Add parallel Print Page Options

15 Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað," _ lesandinn athugi það _

16 "þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.

17 Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt.

18 Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína.

19 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum.

20 Biðjið, að flótti yðar verði ekki um vetur eða á hvíldardegi.

21 Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.

22 Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.

23 Ef einhver segir þá við yður: ,Hér er Kristur` eða ,þar`, þá trúið því ekki.

24 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra stór tákn og undur til að leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef orðið gæti.

25 Sjá, ég hef sagt yður það fyrir.

26 Ef þeir segja við yður: ,Sjá, hann er í óbyggðum,` þá farið ekki þangað. Ef þeir segja: ,Sjá, hann er í leynum,` þá trúið því ekki.

27 Eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs, svo mun verða koma Mannssonarins.

28 Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er.

29 En þegar eftir þrenging þessara daga mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast.

30 Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.

31 Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri, og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli.

32 Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd.

33 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum.

34 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.

35 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.

Read full chapter