Add parallel Print Page Options

Það orð er satt, að sækist einhver eftir biskupsstarfi, þá girnist hann fagurt hlutverk.

Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn, góður fræðari.

Ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, heldur gæfur, ekki deilugjarn, ekki fégjarn.

Hann á að vera maður, sem veitir góða forstöðu heimili sínu og heldur börnum sínum í hlýðni með allri siðprýði.

Hvernig má sá, sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu, veita söfnuði Guðs umsjón?

Hann á ekki að vera nýr í trúnni, til þess að hann ofmetnist ekki og verði fyrir sama dómi og djöfullinn.

Hann á líka að hafa góðan orðstír hjá þeim, sem standa fyrir utan, til þess að hann verði eigi fyrir álasi og lendi í tálsnöru djöfulsins.

Svo eiga og djáknar að vera heiðvirðir, ekki tvímælismenn, ekki sólgnir í vín, ekki gefnir fyrir ljótan gróða.

Þeir skulu varðveita leyndardóm trúarinnar í hreinni samvisku.

10 Einnig þessir menn séu fyrst reyndir, síðan takist þeir þjónustuna á hendur, ef þeir eru óaðfinnanlegir.

11 Svo eiga og konur að vera heiðvirðar, ekki rógberar, heldur bindindissamar, trúar í öllu.

12 Djáknar séu einkvæntir, og hafi góða stjórn á börnum sínum og heimilum.

13 Því að þeir, sem vel hafa staðið í djáknastöðu, koma sér vel í veg og öðlast mikla djörfung í trúnni á Krist Jesú.

14 Þetta rita ég þér, þó að ég voni að koma bráðum til þín,

15 til þess að þú skulir vita, ef mér seinkar, hvernig á að haga sér í Guðs húsi, sem er söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans.

16 Og víst er leyndardómur guðhræðslunnar mikill: Hann opinberaðist í holdi, var réttlættur í anda, birtist englum, var boðaður með þjóðum, var trúað í heimi, var hafinn upp í dýrð.

Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.

Þessu valda hræsnisfullir lygarar, sem eru brennimerktir á samvisku sinni.

Það eru þeir, sem meina hjúskap og bjóða mönnum að halda sér frá þeirri fæðu, er Guð hefur skapað til þess að við henni sé tekið með þakkargjörð af trúuðum mönnum, er þekkja sannleikann.

Allt sem Guð hefur skapað er gott, og engu ber frá sér að kasta, sé það þegið með þakkargjörð.

Það helgast af orði Guðs og bæn.

Með því að brýna þetta fyrir bræðrunum, munt þú verða góður þjónn Krists Jesú, nærður af orði trúarinnar og góðu kenningarinnar, sem þú hefur fylgt.

En hafna þú vanheilögum kerlingaævintýrum, og æf sjálfan þig í guðhræðslu.

Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu, en guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg og hefur fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.

Það orð er satt og í alla staði þess vert, að við því sé tekið.

10 Þess vegna leggjum vér á oss erfiði og þreytum stríð, því að vér höfum fest von vora á lifanda Guði, sem er frelsari allra manna, einkum trúaðra.

11 Bjóð þú þetta og kenn það.

12 Lát engan líta smáum augum á æsku þína, en ver fyrirmynd trúaðra, í orði, í hegðun, í kærleika, í trú, í hreinleika.

13 Ver þú, þangað til ég kem, kostgæfinn að lesa úr Ritningunni, áminna og kenna.

14 Vanræktu ekki náðargjöfina þína, sem var gefin þér að tilvísan spámanna og með handayfirlagningu öldunganna.

15 Stunda þetta, ver allur í þessu, til þess að framför þín sé öllum augljós.

16 Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.