Add parallel Print Page Options

En Jesús sneri aftur frá Jórdan, fullur af heilögum anda. Leiddi andinn hann um óbyggðina

fjörutíu daga, en djöfullinn freistaði hans. Ekki neytti hann neins þá daga, og er þeir voru liðnir, var hann hungraður.

En djöfullinn sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá bjóð þú steini þessum, að hann verði að brauði."

Og Jesús svaraði honum: "Ritað er: ,Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði."`

Þá fór hann með hann upp og sýndi honum á augabragði öll ríki veraldar.

Og djöfullinn sagði við hann: "Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess, því að mér er það í hendur fengið, og ég get gefið það hverjum sem ég vil.

Ef þú fellur fram og tilbiður mig, skal það allt verða þitt."

Jesús svaraði honum: "Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum."

Þá fór hann með hann til Jerúsalem, setti hann á brún musterisins og sagði við hann: "Ef þú ert sonur Guðs, þá kasta þér hér ofan,

10 því að ritað er: Hann mun fela englum sínum að gæta þín

11 og: þeir munu bera þig á höndum sér, að þú steytir ekki fót þinn við steini."

12 Jesús svaraði honum: "Sagt hefur verið: ,Ekki skalt þú freista Drottins, Guðs þíns."`

13 Og er djöfullinn hafði lokið allri freistni, vék hann frá honum að sinni.

Read full chapter