Add parallel Print Page Options

13 Á þeim degi mun Davíðs húsi og Jerúsalembúum standa opin lind til að þvo af sér syndir og saurugleik.

Á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar _ mun ég afmá nöfn skurðgoðanna úr landinu, svo að þeirra skal eigi framar minnst verða, og sömuleiðis vil ég reka burt úr landinu spámennina og óhreinleikans anda.

En ef nokkur kemur enn fram sem spámaður, þá munu faðir hans og móðir, hans eigin foreldrar, segja við hann: "Þú skalt eigi lífi halda, því að þú hefir talað lygi í nafni Drottins." Og faðir hans og móðir, hans eigin foreldrar, munu leggja hann í gegn, þá er hann kemur fram sem spámaður.

Á þeim degi munu allir spámenn skammast sín fyrir sýnir sínar, þá er þeir eru að spá, og þeir skulu eigi klæðast loðfeldum til þess að blekkja aðra,

heldur mun hver þeirra segja: "Ég er enginn spámaður, ég er akurkarl, því á akuryrkju hefi ég lagt stund frá barnæsku."

Og segi einhver við hann: "Hvaða ör eru þetta á brjósti þínu?" þá mun hann svara: "Það er eftir högg, sem ég fékk í húsi ástvina minna."

Hef þig á loft, sverð, gegn hirði mínum og gegn manninum, sem mér er svo nákominn! _ segir Drottinn allsherjar. Slá þú hirðinn, þá mun hjörðin tvístrast, og ég mun snúa hendi minni til hinna smáu.

Og svo skal fara í gjörvöllu landinu _ segir Drottinn _ að tveir hlutir landsfólksins skulu upprættir verða og gefa upp öndina, en þriðjungur þess eftir verða.

En þennan þriðjung læt ég í eld og bræði þá, eins og silfur er brætt, og hreinsa þá eins og gull er hreinsað. Hann mun ákalla nafn mitt, og ég mun bænheyra hann og ég mun segja: "Þetta er minn lýður!" og hann mun segja: "Drottinn, Guð minn!"

14 Sjá, sá dagur kemur frá Drottni, að herfangi þínu verður skipt mitt í sjálfri þér.

Og ég mun safna öllum þjóðunum til hernaðar móti Jerúsalem, og borgin mun verða tekin, húsin rænd og konurnar smánaðar. Helmingur borgarmanna mun verða herleiddur, en hinn lýðurinn mun ekki upprættur verða úr borginni.

Og Drottinn mun út fara og berjast við þessar þjóðir, eins og þegar hann barðist forðum á orustudeginum.

Fætur hans munu á þeim degi standa á Olíufjallinu, sem er austanvert við Jerúsalem, og Olíufjallið mun klofna um þvert frá austri til vesturs, og þar mun verða geysivíður dalur, því að annar hluti fjallsins mun undan síga til norðurs, en hinn til suðurs.

En þér munuð flýja í fjalldal minn, því að fjalldalurinn nær til Asal. Og þér munuð flýja, eins og þér flýðuð undan landskjálftanum á dögum Ússía Júdakonungs. En Drottinn, Guð minn, mun koma og allir heilagir með honum.

Á þeim degi mun hvorki verða hiti, kuldi né frost,

og það mun verða óslitinn dagur _ hann er Drottni kunnur _ hvorki dagur né nótt, og jafnvel um kveldtíma mun vera bjart.

Á þeim degi munu lifandi vötn út fljóta frá Jerúsalem, og mun annar helmingur þeirra falla í austurhafið, en hinn helmingurinn í vesturhafið. Skal það verða bæði sumar og vetur.

Drottinn mun þá vera konungur yfir öllu landinu. Á þeim degi mun Drottinn vera einn og nafn hans eitt.

10 Allt landið frá Geba til Rimmon fyrir sunnan Jerúsalem mun verða að einni sléttu, en hún mun standa háreist og óhögguð á stöðvum sínum, frá Benjamínshliði þangað að er fyrra hliðið var, allt að hornhliðinu, og frá Hananelturni til konungsvínþrónna.

11 Menn munu búa í henni, og bannfæring skal eigi framar til vera, og Jerúsalem skal óhult standa.

12 Og þetta mun verða plágan, sem Drottinn mun láta ganga yfir allar þær þjóðir, sem fóru herför gegn Jerúsalem: Hann mun láta hold þeirra upp þorna, meðan þeir enn standa á fótum, augu þeirra munu hjaðna í augnatóttunum og tungan visna í munninum.

13 Á þeim degi mun mikill felmtur frá Drottni koma yfir þá, og þeir munu þrífa hver í höndina á öðrum og hver höndin vera uppi á móti annarri.

14 Jafnvel Júda mun berjast gegn Jerúsalem. Þá mun auði allra þjóðanna, sem umhverfis eru, safnað verða saman: gulli, silfri og klæðum hrönnum saman.

15 Og alveg sama plágan mun koma yfir hesta, múla, úlfalda, asna og yfir allar þær skepnur, sem verða munu í þeim herbúðum.

16 En allir þeir, sem eftir verða af öllum þeim þjóðum, sem farið hafa móti Jerúsalem, munu á hverju ári fara upp þangað til þess að falla fram fyrir konunginum, Drottni allsherjar, og til að halda laufskálahátíðina.

17 En þeir menn af kynkvíslum jarðarinnar, sem ekki fara upp til Jerúsalem til þess að falla fram fyrir konunginum, Drottni allsherjar, yfir þá mun engin regnskúr koma.

18 Og ef kynkvísl Egyptalands fer eigi upp þangað og kemur ekki, þá mun sama plágan koma yfir þá sem Drottinn lætur koma yfir þær þjóðir, er eigi fara upp þangað til að halda laufskálahátíðina.

19 Þetta mun verða hegning Egypta og hegning allra þeirra þjóða, sem eigi fara upp þangað, til þess að halda laufskálahátíðina.

20 Á þeim degi skal standa á bjöllum hestanna: "Helgaður Drottni," og katlarnir í húsi Drottins munu verða eins stórir og fórnarskálarnar fyrir altarinu.