Add parallel Print Page Options

13 Davíð ráðgaðist um við þúsundhöfðingjana og við hundraðshöfðingjana, við alla höfðingjana.

Og Davíð mælti við Ísraelssöfnuð: "Ef yður líkar svo, og virðist það vera komið frá Drottni, Guði vorum, þá skulum vér senda til frænda vorra, sem eftir eru orðnir í öllum héruðum Ísraels, svo og til prestanna og levítanna í borgunum með beitilöndunum, er að þeim liggja, og skulu þeir safnast til vor.

Skulum vér sækja örk Guðs vors, því að á dögum Sáls höfum vér ekki spurt um hana."

Svaraði þá allur söfnuður, að svo skyldi gjöra, því að öllum lýðnum leist þetta rétt vera.

Kallaði þá Davíð saman allan Ísrael, frá Síhór í Egyptalandi, allt þar til, er leið liggur til Hamat, til þess að flytja örk Guðs frá Kirjat Jearím.

Og Davíð og allur Ísrael fór til Baala, til Kirjat Jearím, sem er í Júda, til þess að flytja þaðan örk Guðs, sem kennd er við nafn Drottins, hans, sem situr uppi yfir kerúbunum.

Og þeir óku örk Drottins á nýjum vagni úr húsi Abínadabs, og stýrðu þeir Ússa og Ahjó vagninum.

Og Davíð og allur Ísrael dansaði fyrir Guði af öllum mætti, með söng, gígjum, hörpum, bumbum, skálabumbum og lúðrum.

En er komið var að þreskivelli Kídons, rétti Ússa út höndina til þess að grípa í örkina, því að slakað hafði verið á taumhaldinu við akneytin.

10 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ússa, og hann laust hann þar, af því að hann hafði gripið hendi sinni í örkina, og dó hann þar fyrir augliti Guðs.

11 En Davíð féll það þungt, að Drottinn hafði lostið Ússa svo hart, og hefir þessi staður verið nefndur Peres Ússa allt fram á þennan dag.

12 Davíð varð hræddur við Guð á þeim degi og sagði: "Hvernig má ég þá flytja örk Guðs til mín?"

13 Og Davíð flutti ekki örkina til sín í Davíðsborg, heldur sneri hann með hana til húss Óbeð Edóms í Gat.

14 Og örk Guðs var þrjá mánuði í húsi Óbeð Edóms, í húsi hans, og Drottinn blessaði hús Óbeð Edóms og allt það, er hans var.

14 Híram, konungur í Týrus, gjörði menn á fund Davíðs og sendi honum sedrustré, steinhöggvara og trésmiði til þess að reisa höll handa honum.

Davíð kannaðist þá við, að Drottinn hefði staðfest konungdóm hans yfir Ísrael, að konungdómur sinn væri hátt upp hafinn fyrir sakir þjóðar hans, Ísraels.

Davíð tók sér enn konur í Jerúsalem, og Davíð gat enn sonu og dætur.

Þetta eru nöfn þeirra sona, sem hann eignaðist í Jerúsalem: Sammúa, Sóbab, Natan, Salómon,

Jíbhar, Elísúa, Elpelet,

Nóga, Nefeg, Jafía,

Elísama, Beeljada og Elífelet.

Þegar Filistar heyrðu, að Davíð væri smurður til konungs yfir allan Ísrael, lögðu allir Filistar af stað að leita Davíðs. Og er Davíð frétti það, fór hann í móti þeim.

Og Filistar komu og dreifðu sér um Refaímdal.

10 Þá gekk Davíð til frétta við Guð og sagði: "Á ég að fara móti Filistum? Munt þú gefa þá í hendur mér?" Drottinn svaraði honum: "Far þú, ég mun gefa þá í hendur þér."

11 Héldu þeir þá til Baal Perasím. Og Davíð vann þar sigur á þeim, og Davíð sagði: "Guð hefir látið mig skola burt óvinum mínum, eins og þegar vatn ryður sér rás." Fyrir því var sá staður nefndur Baal Perasím.

12 En þeir létu þar eftir guði sína, og voru þeir brenndir á báli að boði Davíðs.

13 Filistar komu aftur og dreifðu sér um dalinn.

14 Þá gekk Davíð enn til frétta við Guð, og Guð svaraði honum: "Far þú eigi í móti þeim. Far þú í bug og kom að baki þeim og ráð á þá fram undan bakatrjánum.

15 Og þegar þú heyrir þyt af ferð í krónum bakatrjánna, þá skalt þú leggja til orustu, því að þá fer Guð fyrir þér til þess að ljósta her Filista."

16 Og Davíð gjörði eins og Guð bauð honum og vann sigur á her Filista frá Gíbeon til Geser.

17 Og frægð Davíðs barst um öll lönd, og Drottinn lét ótta við hann koma yfir allar þjóðir.

15 Davíð byggði hús handa sér í Davíðsborg, og hann bjó stað handa örk Guðs og reisti tjald fyrir hana.

Þá sagði Davíð: "Enginn má bera örk Guðs nema levítarnir, því að þá hefir Drottinn valið til þess að bera örk Guðs og til þess að þjóna sér að eilífu."

Síðan stefndi Davíð öllum Ísrael saman til Jerúsalem til þess að flytja örk Drottins á sinn stað, þann er hann hafði búið handa henni.

Og Davíð stefndi saman niðjum Arons og levítunum:

Af Kahatsniðjum: Úríel, er var þeirra helstur, og frændum hans, hundrað og tuttugu alls.

Af Meraríniðjum: Asaja, er var þeirra helstur, og frændum hans, tvö hundruð og tuttugu alls.

Af Gersómsniðjum: Jóel, er var þeirra helstur, og frændum hans, hundrað og þrjátíu alls.

Af Elísafansniðjum: Semaja, er var þeirra helstur, og frændum hans, tvö hundruð alls.

Af Hebronsniðjum: Elíel, er var þeirra helstur, og frændum hans, áttatíu alls.

10 Af Ússíelsniðjum: Ammínadab, er var þeirra helstur, og frændum hans, hundrað og tólf alls.

11 Síðan kallaði Davíð á Sadók og Abjatar presta og Úríel, Asaja, Jóel, Semaja, Elíel og Ammínadab levíta,

12 og mælti við þá: "Þér eruð ætthöfðingjar levíta. Helgið yður og frændur yðar og flytjið örk Drottins, Ísraels Guðs, á þann stað, er ég hefi búið handa henni.

13 Af því að þér voruð eigi við hið fyrra skipti, hefir Drottinn Guð vor lostið oss, af því að vér leituðum hans eigi svo sem vera bar."

14 Þá helguðu prestarnir og levítarnir sig til þess að flytja örk Drottins, Ísraels Guðs, upp eftir.

15 Síðan báru niðjar levíta örk Guðs, eins og Móse hafði fyrirskipað eftir boði Drottins, á stöngum á herðum sér.

16 Því næst bauð Davíð höfðingjum levíta að setja frændur þeirra, söngmennina, með hljóðfærum þeirra, hörpum, gígjum og skálabumbum, til þess að þeir skyldu láta fagnaðarglaum kveða við.

17 Settu levítar til þess Heman Jóelsson, og af frændum hans Asaf Berekíason, og af Meraríniðjum, frændum sínum, Etan Kúsajason,

18 og með þeim frændur þeirra af öðrum flokki: Sakaría Jaasíelsson, Semíramót, Jehíel, Únní, Elíat, Benaja, Maaseja, Mattitja, Elífelehú, Mikneja, Óbeð Edóm og Jeíel hliðverði.

19 Auk þess söngvarana Heman, Asaf og Etan með skálabumbum úr eiri, til þess að syngja hátt,

20 og Sakaría, Asíel, Semíramót, Jehíel, Únní, Elíat, Maaseja og Benaja með hörpur, til þess að syngja háu raddirnar,

21 og Mattitja, Elífelehú, Mikneja, Óbeð Edóm, Jeíel og Asaja með gígjur, til þess að syngja lægri raddirnar.

22 Kenanja, er var helstur levítanna við arkarburðinn, sá um arkarburðinn, því að hann bar skyn á það.

23 Berekía og Elkana voru hliðverðir arkarinnar.

24 Sebanja, Jósafat, Netaneel, Amasaí, Sakaría, Benaja og Elíeser prestar þeyttu lúðra frammi fyrir örk Guðs, og Óbeð Edóm og Jehía voru hliðverðir arkarinnar.

25 Davíð og öldungar Ísraels og þúsundhöfðingjarnir fóru til þess að flytja sáttmálsörk Drottins með fögnuði úr húsi Óbeð Edóms.

26 Og er Guð hjálpaði levítunum, er báru sáttmálsörk Drottins, fórnuðu þeir sjö nautum og sjö hrútum.

27 Og Davíð var klæddur baðmullarkyrtli, svo og allir levítarnir, er örkina báru, og söngmennirnir og Kenanja, burðarstjóri, æðstur söngmannanna, en Davíð bar línhökul.

28 Og allur Ísrael flutti sáttmálsörk Drottins upp eftir með fagnaðarópi og lúðurhljómi, með lúðrum og skálabumbum, og létu hljóma hörpur og gígjur.

29 En er sáttmálsörk Drottins kom í Davíðsborg, leit Míkal, dóttir Sáls, út um gluggann. Og er hún sá Davíð konung vera að hoppa og dansa, fyrirleit hún hann í hjarta sínu.

Eftir þetta fór Jesús um Galíleu. Hann vildi ekki fara um Júdeu, sökum þess að Gyðingar sátu um líf hans.

Nú fór að hátíð Gyðinga, laufskálahátíðin.

Þá sögðu bræður hans við hann: "Flyt þig héðan og farðu til Júdeu, til þess að lærisveinar þínir sjái líka verkin þín, sem þú gjörir.

Því enginn starfar í leynum, ef hann vill verða alkunnur. Fyrst þú vinnur slík verk, þá opinbera sjálfan þig heiminum."

Því jafnvel bræður hans trúðu ekki á hann.

Jesús sagði við þá: "Minn tími er ekki enn kominn, en yður hentar allur tími.

Heimurinn getur ekki hatað yður. Mig hatar hann, af því ég vitna um hann, að verk hans eru vond.

Þér skuluð fara upp eftir á hátíðina. Ég fer ekki til þessarar hátíðar, því minn tími er ekki enn kominn."

Þetta sagði hann þeim og var kyrr í Galíleu.

10 Þegar bræður hans voru farnir upp eftir til hátíðarinnar, fór hann samt líka upp eftir, ekki svo menn vissu, heldur nánast á laun.

11 Gyðingar voru að leita að honum á hátíðinni og spurðu, hvar hann væri.

12 Manna á meðal var margt um hann talað. Sumir sögðu: "Hann er góður," en aðrir sögðu: "Nei, hann leiðir fjöldann í villu."

13 Þó talaði enginn opinskátt um hann af ótta við Gyðinga.

14 Er hátíðin var þegar hálfnuð, fór Jesús upp í helgidóminn og tók að kenna.

15 Gyðingar urðu forviða og sögðu: "Hvernig hefur þessi maður orðið lærður og hefur þó ekki fræðslu notið?"

16 Jesús svaraði þeim: "Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig.

17 Sá sem vill gjöra vilja hans, mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.

18 Sá sem talar af sjálfum sér, leitar eigin heiðurs, en sá sem leitar heiðurs þess, er sendi hann, er sannorður og í honum ekkert ranglæti.

19 Gaf Móse yður ekki lögmálið? Samt heldur enginn yðar lögmálið. Hví sitjið þér um líf mitt?"

20 Fólkið ansaði: "Þú ert haldinn illum anda. Hver situr um líf þitt?"

21 Jesús svaraði þeim: "Eitt verk gjörði ég, og þér undrist það allir.

22 Móse gaf yður umskurnina _ hún er að vísu ekki frá Móse, heldur feðrunum _ og þér umskerið mann jafnvel á hvíldardegi.

23 Fyrst maður er umskorinn á hvíldardegi, til þess að lögmál Móse verði ekki brotið, hví reiðist þér mér, að ég gjörði manninn allan heilan á hvíldardegi?

24 Dæmið ekki eftir útliti, dæmið réttlátan dóm."

25 Þá sögðu nokkrir Jerúsalembúar: "Er þetta ekki sá, sem þeir sitja um að lífláta?

26 Og nú er hann að tala á almannafæri, og þeir segja ekkert við hann. Skyldu nú höfðingjarnir hafa komist að raun um, að hann sé Kristur?

27 Nei, vér vitum, hvaðan þessi maður er. Þegar Kristur kemur, veit enginn, hvaðan hann er."

Read full chapter