Add parallel Print Page Options

21 En er Jósúa og allur Ísrael sáu, að launsátursliðið hafði tekið borgina og að reykinn lagði upp af borginni, þá hurfu þeir aftur og gjörðu áhlaup á Aí-menn.

22 Hinir komu þá og úr borginni út í móti þeim, og urðu þeir nú milli Ísraelsmanna, sem umkringdu þá á alla vegu. Felldu þeir þá, svo að enginn var eftir skilinn, sá er undan kæmist eða forðaði lífi sínu.

23 En konunginum í Aí náðu þeir lifandi á sitt vald og fóru með hann til Jósúa.

24 Er Ísrael hafði drepið alla Aí-búa úti á víðavangi, í eyðimörkinni, þangað sem þeir höfðu veitt þeim eftirför, og þeir voru allir fallnir fyrir sverðseggjum, svo að enginn þeirra var eftir, þá hurfu allir Ísraelsmenn aftur til Aí og felldu íbúana með sverðseggjum.

25 Og allir þeir, sem féllu á þeim degi, bæði karlar og konur, voru tólf þúsund manns, allir Aí-búar.

26 Jósúa dró ekki að sér höndina, sem hann hélt í spjótinu, uns hann hafði gjöreytt öllum Aí-búum.

27 En fénaðinum og herfangi því, er í borginni var, rændu Ísraelsmenn sér til handa eftir boði Drottins, því er hann hafði lagt fyrir Jósúa.

28 Jósúa brenndi Aí og gjörði hana að ævinlegri grjóthrúgu, eyðirúst, fram á þennan dag.

29 Og konunginn í Aí lét hann hengja á tré og lét hann hanga til kvelds, en um sólarlagsbil bauð Jósúa að taka líkama hans ofan af trénu. Köstuðu þeir honum út fyrir borgarhliðið og gjörðu yfir hann steindys mikla, og er hún þar enn í dag.

Read full chapter