Add parallel Print Page Options

63 Sálmur eftir Davíð, þá er hann var í Júda-eyðimörk.

Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.

Þannig hefi ég litast um eftir þér í helgidóminum til þess að sjá veldi þitt og dýrð,

því að miskunn þín er mætari en lífið. Varir mínar skulu vegsama þig.

Þannig skal ég lofa þig meðan lifi, hefja upp hendurnar í þínu nafni.

Sál mín mettast sem af merg og feiti, og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn,

þá er ég minnist þín í hvílu minni, hugsa um þig á næturvökunum.

Því að þú ert mér fulltingi, í skugga vængja þinna fagna ég.

Sál mín heldur sér fast við þig, hægri hönd þín styður mig.

10 Þeir sem sitja um líf mitt sjálfum sér til glötunar, munu hverfa í djúp jarðar.

11 Þeir munu verða ofurseldir sverðseggjum, verða sjakölunum að bráð.

12 Konungurinn skal gleðjast yfir Guði, hver sá er sver við hann, skal sigri hrósa, af því að munni lygaranna hefir verið lokað.

64 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Heyr, ó Guð, raust mína, er ég kveina, varðveit líf mitt fyrir ógnum óvinarins.

Skýl mér fyrir bandalagi bófanna, fyrir óaldarflokki illvirkjanna,

er hvetja tungur sínar sem sverð, leggja örvar sínar, beiskyrðin, á streng

til þess að skjóta í leyni á hinn ráðvanda, skjóta á hann allt í einu, hvergi hræddir.

Þeir binda fastmælum með sér ill áform, tala um að leggja leynisnörur, þeir hugsa: "Hver ætli sjái það?"

Þeir upphugsa ranglæti: "Vér erum tilbúnir, vel ráðin ráð!" því að hugskot hvers eins og hjarta er fullt véla.

Þá lýstur Guð þá með örinni, allt í einu verða þeir sárir,

og tunga þeirra verður þeim að falli. Allir þeir er sjá þá, munu hrista höfuðið.

10 Þá mun hver maður óttast og kunngjöra dáðir Guðs og gefa gætur að verkum hans.

11 Hinn réttláti mun gleðjast yfir Drottni og leita hælis hjá honum, og allir hjartahreinir munu sigri hrósa.

65 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

Þér ber lofsöngur, Guð, á Síon, og við þig séu heitin efnd.

Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold.

Margvíslegar misgjörðir urðu mér yfirsterkari, en þú fyrirgafst afbrot vor.

Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig til þess að búa í forgörðum þínum, að vér megum seðjast af gæðum húss þíns, helgidómi musteris þíns.

Með óttalegum verkum svarar þú oss í réttlæti, þú Guð hjálpræðis vors, þú athvarf allra jarðarinnar endimarka og fjarlægra stranda,

þú sem festir fjöllin með krafti þínum, gyrtur styrkleika,

þú sem stöðvar brimgný hafsins, brimgnýinn í bylgjum þess og háreystina í þjóðunum,

svo að þeir er búa við endimörk jarðar óttast tákn þín, austrið og vestrið lætur þú fagna.

10 Þú hefir vitjað landsins og vökvað það, blessað það ríkulega með læk Guðs, fullum af vatni, þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði.

11 Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess, með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess.

12 Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni, og vagnspor þín drjúpa af feiti.

13 Það drýpur af heiðalöndunum, og hæðirnar girðast fögnuði.

14 Hagarnir klæðast hjörðum, og dalirnir hyljast korni. Allt fagnar og syngur.