Add parallel Print Page Options

11 Og ég sá annað dýr stíga upp af jörðinni og það hafði tvö horn lík lambshornum, en það talaði eins og dreki.

12 Það fer með allt vald fyrra dýrsins fyrir augsýn þess og það lætur jörðina og þá, sem á henni búa, tilbiðja fyrra dýrið, sem varð heilt af banasári sínu.

13 Og það gjörir tákn mikil, svo að það lætur jafnvel eld falla af himni ofan á jörðina fyrir augum mannanna.

14 Og það leiðir afvega þá, sem á jörðunni búa, með táknunum, sem því er lofað að gjöra í augsýn dýrsins. Það segir þeim, sem á jörðunni búa, að þeir skuli gjöra líkneski af dýrinu, sem sárið fékk undan sverðinu, en lifnaði við.

15 Og því var leyft að gefa líkneski dýrsins anda, til þess að líkneski dýrsins gæti einnig talað og komið því til leiðar, að allir yrðu þeir deyddir, sem ekki vildu tilbiðja líkneski dýrsins.

16 Og það lætur alla, smáa og stóra, auðuga og fátæka og frjálsa og ófrjálsa, setja merki á hægri hönd sér eða á enni sín

17 og kemur því til leiðar, að enginn geti keypt eða selt, nema hann hafi merkið, nafn dýrsins, eða tölu nafns þess.

18 Hér reynir á speki. Sá sem skilning hefur reikni tölu dýrsins, því að tala manns er það, og tala hans er sex hundruð sextíu og sex.

Read full chapter