Orðskviðirnir 11
Icelandic Bible
11 Svikavog er Drottni andstyggð, en full vog yndi hans.
2 Komi hroki, kemur smán, en hjá lítillátum er viska.
3 Ráðvendni hreinskilinna leiðir þá, en undirferli svikulla tortímir þeim.
4 Auðæfi stoða ekki á degi reiðinnar, en réttlæti frelsar frá dauða.
5 Réttlæti hins ráðvanda gjörir veg hans sléttan, en hinn óguðlegi fellur um guðleysi sitt.
6 Réttlæti hinna hreinskilnu frelsar þá, en hinir svikulu ánetjast í eigin græðgi.
7 Þegar óguðlegur maður deyr, verður von hans að engu, og eftirvænting glæpamannanna er að engu orðin.
8 Hinn réttláti frelsast úr nauðum, og hinn óguðlegi kemur í hans stað.
9 Með munninum steypir hinn guðlausi náunga sínum í glötun, en hinir réttlátu frelsast fyrir þekkingu.
10 Borgin fagnar yfir gæfu réttlátra, og þegar óguðlegir farast, gjalla gleðiópin.
11 Borgin hefst fyrir blessun hreinskilinna, en fyrir munn óguðlegra steypist hún.
12 Óvitur maður sýnir náunga sínum fyrirlitningu, en hygginn maður þegir.
13 Sá er gengur um sem rógberi, lýstur upp leyndarmálum, en sá sem er staðfastur í lund, leynir sökinni.
14 Þar sem engin stjórn er, þar fellur þjóðin, en þar sem margir ráðgjafar eru, fer allt vel.
15 Hrapallega fer fyrir þeim, er gengur í ábyrgð fyrir annan mann, en sá sem hatar handsöl, er óhultur.
16 Yndisleg kona hlýtur sæmd, og hinir sterku hljóta auðæfi.
17 Kærleiksríkur maður gjörir sálu sinni gott, en hinn grimmi kvelur sitt eigið hold.
18 Hinn óguðlegi aflar sér svikuls ávinnings, en sá er réttlæti sáir, sannra launa.
19 Iðki einhver réttlæti, þá leiðir það til lífs, en ef hann eltir hið illa, leiðir það hann til dauða.
20 Andstyggð fyrir Drottni eru þeir, sem hafa rangsnúið hjarta, en yndi hans þeir, er breyta ráðvandlega.
21 Hér er höndin upp á það: Hinn vondi sleppur ekki óhegndur! en niðjar réttlátra komast undan.
22 Eins og gullhringur í svínstrýni, svo er fríð kona, sem enga siðprýði kann.
23 Óskir hinna réttlátu leiða aðeins til góðs, en vonir óguðlegra leiða yfir sig reiðidóm.
24 Sumir miðla öðrum mildilega, og eignast æ meira, aðrir halda í meira en rétt er, og verða þó fátækari.
25 Velgjörðasöm sál mettast ríkulega, og sá sem gefur öðrum að drekka, mun og sjálfur drykk hljóta.
26 Fólkið formælir þeim, sem heldur í kornið, en blessun kemur yfir höfuð þess, er selur það.
27 Sá sem leitar góðs, stundar það, sem velþóknanlegt er, en sá sem sækist eftir illu, verður fyrir því.
28 Sá sem treystir á auð sinn, hann fellur, en hinir réttlátu munu grænka eins og laufið.
29 Sá sem kemur ólagi á heimilishag sinn, erfir vind, og afglapinn verður þjónn hins vitra.
30 Ávöxtur hins réttláta er lífstré, og hinn vitri hyllir að sér hjörtun.
31 Sjá, hinn réttláti fær endurgjald hér á jörðu, hvað þá hinn óguðlegi og syndarinn?
by Icelandic Bible Society