Add parallel Print Page Options

Og íbúarnir í Kirjat Jearím komu og sóttu örk Drottins og fluttu hana í hús Abínadabs á hæðinni, og vígðu þeir Eleasar son hans til þess að gæta arkar Drottins.

Frá þeim degi, er örkin kom til Kirjat Jearím, leið langur tími, og urðu það tuttugu ár. Þá sneri allt Ísraels hús sér til Drottins.

Samúel sagði við allt Ísraels hús: "Ef þér viljið snúa yður til Drottins af öllu hjarta, þá fjarlægið hin útlendu goð frá yður og Astörturnar og snúið hjarta yðar til Drottins og þjónið honum einum. Mun hann þá frelsa yður af hendi Filista."

Þá köstuðu Ísraelsmenn burt Baölum og Astörtum og þjónuðu Drottni einum.

Samúel sagði: "Stefnið saman öllum Ísrael í Mispa, og skal ég þá biðja fyrir yður til Drottins."

Söfnuðust þeir þá saman í Mispa og jusu vatn og úthelltu því fyrir Drottni. Og þeir föstuðu þann dag og sögðu þar: "Vér höfum syndgað móti Drottni!" Og Samúel dæmdi Ísraelsmenn í Mispa.

En er Filistar heyrðu, að Ísraelsmenn höfðu safnast saman í Mispa, þá fóru höfðingjar Filista á móti Ísrael. Og er Ísraelsmenn heyrðu það, urðu þeir hræddir við Filista.

Og Ísraelsmenn sögðu við Samúel: "Lát eigi af að hrópa til Drottins, Guðs vors, fyrir oss, að hann frelsi oss af hendi Filista."

Þá tók Samúel dilklamb og fórnaði í brennifórn _ alfórn _ Drottni til handa. Og Samúel hrópaði til Drottins fyrir Ísrael, og Drottinn bænheyrði hann.

10 En meðan Samúel var að fórna brennifórninni, voru Filistar komnir í nánd til að berjast við Ísrael. En Drottinn sendi þrumuveður með miklum gný yfir Filista á þeim degi og gjörði þá felmtsfulla, svo að þeir biðu ósigur fyrir Ísrael.

11 Og Ísraelsmenn fóru út frá Mispa og eltu Filista og drápu þá á flóttanum, allt þar til komið var niður fyrir Betkar.

12 Þá tók Samúel stein og reisti hann upp milli Mispa og Jesjana og kallaði hann Ebeneser og sagði: "Hingað til hefir Drottinn hjálpað oss."

13 Þannig voru Filistar yfirbugaðir, og komu þeir ekki framar inn í land Ísraels. Og hönd Drottins var gegn Filistum meðan Samúel lifði.

14 En borgir þær, sem Filistar höfðu tekið frá Ísrael, komu aftur undir Ísrael, frá Ekron allt til Gat, og landinu, er að þeim lá, náði Ísrael einnig úr höndum Filista. Og friður komst á milli Ísraels og Amoríta.

15 Samúel dæmdi Ísrael meðan hann lifði.

16 Og hann ferðaðist um á ári hverju og kom til Betel, Gilgal og Mispa og dæmdi Ísrael á öllum þessum stöðum.

17 Og hann sneri aftur til Rama, því að þar átti hann heima, og þar dæmdi hann Ísrael. Og hann reisti Drottni þar altari.

Er Samúel var orðinn gamall, setti hann sonu sína dómara yfir Ísrael.

Frumgetinn sonur hans hét Jóel, en annar sonur hans Abía. Þeir dæmdu í Beerseba.

En synir hans fetuðu ekki í fótspor hans, heldur hneigðust þeir til ágirndar og þágu mútur og hölluðu réttinum.

Þá söfnuðust allir öldungar Ísraels saman og fóru á fund Samúels í Rama

og sögðu við hann: "Sjá, þú ert nú orðinn gamall og synir þínir feta ekki í fótspor þín. Set oss því konung til að dæma oss, eins og er hjá öllum öðrum þjóðum."

En Samúel mislíkaði það, að þeir sögðu: "Gef oss konung til þess að dæma oss!" Og Samúel bað til Drottins.

Drottinn sagði við Samúel: "Lát þú að orðum lýðsins í öllu því, sem þeir biðja þig um, því að þeir hafa ekki hafnað þér, heldur hafa þeir hafnað mér, að ég skuli ekki lengur vera konungur yfir þeim.

Svona hafa þeir ávallt breytt frá þeim degi, er ég leiddi þá út af Egyptalandi, allt fram á þennan dag. Þeir hafa yfirgefið mig og þjónað öðrum guðum. Öldungis á sama hátt fara þeir nú og með þig.

Lát því nú að orðum þeirra. Þó skalt þú vara þá alvarlega við, og segja þeim háttu konungsins, sem ríkja á yfir þeim."

10 Þá sagði Samúel lýðnum, sem heimti af honum konung, öll orð Drottins

11 og mælti: "Þessi mun verða háttur konungsins, sem yfir yður á að ríkja: Sonu yðar mun hann taka og setja þá við vagn sinn og á hesta sína, og þeir munu hlaupa fyrir vagni hans,

12 og hann mun skipa þá höfuðsmenn yfir þúsund og höfuðsmenn yfir fimmtíu, og setja þá til að plægja akurland sitt og skera upp korn sitt og gjöra hernaðartygi sín og ökutygi.

13 Og dætur yðar mun hann taka og láta þær búa til smyrsl, elda og baka.

14 Og bestu lendur yðar, víngarða og olífugarða mun hann taka og gefa þjónum sínum,

15 og af sáðlöndum yðar og víngörðum mun hann taka tíund og gefa hana geldingum sínum og þjónum sínum.

16 Og þræla yðar og ambáttir og hina bestu uxa yðar og asna yðar mun hann taka og hafa til sinna verka.

17 Af sauðfénaði yðar mun hann taka tíund, en sjálfir munuð þér verða þrælar hans.

18 Þá munuð þér hrópa undan konungi yðar, er þér þá hafið kjörið yður, en þá mun Drottinn ekki svara yður."

19 En fólkið vildi ekki hlýða fortölum Samúels og sagði: "Nei, konungur skal yfir oss vera,

20 svo að vér séum eins og allar aðrar þjóðir, og konungur vor skal dæma oss og vera fyrirliði vor og heyja bardaga vora."

21 Samúel hlýddi á öll ummæli lýðsins og tjáði þau fyrir Drottni.

22 En Drottinn sagði við Samúel: "Lát þú að orðum þeirra og set yfir þá konung." Þá sagði Samúel við Ísraelsmenn: "Farið burt, hver til síns heimkynnis."

Maður er nefndur Kís. Hann var úr Benjamín og var sonur Abíels, Serórssonar, Bekóratssonar, Afíasonar, sonar Benjamíníta nokkurs, auðugur maður.

Hann átti son, er Sál hét, fyrirmannlegan og fríðan. Enginn af Ísraelsmönnum var fríðari en hann. Hann var höfði hærri en allur lýður.

Ösnur Kíss, föður Sáls, týndust, og Kís sagði við Sál, son sinn: "Tak með þér einn af sveinunum og farðu og leitaðu að ösnunum."

Og þeir fóru um Efraímfjöll og þeir fóru um Salísaland, en fundu þær ekki. Síðan fóru þeir um Saalímland, en þær voru þar eigi. Þá fóru þeir um Benjamínsland, en fundu þær ekki.

En er þeir voru komnir í Súf-land, þá sagði Sál við svein sinn, þann er með honum var: "Kom þú, við skulum snúa við, svo að faðir minn fari ekki að undrast um okkur, í stað þess að hugsa um ösnurnar."

Sveinninn svaraði honum: "Sjá, í borg þessari er guðsmaður einn, og er maðurinn frægur. Allt rætist, sem hann segir. Nú skulum við fara þangað; má vera að hann segi okkur, hvaða leið við eigum að halda."

Sál sagði við hann: "Sjá, ef við förum, hvað eigum við þá að færa manninum? Því að brauðið er þrotið í malpokum okkar og gjöf höfum við enga að færa guðsmanninum. Hvað höfum við?"

Þá svaraði sveinninn Sál aftur og mælti: "Sjá, ég hefi hjá mér fjórðung úr silfursikli. Hann ætla ég að gefa guðsmanninum, til þess að hann segi okkur, hvaða leið við eigum að halda." (

Fyrrum komust menn svo að orði í Ísrael, þá er þeir gengu til frétta við Guð: "Komið, vér skulum fara til sjáandans!" Því að þeir, sem nú eru kallaðir spámenn, voru fyrrum kallaðir sjáendur.)

10 Þá sagði Sál við svein sinn: "Þú hefir rétt að mæla. Kom þú, við skulum fara!" Síðan fóru þeir til borgarinnar, þar sem guðsmaðurinn var.

11 Er þeir voru að ganga upp stíginn upp að borginni, hittu þeir stúlkur, sem gengu út að sækja vatn, og sögðu við þær: "Er sjáandinn hér?"

12 Þær svöruðu þeim og sögðu: "Já, hann er rétt á undan ykkur. Hann er alveg nýkominn til borgarinnar, því að lýðurinn ætlar í dag að færa sláturfórnir á fórnarhæðinni.

13 Óðara en þið komið inn í borgina, munuð þið finna hann, áður en hann gengur upp á fórnarhæðina til að eta, því að lýðurinn etur ekki fyrr en hann kemur, af því að hann blessar fórnirnar; eftir það eta þeir, sem boðnir eru. Og gangið nú upp þangað, því að einmitt nú munuð þið finna hann."

14 Síðan gengu þeir upp til borgarinnar. Þegar þeir komu inn í borgina, sjá, þá gekk Samúel út á móti þeim og ætlaði upp á fórnarhæðina.

15 Nú hafði Drottinn, daginn áður en Sál kom, opinberað Samúel þetta:

16 "Í þetta mund á morgun mun ég senda til þín mann úr Benjamínslandi, og skalt þú smyrja hann til höfðingja yfir lýð minn Ísrael, og hann mun frelsa minn lýð af hendi Filistanna, því að ég hefi séð ánauð míns lýðs, og kvein hans hefir borist til mín."

17 En er Samúel sá Sál, sagði Drottinn við hann: "Þetta er maðurinn, sem ég sagði um við þig: ,Hann skal drottna yfir mínum lýð."`

18 Sál gekk þá til Samúels í miðju borgarhliðinu og mælti: "Seg mér, hvar á sjáandinn heima?"

19 Samúel svaraði Sál og mælti: "Ég er sjáandinn. Gakk á undan mér upp á fórnarhæðina. Þið skuluð eta með mér í dag, en á morgun snemma mun ég láta þig fara og fræða þig um allt það, er þú ber fyrir brjósti.

20 Og að því er snertir ösnurnar, sem töpuðust hjá þér fyrir þremur dögum, þá vertu ekki áhyggjufullur út af þeim, því að þær eru fundnar. En hver mun hljóta allar hnossir Ísraels, hver nema þú og öll ætt föður þíns?"

21 Sál svaraði og mælti: "Er ég ekki Benjamíníti, kominn af einni af hinum minnstu kynkvíslum Ísraels, og ætt mín hin lítilmótlegasta af öllum ættum Benjamíns kynkvíslar? Hví mælir þú þá slíkt við mig?"

22 Samúel tók Sál og svein hans og leiddi þá inn í matsalinn, og hann vísaði þeim til sætis efst meðal boðsmannanna, en þeir voru um þrjátíu manns.

23 Og Samúel sagði við matsveininn: "Kom þú nú með stykkið, sem ég fékk þér og sagði þér að taka frá."

24 Þá bar matsveinninn fram bóginn og rófuna og setti fyrir Sál. Og Samúel mælti: "Sjá, það sem afgangs varð, er nú sett fyrir þig. Et, því að á hinum ákveðna tíma var það geymt þér, þá er sagt var: Ég hefi boðið fólkinu!" Og Sál át með Samúel þann dag.

25 Og þeir gengu niður af hæðinni ofan í borgina, og var búið um Sál á þakinu, og lagðist hann til svefns.

26 Þegar lýsti af degi, kallaði Samúel á Sál uppi á þakinu og mælti: "Rís nú á fætur, svo að ég geti fylgt þér á leið." Þá reis Sál á fætur, og þeir gengu báðir út, hann og Samúel.

27 En er þeir voru komnir út fyrir borgina, sagði Samúel við Sál: "Segðu sveininum að fara á undan okkur, _ og hann fór á undan _ en statt þú kyrr, svo að ég megi flytja þér orð frá Guði."

18 Svo bar við, að hann var einn á bæn og lærisveinarnir hjá honum. Þá spurði hann þá: "Hvern segir fólkið mig vera?"

19 Þeir svöruðu: "Jóhannes skírara, aðrir Elía og aðrir, að einn hinna fornu spámanna sé risinn upp."

20 Og hann sagði við þá: "En þér, hvern segið þér mig vera?" Pétur svaraði: "Krist Guðs."

21 Hann lagði ríkt á við þá að segja þetta engum

22 og mælti: "Mannssonurinn á margt að líða, honum mun útskúfað verða af öldungum, æðstu prestum og fræðimönnum, hann mun líflátinn, en upp rísa á þriðja degi."

23 Og hann sagði við alla: "Hver sem vill fylgja mér, afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér.

24 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, hann mun bjarga því.

25 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn, en týna eða fyrirgjöra sjálfum sér?

26 En þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð sinni og föðurins og heilagra engla.

27 En ég segi yður með sanni: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Guðs ríki."

28 Svo bar við um átta dögum eftir ræðu þessa, að hann tók með sér þá Pétur, Jóhannes og Jakob og gekk upp á fjallið að biðjast fyrir.

29 Og er hann var að biðjast fyrir, varð yfirlit ásjónu hans annað, og klæði hans urðu hvít og skínandi.

30 Og tveir menn voru á tali við hann. Það voru þeir Móse og Elía.

31 Þeir birtust í dýrð og ræddu um brottför hans, er hann skyldi fullna í Jerúsalem.

32 Þá Pétur og félaga hans sótti mjög svefn, en nú vöknuðu þeir og sáu dýrð hans og mennina tvo, er stóðu hjá honum.

33 Þegar þeir voru að skilja við Jesú, mælti Pétur við hann: "Meistari, gott er, að vér erum hér. Gjörum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina." Ekki vissi hann, hvað hann sagði.

34 Um leið og hann mælti þetta, kom ský og skyggði yfir þá, og urðu þeir hræddir, er þeir komu inn í skýið.

35 Og rödd kom úr skýinu og sagði: "Þessi er sonur minn, útvalinn, hlýðið á hann!"

36 Er röddin hafði talað, var Jesús einn. Og þeir þögðu og sögðu á þeim dögum engum frá neinu því, sem þeir höfðu séð.

Read full chapter