Add parallel Print Page Options

39 Komist bróðir þinn í fátækt hjá þér og selur sig þér, þá skalt þú ekki láta hann vinna þrælavinnu.

40 Sem kaupamaður, sem hjábýlingur skal hann hjá þér vera. Hann skal vinna hjá þér til fagnaðarárs.

41 En þá skal hann fara frá þér, og börn hans með honum, og hverfa aftur til ættar sinnar, og hann skal hverfa aftur til óðals feðra sinna.

42 Því að þeir eru þjónar mínir, sem ég hefi leitt út af Egyptalandi. Eigi skulu þeir seldir mansali.

43 Þú skalt eigi drottna yfir honum með hörku, heldur skalt þú óttast Guð þinn.

44 Viljir þú fá þér þræla og ambáttir, þá skuluð þér kaupa þræla og ambáttir af þjóðunum, sem umhverfis yður búa.

45 Svo og af börnum hjábýlinga, er hjá yður dvelja, af þeim skuluð þér kaupa og af ættliði þeirra, sem hjá yður er og þeir hafa getið í landi yðar, og þau skulu verða eign yðar.

46 Og þér skuluð láta þá ganga í arf til barna yðar eftir yður, svo að þau verði eign þeirra. Þér skuluð hafa þau að ævinlegum þrælum. En yfir bræðrum yðar, Ísraelsmönnum, skuluð þér eigi drottna með hörku, einn yfir öðrum.

47 Komist dvalarmaður eða hjábýlingur í efni hjá þér, en bróðir þinn kemst í fátækt hjá honum og selur sig dvalarmanni eða hjábýlingi hjá þér eða afkomanda dvalarmanns ættar,

48 þá skal heimilt að leysa hann eftir að hann hefir selt sig. Heimilt skal einhverjum af bræðrum hans að leysa hann,

49 eða föðurbróður hans eða bræðrungi hans eða einhverjum náfrænda í ætt hans, eða komist hann sjálfur í efni, þá er honum heimilt að leysa sig.

50 Og við þann, sem keypti hann, skal hann reikna frá árinu, er hann seldi sig honum, til fagnaðarársins, og söluverðið skal fara eftir árafjöldanum. Skal hann vera hjá honum ákveðinn tíma, svo sem kaupamaður væri.

51 Ef enn eru mörg ár eftir, þá skal hann að tiltölu við árafjöldann endurgreiða lausnargjald sitt af fé því, er hann var keyptur fyrir,

52 en ef fá ár eru eftir til fagnaðarárs, þá skal hann og reikna honum þau. Eftir áratölunni skal hann endurgreiða lausnargjald sitt.

53 Skal hann sæta sömu kjörum hjá honum eins og sá, sem er kaupamaður ár eftir ár. Hann skal eigi drottna yfir honum með hörku að þér ásjáandi.

54 En sé hann ekki leystur með þessum hætti, þá skal hann ganga úr eigu kaupanda fagnaðarárið, hann og börn hans með honum.

55 Því að Ísraelsmenn eru þjónar mínir, mínir þjónar eru þeir, sem ég hefi leitt út af Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar.

Read full chapter