Add parallel Print Page Options

31 Þeir ætluðu að lífláta hann, en hersveitarforingjanum var tjáð, að öll Jerúsalem væri í uppnámi.

32 Hann brá við og tók með sér hermenn og hundraðshöfðingja og hljóp niður til þeirra. Þegar þeir sáu hersveitarforingjann og hermennina, hættu þeir að berja Pál.

33 Hersveitarforinginn kom þá að, tók hann og skipaði að binda hann tvennum fjötrum og spurði, hver hann væri og hvað hann hefði gjört.

34 En sitt kallaði hver í mannfjöldanum. Þegar hann gat ekki orðið neins vísari sökum óróans, bauð hann að fara með hann upp í kastalann.

35 Þegar komið var að þrepunum, urðu hermennirnir að bera hann vegna ofsans í fólkinu,

36 en múgur manns fylgdi eftir og æpti: "Burt með hann!"

37 Um leið og fara átti með Pál inn í kastalann, segir hann við hersveitarforingjann: "Leyfist mér að tala nokkur orð við þig?" Hann svaraði: "Kannt þú grísku?

38 Ekki ert þú þá Egyptinn, sem æsti til uppreisnar á dögunum og fór með morðvargana fjögur þúsund út í óbyggðir."

39 Páll sagði: "Ég er Gyðingur, frá Tarsus í Kilikíu, borgari í ekki ómerkum bæ. Ég bið þig, leyf mér að tala til fólksins."

40 Hann leyfði það. Páll bandaði hendi til fólksins, þar sem hann stóð á þrepunum. Þegar hann hafði fengið gott hljóð, mælti hann til þeirra á hebreska tungu:

22 "Bræður og feður, hlustið á það, sem ég ætla að flytja yður mér til varnar."

En er þeir heyrðu hann ávarpa sig á hebresku, urðu þeir enn hljóðari. Hann heldur áfram:

"Ég er Gyðingur, fæddur í Tarsus í Kilikíu, en alinn upp í þessari borg. Við fætur Gamalíels hlaut ég fyllstu uppfræðslu í lögmáli feðra vorra. Guðs stríðsmaður vildi ég vera ekki síður en þér allir í dag.

Ég ofsótti þá, sem voru þessa vegar, og sparði ekki líf þeirra, færði í fjötra og hneppti í fangelsi karla og konur.

Æðsti presturinn og allt öldungaráðið geta borið mér vitni um þetta. Hjá þeim fékk ég bréf til bræðranna í Damaskus og fór þangað til að flytja einnig þá, er þar voru, í böndum til Jerúsalem, að þeim yrði refsað.

En á leiðinni, er ég nálgaðist Damaskus, bar svo við um hádegisbil, að ljós mikið af himni leiftraði skyndilega um mig.

Ég féll til jarðar og heyrði raust, er sagði við mig: ,Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?`

Ég svaraði: ,Hver ert þú, herra?` Og hann sagði við mig: ,Ég er Jesús frá Nasaret, sem þú ofsækir.`

Þeir, sem með mér voru, sáu ljósið, en raust þess, er við mig talaði, heyrðu þeir ekki.

10 Þá sagði ég: ,Hvað á ég að gjöra, herra?` En Drottinn sagði við mig: ,Rís upp og far til Damaskus. Þar mun þér verða sagt allt, sem þér er ætlað að gjöra.`

11 En með því að ég var blindaður af ljóma þessa ljóss, urðu förunautar mínir að leiða mig, og þannig komst ég til Damaskus.

12 En Ananías nokkur, maður guðrækinn eftir lögmálinu og í góðum metum hjá öllum Gyðingum, er þar bjuggu,

13 kom til mín, nam staðar hjá mér og sagði: ,Sál, bróðir, fá þú aftur sjón þína!` Á sömu stundu fékk ég sjónina og sá hann.

14 En hann sagði: ,Guð feðra vorra hefur útvalið þig til að þekkja vilja sinn, að sjá hinn réttláta og heyra raustina af munni hans.

15 Því að þú skalt honum vottur vera hjá öllum mönnum um það, sem þú hefur séð og heyrt.

16 Hvað dvelur þig nú? Rís upp, ákalla nafn hans og lát skírast og laugast af syndum þínum.`

17 En þegar ég var kominn aftur til Jerúsalem og baðst fyrir í helgidóminum, varð ég frá mér numinn

18 og sá hann, og hann sagði við mig: ,Flýt þér og far sem skjótast burt úr Jerúsalem, því að þeir munu ekki veita viðtöku vitnisburði þínum um mig.`

19 Ég sagði: ,Drottinn, þeir vita, að ég hef verið að hneppa í fangelsi þá, sem trúðu á þig, og láta húðstrýkja þá í samkunduhúsunum.

20 Og þegar úthellt var blóði Stefáns, vottar þíns, stóð ég sjálfur þar hjá og lét mér vel líka og varðveitti klæði þeirra, sem tóku hann af lífi.`

21 Hann sagði við mig: ,Far þú, því að ég mun senda þig til heiðingja langt í burtu."`

22 Allt að þessu orði hlýddu þeir á hann, en nú hófu þeir upp raust sína og hrópuðu: "Burt með slíkan mann af jörðinni! Eigi hæfir, að hann lifi!"

23 Nú sem þeir æptu og vingsuðu klæðum sínum og þyrluðu ryki í loft upp,

24 skipaði hersveitarforinginn að fara með hann inn í kastalann og hýða hann og kúga hann með því til sagna, svo að hann kæmist að því, fyrir hverja sök þeir gjörðu slík óp að honum.

25 En þá er þeir strengdu hann undir höggin, sagði Páll við hundraðshöfðingjann, er hjá stóð: "Leyfist yður að húðstrýkja rómverskan mann og það án dóms og laga?"

26 Þegar hundraðshöfðinginn heyrði þetta, fór hann til hersveitarforingjans, skýrði honum frá og sagði: "Hvað ert þú að gjöra? Maður þessi er rómverskur."

27 Hersveitarforinginn kom þá og sagði við Pál: "Seg mér, ert þú rómverskur borgari?" Páll sagði: "Já."

28 Hersveitarforinginn sagði: "Fyrir ærið fé keypti ég þennan þegnrétt." En Páll sagði: "Ég er meira að segja með honum fæddur."

29 Þeir, sem áttu að kúga hann til sagna, viku nú jafnskjótt frá honum. Og hersveitarforinginn varð hræddur, er hann varð þess vís, að það var rómverskur maður, sem hann hafði látið binda.

30 Daginn eftir vildi hann ganga úr skugga um, fyrir hvað Gyðingar kærðu hann, lét leysa hann og bauð, að æðstu prestarnir og allt ráðið kæmi saman. Síðan kom hann ofan með Pál og leiddi hann fram fyrir þá.

23 En Páll hvessti augun á ráðið og mælti: "Bræður, ég hef í öllu breytt með góðri samvisku fyrir Guði fram á þennan dag."

En Ananías æðsti prestur skipaði þeim, er hjá stóðu, að ljósta hann á munninn.

Þá sagði Páll við hann: "Guð mun ljósta þig, kalkaði veggur. Hér situr þú til að dæma mig samkvæmt lögmálinu og skipar þó þvert ofan í lögmálið að slá mig."

Þeir, sem hjá stóðu sögðu: "Smánar þú æðsta prest Guðs?"

Páll svaraði: "Ekki vissi ég, bræður, að hann væri æðsti prestur, því ritað er: ,Þú skalt ekki illmæla höfðingja lýðs þíns."`

Nú vissi Páll, að sumir þeirra voru saddúkear, en aðrir farísear, og hann hrópaði upp í ráðinu: "Bræður, ég er farísei, af faríseum kominn. Ég er lögsóttur fyrir vonina um upprisu dauðra."

Þegar hann sagði þetta, varð deila milli farísea og saddúkea, og þingheimur skiptist í flokka.

Því saddúkear segja, að ekki sé til upprisa, englar né andar, en farísear játa allt þetta.

Nú varð hróp mikið, og nokkrir fræðimenn af flokki farísea risu upp og fullyrtu: "Vér sjáum ekki, að þessi maður hafi brotið af sér. Gæti ekki hugsast, að andi hafi talað við hann eða engill?"

10 Deilan harðnaði og hersveitarforinginn fór að óttast, að þeir ætluðu að rífa Pál í sundur. Því skipaði hann herliðinu að koma ofan, taka hann af þeim og færa hann inn í kastalann.

11 Nóttina eftir kom Drottinn til hans og sagði: "Vertu hughraustur! Svo sem þú hefur vitnað um mig í Jerúsalem eins ber þér og að vitna í Róm."

12 Þegar dagur rann, bundust Gyðingar samtökum og sóru þess eið að eta hvorki né drekka, fyrr en þeir hefðu ráðið Pál af dögum.

13 Voru þeir fleiri en fjörutíu, sem þetta samsæri gjörðu.

14 Þeir fóru til æðstu prestanna og öldunganna og sögðu: "Vér höfum svarið þess dýran eið að neyta einskis, fyrr en vér höfum ráðið Pál af dögum.

15 Nú skuluð þér og ráðið leggja til við hersveitarforingjann, að hann láti senda hann niður til yðar, svo sem vilduð þér kynna yður mál hans rækilegar. En vér erum við því búnir að vega hann, áður en hann kemst alla leið."

16 En systursonur Páls heyrði um fyrirsátina. Hann gekk inn í kastalann og sagði Páli frá.

17 Páll kallaði til sín einn hundraðshöfðingjann og mælti: "Far þú með þennan unga mann til hersveitarforingjans, því að hann hefur nokkuð að segja honum."

18 Hundraðshöfðinginn tók hann með sér, fór með hann til hersveitarforingjans og sagði: "Fanginn Páll kallaði mig til sín og bað mig fara til þín með þennan unga mann. Hann hefur eitthvað að segja þér."

19 Hersveitarforinginn tók í hönd honum, leiddi hann afsíðis og spurði: "Hvað er það, sem þú hefur að segja mér?"

20 Hinn svaraði: "Gyðingar hafa komið sér saman um að biðja þig að senda Pál niður í ráðið á morgun, þar eð þeir ætli að rannsaka mál hans rækilegar.

21 En lát þú ekki að vilja þeirra, því að menn þeirra, fleiri en fjörutíu, sitja fyrir honum og hafa svarið þess eið að eta hvorki né drekka fyrr en þeir hafi vegið hann. Nú eru þeir viðbúnir og bíða eftir, að svarið komi frá þér."

22 Hersveitarforinginn lét piltinn fara og bauð honum: "Þú mátt engum segja, að þú hafir gjört mér viðvart um þetta."

23 Hann kallaði fyrir sig tvo hundraðshöfðingja og sagði: "Látið tvö hundruð hermenn vera tilbúna að fara til Sesareu eftir náttmál, auk þess sjötíu riddara og tvö hundruð léttliða.

24 Hafið og til fararskjóta handa Páli, svo að þér komið honum heilum til Felixar landstjóra."

25 Og hann ritaði bréf, svo hljóðandi:

26 "Kládíus Lýsías sendir kveðju hinum göfuga Felix landstjóra.

27 Mann þennan höfðu Gyðingar tekið höndum og voru í þann veginn að taka af lífi, er ég kom að með hermönnum. Ég komst að því, að hann var rómverskur, og bjargaði honum.

28 En ég vildi vita, fyrir hverja sök þeir ákærðu hann, og fór með hann niður í ráð þeirra.

29 Komst ég þá að raun um, að hann var kærður vegna ágreinings um lögmál þeirra, en engin sök var honum gefin, er sætir dauða eða fangelsi.

30 En þar sem ég hef fengið bendingu um, að setið sé um líf mannsins, sendi ég hann tafarlaust til þín. Ég hef jafnframt boðið ákærendum hans að flytja mál sitt gegn honum fyrir þér."

31 Hermennirnir tóku þá Pál, eins og þeim var boðið, og fóru með hann um nótt til Antípatris.

32 Daginn eftir sneru þeir aftur til kastalans, en létu riddarana fara með honum.

33 Þeir fóru inn í Sesareu, skiluðu bréfinu til landstjórans og færðu Pál fyrir hann.

34 Hann las bréfið og spurði, úr hvaða skattlandi hann væri. Var honum tjáð, að hann væri frá Kilikíu.

35 Þá mælti hann: "Ég mun rannsaka mál þitt, þegar kærendur þínir koma." Og hann bauð að geyma hann í höll Heródesar.

24 Fimm dögum síðar fór Ananías æðsti prestur ofan þangað og með honum nokkrir öldungar og Tertúllus nokkur málafærslumaður. Þeir báru sakir á Pál fyrir landstjóranum.

Hann var nú kallaður fyrir, en Tertúllus hóf málsóknina og sagði: "Fyrir þitt tilstilli, göfugi Felix, sitjum vér í góðum friði, og þjóð vor hefur sakir þinnar forsjár öðlast umbætur í öllum greinum og alls staðar.

Þetta viðurkennum vér mjög þakksamlega.

En svo að ég tefji þig sem minnst, bið ég, að þú af mildi þinni viljir heyra oss litla hríð.

Vér höfum komist að raun um, að maður þessi er skaðræði, kveikir ófrið með öllum Gyðingum um víða veröld og er forsprakki villuflokks Nasarea.

Hann reyndi meira að segja að vanhelga musterið, og þá tókum vér hann höndum.

Með því að yfirheyra hann mátt þú sjálfur ganga úr skugga um öll sakarefni vor gegn honum."

Gyðingarnir tóku undir sakargiftirnar og kváðu þetta rétt vera.

10 Landstjórinn benti þá Páli að taka til máls. Hann sagði: "Kunnugt er mér um, að þú hefur verið dómari þessarar þjóðar í mörg ár. Mun ég því ótrauður verja mál mitt.

11 Þú getur og gengið úr skugga um, að ekki eru nema tólf dagar síðan ég kom upp til Jerúsalem að biðjast fyrir.

12 Og enginn hefur staðið mig að því að vera að stæla við neinn eða æsa fólk til óspekta, hvorki í samkunduhúsunum né neins staðar í borginni.

13 Þeir geta ekki heldur sannað þér það, sem þeir eru nú að kæra mig um.

14 En hitt skal ég játa þér, að ég þjóna Guði feðra vorra samkvæmt veginum, sem þeir kalla villu, og trúi öllu því, sem skrifað stendur í lögmálinu og spámönnunum.

15 Og þá von hef ég til Guðs, sem þeir og sjálfir hafa, að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.

16 Því tem ég mér og sjálfur að hafa jafnan hreina samvisku fyrir Guði og mönnum.

17 Eftir margra ára fjarveru kom ég til að færa fólki mínu ölmusugjafir og til að fórna.

18 Þetta var ég að gjöra í helgidóminum og hafði látið hreinsast, og enginn var þá mannsöfnuður né uppþot, þegar menn komu að mér.

19 Þar voru Gyðingar nokkrir frá Asíu. Þeir hefðu átt að koma fyrir þig og bera fram kæru, hefðu þeir fundið mér eitthvað til saka.

20 Annars skulu þessir, sem hér eru, segja til, hvað saknæmt þeir fundu, þegar ég stóð fyrir ráðinu.

21 Nema það sé þetta eina, sem ég hrópaði, þegar ég stóð meðal þeirra: ,Fyrir upprisu dauðra er ég lögsóttur í dag frammi fyrir yður."`

22 Felix, sem var vel kunnugt um veginn, frestaði nú málinu, og mælti: "Þegar Lýsías hersveitarforingi kemur ofan hingað, skal ég skera úr máli yðar."