlöndunum, að þeir skyldu koma til vígslu líkneskisins, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið.

Þá söfnuðust saman jarlarnir, landstjórarnir, landshöfðingjarnir, ráðherrarnir, féhirðarnir, dómararnir, lögmennirnir og allir embættismenn í skattlöndunum til vígslu líkneskisins, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið, og námu staðar frammi fyrir líkneskinu, er Nebúkadnesar hafði látið reisa.

Þá kallaði kallarinn hárri röddu: "Svo er yður öllum boðið, hverrar þjóðar og hvaða landsmenn sem þér eruð og á hverja tungu sem þér mælið:

Þegar er þér heyrið hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, þá skuluð þér falla fram og tilbiðja gull-líkneskið, sem Nebúkadnesar konungur hefir reisa látið.

En hver sá, er eigi fellur fram og tilbiður, honum skal á samri stundu kastað verða inn í brennandi eldsofn."

Þess vegna, undireins og allt fólkið heyrði hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna og alls konar hljóðfæra, þá féllu allir fram, hverrar þjóðar, hvers lands og hverrar tungu sem voru, og tilbáðu gull-líkneskið, sem Nebúkadnesar konungur hafði reisa látið.

Fyrir því gengu og fram á sömu stundu kaldverskir menn og ákærðu Gyðingana.

Þeir tóku svo til máls og sögðu við Nebúkadnesar konung: "Konungurinn lifi eilíflega!

10 Þú hefir, konungur, skipað svo fyrir, að hver maður skuli, þá er hann heyrir hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, falla fram og tilbiðja gull-líkneskið,

11 og að hver sá, er eigi fellur fram og tilbiður, honum skuli kastað inn í brennandi eldsofn.

12 Nú eru hér nokkrir Gyðingar, er þú hefir gjört að sýslumönnum yfir Babel-héraði, þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó. Þessir menn virða þig að engu, konungur. Þeir dýrka ekki þína guði og tilbiðja ekki gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið."

13 Þá fylltist Nebúkadnesar reiði og heift og bauð að leiða fram þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó, og voru þessir menn leiddir fyrir konunginn.

14 Nebúkadnesar tók til máls og sagði við þá: "Er það af ásettu ráði, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, að þér dýrkið ekki minn guð og tilbiðjið ekki gull-líkneskið, sem ég hefi reisa látið?

15 Ef þér nú eruð viðbúnir, jafnskjótt og þér heyrið hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, að falla fram og tilbiðja líkneski það, er ég hefi gjöra látið, þá nær það ekki lengra. En ef þér tilbiðjið það ekki, þá skal yður samstundis verða kastað inn í eldsofn brennandi, og hver er sá guð, er yður megi frelsa úr mínum höndum?"

16 Þá svöruðu þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó og sögðu við Nebúkadnesar konung: "Vér þurfum ekki að svara þér einu orði upp á þetta.

17 Ef Guð vor, sem vér dýrkum, vill frelsa oss, þá mun hann frelsa oss úr eldsofninum brennandi og af þinni hendi, konungur.

18 En þótt hann gjöri það ekki, þá skalt þú samt vita, konungur, að vér munum ekki dýrka þína guði né tilbiðja gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið."

19 Þá fylltist Nebúkadnesar heiftarreiði við þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó, svo að ásjóna hans afmyndaðist, og hann skipaði að kynda ofninn sjöfalt heitara en vanalegt var að kynda hann.

20 Og hann bauð rammefldum mönnum, sem voru í her hans, að binda þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó og kasta þeim inn í brennandi eldsofninn.

21 Síðan voru þessir menn bundnir í nærfötum sínum, kyrtlum, skikkjum og öðrum klæðnaði sínum og þeim kastað inn í hinn brennandi eldsofn.

22 Og sökum þess að skipun konungs var svo strengileg, en ofninn kyntur ákaflega, þá varð eldsloginn að bana mönnunum, sem báru þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó.

23 En þeir þrír menn, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, féllu bundnir niður í hinn brennandi eldsofn.

24 Þá varð Nebúkadnesar konungur forviða og spratt upp skyndilega. Hann tók til máls og sagði við ráðgjafa sína: "Höfum vér ekki kastað þremur mönnum fjötruðum inn í eldinn?" Þeir svöruðu konunginum og sögðu: "Jú, vissulega, konungur!"

25 Hann svaraði og sagði: "Ég sé þó fjóra menn ganga lausa inni í eldinum, án þess að nokkuð hafi orðið þeim að grandi, og er ásýnd hins fjórða því líkust sem hann sé sonur guðanna."

26 Þá gekk Nebúkadnesar að dyrum hins brennandi eldsofns, tók til máls og sagði: "Sadrak, Mesak og Abed-Negó, þjónar hins hæsta Guðs, gangið út og komið hingað!" Þá gengu þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó út úr eldinum.

27 Og jarlarnir, landstjórarnir, landshöfðingjarnir og ráðgjafar konungs söfnuðust saman og sáu, að eldurinn hafði ekki unnið á líkama þessara manna og að hárið á höfði þeirra var ekki sviðnað, að ekkert sá á nærfötum þeirra og enginn eldseimur fannst af þeim.

28 Þá tók Nebúkadnesar til máls og sagði: "Lofaður sé Guð þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós, sem sendi engil sinn og frelsaði þjóna sína, er treystu honum og óhlýðnuðust boði konungsins, en lögðu líkami sína í sölurnar, til þess að þeir þyrftu ekki að dýrka né tilbiðja neinn annan guð en sinn Guð.

29 Nú gef ég út þá skipun, að hver sá, hverrar þjóðar, hvers lands og hverrar tungu sem er, er mælir lastmæli gegn Guði þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós, sá skal höggvinn verða sundur og hús hans gjört að sorphaug, því að enginn annar guð er til, sem eins getur frelsað og hann."

30 Síðan hóf konungur þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó til stórra mannvirðinga í Babel-héraði.

Nebúkadnesar konungur sendir kveðju sína öllum mönnum, sem á jörðinni búa, hverrar þjóðar, hvaða lands og hverrar tungu sem eru: "Gangi yður allt til gæfu!

Mér hefir þóknast að kunngjöra þau tákn og furðuverk, sem hinn hæsti Guð hefir gjört við mig.

Hversu mikil eru tákn hans og hversu máttug eru furðuverk hans! Ríki hans er eilíft ríki og máttarveldi hans varir frá kyni til kyns.

Ég, Nebúkadnesar, lifði áhyggjulaus í húsi mínu og átti góða daga í höll minni.

Þá dreymdi mig draum, sem gjörði mig óttasleginn, og hugsanirnar í rekkju minni og sýnirnar, sem fyrir mig bar, skelfdu mig.

Ég lét því þá skipun út ganga, að leiða skyldi fyrir mig alla vitringa í Babýlon til þess að segja mér þýðing draumsins.

Þá komu spásagnamennirnir, særingamennirnir, Kaldearnir og stjörnuspekingarnir, og sagði ég þeim drauminn, en þeir gátu ekki sagt mér þýðing hans.

En loks kom Daníel til mín, sem kallaður er Beltsasar eftir nafni guðs míns. Í honum býr andi hinna heilögu guða, og ég sagði honum drauminn:

Beltsasar, þú æðsti forstjóri spásagnamannanna! Ég veit að í þér býr andi hinna heilögu guða og að enginn leyndardómur er þér ofvaxinn. Seg mér sýnir draums míns, þær er fyrir mig bar, og hvað þær þýða.

10 Sýnir þær, er fyrir mig bar í rekkju minni, voru þessar: Ég horfði, og sjá, tré nokkurt stóð á jörðinni, og var það geysihátt.

11 Tréð var mikið og sterkt, og svo hátt að upp tók til himins, og mátti sjá það alla vega frá endimörkum jarðarinnar.

12 Limar þess voru fagrar og ávöxturinn mikill, og fæðsla handa öllum var á því. Skógardýrin lágu í forsælu undir því, fuglar himinsins bjuggu á greinum þess, og allar skepnur nærðust af því.

13 Ég horfði á í sýnum þeim, sem fyrir mig bar í rekkju minni, og sá heilagan vörð stíga niður af himni.

14 Hann kallaði hárri röddu og mælti svo: ,Höggvið upp tréð, sníðið af greinarnar, slítið af því limarnar og dreifið ávöxtunum víðs vegar, svo að dýrin flýi burt undan því og fuglarnir af greinum þess.

15 Samt skuluð þér láta stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni, bundinn járn- og eirfjötrum, í grænu graslendi. Hann skal vökna af dögg himinsins og taka hlut með dýrunum í grösum jarðarinnar.

16 Hjarta hans skal umbreytast, svo að í honum skal ekki mannshjarta vera, heldur skal honum dýrshjarta fengið verða, og sjö tíðir skulu yfir hann líða.

17 Skipunin hvílir á ályktun varðanna, og þetta eru fyrirmæli hinna heilögu, til þess að hinir lifandi viðurkenni, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og gefur hann hverjum sem hann vill, og að hann getur upphafið hinn lítilmótlegasta meðal mannanna til konungdóms.`

18 Þetta er draumurinn, sem mig, Nebúkadnesar konung, dreymdi, en þú, Beltsasar, seg þýðingu hans, fyrst enginn af vitringunum í ríki mínu getur sagt mér, hvað hann þýðir. En þú getur það, því að í þér býr andi hinna heilögu guða."

19 Þá stóð Daníel, sem kallaður var Beltsasar, agndofa um stund, og hugsanir hans skelfdu hann. En konungur tók til máls og sagði: "Beltsasar! Lát eigi drauminn né þýðing hans skelfa þig." Beltsasar svaraði og sagði: "Ég vildi óska, herra, að draumurinn rættist á óvinum þínum og þýðing hans á mótstöðumönnum þínum.

20 Tréð, sem þú sást og bæði var mikið og sterkt og svo hátt að upp tók til himins og séð varð um alla jörðina,

21 limar þess fagrar og ávöxturinn mikill og fæðsla á því handa öllum, skógardýrin bjuggu undir því og fuglar himinsins hreiðruðu sig í greinum þess,

22 það ert þú, konungur, sem ert orðinn mikill og voldugur og mikilleiki þinn vaxinn svo mjög, að hann nær til himins og veldi þitt til endimarka jarðar.

23 En þar er konungurinn sá heilagan vörð stíga niður af himni og segja: ,Höggvið upp tréð og eyðileggið það, en látið samt stofninn með rótum sínum vera kyrran eftir í jörðinni, bundinn járn- og eirfjötrum, í grænu graslendi, hann skal vökna af dögg himinsins og taka hlut með dýrum merkurinnar, uns sjö tíðir eru yfir hann liðnar,` _

24 þá er þýðingin þessi, konungur, og ráðstöfun Hins hæsta er það, sem komið er fram við minn herra, konunginn:

25 Þú munt út rekinn verða úr mannafélagi og eiga byggð með dýrum merkurinnar. Þér mun gefið verða gras að eta eins og uxum, og þú munt vökna af dögg himinsins, og sjö tíðir munu yfir þig líða, uns þú viðurkennir, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill.

26 En þar er sagt var, að stofn trésins með rótum sínum skyldi eftir verða, það merkir, að þú skalt halda ríki þínu, er þú kannast við, að allt valdið er á himnum.

27 Lát þér því, konungur, geðjast ráð mitt: Losa þig af syndum þínum með réttlætisverkum og af misgjörðum þínum með líknsemi við aumingja, ef vera mætti, að hamingja þín yrði við það langærri."

28 Allt þetta kom fram við Nebúkadnesar konung.

29 Þegar konungur tólf mánuðum síðar einu sinni var á gangi í konungshöllinni í Babýlon,

30 tók hann til máls og sagði: "Er þetta ekki sú hin mikla Babýlon, sem ég hefi reist að konungssetri með veldisstyrk mínum og tign minni til frægðar?"

31 Áður en þessi orð voru liðin af vörum konungs, kom raust af himni: "Þér gjörist hér með vitanlegt, Nebúkadnesar konungur, að konungdómurinn er vikinn frá þér.

32 Þú munt út rekinn verða úr mannafélagi og eiga byggð með dýrum merkurinnar. Þér mun gefið verða gras að eta eins og uxum, og sjö tíðir munu yfir þig líða, uns þú viðurkennir, að Hinn hæsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur gefið hann hverjum sem hann vill."

33 Þessi ummæli rættust samstundis á Nebúkadnesar. Hann var út rekinn úr mannafélagi og át gras eins og uxar, og líkami hans vöknaði af dögg himinsins, og um síðir óx hár hans sem arnarfjaðrir og neglur hans sem fuglaklær.

34 "Ég, Nebúkadnesar, hóf að liðnum þessum tíma augu mín til himins, og fékk ég þá vit mitt aftur. Og ég lofaði Hinn hæsta og vegsamaði og tignaði þann, sem lifir eilíflega, því að veldi hans er eilíft veldi, og ríki hans varir frá kyni til kyns.

35 Allir þeir, sem á jörðinni búa, eru sem ekkert hjá honum, og hann fer með himnanna her og byggjendur jarðarinnar eins og hann sjálfur vill, og enginn er sá, er fái honum tálmun gjört og við hann sagt: ,Hvað gjörir þú?`

36 Samstundis fékk ég vit mitt aftur, og til heiðurs fyrir ríki mitt komst ég aftur til tignar og vegsemdar. Ráðgjafar mínir og stórmenni leituðu mín, og ég var aftur skipaður yfir ríki mitt, og mér var gefið enn meira veldi en áður.

37 Nú vegsama ég, Nebúkadnesar, göfga og tigna konung himnanna, því að allar gjörðir hans eru sannleikur, vegir hans réttlæti og hann megnar að lægja þá, sem fram ganga í dramblæti."