Add parallel Print Page Options

14 "Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.

Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað?

Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.

Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér."

Tómas segir við hann: "Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn?"

Jesús segir við hann: "Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.

Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann."

Filippus segir við hann: "Herra, sýn þú oss föðurinn. Það nægir oss."

Jesús svaraði: "Ég hef verið með yður allan þennan tíma, og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: ,Sýn þú oss föðurinn`?

10 Trúir þú ekki, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Orðin, sem ég segi við yður, tala ég ekki af sjálfum mér. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk.

11 Trúið mér, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér gerið það ekki, trúið þá vegna sjálfra verkanna.

12 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau, því ég fer til föðurins.

13 Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra, svo að faðirinn vegsamist í syninum.

14 Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni, mun ég gjöra það.

Read full chapter