Add parallel Print Page Options

11 Drottinn talaði við Móse og sagði:

12 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Nú gjörist kona marglát og reynist ótrú manni sínum.

13 Annar maður hefir samræði við hana, en maður hennar veit eigi af. Hún verður eigi uppvís að og hefir þó saurgað sig, og engin vitni eru mót henni og hún er eigi að því staðin.

14 En yfir manninn kemur afbrýðisandi, svo að hann verður hræddur um konu sína, og hún hefir saurgað sig. Eða afbrýðisandi kemur yfir mann, og hann verður hræddur um konu sína, þótt hún hafi eigi saurgað sig.

15 Þá fari maðurinn með konu sína til prestsins og færi honum fórnargjöfina fyrir hana: tíunda part úr efu af byggmjöli. Eigi skal hann hella yfir það olíu né leggja reykelsiskvoðu ofan á það, því að það er afbrýðismatfórn, minningarmatfórn, sem minnir á misgjörð.

16 Presturinn skal taka konuna og leiða hana fram fyrir Drottin.

17 Og prestur skal taka heilagt vatn í leirker, og prestur skal taka mold af gólfi búðarinnar og láta í vatnið.

18 Og prestur skal leiða konuna fram fyrir Drottin og leysa hár konunnar og fá henni í hendur minningarmatfórnina _ það er afbrýðismatfórn. En á beiskjuvatninu, er bölvan veldur, skal presturinn halda.

19 Prestur skal særa hana og segja við konuna: ,Hafi enginn maður hjá þér legið og hafir þú eigi saurgað þig með lauslæti í hjúskap þínum, þá verði þetta beiskjuvatn, sem bölvan veldur, þér ósaknæmt.

20 En hafir þú verið lauslát í hjúskapnum og hafir þú saurgast og einhver annar en maður þinn hefir haft samræði við þig,`

21 þá skal prestur láta konuna vinna bölvunarsæri, og prestur skal segja við konuna: ,Drottinn gjöri þig að bölvan og að særi meðal fólks þíns, er Drottinn lætur lendar þínar hjaðna og kvið þinn þrútna.

22 Og vatn þetta, er bölvan veldur, skal fara í innýfli þín, svo að kviðurinn þrútni og lendarnar hjaðni.` Og konan skal segja: ,Amen, amen!`

23 Síðan skal prestur rita formælingu þessa í bók og strjúka hana út í beiskjuvatnið,

24 og hann skal láta konuna drekka beiskjuvatnið, er bölvan veldur, svo að vatnið, sem bölvan veldur, fari ofan í hana og verði að beiskju.

25 Og presturinn skal taka við afbrýðismatfórninni úr hendi konunnar, og hann skal veifa matfórninni frammi fyrir Drottni og bera hana á altarið.

26 Og presturinn skal taka hnefafylli af matfórninni sem ilmhluta hennar og brenna á altarinu. Síðan skal hann láta konuna drekka vatnið.

27 Og þegar hann hefir látið hana drekka vatnið, þá skal svo fara, að hafi hún saurgað sig og verið manni sínum ótrú, þá skal vatnið, er bölvan veldur, fara ofan í hana og verða að beiskju, og kviður hennar þrútna og lendar hennar hjaðna, og konan skal verða að bölvan meðal fólks síns.

28 En hafi konan ekki saurgað sig og sé hún hrein, þá skal það ekki saka hana, og hún mun geta fengið getnað."

29 Þetta eru lögin um afbrýðisemi, þegar gift kona gjörist marglát og saurgar sig

30 eða þegar afbrýðisandi kemur yfir mann og hann verður hræddur um konu sína, þá skal hann leiða konuna fram fyrir Drottin, og prestur skal með hana fara í alla staði eftir lögum þessum.

31 Maðurinn skal vera sýkn saka, en konan skal bera sekt sína.

Read full chapter