Add parallel Print Page Options

24 Aðra dæmisögu sagði hann þeim: "Líkt er um himnaríki og mann, er sáði góðu sæði í akur sinn.

25 En er menn voru í svefni, kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan.

26 Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt, kom illgresið og í ljós.

27 Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: ,Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið?`

28 Hann svaraði þeim: ,Þetta hefur einhver óvinur gjört.` Þjónarnir sögðu við hann: ,Viltu, að vér förum og tínum það?`

29 Hann sagði: ,Nei, með því að tína illgresið, gætuð þér slitið upp hveitið um leið.

30 Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð, mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína."`

Read full chapter