Add parallel Print Page Options

Davíð sagði: "Er nú nokkur maður eftir orðinn af húsi Sáls? Honum vil ég miskunn auðsýna fyrir sakir Jónatans."

Af húsi Sáls var til maður, er Síba hét. Hann var kallaður á fund Davíðs. Og konungur sagði við hann: "Ert þú Síba?" Hann svaraði: "Þinn þjónn!"

Þá mælti konungur: "Er nokkur eftir af húsi Sáls, að ég megi auðsýna honum miskunn Guðs?" Síba sagði við konung: "Enn er á lífi sonur Jónatans og er lami á báðum fótum."

Þá sagði konungur við hann: "Hvar er hann?" Síba sagði við konung: "Hann er í húsi Makírs Ammíelssonar í Lódebar."

Þá sendi Davíð konungur og lét sækja hann í hús Makírs Ammíelssonar í Lódebar.

Og Mefíbóset Jónatansson, Sálssonar, gekk fyrir Davíð, féll fram á ásjónu sína og laut honum. Og Davíð sagði: "Mefíbóset!" Hann svaraði: "Hér er þjónn þinn."

Þá mælti Davíð til hans: "Ver þú óhræddur, því að ég vil auðsýna þér miskunn fyrir sakir Jónatans, föður þíns, og fá þér aftur allar jarðeignir Sáls forföður þíns, og þú skalt jafnan eta við mitt borð."

Þá laut hann og mælti: "Hvað er þjónn þinn þess, að þú skiptir þér af dauðum hundi, eins og mér?"

Síðan kallaði konungur á Síba, þjón Sáls, og mælti til hans: "Allt sem Sál átti, og allt sem hús hans átti gef ég syni herra þíns.

10 Skalt þú nú yrkja landið fyrir hann ásamt sonum þínum og þrælum og hirða af því, svo að sonur herra þíns hafi fæðu og megi eta. En Mefíbóset, sonur herra þíns, skal jafnan eta við mitt borð." Og Síba átti fimmtán sonu og tuttugu þræla.

11 Síba sagði við konung: "Þjónn þinn mun gjöra að öllu svo sem minn herra konungurinn hefir boðið þjóni sínum." Og Mefíbóset át við borð Davíðs, svo sem væri hann einn konungssona.

12 Mefíbóset átti ungan son, sem Míka hét. Allir sem bjuggu í húsi Síba, voru þjónar Mefíbósets.

13 En Mefíbóset bjó í Jerúsalem, því að hann át jafnan við borð konungs. Hann var haltur á báðum fótum.

10 Eftir þetta bar svo til, að konungur Ammóníta dó, og tók Hanún sonur hans ríki eftir hann.

Þá sagði Davíð: "Ég vil sýna Hanún Nahassyni vináttu, eins og faðir hans sýndi mér vináttu." Síðan sendi Davíð þjóna sína til að hugga hann eftir föðurmissinn. En er þjónar Davíðs komu í land Ammóníta,

þá sögðu höfðingjar Ammóníta við Hanún, herra sinn: "Hyggur þú, að Davíð vilji heiðra föður þinn, er hann gjörir menn á þinn fund til að hugga þig? Mun Davíð ekki hafa sent þjóna sína á þinn fund til þess að njósna í borginni og kanna hana og kollvarpa henni síðan?"

Þá lét Hanún taka þjóna Davíðs og raka af þeim hálft skeggið og skera af þeim klæðin til hálfs, upp á þjóhnappa, og lét þá síðan fara.

Davíð voru sögð þessi tíðindi, og sendi hann þá menn á móti þeim, _ því að mennirnir voru mjög svívirtir _, og konungur lét segja þeim: "Verið í Jeríkó, uns skegg yðar er vaxið, og komið síðan heim aftur."

En er Ammónítar sáu, að þeir höfðu gjört sig illa þokkaða hjá Davíð, sendu þeir menn og tóku á mála Sýrlendinga frá Bet Rehób og Sýrlendinga frá Sóba, tuttugu þúsundir fótgönguliðs, svo og konunginn í Maaka með þúsund manns, og tólf þúsund manns frá Tób.

En er Davíð frétti það, sendi hann Jóab af stað með allan herinn, það er að segja kappana.

Ammónítar fóru og út og fylktu liði sínu fyrir utan borgarhliðið, en Sýrlendingarnir frá Sóba og Rehób, svo og mennirnir frá Tób og Maaka, stóðu úti á víðavangi einir sér.

En er Jóab sá, að honum var búinn bardagi bæði að baki og að framan, valdi hann úr öllu einvalaliði Ísraels og fylkti því á móti Sýrlendingum.

10 Hitt liðið fékk hann Abísaí bróður sínum, og fylkti hann því á móti Ammónítum.

11 Og Jóab mælti: "Ef Sýrlendingar bera mig ofurliði, þá verður þú að hjálpa mér, en ef Ammónítar bera þig ofurliði, þá mun ég koma þér til hjálpar.

12 Vertu hughraustur, og sýnum nú af oss karlmennsku fyrir þjóð vora og borgir Guðs vors, en Drottinn gjöri það, sem honum þóknast."

13 Síðan lagði Jóab og liðið, sem með honum var, til orustu við Sýrlendinga, og þeir flýðu fyrir honum.

14 En er Ammónítar sáu, að Sýrlendingar flýðu, lögðu þeir og á flótta fyrir Abísaí og leituðu inn í borgina. En Jóab sneri heim frá Ammónítum og fór til Jerúsalem.

15 Þegar Sýrlendingar sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, söfnuðust þeir saman.

16 Og Hadadeser sendi boð og bauð út Sýrlendingum, sem voru hinumegin við Efrat, og þeir komu til Helam, og Sóbak, hershöfðingi Hadadesers, var fyrir þeim.

17 Og er Davíð var sagt frá því, þá safnaði hann saman öllum Ísrael, fór yfir Jórdan og kom til Helam. Sýrlendingar fylktu liði sínu í móti Davíð og börðust við hann.

18 En Sýrlendingar flýðu fyrir Ísrael, og Davíð felldi sjö hundruð vagnkappa og fjörutíu þúsund manns af Sýrlendingum. Hann særði og hershöfðingja þeirra, Sóbak, svo að hann dó þar.

19 En er konungarnir, sem voru lýðskyldir Hadadeser, sáu, að þeir höfðu beðið ósigur fyrir Ísrael, sömdu þeir allir frið við Ísrael og gjörðust lýðskyldir honum. Upp frá því þorðu Sýrlendingar ekki að veita Ammónítum lið.

11 Svo bar til árið eftir, um það leyti sem konungar eru vanir að fara í hernað, að Davíð sendi Jóab af stað með menn sína og allan Ísrael. Þeir herjuðu á Ammóníta og settust um Rabba, en Davíð sat heima í Jerúsalem.

Nú vildi svo til eitt kvöld, að Davíð reis upp úr hvílu sinni og fór að ganga um gólf uppi á þaki konungshallarinnar. Sá hann þá ofan af þakinu konu vera að lauga sig. En konan var forkunnar fögur.

Þá sendi Davíð og spurðist fyrir um konuna, og var honum sagt: "Það er Batseba Elíamsdóttir, kona Úría Hetíta."

Og Davíð sendi menn og lét sækja hana. Og hún kom til hans, og hann lagðist með henni, því að hún hafði hreinsað sig af óhreinleika sínum. Síðan fór hún aftur heim til sín.

En konan var þunguð orðin, og hún sendi og lét Davíð vita það og mælti: "Ég er með barni."

Davíð gjörði þá Jóab boð: "Sendu Úría Hetíta til mín." Og Jóab sendi Úría til Davíðs.

En er Úría kom á hans fund, spurði Davíð, hvernig Jóab liði og hvernig honum liði og hvernig hernaðurinn gengi.

Því næst sagði Davíð við Úría: "Gakk þú nú heim til þín og lauga fætur þína." Gekk Úría þá burt úr konungshöllinni, og var gjöf frá konungi borin á eftir honum.

En Úría lagðist til hvíldar fyrir dyrum konungshallarinnar hjá öðrum þjónum herra síns, en fór ekki heim til sín.

10 Menn sögðu Davíð frá því og mæltu: "Úría er ekki farinn heim til sín." Þá sagði Davíð við Úría: "Þú ert kominn úr ferð, _ hvers vegna ferð þú ekki heim til þín?"

11 Þá sagði Úría við Davíð: "Örkin og Ísrael og Júda búa í laufskálum, og herra minn Jóab og menn herra míns hafast við úti á bersvæði, _ og þá ætti ég að fara heim til mín til þess að eta og drekka og hvíla hjá konu minni? Svo sannarlega sem Drottinn lifir og þú lifir, það gjöri ég ekki."

12 Þá sagði Davíð við Úría: "Vertu þá hér líka í dag, en á morgun gef ég þér fararleyfi." Var Úría þann dag í Jerúsalem.

13 Daginn eftir hafði Davíð hann í boði sínu, og hann át og drakk með honum, og hann gjörði hann drukkinn. En um kvöldið gekk hann burt og lagðist til hvíldar hjá þjónum herra síns, en fór ekki heim til sín.

14 Morguninn eftir skrifaði Davíð Jóab bréf og sendi það með Úría.

15 Í bréfinu skrifaði hann svo: "Setjið Úría fremstan í bardagann, þar sem hann er harðastur, og hörfið aftur undan frá honum, svo að hann verði ofurliði borinn og falli."

16 Jóab sat um borgina og skipaði nú Úría þar til orustu, sem hann vissi að hraustir menn voru fyrir.

17 Gjörðu borgarmenn síðan úthlaup og börðust við Jóab. Féllu þá nokkrir af liðinu, af þjónum Davíðs. Þá lét og Úría Hetíti líf sitt.

18 Þá sendi Jóab mann og lét segja Davíð, hvernig farið hefði í orustunni,

19 og hann lagði svo fyrir sendimanninn: "Þegar þú hefir sagt konungi sem greinilegast frá bardaganum,

20 og konungur þá verður reiður og segir við þig: ,Hví fóruð þér svo nærri borginni í orustu? Vissuð þér ekki að þeir mundu skjóta á yður ofan af borgarveggnum?

21 Hver felldi Abímelek Jerúbbesetsson? Kastaði ekki kona kvarnarsteini á hann ofan af borgarveggnum, svo að hann dó í Tebes? Hví fóruð þér svo nærri borgarveggnum?` _ þá skalt þú segja: ,Þjónn þinn, Úría Hetíti, lét og lífið."`

22 Síðan fór sendimaðurinn og kom og flutti Davíð allt, sem Jóab hafði fyrir hann lagt, hvernig farið hefði í orustunni. Varð þá Davíð reiður Jóab og sagði við sendimanninn: "Hví fóruð þér svo nærri borginni í orustu? Vissuð þér ekki að það mundi verða kastað á yður ofan af borgarveggnum? Hver felldi Abímelek Jerúbbesetsson? Kastaði ekki kona kvarnarsteini á hann ofan af borgarveggnum, svo að hann dó í Tebes? Hví fóruð þér svo nærri borgarveggnum?"

23 Þá sagði sendimaðurinn við Davíð: "Mennirnir voru oss yfirsterkari og voru komnir í móti oss út á bersvæði. Fyrir því urðum vér að sækja að þeim allt að borgarhliðinu.

24 En þá skutu skotmennirnir á þjóna þína niður af borgarveggnum, og féllu þá nokkrir af mönnum konungs, og þjónn þinn, Úría Hetíti, lét og lífið."

25 Þá sagði Davíð við sendimanninn: "Svo skalt þú segja Jóab: ,Láttu þetta ekki á þig fá, því að sverðið verður ýmist þessum eða hinum að bana. Sæk þú vasklega að borginni og brjót hana` _ og teldu þannig hug í hann."

26 En er kona Úría frétti, að maður hennar Úría var fallinn, harmaði hún bónda sinn.

27 En þegar sorgardagarnir voru liðnir, sendi Davíð og tók hana heim til sín, og hún varð kona hans og fæddi honum son. En Drottni mislíkaði það, sem Davíð hafði gjört.

11 Enn sagði hann: "Maður nokkur átti tvo sonu.

12 Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: ,Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber.` Og hann skipti með þeim eigum sínum.

13 Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði.

14 En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort.

15 Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína.

16 Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

17 En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: ,Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri!

18 Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér.

19 Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.`

20 Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann.

21 En sonurinn sagði við hann: ,Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn.`

22 Þá sagði faðir hans við þjóna sína: ,Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum.

23 Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag.

24 Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn.` Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.

25 En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans.

26 Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera.

27 Hann svaraði: ,Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.`

28 Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma.

29 En hann svaraði föður sínum: ,Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum.

30 En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann.`

31 Hann sagði þá við hann: ,Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt.

32 En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn."`

Read full chapter