Add parallel Print Page Options

13 Sama dag gekk Jesús að heiman og settist við vatnið.

Svo mikill mannfjöldi safnaðist að honum, að hann varð að stíga í bát og sitja þar. En allt fólkið stóð á ströndinni.

Hann talaði margt til þeirra í dæmisögum. Hann sagði: "Sáðmaður gekk út að sá,

og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp.

Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð.

Þegar sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það.

Sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það.

En sumt féll í góða jörð og bar ávöxt, sumt hundraðfaldan, sumt sextugfaldan og sumt þrítugfaldan.

Hver sem eyru hefur, hann heyri."

10 Þá komu lærisveinarnir til hans og spurðu: "Hvers vegna talar þú til þeirra í dæmisögum?"

11 Hann svaraði: "Yður er gefið að þekkja leynda dóma himnaríkis, hinum er það ekki gefið.

12 Því að þeim, sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.

13 Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum, að sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja.

14 Á þeim rætist spádómur Jesaja: Með eyrum munuð þér heyra og alls ekki skilja, og sjáandi munuð þér horfa og ekkert sjá.

15 Því að hjarta lýðs þessa er sljótt orðið, og illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað, svo að þeir sjái ekki með augunum né heyri með eyrunum og skilji með hjartanu og snúi sér, og ég lækni þá.

16 En sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra.

17 Sannlega segi ég yður: Margir spámenn og réttlátir þráðu að sjá það, sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það, sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.

18 Heyrið þá hvað dæmisagan um sáðmanninn merkir:

19 Þegar einhver heyrir orðið um ríkið og skilur ekki, þá kemur hinn vondi og rænir því, sem sáð var í hjarta hans. Það sem sáð var við götuna, merkir þetta.

20 Það sem sáð var í grýtta jörð, merkir þann, sem tekur orðinu með fögnuði, um leið og hann heyrir það,

21 en hefur enga rótfestu. Hann er hvikull, og er þrenging verður eða ofsókn vegna orðsins, bregst hann þegar.

22 Það er sáð var meðal þyrna, merkir þann, sem heyrir orðið, en áhyggjur heimsins og tál auðæfanna kefja orðið, svo það ber engan ávöxt.

23 En það er sáð var í góða jörð, merkir þann, sem heyrir orðið og skilur það. Hann er sá, sem ber ávöxt og gefur af sér hundraðfalt, sextugfalt eða þrítugfalt."

Read full chapter