Añadir traducción en paralelo Imprimir Opciones de la página

21 Þeir komu til Kapernaum. Og hvíldardaginn gekk Jesús í samkunduna og kenndi.

22 Undruðust menn mjög kenningu hans, því að hann kenndi þeim eins og sá er vald hefur, og ekki eins og fræðimennirnir.

23 Þar var í samkundu þeirra maður haldinn óhreinum anda. Hann æpti:

24 "Hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs."

25 Jesús hastaði þá á hann og mælti: "Þegi þú, og far út af honum."

26 Þá teygði óhreini andinn manninn, rak upp hljóð mikið og fór út af honum.

27 Sló felmtri á alla, og hver spurði annan: "Hvað er þetta? Ný kenning með valdi! Hann skipar jafnvel óhreinum öndum og þeir hlýða honum."

28 Og orðstír hans barst þegar um alla Galíleu.

29 Úr samkundunni fóru þeir rakleitt í hús Símonar og Andrésar og með þeim Jakob og Jóhannes.

30 Tengdamóðir Símonar lá með sótthita, og sögðu þeir Jesú þegar frá henni.

31 Hann gekk þá að, tók í hönd henni og reisti hana á fætur. Sótthitinn fór úr henni, og hún gekk þeim fyrir beina.

32 Þegar kvöld var komið og sólin setst, færðu menn til hans alla þá, er sjúkir voru og haldnir illum öndum,

33 og allur bærinn var saman kominn við dyrnar.

34 Hann læknaði marga, er þjáðust af ýmsum sjúkdómum, og rak út marga illa anda, en illu öndunum bannaði hann að tala, því að þeir vissu hver hann var.

35 Og árla, löngu fyrir dögun, fór hann á fætur og gekk út, vék burt á óbyggðan stað og baðst þar fyrir.

36 Þeir Símon leituðu hann uppi,

37 og þegar þeir fundu hann, sögðu þeir við hann: "Allir eru að leita að þér."

38 Hann sagði við þá: "Vér skulum fara annað, í þorpin hér í grennd, svo að ég geti einnig prédikað þar, því að til þess er ég kominn."

39 Og hann fór og prédikaði í samkundum þeirra í allri Galíleu og rak út illa anda.

Read full chapter